Sagan

Hafnarborg – menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar var stofnuð árið 1983 og varð um leið aðsetur listaverkasafns Hafnarfjarðarbæjar. Stofnendur Hafnarborgar, Sverrir Magnússon, lyfsali, og Ingibjörg Sigurjónsdóttir, lyfjafræðingur og kona hans, lögðu grunn að safninu með listaverkagjöf sinni árið 1983. Á 75 ára kaupstaðarafmæli Hafnarfjarðar, 1. júní 1983, afhentu þau bænum með gjafabréfi húseignina að Strandgötu 34 ásamt veglegu safni listaverka og bóka. Húsið var upphaflega hannað af Guðjóni Samúelssyni, arkitekt, fyrir Sören Kampmann, lyfsala, sem bjó þar og rak apótek frá árinu 1921. Sverrir Magnússon tók síðan við húsinu og rekstrinum árið 1947 og stóð fyrir rekstri Hafnarfjarðar Apóteks til ársins 1984.

Í gjafabréfinu kváðu Sverrir og Ingibjörg á um að í húsinu skyldi starfrækt menningarstofnun sem skyldi hafa það að markmiði að efla lista- og menningarlíf í Hafnarfirði, með rekstri listaverkasafns, sýningarsala og gestavinnustofu fyrir listamenn, auk þess sem þar væri vettvangur til tónleikahalds. Hafnarborg var síðan formlega vígð 21. maí 1988, eftir að reist hafði verið viðbygging við húsið, hönnuð af Ingimar H. Ingimarssyni, arkitekt.

Stefnan

Hlutverk Hafnarborgar – menningar- og listamiðstöðvar Hafnarfjarðar er að standa fyrir öflugu og metnaðarfullu menningarstarfi sem endurspeglar gerjun samtímans og stuðla þannig að fjölbreyttu mannlífi. Hafnarborg varðveitir því listaverkaeign Hafnarfjarðarbæjar og stendur fyrir rannsóknum og sýningum á henni, þannig að fólk fái þeirra notið og verkin verði sýnilegur hluti íslenskrar menningar- og listasögu. Enn fremur rekur Hafnarborg alþjóðlega gestavinnustofu.

Hafnarborg starfar samkvæmt eigin stofnskrá¹ og stefnu, menningarstefnu Hafnarfjarðarbæjar, íslenskum safnalögum og siðareglum Alþjóðaráðs safna.

 

Áherslur til framtíðar

Gróska og gerjun
Hafnarborg skal vera samnefnari fyrir grósku og gerjun á sviði lista og menningar.

Samkomustaður         
Hafnarborg skal vera samkomustaður þar sem fólk getur leitað að innblæstri, örvun og umhverfi til að njóta listar og samveru hvert við annað.

Ögrandi hugmyndir
Hafnarborg skal gæta sérstöðu sinnar á listasviðinu í tengslum við ásýnd, yfirbragð og framsetningu listviðburða, sem markast af sterkri og einstakri upplifun gesta.

 

Grunngildi

Áræðni           
Hleypa skal að nýju fólki og veita gerjun og nýsköpun farveg.

Fagmennska
Vanda skal vinnubrögð og fylgja viðurkenndum viðmiðum sem byggja á skýrri sýn á áherslur.

Virkni
Sýna skal frumkvæði og efla tengsl, þátttöku og virkt samstarf við ólíka aðila í samfélaginu.

 

Einnig er í stefnu lögð áhersla á að Hafnarborg sé:

Í sambandi við samfélagið og gesti

Lögð er áhersla á að þekkja gesti Hafnarborgar og byggja upp góð tengsl við ólíka hópa samfélagsins með virkri miðlun upplýsinga og samskipta í ýmsu formi.

Örvandi vettvangur upplifunar af listum

Lögð er áhersla á að auðga upplifun gesta af sýningum og safneign með fjölbreyttu formi miðlunar.

Farvegur nýrrar listar

Lögð er áhersla á að styðja við og vera vettvangur fyrir ungt listafólk á sviði myndlistar og tónlistar og tengjast á þann hátt nýjum kynslóðum á hverjum tíma.

Aflvaki listsköpunar í Hafnarfirði og í samtali við umheiminn

Lögð er áhersla á að Hafnarborg sé örvandi vettvangur listsköpunar í Hafnarfirði. Alþjóðleg gestavinnustofa Hafnarborgar tengi saman á faglegan hátt nýsköpun, leit að nýjum leiðum, farveg efnilegra listamanna, atvinnulíf, miðlun og tengsl út í samfélagið.

Vettvangur fjölbreyttrar þjónustu

Lögð er áhersla á að undirstrika heildarupplifun þjónustu og ímyndar og koma til móts við væntingar gesta Hafnarborgar til fjölbreyttrar þjónustu, m.a. með því að veita vettvang til veitingareksturs.

¹Stofnskrá: gjafabréf og viðauki.

Starfsemin

Sýningardagskrá Hafnarborgar er fjölbreytt en að jafnaði eru í safninu haldnar 8–10 myndlistarsýningar á ári, þar sem finna má verk er spanna íslenska listasögu allt frá þjóðargersemum frumkvöðlanna til tilraunakenndra verka listamanna samtímans. Fyrirlestrar og málþing í tengslum við sýningar safnsins eru fastur liður í dagskránni auk þess sem áhersla er lögð á að bjóða upp á samtal gesta við listamenn og sýningarstjóra og stuðla þannig að áhugaverðri upplifun af sýningum, sem og aukinni þekkingu á safneign og starfsemi stofnunarinnar. Þá eru listasmiðjur og leiðsagnir fyrir börn einnig meðal reglulegra viðburða safnsins. Loks er boðið upp á fjölda tónleika allan ársins hring, svo sem hina vinsælu hádegistónleika og Síðdegistóna yfir vetrartímann, auk samtímatónleikaraðarinnar Hljóðana að vori og hausti og Sönghátíðar í Hafnarborg á sumrin.

Starfsfólk

Aldís Arnardóttir
Forstöðumaður
[email protected]

Hólmar Hólm
Verkefnastjóri kynningarmála og útgáfu
[email protected]

Sigtýr Ægir Kárason
Móttöku- og þjónustufulltrúi
[email protected]

Skúli Magnússon
Umsjónarmaður fasteigna
[email protected]

Unnur Mjöll S. Leifsdóttir
Verkefnastjóri fræðslu og miðlunar
[email protected]

Þórdís Jóhannesdóttir
Verkefnastjóri sýninga og safneignar
[email protected]

Stjórn Hafnarborgar
Rósa Guðbjartsdóttir
Pétur Gautur Svavarsson
Margrét Hildur Guðmundsdóttir

Listráð Hafnarborgar
Brynhildur Pálsdóttir
Erling T. V. Klingenberg
Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir