Sönghátíð – söngsmiðja fyrir börn 6–12 ára

Sönghátíð í Hafnarborg býður upp á tveggja daga söngsmiðju fyrir krakka á aldrinum 6–12 ára. Námskeiðinu lýkur með þátttöku krakkanna í Fjölskyldutónleikum Dúó Stemmu sunnudaginn 30. júní kl. 16:30, „Ó blessuð vertu sumarsól“. Aðgangur á tónleikana er ókeypis svo það er tilvalið fyrir fjölskyldu og vini að koma og hlusta. Námskeiðið fer fram í Apótekssal Hafnarborgar og kennari er Brynhildur Auðbjargardóttir, kórstjóri og tónmenntakennari.

Dagsetningar:
Laugardaginn 29. júní kl. 13–16 og
sunnudaginn 30. júní kl. 13–16.

Námskeiðsgjald (3. klst í 2 daga):
6.000 kr. á barn. Systkinaafsláttur 1.000 kr.

Í söngsmiðjunnni fá þátttakendur tækifæri til að kynnast eftirfarandi:
– Grunntækni í söng eins og öndun og líkamsstöðu.
– Að syngja fjölraddað í hópi.
– Að nota mismunandi blæbrigði raddarinnar í söng.
– Að leika skemmtileg hrynmunstur með sleglum og prikum.
– Að kynnast nýjum krökkum í gegnum tónlistina.
– Að koma fram á fjölskyldutónleikum með Dúó Stemmu sunnudaginn 30. júní kl. 16:30.

Allir krakkar sem hafa áhuga á söng eru hvattir til að koma, bæði krakkar í kór og þeir sem aldrei hafa sungið í kór.

Skráning fer fram í gegnum netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is.

Vinsamlegast látið upplýsingar um nafn, kennitölu, símanúmer og netfang fylgja umsókninni. Endilega hafið samband í síma 585 5790, ef eitthvað er óljóst varðandi skráninguna. Nánari upplýsingar um námskeiðið og hátíðina má finna á www.songhatid.is.

Sönghátíð – tónlistarsmiðja fyrir börn 3–5 ára

Sönghátíð í Hafnarborg býður upp á tónlistarsmiðju fyrir börn á aldrinum 3–5 ára ásamt foreldrum. Í smiðjunni munu börnin eiga saman góða og gefandi stund í gegnum tónlistarupplifun. Sungin verða ýmis skemmtileg lög, dansað, farið í tónlistartengda leiki og spilað á hljóðfæri. Í lokin er í boði að syngja lag í hljóðnema fyrir þau sem vilja. Námskeiðið fer fram í Apótekssal Hafnarborgar og kennari er Valgerður Jónsdóttir.

Dagsetning:
Sunnudaginn 7. júlí kl. 13.

Námskeiðsgjald:
1.500 kr. á barn. Systkinaafsláttur 500 kr.
Athugið að hámarksfjöldi er 12 börn.

Lengd:
45 mínútur.

Skráning fer fram í gegnum netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is.

Vinsamlegast látið upplýsingar um nafn og kennitölu barns, nöfn foreldra eða forráðamanna, símanúmer og netfang fylgja umsókninni. Endilega hafið samband í síma 585 5790, ef eitthvað er óljóst varðandi skráninguna. Nánari upplýsingar um námskeiðið og hátíðina má finna á www.songhatid.is.

Skemmtidagskrá á þjóðhátíðardaginn 2019

Hafnarborg verður opin eins og venjulega á þjóðhátíðardaginn 17. júní kl. 12–17, auk þess að taka þátt í hátíðarhöldunum með sérstakri skemmtidagskrá í og við Hafnarborg yfir daginn.

