Listaverkaeign
Listaverkaeign Hafnarborgar telur nú um 1.600 verk. Stofnendur Hafnarborgar, hjónin Sverrir Magnússon og Ingibjörg Sigurjónsdóttir, lögðu grunninn að safninu með listaverkagjöf til Hafnarfjarðarbæjar árið 1983. Þá færði Eiríkur Smith safninu veglega listaverkagjöf árið 1990 og einnig gáfu þeir Elías B. Halldórsson og Gunnar Hjaltason safninu fjölda grafíklistaverka sinna. Fleiri listamenn og einstaklingar hafa fært safninu listaverk að gjöf en einnig eru keypt verk til safnsins í samræmi við söfnunarstefnu Hafnarborgar, eftir því sem fjárveitingar leyfa. Reglulega eru haldnar sýningar á verkum í safneigninni.
Stofngjöf
Listaverkagjöf þeirra Sverris og Ingibjargar, sem myndaði grunninn að safni Hafnarborgar og kölluð er stofngjöf, samanstendur af tæplega 200 verkum eftir marga þekktustu frumherja íslenskrar listasögu á borð við Kjarval, Nínu Tryggvadóttur, Jóhann Briem og Júlíönu Sveinsdóttur. Sverrir byrjaði sjálfur að safna myndlist á kreppuárunum um 1930, þegar hann eignaðist vatnslitamynd eftir Ólaf Túbals. Þannig hófst söfnunin en í áranna rás bættist smátt og smátt í safnið, þar sem Sverrir fylgdist vel með sýningum og keypti jafnt og þétt fleiri verk. Verkin í stofngjöfinni eru flest hefðbundnar landslagsmyndir, bæjarmyndir frá Hafnarfirði eða kyrralífsmyndir. Þá mætti segja að stofngjöfin endurspegli ágætlega borgaralegan smekk á ákveðnu tímabil í íslenskri listasögu.
Ný aðföng
Eins og áður hefur komið fram telur safnkostur Hafnarborgar nú rúmlega 1.600 verk – málverk, teikningar, þrívíð verk, myndbandsverk og útilistaverk. Frá árinu 2024 hefur listráð Hafnarborgar þrjár og hálfa milljón króna í ráðstöfunarfé til kaupa á verkum. Þá er það forstöðumaður sem gerir tillögur að kaupum, gjarnan í tengslum við sýningar í safninu, þar sem það er talið mikilvægt að safnkosturinn endurspegli sýningarstefnu safnsins. Allar tillögur um ný aðföng, bæði kaup og gjafir, eru lagðar fyrir listráð til samþykktar áður en verk eru tekin inn í safneign Hafnarborgar. Óheimilt er að taka á móti gjöfum sem fylgja kvaðir.
Útilistaverk
Í Hafnarfirði er að finna fjölmörg útilistaverk sem varða sögu bæjarins, byggðarinnar og hafnarinnar, jafnt brjóstmyndir og minnisvarða, auk óhlutbundinna skúlptúra og verka sem sækja innblástur sinn í náttúruna. Mörg verkanna eru staðsett í miðbæ Hafnarfjarðar og við höfnina en einnig má finna fjölda þeirra í höggmyndagarðinum á Víðisstaðatúni, í Hellisgerði og við Sólvang. Meðal þeirra listamanna sem eiga verk í almannarými Hafnarfjarðar má nefna Ásmund Sveinsson, Gest Þorgrímsson, Einar Má Guðvarðarson, Sverri Ólafsson, Hallstein Sigurðsson og Steinunni Þórarinsdóttur, auk ýmissa erlendra listamanna sem tengjast bænum. Kort og lista yfir útilistaverk í Hafnarfirði má finna á slóðinni utilistaverk.hafnarborg.is.
Sarpur
Safneign Hafnarborgar er skráð í menningarsögulega gagnasafnið Sarp. Sameignaraðilar rekstrarfélags Sarps eiga hugbúnaðinn og hvert og eitt aðildarsafn á gögnin sem það skráir í gagnasafnið. Gögnin eru hýst miðlægt og fyllstu varúðar er gætt við allt utanumhald, svo sem þegar kemur að uppfærslum og afritun. Árið 2020 undirritaði Hafnarborg svo samning við Myndstef um stafræna birtingu á afritum af safnkosti úr rafrænum safnmunaskrám, sem felur í sér heimild til myndbirtingar þeirra verka sem skráð eru í Sarp. Í framhaldinu var ráðist í að gera myndirnar, sem ekki hafði áður fengist samþykki til að birta, sýnilegar á ytri vef gagnasafnsins, auk þess sem starfsmenn safnsins vinna jöfnum höndum til að tryggja nákvæmni skráningarinnar. Safnmunaskráin er aðgengileg almenningi í gegnum vef Sarps, sarpur.is.