Haustsýning 2020 – frestur framlengdur

Vinsamlegast athugið að frestur til að skila inn tillögum að haustsýningu næsta árs í Hafnarborg hefur verið framlengdur um eina viku til sunnudagsins 17. nóvember næstkomandi. Haustsýningaröðin hóf göngu sína árið 2011 og hafa síðan verið settar upp níu sýningar í röðinni. Haustsýning Hafnarborgar í ár, Allt á sama tíma, sem opnaði 30. ágúst, var valin með sama hætti, úr þeim tillögum sem bárust á síðasta ári.

Markmiðið með því að óska eftir innsendum tillögum er að fá tækifæri til að velja til samstarfs sýningarstjóra, sem leggja fram áhugaverðar tillögur að sýningum, en jafnframt að kalla til leiks nýtt fólk. Þannig er sérstaklega hugað að því að veita tækifæri sýningarstjórum með stuttan feril að baki. Það hefur sýnt sig að fyllsta ástæða er til að halda úti slíku verkefni en út frá því hafa orðið til fjölbreyttar sýningar, sem vakið hafa athygli og fengið góða aðsókn.

Óskað er eftir hugmyndum að samsýningum þar sem viðfangsefni, vinnuaðferð eða aðrar hugmyndir tengja verk listamanna en einnig koma til greina sýningar sem fela í sér greiningu eða sérstaka sýn á verk ákveðins listamanns. Jafnt koma til greina sýningar á verkum samtímalistamanna og sýningar sem fela í sér sögulega greiningu. Það er listráð Hafnarborgar, ásamt forstöðumanni, sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna ár hvert.

Nánari upplýsingar um umsóknarferlið má finna hér.

Vitinn – hlaðvarp Hafnarfjarðarbæjar

Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, er kvenskörungur mikill og kona allra verka. Hún hefur ósjaldan sést með hamar á lofti og málband um hálsinn við uppsetningu á nýjum sýningum og öðrum þeim verkefnum sem safnið sér um eða tekur þátt í. Stuttu seinna er hún komin í hlutverk gestgjafa og býður gesti velkomna á sýningar, opnanir, leiðsagnir, tónleika og smiðjur með starfsfólki sínu í Hafnarborg. Í þessum þætti Vitans ræðir Ágústa m.a. um listina að lifa og hversu stórt hlutverk list, menning og safnaheimurinn spilar í hennar lífi.

Í Vitanum er spjallað við áhugaverða einstaklinga sem vinna í þágu bæjarins. Þannig er tekin fyrir þjónusta sveitarfélagsins, áhugaverð þróunarverkefni og viðfangsefni á fjölbreyttu sviði. Eins þau mál sem eru í brennidepli hverju sinni. Hægt er að hlusta á þáttinn hér fyrir neðan en aðra þætti Vitans má nálgast hér á síðu Hafnarfjarðarbæjar eða á hlaðvarpsveitum eins og SpotifySimplecast og Podcast Addict. Unnið er að því að gera Vitann aðgengilegan á fleiri veitum.

Fangelsi – sýning framlengd til nýárs

Sýning Olgu Bergmann og Önnu Hallin, Fangelsi, sem nú stendur yfir í Sverrissal Hafnarborgar, hefur verið framlengd til nýárs og mun því standa yfir til sunnudagsins 5. janúar 2020. Innsetningin er sprottin af verki sem Olga og Anna unnu fyrir fangelsið á Hólmsheiði en í sýningarsalnum hefur verið reistur klefi í raunstærð út frá grunnmynd fangaklefanna í sjálfu fangelsinu.

Á sýningunni er hægt að ganga inn í klefann og stíga um stund inn í heim fangans. Sá heimur er skýrt afmarkaður og stendur fyrir utan okkar heim, meðan flest önnur skil eða mörk eru smám saman að mást út, fyrir tilstilli samfélagsmiðla og snallforrita í sísmækkandi, sítengdum heimi, þar sem hægt er að fylgja athöfnum, hegðun og staðsetningu einstaklinga með æ meiri nákvæmni.