Kl. 14 – Guðrún Árný, söngkona, spilar og syngur íslenskar perlur í aðalsal

Kl. 15:30 – Ingó Geirdal, töframaður, sýnir töfrabrögð í aðalsal

Þá geta gestir að sjálfsögðu skoðað sýningar safnsins, Tímahvörf – sýn átta samtímaljósmyndara á Hafnarfjörð og comme ça louise?, en auk þess verður þjóðbúningasýning í Apótekinu á neðri hæðinni, þar sem sérstök áhersla er lögð á þjóðbúninga kvenna og þróun þeirra. Einnig stendur gestum til boða að taka þátt í sérstökum sumarratleik um sýningar Hafnarborgar.

Við Hafnarborg verður svo boðið upp á margvísleg skemmtiatriði kl. 14–16: línudans félags eldri borgara, Dansíþróttafélag Hafnarfjarðar, Fimleikafélagið Björk, gjörning listahóps Vinnuskólans og hljómsveitirnar Little Menace og Ravison.

Aðgangur að safninu er ókeypis, líkt og alla daga ársins.

Menningar- og heilsugöngur Hafnarfjarðar sumarið 2019

Í sumar býður Hafnarfjarðarbær upp á menningar- og heilsugöngur öll fimmtudagskvöld, eins og fyrri ár. Flestar göngur taka um klukkustund og hefjast kl. 20, nema annað sé tekið fram. Þátttaka í göngunum er ókeypis og allir velkomnir. Dagskrá sumarsins er eftirfarandi:

6. júní: Undirhlíðar – óvænt uppákoma
Einar Skúlason leiðir 90–120 mínútna göngu að Undirhlíðum á fjölbreyttu undirlagi. Á leiðinni verður óvænt uppákoma eða uppákomur sem gera gönguna að ennþá skemmtilegri reynslu. Gengið frá bílastæðinu við Kaldárselsveg.

13. júní: Á slóðum ljósmyndanna
Kirsten Simonsen, sýningarstjóri, og Magnea Guðmundsdóttir, arkitekt, ganga um slóðir ljósmyndasýningarinnar Tímahvarfa, sem nú stendur yfir í Hafnarborg. Rætt verður um bæinn, þróun hans og ímynd, eins og hún birtist okkur í myndum ljósmyndaranna sem taka þátt í sýningunni. Gengið frá Hafnarborg.

20. júní: Barnaganga – kl. 18
Fanney Rós Magnúsdóttir, íþróttafræðingur, leiðir barnagöngu um Víðistaðatún. Skemmtiganga fyrir alla fjölskylduna þar sem boðið verður upp á upphitun, leiki, teygjur og slökun, sem er sérstaklega hugsuð fyrir yngstu göngugarpana. Gengið frá útigrillhúsinu á Víðistaðatúni. Heitt verður í kolunum í grillhúsinu að lokinni göngu fyrir þá sem vilja grilla.

27. júní: Hafnarfjarðarhöfn 110 ára
Lúðvík Geirsson, hafnarstjóri Hafnarfjarðarhafnar, leiðir göngu um ljósmyndasýningu Byggðasafnsins á Strandstígnum. Gengið frá Drafnarslippnum.

4. júlí: Fjölskylduganga í Valaból – kl. 18
Kolbrún Kristínardóttir, barnasjúkraþjálfari, leiðir göngu að Valabóli. Æskilegt er að þátttakendur komi með heimagert hollt nesti en stoppað verður í miðri göngu og áð. Gengið frá bílastæðinu við Kaldárselsveg.

11. júlí: Hraun – hvar býr fegurðin?
Kristján Örn Kjartansson, arkitekt hjá KRADS, leiðir göngu um Hraunin og beinir sjónum okkar að hverfinu eins og það er í dag, auk þess að lýsa framtíðarsýninni á hverfið sem gengur senn í endurnýjun lífdaga. Gengið frá Bónus í Helluhrauni.

18. júlí: Stekkjarhraun
Jónatan Garðarsson leiðir göngu um Stekkjarhraun upp að Lækjarbotnum. Gengið frá Setbergsskóla.

