Menningar- og heilsugöngur sumarið 2022 – dagskrá

Hafnarfjarðarbær býður upp á menningar- og heilsugöngur öll miðvikudagskvöld í sumar. Flestar göngurnar taka um klukkustund og hefjast kl. 20, nema annað sé tekið fram. Menningar- og heilsugöngur eru samstarfsverkefni Hafnarborgar, Byggðasafns Hafnarfjarðar, Bókasafns Hafnarfjarðar og Heilsubæjarins Hafnarfjarðar. Þátttaka er ókeypis og öll velkomin.

Dagskrá sumarsins er eftirfarandi:


1. júní kl. 20
Hús í hrauninu
Jónatan Garðarsson leiðir göngu að fyrsta og þriðja húsi Hreins Friðfinnssonar. Athugið að þessi ganga mun taka um þrjár klukkustundir. Gengið frá Gerðinu, sunnan megin við Álverið. Nánar hér.

8. júní kl. 20
Álfaganga
Silja Gunnarsdóttir, eigandi alfar.is, leiðir göngu um álfaslóðir og segir sögu álfa, dverga og huldufólks á leiðinni. Gengið frá Ráðhúsi Hafnarfjarðar að Strandgötu 6.

15. júní kl. 17
Barnaganga
Hildigunnur Sigvaldadóttir leiðir yngri kynslóðina í ævintýralegri göngu með listsköpun. Gengið frá Bókasafni Hafnarfjarðar að Hellisgerði og til baka.

22. júní kl. 18
Söguganga um náttúruna
Jónatan Garðarson leiðir göngu upp á Seldalsháls að Stórhöfða. Gengið frá bílastæðinu vestan megin við Hvaleyrarvatn (nær Völlum).

29. júní kl. 20
Kringum hamarinn
Ólafur Þ. Harðarson leiðir göngu í kringum Hamarinn og fjallar um sögu skóla og íþrótta á svæðinu. Gengið frá Flensborgarskóla.

6. júlí kl. 20
Ha ha um Hafnarfjörð
Einar Skúlason leiðir gesti og gangandi um skemmtilegar slóðir í Suðurbæ Hafnarfjarðar og reitir af sér valda Hafnarfjarðarbrandara á leiðinni. Gengið frá Firði verslunarmiðstöð

13. júlí kl. 20
Hugleiðing um álfa
Bryndís Björgvisdóttir, rithöfundur, sagn- og þjóðfræðingur, og Aldís Arnardóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, leiða göngu þar sem velt er upp hugleiðingum um álfa og verur í klettum. Gengið frá Hafnarborg og gangan endar svo með leiðsögn um sýningu Gunnars Arnar Gunnarssonar í Hafnarborg. Nánar hér.

20. júlí kl. 17
Þessir gömlu góðu
Janus Guðlaugsson, eigandi Janusar heilsueflingar, rifjar upp, kennir og leiðir stórfjölskylduna alla í gegnum þessa gömlu góðu útileiki sem voru vinsælir fyrir ekki svo mörgum árum síðan. Tilvalin skemmtun fyrir alla í fjölskyldunni. Gengið frá Víðistaðakirkju.

27. júlí kl. 20
Æskuslóðir í Suðurbænum
Leifur Helgason leiðir göngu um æskuslóðir sínar í Suðurbænum. Gengið frá Gúttó.

3. ágúst kl. 17
Buslganga að Arnarvatni
Davíð Arnar Stefánsson leiðir göngu að Arnarvatni. Ef veðrið er gott er kjörið að taka með sér teppi og nesti og busla í vatninu. Gengið frá bílastæðinu við Seltún, Krýsuvík.

10. ágúst kl. 18
Villtar matjurtir í Hafnarfirði
Mervi Orvokki Luoma leiðir gesti um Hafnarfjörð í leit að gómsætum, villtum jurtum. Gengið frá Bókasafni Hafnarfjarðar

17. ágúst kl. 20
Umhverfis eitt Klifsholtanna
Valgerður M. Hróðmarsdóttir leiðir göngu umhverfis eitt Klifsholtanna, að Lambgjá og Smyrlabúð með viðkomu í gróðurreit Rótarý og Lionsklúbbs Hafnarfjarðar. Gengið frá bílastæðinu við Helgafell.

