Jóla- og nýárskveðja frá Hafnarborg

Starfsfólk Hafnarborgar óskar ykkur öllum, vinum og velunnurum stofnunarinnar, gleðilegra jóla og gæfuríks komandi árs, með hugheilum þökkum fyrir árið sem er að líða.

Hlökkum til að taka á móti ykkur í Hafnarborg á nýju ári.

Jól 2024 – opnunartími sýninga

Opið verður í Hafnarborg að vanda fram að jólum, alla daga nema þriðjudaga, kl. 12–17. Opnunartími yfir hátíðarnar er eftirfarandi:

Þorláksmessa, 23. desember – opið kl. 12–17

Aðfangadagur, 24. desember – lokað

Jóladagur, 25. desember – lokað

Annar í jólum, 26. desember – lokað

27.–30. desember – opið kl. 12–17

Gamlársdagur, 31. desember – lokað

Nýársdagur, 1. janúar – lokað

Skrifstofa Hafnarborgar verður lokuð á milli jóla og nýárs. Opið verður samkvæmt hefðbundnum opnunartíma aftur frá 2. janúar. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Algjörar skvísur – haustsýning Hafnarborgar 2025

Listráð Hafnarborgar hefur valið Algjörar skvísur sem haustsýningu ársins 2025, úr fjölda tillagna sem bárust fyrr á árinu í gegnum árlegt opið kall safnsins. Sýningarstjórar vinningstillögunnar eru þær Jasa Baka og Petra Hjartardóttir, sem munu bjóða gestum að kanna þemu sem tengjast mýkt, krafti og kvenlegri orku í samtímalist.

Algjörar skvísur hverfist um ólíkar birtingarmyndir sætleikans, guðdómlegar og goðsagnakenndar kvenlegar erkitýpur og andahyggjuna sem lítur á (móður) náttúru sem síkvika veru. Þá eru þessar hugmyndir skoðaðar út frá því hvernig þær eiga við fólk, staði og hluti, einkum nú þegar segja má að kvenlegar erkitýpur séu að koma fram úr fylgsnum sínum og umbreyta skilningi okkar á sjálfsmynd og jafnvægi.

Sýnd verða verk sem unnin eru í margvíslega miðla en markmiðið með sýningunni er að varpa ljósi á það hvernig þátttakendur túlka hinar ýmsu erkitýpur og goðsagnaverur, sem og samband okkar við náttúruna. Þannig býður Algjörar skvísur upp á áhugaverð sjónarhorn á viðkvæmni og mennsku með því að opna gátt fyrir hið yfirnáttúrulega til að flæða inn í jarðneskt líf.

Jasa Baka er fjöllistakona, kanadískur Vestur-Íslendingur, sem hefur búið og starfað á Íslandi síðan 2017. Hún útskrifaðist með MA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2022. Árið 2008 útskrifaðist hún með BA-gráðu í myndlist frá Concordia University í Tiohtiá:ke (Montréal), með sérhæfingu í leikhúshönnun. Hún hefur sýnt verk sín og gjörninga á fjölmörgum stöðum á Íslandi og í Kanada en einnig í New York og Aþenu.

Petra Hjartardóttir er listakona sem vinnur skúlptúra og innsetningar í ýmsa miðla eins og silfur, keramík og textíl. Hún hefur sýnt verk sín í galleríum og söfnum á Íslandi og erlendis. Hún hefur einnig sótt gestavinnustofur í Noregi, Frakklandi og á Ítalíu. Petra útskrifaðist með MFA-gráðu í skúlptúr frá Yale School of Art og er með BFA-gráðu í myndlist frá Hunter College í New York.

Sýningin verður sú fimmtánda í haustsýningarröð Hafnarborgar en verkefnið hefur það að markmiði að gefa breiðu sviði sýningarstjóra kost á að senda inn tillögu að sýningu í safninu og láta rödd sína heyrast. Það er listráð Hafnarborgar ásamt forstöðumanni sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna ár hvert. Nöfn þátttakenda og frekari upplýsingar verða birtar síðar.