25. júlí: Krýsuvík
Minjaganga um byggðahverfið í Krýsuvík, höfuðbólið og kirkjustaðinn. Gengið frá bílastæðinu við Krýsuvíkurbæinn.

1. ágúst: Húsameistarinn í Hafnarfirði
Pétur H. Ármannsson, arkitekt, leiðir göngu milli húsa sem Guðjón Samúelsson, arkitekt og húsameistari ríkisins, teiknaði í Hafnarfirði og ræðir einnig hugmyndir Guðjóns um skipulag bæjarins. Pétur vinnur nú að bók um Guðjón, auk sýningar sem sett verður upp í Hafnarborg í vetur. Gengið frá Hafnarborg.

8. ágúst: Bókmenntabærinn Hafnarfjörður
Hjalti Snær Ægisson, bókmenntafræðingur, stýrir göngu um slóðir hafnfirskra rithöfunda og ljóðskálda. Staldrað verður við heimili nokkurra þekktra höfunda, spjallað um eftirminnilegar bækur og lesin brot úr völdum verkum. Lögð verður sérstök áhersla á tímabilið 1940–1980 í sagna- og ljóðagerð og rætt um bókmenntaverk þar sem Hafnarfjörður er sögusviðið. Gengið frá Bókasafni Hafnarfjarðar.

15. ágúst: Skógarganga um Höfðaskóg
Steinar Björgvinsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, leiðir skógargöngu um Höfðaskóg. Steinar þekkir vel til umhverfis skógræktarinnar og þess sem skógurinn hefur upp á að bjóða. Að þessu sinni verður fyrst og fremst farið um trjá- og rósasafnið og fjallað um þær fjölbreyttu tegundir sem tekist hefur að koma á legg í Höfðaskógi. Mæting í Gróðrastöðina Þöll við Kaldárselsveg.

22. ágúst: Álfaganga um Hafnarfjörð
Bryndís Björgvinsdóttir, þjóðfræðingur, leiðir göngu þar sem valdir sögu- og álfasteinar í Hafnarfirði verða heimsóttir, saga þeirra rakin og sett í samhengi við ýmsar kenningar um álfatrú Íslendinga. Reynt verður að svara spurningum um muninn á álfum, huldufólki og dvergum, auk þess hvar og hvenær álfar birtast helst okkur mannfólkinu, samkvæmt þjóðtrúnni.  Gengið frá Bókasafni Hafnarfjarðar.

29. ágúst: Gamli bærinn
Björn Pétursson, bæjarminjavörður, leiðir sögugöngu um gamla bæinn. Gengið frá Pakkhúsinu.

Menningar- og heilsugöngurnar eru samstarfsverkefni Hafnarborgar, Byggðasafns Hafnarfjarðar, Bókasafns Hafnarfjarðar og heilsubæjarins Hafnarfjarðar.

Sumarnámskeið Hafnarborgar 2019

Í sumar verður boðið upp á myndlistarnámskeið fyrir börn á aldrinum 6–12 ára í Hafnarborg. Farið verður í rannsóknarleiðangra og undirstöðuatriði myndlistar kynnt í gegnum rannsóknir á umhverfinu, sýningar í safninu og skapandi vinnu.

Unnin verða skapandi verkefni í fjölbreytta miðla – teiknað, málað og mótað – með það að markmiði að þjálfa sjónræna athygli, örva skapandi hugsun og persónulega tjáningu barnanna. Leiðbeinandi er Irene Hrafnan, myndlistarkona.

Í boði eru tvö 4 daga námskeið og eitt 5 daga námskeið fyrir aldurshópana 6–9 ára og 10–12 ára. Ekkert námskeiðanna verður eins og því er börnum velkomið að taka þátt í fleiri en einu námskeiði.