Opið verður á sýninguna á meðan uppsetningu næstu sýningar stendur í aðalsal Hafnarborgar. Það er sýningin Guðjón Samúelsson húsameistari, sem mun opna laugardaginn 2. nóvember næstkomandi en þann daginn verður allt safnið lokað, þar til opnun hinnar nýju sýningar fer fram kl. 17.

Hafnarborg og Heilsubærinn Hafnarfjörður

Hafnarborg – menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar hefur nú gerst opinber þátttakandi í verkefninu Heilsubænum Hafnarfirði og mun hér eftir leggja aukna áherslu á þá þætti í starfseminni sem taldir eru hafa góð áhrif á andlega, félagslega og jafnvel líkamlega heilsu gesta. Hafnarborg hefur áður komið að verkefninu með þátttöku í hinum árlegu menningar- og heilsugöngum í Hafnarfirði, ásamt Heilsubænum og öðrum menningarstofnunum bæjarins.

Söfn eru staðir þar sem gestir fá rými til að slaka á og njóta menningar og lista, þjálfa sig í að dvelja í núinu og örva skilningarvitin. Söfn eru einnig staðir til að efla félagsleg tengsl í gegnum samveru, samtal og samvinnu. Hafnarborg hefur um árabil staðið fyrir menningarviðburðum sem hafa fest sig í sessi í bæjarlífinu, eins og hinum sívinsælu hádegistónleikum. Með því að skilgreina þessa viðburði formlega sem heilsueflandi viljum við minna á að það er mikilvægt að fá andlega hressingu og sinna félagslegum tengslum til að halda heilsu.

Á næstu misserum er það markmið Hafnarborgar að leggja enn ríkari áherslu á þá þætti sem hvetja gesti til að staldra við og leyfa listinni að efla andann.

Haustsýning 2020 – óskað eftir tillögum

Eins og undanfarin ár gefst sýningarstjórum tækifæri til að senda inn tillögur að haustsýningu næsta árs í Hafnarborg. Haustsýningaröðin hóf göngu sína árið 2011 og hafa síðan verið settar upp níu sýningar í röðinni. Haustsýning Hafnarborgar í ár, Allt á sama tíma, sem opnaði 30. ágúst, var valin með sama hætti, úr þeim tillögum sem bárust á síðasta ári.

Markmiðið með því að óska eftir innsendum tillögum er að fá tækifæri til að velja til samstarfs sýningarstjóra, sem leggja fram áhugaverðar tillögur að sýningum, en jafnframt að kalla til leiks nýtt fólk. Þannig er sérstaklega hugað að því að veita tækifæri sýningarstjórum með stuttan feril að baki. Það hefur sýnt sig að fyllsta ástæða er til að halda úti slíku verkefni en út frá því hafa orðið til fjölbreyttar sýningar, sem vakið hafa athygli og fengið góða aðsókn.

Óskað er eftir hugmyndum að samsýningum þar sem viðfangsefni, vinnuaðferð eða aðrar hugmyndir tengja verk listamanna en einnig koma til greina sýningar sem fela í sér greiningu eða sérstaka sýn á verk ákveðins listamanns. Jafnt koma til greina sýningar á verkum samtímalistamanna og sýningar sem fela í sér sögulega greiningu. Það er listráð Hafnarborgar, ásamt forstöðumanni, sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna ár hvert.

Frestur til að skila inn tillögum hefur verið framlengdur til sunnudagsins 17. nóvember næstkomandi.

Aðeins er tekið við tillögum rafrænt á netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is.


Umsóknarferli

Umsóknarferlið er tvískipt. Vinsamlegast kynnið ykkur ferlið vel með því að fara yfir þau atriði sem óskað er eftir hér fyrir neðan.