Kærleikskúlan 2024 – fáanleg í safnbúð Hafnarborgar

Kærleikskúlan í ár, Blóm og ást þurfa næringu, eftir Hildi Hákonardóttur er nú fáanleg í safnbúð Hafnarborgar. Kúlan er framleidd í takmörkuðu upplagi en síðustu ár hefur kúlan jafnan selst upp áður en sölutímabilinu lýkur. Allur ágóði af sölunni rennur til starfs í þágu fatlaðra barna og ungmenna. Um Kærleikskúluna í ár segir Hildur:

„Melablómið er eitt af okkar algengustu vorblómum. Samt tökum við sjaldan eftir þessu hvíta, litla blómi sem dreifir sér um gróðursnauða og hrjóstruga mela og hefur þjálfað sig í að glæða þá lífi og laða að skordýr sem svo hjálpa til að frjóvga önnur blóm sem kynnu að voga sér þangað.  Með hógværð sinni minnir það okkur á að það þarf ekki stórar gjafir til að gleðja aðra. Bros og huggunarrík orð geta gefið meiri gleði.

Melablómið þiggur yl frá sólinni, vatn úr himnalindunum og steinefni úr grjótinu. Þó  skartar það fjaðurflipóttum blöðum eins og fífillinn, konungur villiblómanna, kannski til að minna okkur á að það hefur líka sitt stolt.  En ást þarfnast næringar rétt eins og blóm ef hún á að geta þrifist. Þá eru það gjarnan litlu hlutirnir sem skipta mestu máli. Ylur af snertingu handa, hvatningarorð úr lindum góðmennskunnar og hugvekjandi hjálpsemi. “

Hildur Hákonardóttir (f. 1938) hefur á löngum starfsferli tekið á málefnum samtíma síns, einkum umhverfis- og jafnréttismálum, og nýtt til þess fjölbreytta miðla. Hún lærði myndvefnað við Myndlista- og handíðaskólann 1964-68 og Listaskóla Edinborgar árið 1969 og starfaði sem skólastýra Myndlista- og handíðaskólans á árunum 1975-78.  Hildur á að baki fjölda sýninga og hefur gefið út fjölbreytt ritverk. Þá hlaut yfirlitssýningin Rauður þráður í Listasafni Reykjavíkur Íslensku myndlistarverðlaunin árið 2023 og Hildur hlaut einnig fálkaorðuna 2024 fyrir framlag sitt til myndlistar og störf í þágu kvennabaráttu.

Kærleikskúlan verður til sölu í safnbúð Hafnarborgar frá 5. til 20. desember, á meðan birgðir endast.

Opnun – Landnám og Kahalii

Laugardaginn 9. nóvember kl. 14 bjóðum við ykkur hjartanlega velkomin á opnun tveggja einkasýninga í Hafnarborg. Þá eru það listamennirnir Pétur Thomsen og Arngunnur Ýr sem munu sýna í safninu. Bjóða báðar sýningar upp á spennandi sýn á náttúruna og samband manns við umhverfi sitt, þar sem listamennirnir nálgast viðfangsefnið hvor með sínum hætti.

Landnám
Um er að ræða ljósmyndaröð sem Pétur Thomsen hefur unnið að undanfarin ár en serían hefur ekki verið sýnd í heild áður. Þar er sjónum beint að landsvæðum sem hefur verið raskað og breytt með einum eða öðrum hætti, til að mynda með landnýtingu, námavinnslu, skógrækt, jarðrækt og vegagerð. Ljósmyndirnar eru teknar að næturlægi en ljósmyndarinn lýsir landið upp með flassi til að afmarka sviðið. Við það fá myndirnar á sig vissan eftir-heimsendablæ, þar sem svartur himininn gefur til kynna yfirvofandi vá.

Pétur Thomsen (f. 1973) lauk MFA-prófi í ljósmyndun frá École nationale supérieure de la photographie í Arles, Frakklandi, árið 2004. Áður stundaði hann nám í frönsku, listasögu og fornleifafræði við Université Paul Valéry í Montpellier og listljósmyndun við École supérieure des métiers artistiques í sömu borg. Pétur hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar en árið 2004 hlaut hann til að mynda verðlaun LVMH-samsteypunnar sem þá voru veitt ungum listamanni í 10. Sinn. Hann var svo útnefndur af Musée de L’Élysée í Lausanne sem einn af 50 ljósmyndurum sem líklegir væru til að setja mark sitt á ljósmyndasögu framtíðarinnar í verkefninu reGeneration: 50 Photographers of Tomorrow.

