Casta diva – Sigrún Hjálmtýsdóttir

Í þessum mánuði falla því miður niður aðrir hádegistónleikar vegna aðstæðna, þrátt fyrir breytt viðmið um samkomubann, sem tóku gildi í gær. Þá verður áfram nokkur röskun á starfsemi Hafnarborgar, einkum með tilliti til tónleika og annarra stórra viðburða.

Í staðinn munum við þó halda áfram að deila með ykkur efni hér á netinu, bæði tónlist og myndlist, og hér viljum við einmitt deila með ykkur þessum undurfögru tónum, þar sem hin ástsæla sópransöngkona Diddú, Sigrún Hjálmtýsdóttir, syngur aríuna „Casta diva“ úr óperunni Normu eftir Bellini, ásamt Antoníu Hevesi, listrænum stjórnanda hádegistónleika í Hafnarborg, sem leikur á píanó.

Við hlökkum svo til að deila listinni með ykkur áfram, bæði hér á samfélagsmiðlum og eins í raunheimum, nú þegar loksins er búið að opna safnið gestum á ný.

Sumarnámskeið Hafnarborgar 2020

Í sumar verður boðið upp á myndlistarnámskeið fyrir börn á aldrinum 6–12 ára í Hafnarborg. Farið verður í rannsóknarleiðangra og undirstöðuatriði myndlistar kynnt í gegnum rannsóknir á umhverfinu, sýningar í safninu og skapandi vinnu.

Í boði eru þrjú 5 daga námskeið fyrir aldurshópana 6–9 ára og 10–12 ára, þar sem unnin verða verkefni í fjölbreytta miðla – teiknað, málað og mótað – með það að markmiði að þjálfa sjónræna athygli, örva skapandi hugsun og persónulega tjáningu barnanna. Ekkert námskeiðanna verður eins og er börnum því velkomið að taka þátt í fleiri en einu námskeiði, eins og fyrri ár. Leiðbeinendur verða Ólöf Bjarnadóttir og Unnur Mjöll S. Leifsdóttir.

Síðasta námskeiðið verður svo með sérstöku sönglistarívafi, þar sem annar hluti dagsins fer í að vinna með myndlist og hinn hluti dagsins fer í að vinna með tónlist, undir handleiðslu Ingibjargar Fríðu Helgadóttur og Sigurðar Inga Einarssonar, en í tónlistarsmiðjunum verður megináhersla lögð á að virkja og efla sköpunakraft þátttakenda – allt má, ekkert er bannað og engar hugmyndir eru lélegar.

Í tónlistarsmiðjunum vinna þátttakendur með tónlist og texta að einhvers konar lokaafurð sem verður síðan flutt á fjölskyldutónleikum á Sönghátíð í Hafnarborg. Það er velkomið að koma með og spila á sín eigin hljóðfæri, syngja eða jafnvel búa til nýtt hljóðfæri. Það er þó heldur ekki nauðsynlegt að kunna á hljóðfæri, því leiðbeinendurnir munu sjá til þess að allir fái að láta ljós sitt skína. Þá verður frítt inn á fjölskyldutónleikana sem munu fara fram föstudaginn 3. júlí kl. 17.

Boðið verður upp á eftirfarandi sumarnámskeið:

12.–19. júní
6–9 ára: kl. 9:00–12:00
10–12 ára: kl. 13:00–16:00

22. júní–26. júní
6–9 ára: kl. 9:00–12:00
10–12 ára: kl. 13:00–16:00

29. júní–3. júlí
6–9 ára: kl. 9:00–12:00
10–12 ára:kl. 13:00–16:00

Námskeiðsgjald er 14.000 krónur fyrir 5 daga námskeið.

  • Systkinaafsláttur: fullt gjald er greitt fyrir eitt barn en 50% afsláttur er veittur af námskeiðsgjaldi annarra systkina.
  • Vinsamlegast látið vita ef barn er með sérþarfir sem taka þarf tillit til.

Opnað verður fyrir skráningu miðvikudaginn 13. maí í gegnum umsóknarvefinn Völu. Athugið að fjöldi þátttakenda í sumarnámskeiðunum er takmarkaður. Frekari upplýsingar um sumarnámskeiðin eru veittar í síma 585 5790 eða í gegnum netfangið
hafnarborg@hafnarfjordur.is.