Boðið verður upp á eftirfarandi námskeið:

11.–14. júní (4 dagar)
6–9 ára: kl. 9:00–12:00
10–12 ára: kl. 13:00–16:00

18. júní–21. júní (4 dagar)
6–9 ára: kl. 9:00–12:00
10–12 ára: kl. 13:00–16:00

24. júní–28. júní (5 dagar)
6–9 ára: kl. 9:00–12:00
10–12 ára:kl. 13:00–16:00

Námskeiðsgjald er 12.500 krónur fyrir 4 daga námskeið og 14.000 krónur fyrir 5 daga námskeið.

  • Systkinaafsláttur: Fullt gjald er greitt fyrir eitt barn en 50% afsláttur er veittur af námskeiðagjaldi annarra systkina.
  • Vinsamlegast látið vita ef barn er með sérþarfir sem taka þarf tillit til.

Athugið að fjöldi þátttakenda er takmarkaður.

Skráning fer fram í gegnum „Mínar síður“ á vef Hafnarfjarðarbæjar. Frekari upplýsingar um sumarnámskeiðin eru veittar í síma 585 5790 eða í gegnum netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is.

Bjartir dagar í Hafnarborg 2019

Hér má sjá dagskrá Hafnarborgar á Björtum dögum í Hafnarfirði árið 2019, sem fram fara dagana 24.–28. apríl að þessu sinni:

Miðvikudagur 24. apríl
Kl. 17: Afhending menningarstyrkja og tilkynning bæjarlistamanns

Tilkynnt verður hvaða Hafnfirðingur hlýtur nafnbótina bæjarlistamaður Hafnarfjarðar árið 2019 og menningarstyrkir afhentir. Tónlistarmenn úr hópi styrkhafa flytja tónlist við athöfnina og að henni lokinni verður boðið upp á léttar veitingar.

Fimmtudagur 25. apríl, sumardagurinn fyrsti
Kl. 12: Hádegistónleikar – Alda Ingibergsdóttir
Í tilefni dagsins flytja Alda Ingibergsdóttir, sópran, og Antonía Hevesi, píanóleikari, vel valdar sumarperlur á sérstökum aukahádegistónleikum, þar sem gleðin ræður ríkjum. Aðgangur ókeypis.

Föstudagur 26. apríl
Kl. 17-21: Gakktu í bæinn
Kvöldopnun í Hafnarborg í tilefni Bjartra daga. Verið velkomin á sýningarnar Fyrirvara, eftir Brynjar Sigurðarson og Veroniku Sedlmair, og Teikningar/skissur í leir og textíl, eftir Kristínu Garðarsdóttur, sem opnuðu á HönnunarMars. Hamingjustund í samvinnu við Krydd og sumardjass í umsjón Ragnars Más Jónssonar. Ratleikur fyrir gesti, unga sem aldna. Aðgangur ókeypis.

Laugardagur 27. apríl
Kl. 12-17: Hefðbundinn opnunartími

Ratleikur fyrir gesti safnsins, unga sem aldna, í boði yfir helgina. Aðgangur ókeypis.

Sunnudagur 28. apríl
Kl. 14: Sýningarspjall
Kristín Garðarsdóttir, leirlistamaður og hönnuður, og Brynhildur Pálsdóttir, sýningarstjóri, fjalla um sýninguna Teikningar/skissur í leir og textíl, þar sem sjá má afrakstur vinnu Kristínar í European Ceramic Workcenter (EKWC) og TextielLab í Hollandi.
Kl. 15: Leirlistasmiðja
Boðið verður upp á skapandi leirlistasmiðju fyrir alla fjölskylduna í tengslum við hönnun sem nú er til sýnis í Hafnarborg. Hámark 20 þátttakendur. Forskráning á hafnarborg@hafnarfjordur.is.
Kl. 20: Hljóðön – Rapsódía
Síðari tónleikar Stirnis Ensemble á yfirstandandi starfsári tónleikaraðarinnar Hljóðana í Hafnarborg en Stirni Ensemble hefur verið staðarlistahópur tónleikaraðarinnar starfsárið 2018-2019. Hópinn skipa Björk Níelsdóttir, Grímur Helgason, Hafdís Vigfúsdóttir, og Svanur Vilbergsson. Efnisskrá tónleikanna er rapsódísk, þar sem flakkað verður frjálslega á milli ólíkra hljóð- og hugmyndaheima. Aðgöngumiðar seldir á staðnum. Almennt miðaverð kr. 2.500, verð fyrir eldri borgara og námsmenn kr. 1.500.