Kahalii
Á sýningunni getur að líta ný og nýleg málverk eftir Arngunni Ýr, þar sem listakonan beinir sjónum að eigin landnámi á Hawaii, auk þess að leiða hugann að samspili umhverfis, sögu og landnýtingar. Þar býr hún sér nú heimili á fögrum stað þar sem náttúran víkur smátt og smátt fyrir manngerðum byggingum og eru listaverkin þannig samofin marglaga sögu landsins. Fela verkin þannig jafnt í sér persónulegar vangaveltur listakonunnar sem og víðtækari umfjöllun um jarðrask og þróun byggðar, sem gefur áhorfendum að sama skapi tækifæri til að íhuga eigin samband við sögu og umhverfi.

Arngunnur Ýr (f. 1962) útskrifaðist með BFA-gráðu í málaralist frá San Francisco Art Institute árið 1986. Hún var síðar gestanemi við Gerrit Rietveld-akademíuna í Amsterdam, Hollandi, 1989 til 1990 en sneri aftur til Kaliforníu og lauk meistaragráðu í málaralist frá Mills-háskólanum í Oakland árið 1992. Hún hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín, svo sem úr sjóði Svavars Guðnasonar og Ástu Eiríksdóttur og árið 2005 hlaut hún styrk frá Pollock-Krasner Foundation. Verk hennar hafa verið sýnd hér á landi, í Evrópu og Bandaríkjunum og eru verk eftir hana ýmist í eigu opinberra safna, stofnana og einkasafnara, bæði hér á landi sem erlendis.

Aðgangur ókeypis – sjáumst í Hafnarborg.

Tónleikadagskrá – haust/vetur 2024

Í september hefst nýtt tónleikaár í Hafnarborg en framundan er fjölbreytt dagskrá, þar sem fram mun koma tónlistarfólk í fremstu röð, auk ungra og efnilegra flytjenda. Þá hefja hinir sívinsælu hádegistónleikar göngu sína á ný þriðjudaginn 3. september og fimmta starfsár Síðdegistóna mun hefjast með tónleikum Rebekku Blöndal og kvartetts hennar föstudaginn 20. september. Á misserinu verða einnig haldnir hausttónleikar samtímatónleikaraðarinnar Hljóðana sem tileinkuð er tónlist frá 20. og 21. öld.

Tónleikadagskráin í haust/vetur 2024

3. september kl. 12
Hádegistónleikar
Fanný Lísa Hevesi

20. september kl. 18
Síðdegistónar
Kvartett Rebekku Blöndal

1. október kl. 12
Hádegistónleikar
Vera Hjördís Matsdóttir

18. október kl. 18
Síðdegistónar
Margrét Eir ásamt hljómsveit

20. október kl. 20
(ath. frestað fram á vor)

Hljóðön: Blöndun/Fusione
Björg Brjánsdóttir og Ingibjörg Elsa Turchi

5. nóvember kl. 12
Hádegistónleikar
Kristín Sveinsdóttir

22. nóvember kl. 18
Síðdegistónar
Andrés Þór Nordic Trio

3. desember kl. 12
Hádegistónleikar
Íris Björk Gunnarsdóttir

Skapandi sumarstörf – viðburðir í Hafnarborg

Undanfarin sumur hafa ungmenni á aldrinum 18-25 ára unnið að fjölbreyttum listviðburðum í Hafnarfirði undir merkjum Skapandi sumarstarfa. Í ár miðla þrír af sjö hópum eða einstaklingum sínum verkefnum með sýningum og uppákomum í Hafnarborg í sumar.

25. júlí – 5. ágúst:
Minningar um Sædýrasafnið
Rán Sigurjónsdóttir, nemi í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands, heldur fræðandi sýningu um Sædýrasafnið í Hafnarfirði, sem starfaði frá árinu 1969 til ársins 1987. Hinar ýmsu framandi dýrategundir voru þar til sýnis en meðal þeirra eftirminnilegustu má nefna ljón, apa og ísbirni. Safnið var vel sótt og þó að Sædýrasafninu hafi verið lokað á síðustu öld lifir minning þess áfram. Á sýningunni má sjá teikningar, vídeóverk og bókverk sem byggja á minningum frá þessum tíma.

Sýningin er í Apótekinu á fyrstu hæð safnsins og er opin alla daga nema þriðjudaga frá kl. 12-17.

8. ágúst kl. 17:30:
Dansmyndbandsverk og kynning
Logi Guðmundsson, ballettdansari, sem stundar nám við hinn heimsfræga San Fransisco Ballet School, mun sýna nýtt dansmyndbandsverk sem tekið er upp í hafnfirskri náttúru. Logi heldur einnig kynningu á sinni einstöku sögu sem fyrsti ballettdansarinn frá Íslandi sem stundar nám við skólann.