Hafnarfjörður – vefsýning og leiðsögn

Ágústa Kristófersdóttir fjallar hér um valin verk úr safneign Hafnarborgar, sem sýna Hafnarfjörð, hvert með sínum hætti. Þar má sjá bæinn í gegnum augu listamanna – þar á meðal sumra af helstu meisturum íslenskrar myndlistar – sem vinna bæði á ólíkum tímum og með ólíka miðla, svo sem málverk, teikningar, grafík og ljósmyndir.

Verkin sem fjallað er um hér eru eftir Jón Hróbjartsson, Hörð Ágústsson, Nínu Tryggvadóttur, Gunnlaug Scheving, Gretu Björnsson, Eggert F. Guðmundsson, Gunnar Hjaltason, Pétur Friðrik Sigurðsson, Jón Þorleifsson, Erlu Stefánsdóttur, Árna B. Elfar, Spessa og Astrid Kruse Jensen.

Samhliða þessari leiðsögn höfum við þá opnað sérstaka vefsýningu á heimasíðu Sarps, þar sem hægt er að fræðast nánar um verkin, auk þess sem þar má finna upplýsingar um önnur verk í safneign Hafnarborgar.

Leiðsögnin er bæði textuð á íslensku og ensku.

Samkomubann – opið eins og venjulega frá 4. maí

Hafnarborg opnar gestum á ný, í samræmi við breytt viðmið um samkomubann, frá og með mánudaginum 4. maí. Opið verður eins og venjulega, alla daga, nema þriðjudaga, kl. 12–17, og aðgangur er ókeypis.

Í Hafnarborg stendur nú yfir sýningin Þögult vor, eftir Herttu Kiiski, Katrínu Elvarsdóttur og Lilju Birgisdóttur, í sýningarstjórn Daríu Sólar Andrews. Þar kalla þær fram hlýjar tilfinningar til náttúrunnar og vekja okkur til umhugsunar um þau áhrif sem skaðvænlegar neysluvenjur okkar hafa á umhverfið. Sýningin er hluti af Ljósmyndahátíð Íslands.

Áfram leggjum við áherslu á þrif og sótthreinsun, þar sem sérlega er hugað að helstu snertiflötum, hurðarhúnum, handriðum og slíku. Einnig eru gestir hvattir til að gæta hæfilegrar fjarlægðar hver við annan, jafnt í sýningarsölum og afgreiðslu safnsins.

Við hlökkum til að taka aftur á móti ykkur í Hafnarborg – í raunheimum.

De’ miei bollenti spiriti – Gissur Páll Gissurarson

Í tilefni sumardagsins fyrsta deilum við hér með ykkur nokkrum ljúfum tónum til að hjálpa ykkur að komast í sumarskapið.

Þá syngur Gissur Pál Gissurarson, tenór, hina þróttmiklu aríu „De’ miei bollenti spiriti“ úr La traviata eftir Verdi og Antonía Hevesi, listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, leikur á píanó.

Þá óskum við öllum vinum Hafnarborgar gleðilegs sumars og hlökkum til að sjá ykkur aftur í safninu á sumarmánuðum.

 

Þögult vor – rafræn leiðsögn um sýninguna

Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, fjallar hér um sýninguna Þögult vor, eftir myndlistarkonurnar Herttu Kiiski, Katrínu Elvarsdóttur og Lilju Birgisdóttur. Sýningin opnaði í janúar sem hluti af Ljósmyndahátíð Íslands 2020 en sýningarstjóri er Daría Sól Andrews.

Á sýningunni kalla Lilja, Hertta og Katrín fram hlýjar tilfinningar til náttúrunnar í þeirri von að vekja okkur til umhugsunar um skaðleg áhrif okkar á lífríki jarðarinnar. Andspænis hnattrænni hlýnun beita þær þá bæði ljósmyndamiðlinum og næmri, efnislegri nálgun við umhverfi sem þarfnast jafnt athygli og alúðar.

Sýningin hefur verið framlengd fram í miðjan maí, í ljósi aðstæðna, en meðan safnið er lokað vegna samkomubanns vonum við að þið njótið þess að skoða sýninguna hér í staðinn.

Leiðsögnin er bæði textuð á íslensku og ensku.

Páskakveðja – frá Hafnarborg til ykkar

Hafnarborg óskar ykkur öllum, vinum og velunnurum stofnunarinnar, gleðilegra páska. Síðustu vikur hefur safnið verið lokað gestum, eins og flestum er eflaust kunnugt, og verður svo áfram meðan hert samkomubann er í gildi.