Opnunartími um páska

Hafnarborg óskar vinum og velunnurum gleðilegra páska. Opnunartími um hátíðina er eftirfarandi:

Skírdagur 18. apríl
Opið kl. 12–17

Föstudagurinn langi 19. apríl
Lokað

Laugardagur 20. apríl
Opið kl. 12–17

Páskadagur 21. apríl
Lokað

Annar í páskum 22. apríl
Opið kl. 12–17

Skapandi hljóðlistasmiðjur í vetrarfríi

Í vetrarfríi fara fram tvær skapandi hljóðlistasmiðjur í Hafnarborg fyrir börn á aldrinum 7–11 ára, undir leiðsögn myndlistar- og tónlistarmannsins Curvers Thoroddsen. Smiðjurnar far fram í tengslum við Hljóðön – sýningu tónlistar, sem stendur nú yfir í Hafnarborg, en þar er horft öðrum augum á tónlistina og það hvernig hún skarast á við myndlistina. Þar er sköpunar- og leikgleðin í fyrirrúmi og mikið lagt upp úr þátttöku sýningargesta til að búa til tónlist á margs konar vegu, svo sem með tölvuleikjum, hljóðfærum og öðrum hlutum sem eru venjulega ekki taldir til hljóðfæra.

Hljóðlistasmiðjurnar verða á dagskrá kl. 13–16 fimmtudaginn 21. og föstudaginn 22. febrúar. Hámark 15 þátttakendur í hvorri smiðju fyrir sig. Skráning á hafnarborg@hafnarfjörður.is. Einnig eru sýningar safnsins opnar báða daga frá kl. 12–17 og aðgangur er ókeypis.

Haustsýning ársins 2019 – Allt á sama tíma

Listráð Hafnarborgar hefur valið sýninguna Allt á sama tíma sem haustsýningu ársins 2019, í sýningarstjórn Andreu Arnarsdóttur og Starkaðar Sigurðarsonar. Hugmyndin með sýningunni er að kanna hvernig listamenn takast á við það frelsi sem finnst í myndlist í dag. Hvernig hægt er að búa til merkingu úr list sem getur verið hvað sem er, málverk, barnaleikfang, pappamassi, hreyfing, hugmynd, ópera, gifs. Sýnd verða verk í ólíkum miðlum, frá olíumálverki til gjörninga, og gerð tilraun til að sameina þær dreifðu hugmyndir sem finnast í myndlist samtímans.

Sýningin reynir ekki að búa til sneiðmynd eða yfirlit yfir það hvernig list er í dag, heldur verður kannað hvernig listamennirnir, sem standa frammi fyrir þessu frelsi, móta merkingu úr því. Hvernig list getur tekið á sig hvaða form sem er en talar alltaf sama tungumálið. Hvernig olíumálverk uppi á vegg í heimahúsi er sama listin, hluti af sömu listasögunni, og sveppir sem hægt er að láta vaxa í björtu, hvítu sýningarrými. Hvernig list – og listasagan – er samþjappað fyrirbæri þar sem allt er til á sama tíma.

Andrea Arnarsdóttir lærði hagnýta menningarmiðlun í Háskóla Íslands og hlaut MA gráðu frá skólanum árið 2018. Lokaverkefni hennar, sýningin Ofgnótt í Háskóla Íslands, vakti tölverða athygli. Eftir útskrift stundaði Andrea starfsnám við listasafnið Artipelag í Stokkhólmi. Þar fékk hún innsýn í safnastarf og störf sýningarstjóra auk þess sem hún vann náið með fræðslustjóra stofnunarinnar.