1. Hluti

Í fyrri umferð er óskað eftir eftirfarandi upplýsingum:

 • Lýsingu á verkefninu þar sem lögð er áhersla á hugmyndina að baki sýningunni (hámark 1000 orð).
 • Ferilskrá sýningarstjóra.
 • Stuttum ferilskrám listmanns/-manna og annarra sem lagt er til að verði hluti af sýningarverkefninu.

Vinsamlegast gefið eins nákvæma lýsingu og unnt er en virðið uppgefinn orðafjölda. Ekki er tekið við sýningarskrám, myndefni eða myndböndum í fyrstu umferð. Kynnið ykkur vel húsnæði Hafnarborgar áður en tillögur eru sendar inn. Listráð Hafnarborgar, ásamt forstöðumanni, metur innsendar tillögur og velur tillögur til frekari skoðunar.

2. Hluti

Sýningarstjórum, sem eiga tillögurnar sem valdar eru til frekari skoðunar, verður boðið að kynna hugmyndir sínar og senda inn ítarefni, s.s. sýningarskrár, myndefni eða myndbönd, auk þess sem vinna þarf að raunhæfri fjárhagsáætlun fyrir sýninguna.

Með því að kalla eftir tillögum er stefnan að opna fyrir ólíkar sýnir á myndlist en jafnframt að gefa nýjum sýningarstjórum tækifæri til að vinna sýningar. Reiknað er með að sýningin og vinnan við hana falli að fjárhagsáætlun safnsins eða að leitað verði leiða til að fá sérstakan stuðning við verkefnið.

Við mat á tillögum verða eftirfarandi atriði skoðuð:

 • Val á listamönnum.
 • Hvort sýningin kynni nýstárlega sýn á myndlist, t.d. innihald og/eða miðla.
 • Hvort um sé að ræða ný eða eldri verk eða jafnvel blanda nýrra og eldri.
 • Hvort sýningin hafi sérstaka skírskotun til Hafnarborgar, þ.e. safneignar, umhverfis, bæjarlífs o.s.frv.
 • Hvort sýningin nýti rými Hafnarborgar á frumlegan hátt.
 • Ferill sýningarstjóra (sérstaklega er leitað eftir sýningarstjórum sem ekki eiga langan feril að baki).
 • Tillögur að dagskrá í tengslum við sýninguna (leiðsögn, málþing, námskeið).
 • Tillögur að hugsanlegri útgáfu.
 • Að kostnaður við verkefnið sé innan viðráðanlegra marka (nánari útfærsla kostnaðar fer fram í síðari hluta ferlisins).

Teikningar af sölum Hafnarborgar má sjá hér. Þær eru ætlaðar til viðmiðunar við undirbúning tillagna en ekki er þess krafist að sýningar séu hannaðar nákvæmlega inn í rýmið.


Vinsamlegast sendið tillögur á netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is, merktar „Haustsýning 2020“. Send verður staðfesting á því að tillagan hafi borist. Bent er á að hafa samband í síma 585 5790, ef staðfesting berst ekki. Allar niðurstöður verða sendar með tölvupósti.

Nánari upplýsingar veitir skrifstofa Hafnarborgar í síma 585 5790.

Minnkum pappírsnotkun – skrá á póstlista

Hafnarborg er hugað um umhverfið og stefnir stöðugt að því að minnka pappírsnotkun í starfsemi sinni. Með því að skrá ykkur á póstlista Hafnarborgar býðst ykkur að fá sent rafrænt boðskort á sýningar safnsins ásamt tilkynningum um spennandi viðburði sem eru á döfinni hjá okkur. Hægt er að skrá sig á póstlistann neðst á forsíðu Hafnarborgar.

Til að afþakka prentuð boðskort, vinsamlegast hafið samband með því að senda póst á hafnarborg@hafnarfjordur.is eða með því að hringja í síma 585 5790.

Takk fyrir að hugsa um umhverfið með okkur.

Skrifstofa lokuð vegna sumarleyfa

Skrifstofa Hafnarborgar verður lokuð frá og með 15. júlí til 5. ágúst vegna sumarleyfa starfsfólks.