Verkið verður sýnt í Apótekinu á fyrstu hæð safnsins fimmtudaginn 8. ágúst kl. 17:30.

12. ágúst kl. 17:30:
Sviðslistahópurinn Þríradda
Íris Ásmundar, dansari, Benedikt Gylfason, tónlistarmaður og dansari, og Hanna Huld Hafþórsdóttir, kvikmyndagerðarkona, mynda sviðslistahópinn Þríradda. Þau hafa unnið að sviðsverki sem sameinar tónlist, kvikmyndagerð og danslist og byggir á hugarheimi persóna sem tilheyra klassískri sinfóníu. Verkið snertir á hugmyndum og tilfinningum líkt og egói, óöryggi, fullkomnun og mikilmennsku. Línur raunveruleika og hliðarsjálfs verða óskýrar og þau kanna hvernig hugmyndir um eigið sjálf sveiflast á milli þessara tveggja heima.

Uppákoman verður í Apótekinu á fyrstu hæð safnsins mánudaginn 12. ágúst kl. 17:30.

Laust starf – móttöku- og þjónustufulltrúi

Laus er til umsóknar staða móttöku- og þjónustufulltrúa í Hafnarborg.

Helstu verkefni:

  • Móttaka og almenn upplýsingagjöf til gesta um sýningar og viðburði safnsins auk símavörslu
  • Gæsla í sýningarsölum og eftirlit með öryggi listmuna og gesta
  • Afgreiðsla, uppgjör og umsjón með samantekt tölulegra upplýsinga
  • Eftirlit með daglegri umgengni, tæknibúnaði sýninga og viðhald snyrtilegs umhverfis í safnverslun og sýningarsölum
  • Umsjón með safnverslun og gestavinnustofu
  • Aðstoð við undirbúning, uppsetningu og frágang vegna ýmissa viðburða í safninu
  • Annast upplýsingagjöf á samfélagsmiðlum í samráði við verkefnastjóra kynningarmála
  • Önnur verkefni sem yfirmaður felur starfsmanni og samkvæmt starfslýsingu

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Stúdentspróf
  • Reynsla af sambærilegu starfi æskileg
  • Rík þjónustulund og góð samskiptahæfni
  • Sjálfstæði í vinnubrögðum
  • Góð íslensku- og enskukunnátta
  • Áhugi á starfssemi safnsins
  • Almenn tölvuþekking

Laun eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga við Starfsmannafélag Hafnarfjarðar en um 60% starf er að ræða. Vinnutími er að jafnaði virka daga frá kl. 11:30-17:30, með möguleika á aukavinnu.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Aldís Arnardóttir ([email protected]) í síma 585-5791.

Umsóknarfrestur er til og með 9. ágúst næstkomandi.

Hægt er að sækja um starfið hér á vef Hafnarfjarðarbæjar.

Skrifstofa Hafnarborgar – sumarleyfi starfsfólks

Vinsamlegast athugið að lágmarksþjónusta verður á skrifstofu Hafnarborgar á tímabilinu 8. júlí til 7. ágúst vegna sumarleyfa starfsfólks.

Þetta kann að hafa áhrif á svartíma erinda sem berast skrifstofu en í millitíðinni bendum við fólki á að senda tölvupóst á [email protected], þar sem fylgst verður með innsendum erindum.

Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda.

Með sumarkveðju,
starfsfólk Hafnarborgar

Haustsýning 2025 – kallað eftir tillögum

Líkt og undanfarin ár gefst sýningarstjórum tækifæri til að senda inn tillögur að haustsýningu næsta árs í Hafnarborg. Haustsýningaröðin hóf göngu sína árið 2011 en hingað til hafa fjórtán sýningar verið valdar úr miklum fjölda innsendra tillagna eftir sýningarstjóra með ólíkan bakgrunn og reynslu. Þá var væntanleg haustsýning Hafnarborgar, Óþekkt alúð, í sýningarstjórn Þórhildar Tinnu Sigurðardóttur, valin með sama hætti úr þeim tillögum sem bárust á síðasta ári en sýningin verður opnuð 29. ágúst næstkomandi.

Markmiðið með því að óska eftir innsendum tillögum er að fá tækifæri til að velja til samstarfs sýningarstjóra eða sýningarstjórateymi, sem leggur fram áhugaverða sýningartillögu, auk þess að vera vettvangur fyrir upprennandi sýningarstjóra til að koma hugmyndum sínum á framfæri. Eru sýningarstjórar með stuttan feril að baki því sérstaklega hvattir til að sækja um. Það hefur enda sýnt sig að fyllsta ástæða er til að halda úti slíku verkefni en út frá því hafa orðið til fjölbreyttar sýningar, sem vakið hafa athygli og fengið góða aðsókn.