Starkaður Sigurðarson hefur bakgrunn bæði í myndlist og skrifum en eftir útskrift úr LHÍ kláraði hann MFA gráðu í ritlist frá Goddard College vorið 2018. Hann hefur sýnt víðs vegar um Ísland, seinast í sumarsýningu Nýlistarsafnins, Djúpþrýstingi árið 2018, en hefur einnig skrifað myndlistarumfjöllun fyrir Víðsjá, fjölda texta fyrir listamenn og söfn, auk þess að vera ritstjóri myndlistarritsins Stara.

Á hverju ári kallar Hafnarborg eftir tillögum að haustsýningu safnsins með það að markmiði að velja til samstarfs sýningarstjóra, sem leggja fram áhugaverða tillögu að sýningu, en jafnframt að kalla til leiks nýtt fólk. Þannig er sérstaklega hugað að því að veita tækifæri sýningarstjórum með stuttan feril að baki. Það er Listráð Hafnarborgar ásamt forstöðumanni sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna ár hvert.

Með haustsýningaröðinni vill Hafnarborg skapa farveg fyrir áhugaverðar hugmyndir, með það að sjónarmiði að safnið sé vettvangur þar sem myndlist fái að njóta sín, mótuð af fjölbreyttum viðhorfum og viðfangsefnum. Sýningarnar og málþing sem skipulögð hafa verið samhliða þeim hafa skapað markverðan vettvang umræðna og þróunar í Hafnarborg.

Listi yfir þátttakendur sýningarinnar verður birtur síðar.

Safnanótt í Hafnarborg – tónlist í ótal formum

Líkt og fyrri ár, verður opið í Hafnarborg fram eftir kvöldi á Safnanótt, föstudaginn 8. febrúar kl. 17–23. Boðið verður upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá fyrir gesti, unga sem aldna, þar sem útgangspunkturinn er tónlist í ótal formum, hefðbundnum og óhefðbundnum, svo sem tölvuleikjum, smáforritum og öðrum ólíklegum hlutum. Hægt verður að horfa eða hlusta, syngja og dansa, jafnt sem búa til tónlist á staðnum. Dagskrá kvöldsins má sjá hér fyrir neðan:

Hljóðön – sýning tónlistar
17:0023:00
Sýningin fagnar fimm ára starfsafmæli samnefndrar tónleikaraðar, sem tileinkuð er samtímatónlist. Hér tekur tónlistin yfir og dreifir úr sér í safnarýminu, í hinum ólíkustu formum. Hugmyndaheimur tónlistarinnar er þaninn út fyrir heim hljóðanna og sjónræni þátturinn spilar þar stórt hlutverk. Tónlistin verður í senn hljóð og hlutur, flæði tímans er skipt út fyrir flæði í rými, hljóðinu skipt út fyrir hluti, flytjandanum skipt út fyrir hlustandann.

Umrót
17:0023:00
Á sýningunni má sjá ný verk eftir Mörtu Maríu Jónsdóttur, myndlistarmann. Verkin eru óhlutbundin, á mörkum teikningar og málverks. Myndheimur Mörtu Maríu er ljóðrænn og opinn, heimur sem er á mörkum þess að myndast eða eyðast. Pensilstrokur og flæði litarins virka sem stoðir málverksins og hrár ómálaður striginn verður hluti af myndheiminum, eins og þögn í tónlist eða bil í texta. Verkin fjalla um málverkið sjálft, tilurð þess og merkingu.

Ratleikur um Hafnarborg
17:00–23:00
Gestum er boðið að taka þátt í sérstökum Safnanætur-ratleik um Hafnarborg, með möguleika á vinning. Í kjölfar Safnanætur, verður vinningshafi dreginn úr hópi þeirra sem tóku þátt í leiknum. Skoðið húsið og sýningarsalina hátt og lágt og upplifið sýningar safnsins á öðruvísi hátt – það er aldrei að vita hvað er að finna í Hafnarborg!