Opið verður áfram á sýningar safnsins eins og venjulega, kl. 12–17 alla daga, nema þriðjudaga.

Aðgangur ókeypis.

Sjáumst í Hafnarborg í sumar!

Sönghátíð – námskeið fyrir börn og fullorðna

Hin árlega Sönghátíð í Hafnarborg verður haldin í þriðja sinn dagana 28. júní–14. júlí 2019. Á hátíðinni verður boðið upp á alls sjö tónleika með framúrskarandi söngvurum og hljóðfæraleikurum, auk margvíslegra námskeiða fyrir börn og fullorðna, leika sem lærða.

Námskeiðin sem boðið er upp á í ár eru:

Auk þess er boðið upp á master class fyrir unga söngvara og söngnemendur með Kristni Sigmundssyni.

Sönghátíð í Hafnarborg var stofnuð með það að markmiði að koma list raddarinnar á framfæri en listrænir stjórnendur eru Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og Francisco Javier Jáuregui. Nánari upplýsingar um námskeiðið og hátíðina má finna á www.songhatid.is.

Sönghátíð – krílasöngur

Við syngjum, dönsum og hlustum á tónlist saman. Nánd og snerting styrkir tengslamyndun milli foreldra og barna og sönggleðin styrkist. Þá sýna rannsóknir meðal annars að tónlist örvar hreyfi- og tilfinningaþroska barna. Tónlistarstundirnar örva því öll skynsvið krílanna og þau njóta þess að vera með öðrum börnum og hinum fullorðnu. Börnin skynja stemninguna sem skapast og upplifa gleðina í umhverfinu. Krílasöngurinn er hugsaður fyrir öll ungbörn en kennari er Svafa Þórhallsdóttir.

Dagsetningar:
Föstudaginn 5. júlí kl. 16 eða
sunnudaginn 7. júlí kl. 11.

Námskeiðsgjald:
1.500 kr. á barn í eitt skipti.

Lengd:
45 mínútur.

Skráning fer fram í gegnum netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is.

Vinsamlegast látið upplýsingar um nafn og kennitölu barns, nöfn foreldra eða forráðamanna, símanúmer og netfang fylgja umsókninni. Endilega hafið samband í síma 585 5790, ef eitthvað er óljóst varðandi skráninguna. Nánari upplýsingar um námskeiðið og hátíðina má finna á www.songhatid.is.

Sönghátíð – söngnámskeið með Guðrúnu Jóhönnu

Sönghátíð í Hafnarborg býður upp á tveggja daga söngnámskeið fyrir áhugafólk um söng með mezzósópransöngkonunni Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur. Farið verður í ýmislegt varðandi söngtækni, svo sem líkamsstöðu, öndun, stuðning, sérhljóðamyndun, að syngja hreint, hátt og lágt, veikt og sterkt. Markmið námskeiðsins er að nemendur nái að njóta þess að syngja af enn meira frelsi en áður. Námskeiðið er tilvalið fyrir alla þá sem hafa gaman af því að syngja og vilja ná betra valdi á röddinni, eins og t.d. þá sem syngja í kór. Ekki er nauðsynlegt að hafa lært söng áður, verið í tónlistarskóla eða að kunna að lesa nótur. Aldurslágmark er 13 ár en það er ekkert aldurshámark.

Dagsetningar:
Laugardaginn 6. júlí kl. 15–17 og
Sunnudaginn 7. júlí kl. 15–17.

Námskeiðsgjald (2 klst. í 2 daga):
9.900 kr. Innifalinn er einn boðsmiði á eina tónleika að eigin vali á Sönghátíð í Hafnarborg. Athugið að fjöldi þátttakenda er takmarkaður.

Skráning fer fram í gegnum netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is.

Vinsamlegast látið upplýsingar um nafn, kennitölu, símanúmer og netfang fylgja umsókninni. Endilega hafið samband í síma 585 5790, ef eitthvað er óljóst varðandi skráninguna. Nánari upplýsingar um námskeiðið og hátíðina má finna á www.songhatid.is.