Þá höfum við gert nokkur myndbönd til að deila með ykkur en myndböndin má finna á samfélagsmiðlum, svo sem síðu Hafnarborgar á Facebook og nýrri síðu safnsins á YouTube, auk þess sem við birtum reglulega myndir frá starfinu, sýningum og fleiru á Instagram.

Við hlökkum svo til að taka aftur á móti ykkur í Hafnarborg, áður en langt um líður, en í millitíðinni vonumst við áfram til að geta veitt ykkur öðruvísi innsýn í safnið og jafnvel stytt ykkur stundir.

      

Una furtiva lagrima – Gissur Páll Gissurarson

Því miður falla hádegistónleikar mánaðarins niður vegna samkomubanns en við viljum bjóða ykkur upp á eitt lag hér í staðinn, til að létta lundina í aðdraganda páska.

Þá eru það Gissur Páll Gissurarson, tenór, og Antonía Hevesi, píanóleikari og listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, sem flytja aríuna „Una furtiva lagrima“ úr Ástardrykknum eftir Donizetti.

Við hlökkum svo til að sjá ykkur aftur á hádegistónleikum í Hafnarborg – vonandi áður en langt um líður.

Far – niðurtaka og rafræn leiðsögn

Sýningin Far opnaði í tilefni Ljósmyndahátíðar Íslands í upphafi árs en henni lauk í síðustu viku með hertu samkomubanni. Þá höfum við tekið sýninguna niður til þess að geta nýtt bæði þennan tíma og sýningarsalinn til að sinna mikilvægu innra starfi stofnunarinnar, með yfirferð og endurskipulagningu á safnkosti Hafnarborgar.

Á sýningunni mátti sjá samtal á milli verka þeirra Þórdísar Jóhannesdóttur, myndlistarmanns, og Ralphs Hannam, áhugaljósmyndara sem starfaði hér á landi um miðja síðustu öld. Þrátt fyrir að sýningunni sé lokið, gefst ykkur nú kostur á að upplifa hana hér í netheimum í gegnum þessa rafrænu leiðsögn, þar sem Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, segir frá tilkomu sýningarinnar, sköpunarferli listamannanna og völdum verkum á sýningunni.

Við þökkum öllum sem lögðu leið sína í Hafnarborg til að skoða sýninguna, á meðan henni stóð, og vonum að allir megi njóta hennar hér – bæði þeir sem eru að sjá hana í fyrsta sinn og þeir sem hafa séð hana áður. Við hvetjum ykkur enn fremur til að sækja innblástur í þeirra nálgun og finna áhugaverð sjónarhorn í kringum ykkur, í ykkar eigin daglega lífi.

Leiðsögnin er bæði textuð á íslensku og ensku.

Styrkúthlutanir myndlistar- og safnasjóðs 2020

Tilkynntar hafa verið styrkúthlutanir myndlistar- og safnasjóðs fyrir árið 2020. Hafnarborg fagnar og þakkar fyrir þá styrki sem veittir eru til verkefna safnsins. Úr safnasjóði hlaut Hafnarborg styrk til tveggja verkefna: Hafnarborg og heilsubærinn (1.500.000 kr.) og Ljósmyndir á ytri vef – samningur við Myndstef (800.000 kr.). Vinna er þegar hafin við bæði verkefnin.

Í samvinnu við Byggðasafn Hafnarfjarðar og fleiri fékk Hafnarborg einnig úthlutað öndvegisstyrk til eins verkefnis: Samstarf um safnfræðslu – stefnumótun og innleiðing (12.000.000 kr. yfir fjögurra ára tímabil).

Þá hlaut Hafnarborg styrk úr myndlistarsjóði til tveggja sýningarverkefna: Borgarhljóðvistir í formi ensks lystigarðs – sýning Davíðs Brynjars Franzsonar, tónskálds, í sýningarstjórn Þráins Hjálmarssonar (300.000 kr.) og Sýningarskrá fyrir sýninguna Lengi skal manninn reyna – verk Þorvaldar Þorsteinssonar, í samstarfi við Listasafnið á Akureyri (500.000 kr.).

Auk þess fengu sýningarstjórar haustsýningar ársins 2020, Becky Forsythe og Penelope Smart, styrk upp á 800.000 kr. til framleiðslu sýningarinnar Villiblómsins, þar sem nýstárlegri linsu verður beint að vilja okkar til að kanna náttúruna.

Styrkveitingar þessar eru mikilvægur liður í því að starfsemi Hafnarborgar geti blómstrað og þjónað samfélaginu með áhugaverðum verkefnum, jafnframt því að vera örvandi vettvangur listsköpunar og skapandi samtals.