Píanótónleikar í Hafnarborg með Tónlistarskóla Hafnarfjarðar
17:30–18:00
Tónlistarskóli Hafnarfjarðar verður víða á ferli í bænum í tilefni Safnanætur. Þá verður fyrsti viðburður kvöldsins í Hafnarborg píanótónleikar skólans í aðalsal safnsins. Þar fá hefðbundnir tónar píanósins að hljóma innan um önnur verk sýningarinnar Hljóðana, sem veita aðra – oft óvanalega – sýn á tónlistina. 

Mussila – tónlistarsmiðja fyrir börn og foreldra
18:00–19:15
Á Safnanótt verður boðið upp á tvær tónlistarsmiðjur fyrir börn og foreldra, þar sem kynntir verða möguleikar íslenska tónlistarsmáforritsins Mussila. Forritið er ævintýralegur tónlistarleikur fyrir börn á aldrinum 6 til 11 ára, þar sem þau læra grunnatriði tónlistar út frá hlustun og leik, er þau fást við tónlistina á skapandi hátt – útsetja hana að eigin vild, spila inn eigin laglínur og fleira. Leikurinn byggir þannig upp færni barna í tónlist á skemmtilegan og nýstárlegan hátt þar sem áskoranir og spilagleði tvinnast saman við sköpun og leik.

Lifandi leiðsögn um Hljóðön – sýningu tónlistar
19:00–21:00
Á sýningunni býðst gestum að taka þátt í mörgum verkanna og hafa áhrif á tónlistina eða framkalla hana með eigin þátttöku. Þar eru bæði tölvuleikir og tónlistarhorn, auk annarra gagnvirkra verka, sem gefa leik- og sköpunargleðinni sannarlega lausan tauminn. Þá verða starfsmenn safnsins tilbúnir til þess að leiðbeina gestum um möguleikana þess hvernig taka megi þátt í verkunum.

Mussila – tónlistarsmiðja fyrir börn og foreldra
20:00–21:15
Á Safnanótt verður boðið upp á tvær tónlistarsmiðjur fyrir börn og foreldra, þar sem kynntir verða möguleikar íslenska tónlistarsmáforritsins Mussila. Forritið er ævintýralegur tónlistarleikur fyrir börn á aldrinum 6 til 11 ára, þar sem þau læra grunnatriði tónlistar út frá hlustun og leik, er þau fást við tónlistina á skapandi hátt – útsetja hana að eigin vild, spila inn eigin laglínur og fleira. Leikurinn byggir þannig upp færni barna í tónlist á skemmtilegan og nýstárlegan hátt þar sem áskoranir og spilagleði tvinnast saman við sköpun og leik.

Silent diskó á listasafni
21:00–22:30
Á sýningu Mörtu Maríu Jónsdóttur, Umróti, munu gestir fá tækifæri til að sjá listaverkin – eða list – í nýju ljósi, er sýningarsalurinn umbreytist í dansgólf á Safnanótt. Á milli verkanna fá gestir að skynja sýninguna og safnarýmið á ólíkan hátt en þeir kunna að vera vanir, þar sem þeir fylla sjálfir upp í bilið með eigin hreyfingum og ferðast um salinn á breyttum forsendum. Þannig er silent diskó hér ekki aðeins einstök leið til að upplifa tónlist, þar sem hlustendur dansa við tónlist sem berst í gegnum þráðlaus heyrnartól, heldur einnig einstök leið til þess að upplifa myndlist.

Guðrún Árný kemur fram á Krydd
21:00–00:00
Söngkonan Guðrún Árný er gestum veitingahússins Krydds að góðu kunn, þar sem hún kemur fram reglulega á föstudagskvöldum, syngur og leikur á píanó, auk þess að leiða gesti í fjöldasöng fram eftir kvöldi. Á Krydd er boðið upp á fjölbreyttan kvöldseðil og mikið úrval drykkja, þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Til að panta borð, vinsamlegast hafið samband við veitingahúsið í síma 558 2222.