24. ágúst kl. 17
Kyrrðarganga við Stórhöfða
Guðbjörg Björnsdóttir og Ingibjörg Valgeirsdóttir, eigendur fræðslufyrirtækisins Saga Story House, leiða kyrrðargöngu við Stórhöfða. Um er að ræða rólega göngu með leiddum núvitundaræfingum þar sem gengið er að hluta til í þögn. Gengið frá bílastæðinu vestan megin við Hvaleyrarvatn (nær Völlum).

31. ágúst kl. 20
Sagan, safnið og gamli bærinn
Björn Pétursson, bæjarminjavörður Hafnarfjarðar, leiðir göngu um gamla bæinn. Gengið frá Pakkhúsi Byggðasafnsins.


Nánari upplýsingar um göngurnar má svo finna hér á viðburðasíðu Hafnarfjarðarbæjar, þegar nær dregur hverri göngu.

List án landamæra 2022 – einkasýning í Hafnarborg

Starfsfólk Hafnarborgar óskar Elfu Björk Jónsdóttur innilega til hamingju með útnefninguna listamaður hátíðarinnar Listar án landamæra í ár en Elfa Björk mun halda einkasýningu í Hafnarborg í haust í tengslum við hátíðina.

Elfa Björk Jónsdóttir er hæfileikarík listakona en segja má að myndheimur hennar byggist á abstraktgrunni og skapast oft skemmtilegt samspil formrænu og fígúratífu þegar hún sækir sér fyrirmyndir ýmist úr umhverfinu, náttúrulífsbókum eða úr listasögunni.

List án landamæra 2022 mun eiga sér stað frá 15.-30. október.

Með Elfu Björk á myndinni eru Jóhanna Ásgeirsdóttir, listrænn stjórnandi hátíðarinnar, og Aldís Arnardóttir, forstöðumaður Hafnarborgar.

Tilnefningar til Íslensku tónlistar­verðlaunanna 2022

Starfsfólk Hafnarborgar óskar Þráni Hjálmarssyni, listrænum stjórnanda Hljóðana, innilega til hamingju með tilnefninguna til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2022 en Hljóðön er tilnefnd sem „tónlistarviðburður ársins – hátíðir“ í flokki sígildrar og samtímatónlistar.

Einnig óskum við Andrési Þór Gunnlaugssyni, listrænum stjórnanda Síðdegistóna í Hafnarborg, hjartanlega til hamingju með tilnefningu tónleikaraðarinnar sem „tónlistarviðburður ársins“ í flokki djass- og blústónlistar, auk þess sem við óskum Andrési Þór innilega til hamingju með tilnefningu sína sem „tónlistarflytjandi ársins“ í sama flokki.

Við þökkum ykkur fyrir að auðga starf Hafnarborgar með fagmennsku ykkar og næmni við að miðla tónlist og sköpunarkrafti svo aðrir fái notið. Við þökkum einnig dómnefnd og aðstandendum Íslensku tónlistarverðlaunanna kærlega fyrir þann heiður sem stofnuninni er sýndur með tilnefningunum.

Sjónarhorn – fræðslustundir fyrir eldra fólk í Hafnarborg

Hafnarborg leggur áherslu á að gefa öllum tækifæri til að kynnast menningu og listum og býður upp á leiðsagnir fyrir alla aldurshópa. Sjónarhorn er dagskrá ætluð eldra fólki, sem hefur áhuga á menningu og listum, til að fræðast um starfsemi Hafnarborgar, yfirstandandi sýningar eða einstök verk úr safneign.

Viðburðirnir skapa tækifæri fyrir gesti til að nálgast myndlistina á margvíslegan hátt með spjalli við sérfræðinga safnsins. Boðið verður upp á kaffi og meðlæti í Hafnarborg að lokinni dagskrá.

Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá kl. 14 einn miðvikudag í mánuði yfir vetrartímann. Hægt er að skrá sig í síma 585 5790 eða með því að senda póst á netfangið [email protected]. Aðgangur er ókeypis


Dagskrá vorannar

16. mars kl. 14
Ljósmyndahátíð – Hallgerður Hallgrímsdóttir
Leiðsögn um sýninguna Fáeinar vangaveltur um ljósmyndun – III. hluti  á verkum Hallgerðar Hallgrímsdóttur. Hallgerður notar ljósmyndamiðilinn sem tæki til að beina sjónum sínum að ljósmyndasögunni og mismunandi tækni hennar. Sýningin er hluti af Ljósmyndahátíð 2022.

13. apríl kl. 14
Verk úr safneign
Í safneign Hafnarborgar eru nú tæplega 1600 verk, unnin með fjölbreyttum aðferðum. Þar má meðal annars finna málverk, teikningar, þrívíð verk og vídeóverk, auk þess sem safnið hefur umsjón með útilistaverkum Hafnarfjarðar. Fjallað verður ítarlega um valin verk úr safneign Hafnarborgar.

11. maí kl. 14
HönnunarMars – Tinna Gunnarsdóttir
Leiðsögn um sýningu Tinnu Gunnarsdóttur, Snert á landslagi. Verkin á sýningunni eru hluti af yfirstandandi doktorsverkefni Tinnu sem byggir á áralangri rannsókn hennar í Héðinsfirði, þar sem hún kannar tengsl manns og landslags. Sýningin er hluti af HönnunarMars 2022.

Haustsýning Hafnarborgar 2022 – vinningstillaga Sigrúnar Ölbu Sigurðardóttur

Listráð Hafnarborgar hefur valið tillöguna flæðir að – flæðir frá  sem haustsýningu ársins 2022 úr hópi þeirra tillagna sem bárust undir lok síðasta árs en vinningstillagan var send inn af Sigrúnu Ölbu Sigurðardóttur. Í sýningarhugmyndinni er sjónum beint að strandlengjunni, sem er jafnt stórbrotin og uppfull af smáum lífverum, viðkvæmum gróðri og fjölbreyttum steinategundum. Takast þar á hið stóra og ofsafengna, hið smáa og viðkvæma, er öldurnar skella með krafti á ströndinni.

Á sýningunni verður strandlengjan skoðuð í gegnum verk listamanna frá ólíkum löndum þar sem sjórinn og strandlengjan mótar bæði menningu og atvinnulíf. Íbúar við sjávarsíðuna hafa í gegnum aldirnar byggt lífsviðurværi sitt að stórum hluta á nálægðinni við hafið en ströndin skilgreinir bæði mörk heimsins fyrir íbúana og er tenging þeirra við aðra heima. Hlutverk strandlengjunnar í þessu sambandi kann því að varpa ljósi á margvísleg viðhorf til umhverfisins, ábyrgð og stöðu mannsins í náttúrunni á mannöld.

Á tímum loftslagsbreytinga má líta á strandlengjuna sem eins konar átakasvæði. Hækkandi sjávarborð hefur bein áhrif á strandlengjuna – lífverur við ströndina eiga eftir að hverfa og aðrar nema land með hækkandi hitastigi og svo getur farið að hugsa þurfi byggð og búsetu við sjóinn út frá nýjum forsendum. Þá mun sýningin draga fram hversu samlíf okkar við náttúruna er viðkvæmt og dýrmætt, í þeirri von að hreyfa við áhorfendum og fá gesti til að hugsa um viðhorf sitt til strandlengjunnar á nýjan hátt og í nýju samhengi.

Listi yfir þátttakendur sýningarinnar verður birtur síðar.