Óskað er eftir hugmyndum að samsýningum þar sem viðfangsefni, vinnuaðferð og/eða aðrar hugmyndir tengja verk listamanna (allt að átta talsins) en einnig koma til greina sýningar sem fela í sér greiningu eða sérstaka sýn á verk ákveðins listamanns. Jafnt koma til greina sýningar á verkum samtímalistamanna og sýningar sem fela í sér sögulega greiningu. Þá er það listráð Hafnarborgar sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna í samráði við forstöðumann.

Vinsamlegast athugið að frestur til að skila inn tillögum hefur verið framlengdur til miðnættis sunnudaginn 8. september næstkomandi.

Aðeins er tekið við tillögum í tölvupósti á netfangið [email protected] (sjá nánar í lokin).


Umsóknarferli

Umsóknarferlið er tvískipt og eru umsækjendur vinsamlegast beðnir um að kynna sér ferlið vel með því að fara yfir þau atriði sem talin eru hér fyrir neðan.

1. hluti

Í fyrri umferð er óskað eftir eftirfarandi upplýsingum:

  • Lýsingu á verkefninu þar sem lögð er áhersla á hugmyndina að baki sýningunni (hámark 1000 orð).
  • Ferilskrá(m) sýningarstjóra.
  • Stuttum ferilskrám listamanns eða -manna (allt að átta talsins), auk annarra sem lagt er til að verði hluti af sýningarverkefninu.

Gefa skal eins nákvæma lýsingu og unnt er, innan uppgefinna marka um orðafjölda. Einnig er leyfilegt er að láta myndefni, sem er lýsandi fyrir verkefnið, fylgja tillögunni, þó ekki séu gerðar kröfur um slíkt í fyrri umferð. Þá er umsækjendum bent á að kynna sér vel húsnæði Hafnarborgar áður en tillögur eru sendar inn. Listráð Hafnarborgar, ásamt forstöðumanni, metur innsendar tillögur og velur verkefni til frekari skoðunar í annarri umferð.

2. hluti

Þeim sýningarstjórum sem eiga þær tillögur sem valdar eru til frekari skoðunar verður boðið að kynna hugmyndir sínar og senda inn ítarefni, s.s. sýningarskrár, myndefni eða myndbönd, auk þess sem vinna þarf að raunhæfri kostnaðaráætlun fyrir verkefnið. Reiknað er með að sýningin og vinnan við hana falli að fjárhagsáætlun safnsins, ella verði leitað leiða til að fá sérstakan stuðning við verkefnið.

Við mat á tillögum verða eftirfarandi atriði skoðuð:

  • Val á listamönnum.
  • Hvort sýningin kynni nýstárlega sýn á myndlist, t.d. innihald og/eða miðla.
  • Hvort um sé að ræða ný eða eldri verk eða jafnvel blöndu hvors tveggja.
  • Hvort sýningin hafi sérstaka skírskotun til Hafnarborgar, svo sem safneignar, umhverfis, nærsamfélags o.s.frv.
  • Hvort sýningin nýti sýningarrými Hafnarborgar á frumlegan hátt.
  • Ferill sýningarstjóra.
  • Tillögur að dagskrá í tengslum við sýninguna (leiðsögn, málþing, námskeið o.s.frv.).
  • Tillögur að hugsanlegri útgáfu.
  • Að kostnaður við verkefnið sé innan viðráðanlegra marka (nánari útfærsla kostnaðar fer fram í síðari hluta ferlisins).

Grunnmynd af sölum Hafnarborgar má finna hér. Eru teikningarnar ætlaðar til viðmiðunar við undirbúning tillagna en þess er ekki krafist að þær séu hannaðar nákvæmlega inn í rýmið.


Allar tillögur skulu sendar á netfangið [email protected], merktar „Haustsýning 2025“. Í kjölfarið verður send staðfesting á því að tillagan hafi verið móttekin en bent er á að hafa samband í síma 585 5790, berist sú staðfesting ekki. Þá verða allir umsækjendur upplýstir um það hvort tillaga þeirra hafi hlotið brautargengi eður ei. Allar niðurstöður verða sendar með tölvupósti.

Nánari upplýsingar veitir skrifstofa Hafnarborgar í síma 585 5790.