Sigrún Alba Sigurðardóttir er sjálfstætt starfandi sýningarstjóri en hún hefur sett upp sýningar í Listasafni Íslands, Listasafni Árnesinga, Ljósmyndasafni Reykjavíkur og Þjóðminjasafni Íslands. Þá vinnur hún nú að sýningu í samstarfi við Fotografisk Center í Danmörku, Landskrona Foto í Svíþjóð, Northern Photographic Center í Finnlandi og Listasafn Akureyrar. Sigrún Alba er stundakennari í listfræði við Háskóla Íslands og við hönnunardeild Listaháskóla Íslands. Hún hefur gefið út sjö bækur og fjölda fræðigreina, m.a. um íslenska myndlist og ljósmyndun.

Þessi sýning verður sú tólfta í haustsýningarröð Hafnarborgar en markmið hennar er að safnið sé vettvangur þar sem myndlist fái að njóta sín, mótuð af fjölbreyttum viðhorfum og viðfangsefnum. Það er Listráð Hafnarborgar ásamt forstöðumanni sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna ár hvert.

Opnunartími í Hafnarborg yfir hátíðarnar

Opið verður í Hafnarborg að vanda fram að jólum, alla daga nema þriðjudaga, kl. 12–17. Opnunartími yfir hátíðarnar er eftirfarandi:

Þorláksmessa: opið kl. 12-17
Aðfangadagur: lokað
Jóladagur: lokað
Annar í jólum: lokað
Mánudagur 27. desember: opið 12-17
Þriðjudagur 28. desember: lokað 
Miðvikudagur 29. desember: opið 12-17
Fimmtudagur 30. desember: opið kl. 12-17
Gamlársdagur: lokað
Nýársdagur: lokað

Vinsamlegast athugið að skrifstofa Hafnarborgar verður lokuð á milli jóla og nýárs. Safnið verður opið samkvæmt hefðbundnum opnunartíma frá 2. janúar. Aðgangur að sýningum safnsins er ókeypis og allir velkomnir.

Kærleikskúlan 2021 – uppseld í safnbúð

Kærleikskúla ársins 2021 er uppseld í safnbúð Hafnarborgar, líkt og hjá mörgum söluaðilum á höfuðborgarsvæðinu. Einhverjar kúlur kunna enn að vera fáanlegar hjá öðrum aðilum en við mælum með að hringja á undan til að ganga úr skugga um að kúlan sé til.

Lista yfir söluaðila Kærleikskúlunnar má finna hér.

Kærleikskúlan 2021 – fáanleg í safnbúð Hafnarborgar

Eitt ár eftir Sirru Sigrúnu Sigurðardóttur er Kærleikskúla ársins 2021. Kúlan er framleidd í takmörkuðu upplagi en á síðasta ári seldist kúlan upp. Allur ágóði af sölunni rennur til starfs í þágu fatlaðra barna og ungmenna. Listakonan lýsir verkinu svo:

Kúlan er umvafin teikningu sem lýsir sólargangi eftir árstíma á Íslandi, allt frá löngum björtum sumarnóttum að vetrarsólstöðum þegar birtu nýtur aðeins í örfáar klukkustundir á dag. Teikningin sýnir ólík birtustig sólarhringsins og þá afgerandi árstíðabundnu sveiflur sem við upplifum hér við heimskautsbaug. Litirnir fimm sem hverfast um kúluna tákna; dögun, birtingu, dagbjart, sólarlag og myrkur. Litirnir sem eru mest áberandi eru; gulur fyrir hábjartan dag og blár fyrir myrkur næturinnar, þar á milli raða sér rauðgulur, bleikur og fjólublár fyrir ljósaskiptin. Verkið reynir að fanga eitthvað sem við þekkjum svo vel í okkar daglega amstri en talar einnig til stærra samhengis okkar, til síbreytilegrar stöðu okkar í himingeimnum þar sem við snúumst um ás á sporbaug um sólu.

Sirra Sigrún Sigurðardóttir hefur lengi tekið virkan þátt í íslensku listalífi en hún er einn af stofnendum Kling & Bang. Sirra lauk BA-prófi frá Listaháskóla Íslands árið 2001 og útskrifaðist með meistaragráðu frá School of Visual Arts í New York 2013. Verk Sirru eru kosmísk í eðli sínu og tengjast gjarnan vangaveltum um stöðu okkar inni í gangverki náttúrunnar, eðlisfræðinnar og þeirra afla sem halda heiminum gangandi. Þau sýna oft stöðu okkar sem einstaklinga, vægi okkar og smæð þar sem hið smáa er sett í samhengi við það stærra og merking er yfirfærð frá einu fyrirbæri yfir á annað svo úr verður ný skynjun, ný sýn. Sirra hefur haldið einkasýningar í Listasafni Reykjavíkur, Nýlistasafninu, Listasafni Árnesinga, Hafnarborg og Kling & Bang. Þá hefur hún tekið þátt í fjölda sýninga víða um heim, þar á meðal í Kína, Finnlandi og á Englandi. Sirra hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir list sína og m.a. fengið styrki og viðurkenningar úr listasjóðum Svavars Guðnasonar, Guðmundu Andrésdóttur og verðlaun Guðmundu S. Kristinsdóttur.

Kærleikskúlan verður fáanleg í safnbúð Hafnarborgar frá 9. til 23. desember. Einnig er jólaórói ársins í sölu til og með 16. desember. Hægt er að lesa nánar um óróann hér.

Jólaóróinn 2021 – fáanlegur í safnbúð Hafnarborgar

Jólaóróinn Þvörusleikir er nú fáanlegur í safnbúð Hafnarborgar. Hönnunarteymið Arnar&Arnar hannaði óróann og Kristín Svava Tómasdóttir samdi kvæði um kappann. Þvörusleikir er síðastur í jólaóróaseríu Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra sem telur alls sextán óróa. Þá hafa jólasveinarnir þrettán verið færðir í stál ásamt Grýlu, Leppalúða og Jólakettinum.

Margir færustu hönnuðir og fremstu skáld landsins hafa lagt Styrktarfélaginu lið og gefið vinnu sína við að skapa jólaóróana og semja kvæði með óróunum. Þá var Kertasníkir fyrstur í röðinni en hann kom út fyrir jólin 2003.

Hafnarborg hefur verið meðal söluaðila jólaóróans og Kærleikskúlunnar um árabil en vegna tafa sem urðu í framleiðslu- og sendingarferli Kærleikskúlunnar seinkar sölu hennar um nokkra daga. Sölutímabil Kærleikskúlunnar verður því frá 9. desember til og með 23. desember. Allur ágóði af sölu Kærleikskúlunnar og jólaóróans rennur óskiptur til Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra.

Jólaóróinn er framleiddur í takmörkuðu upplagi en sölutímabil hans er frá 2. desember til og með 16. desember.

Hvar er Völundur – jóladagatal í Hafnarborg

Hafnarborg telur niður dagana til jóla með því að sýna jóladagatalið Hvar er Völundur? milli kl. 16 og 17 alla opnunardaga safnsins í desember fram að jólum.

Hvar er Völundur? var framleitt af RÚV árið 1996 og er löngu orðið hluti af jólahefðinni. Í dagatalinu leita þeir Felix og Gunni að smiðnum Völundi en hann er sá sem smíðar góðu jólagjafirnar. Við leitina lenda félagarnir í óvæntum ævintýrum er þeir þræða hvert völundarhúsið á fætur öðru og hitta fyrir margvíslegustu þorpara.

Höfundur dagatalsins er listamaðurinn Þorvaldur Þorsteinsson en yfirlitssýning á verkum hans stendur nú yfir í safninu.

Börn og fjölskyldur eru sérstaklega velkomin en hver þáttur verður sýndur í endurtekningu milli kl. 16 og 17 dag hvern. Á þriðjudögum er safnið lokað og verða því tveir þættir sýndir á miðvikudögum. Aðgangur að safninu er ókeypis, eins og alltaf.