Haustsýning 2021 – kallað eftir tillögum

Eins og undanfarin ár gefst sýningarstjórum tækifæri til að senda inn tillögur að haustsýningu næsta árs í Hafnarborg. Haustsýningaröðin hóf göngu sína árið 2011 og hafa síðan verið settar upp tíu sýningar í röðinni. Haustsýning Hafnarborgar í ár, Villiblómið, sem opnaði 29. ágúst, var valin með sama hætti, úr þeim tillögum sem bárust á síðasta ári.

Markmiðið með því að óska eftir innsendum tillögum er að fá tækifæri til að velja til samstarfs sýningarstjóra, sem leggja fram áhugaverðar tillögur að sýningum, en jafnframt að kalla til leiks nýtt fólk. Þannig er sérstaklega hugað að því að veita tækifæri sýningarstjórum með stuttan feril að baki. Það hefur sýnt sig að fyllsta ástæða er til að halda úti slíku verkefni en út frá því hafa orðið til fjölbreyttar sýningar, sem vakið hafa athygli og fengið góða aðsókn.

Óskað er eftir hugmyndum að samsýningum þar sem viðfangsefni, vinnuaðferð eða aðrar hugmyndir tengja verk listamanna en einnig koma til greina sýningar sem fela í sér greiningu eða sérstaka sýn á verk ákveðins listamanns. Jafnt koma til greina sýningar á verkum samtímalistamanna og sýningar sem fela í sér sögulega greiningu. Það er listráð Hafnarborgar, ásamt forstöðumanni, sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna ár hvert.

Frestur til að skila inn tillögum rennur út 25. október.

Aðeins er tekið við tillögum rafrænt á netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is.


Umsóknarferli

Umsóknarferlið er tvískipt. Vinsamlegast kynnið ykkur ferlið vel með því að fara yfir þau atriði sem óskað er eftir hér fyrir neðan.

1. hluti

Í fyrri umferð er óskað eftir eftirfarandi upplýsingum:

 • Lýsingu á verkefninu þar sem lögð er áhersla á hugmyndina að baki sýningunni (hámark 1000 orð).
 • Ferilskrá sýningarstjóra.
 • Stuttum ferilskrám listmanns/-manna og annarra sem lagt er til að verði hluti af sýningarverkefninu.

Vinsamlegast gefið eins nákvæma lýsingu og unnt er en virðið uppgefinn orðafjölda. Myndefni sem er lýsandi fyrir verkefnið má fylgja með tillögunni. Kynnið ykkur vel húsnæði Hafnarborgar áður en tillögur eru sendar inn. Listráð Hafnarborgar, ásamt forstöðumanni, metur innsendar tillögur og velur úr hópi þeirra tillögur til frekari skoðunar.

2. hluti

Sýningarstjórum, sem eiga þær tillögur sem valdar eru til frekari skoðunar, verður boðið að kynna hugmyndir sínar og senda inn ítarefni, s.s. sýningarskrár, myndefni eða myndbönd, auk þess sem vinna þarf að raunhæfri fjárhagsáætlun fyrir sýninguna. Reiknað er með að sýningin og vinnan við hana falli að fjárhagsáætlun safnsins eða að leitað verði leiða til að fá sérstakan stuðning við verkefnið.

Við mat á tillögum verða eftirfarandi atriði skoðuð:

 • Val á listamönnum.
 • Hvort sýningin kynni nýstárlega sýn á myndlist, t.d. innihald og/eða miðla.
 • Hvort um sé að ræða ný eða eldri verk eða jafnvel blanda nýrra og eldri.
 • Hvort sýningin hafi sérstaka skírskotun til Hafnarborgar, þ.e. safneignar, umhverfis, bæjarlífs o.s.frv.
 • Hvort sýningin nýti rými Hafnarborgar á frumlegan hátt.
 • Ferill sýningarstjóra (sérstaklega er leitað eftir sýningarstjórum sem ekki eiga langan feril að baki).
 • Tillögur að dagskrá í tengslum við sýninguna (leiðsögn, málþing, námskeið o.s.frv.).
 • Tillögur að hugsanlegri útgáfu.
 • Að kostnaður við verkefnið sé innan viðráðanlegra marka (nánari útfærsla kostnaðar fer fram í síðari hluta ferlisins).

Teikningar af sölum Hafnarborgar má sjá hér. Þær eru ætlaðar til viðmiðunar við undirbúning tillagna en ekki er þess krafist að sýningar séu hannaðar nákvæmlega inn í rýmið.


Vinsamlegast sendið tillögur á netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is, merktar „Haustsýning 2021“. Send verður staðfesting á því að tillagan hafi borist. Bent er á að hafa samband í síma 585 5790, ef staðfesting berst ekki. Allar niðurstöður verða sendar með tölvupósti.

Nánari upplýsingar veitir skrifstofa Hafnarborgar í síma 585 5790.

Hádegistónleikar – Streymi

Hér má fylgjast með STREYMI hádegistónleikanna með Gissuri Páli Gissurarsyni og Antoníu Hevesi.

Hádegistónleikar – fullbókað

Vinsamlegast athugið að fullbókað er á hádegistónleika Gissurs Páls Gissurarsonar sem fara fram á morgun, þriðjudaginn 1. september kl. 12.

Við þökkum kærlega fyrir stórgóð viðbrögð og hlökkum til að sjá ykkur á morgun.

Einnig minnum við á að tónleikunum verður streymt á netinu, bæði hér og á Facebook-síðu Hafnarborgar.

Athugið – lokað vegna uppsetningar

Vinsamlegast athugið að Hafnarborg er lokuð vegna uppsetningar nýrra sýninga dagana 24. til 28. ágúst.

Næstu sýningar safnsins eru haustsýningin Villiblómið, í sýningarstjórn Becky Forsythe og Penelepe Smart, og sýning Davíðs Brynjars Franzsonar, Borgarhljóðvist í formi ensks lystigarðs, í sýningarstjórn Þráins Hjálmarssonar, sem sett verður upp í Sverrissal sem hefur verið lokaður síðan í byrjun vors vegna flutninga á safnkosti Hafnarborgar í nýja geymsluaðstöðu. Hér fyrir neðan má hins vegar sjá – og heyra – stutta stiklu fyrir sýningu Davíðs, þar sem athygli okkar er beint að þætti borgarhljóðvistar í upplifun okkar af stað og tíma.

Sýningarnar verða opnar samkvæmt hefðbundnum opnunartíma safnsins frá og með laugardeginum 29. ágúst. Ráðgert er að sýningarnar standi til 25. október, með fyrirvara um breytingar. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir svo lengi sem húsrúm, fjarlægðarmörk og fjöldatakmarkanir leyfa.

Athugið – opið eins og venjulega

Í samræmi við breytt viðmið sóttvarnalæknis, sem tóku gildi 31. júlí, vekjum við athygli á því að safnið er opið eins og venjulega, þar sem tryggja má að tilmæli heilbrigðisyfirvalda séu virt í hvívetna.

Eins og áður leggjum við sérstaka áherslu á smitgát og hreinlæti, þar sem helstu snertifletir eru sótthreinsaðir reglulega og gestir eru minntir á að gæta tveggja metra fjarlægðar hver við annan, jafnt í sýningarsölum og afgreiðslu safnsins, auk þess sem gott aðgengi er bæði að handspritti og handlaugum.

Safnið er opið alla daga, nema þriðjudaga, kl. 12–17 og aðgangur er ókeypis.

Sumarleyfi – skrifstofa Hafnarborgar lokuð

Skrifstofa Hafnarborgar verður lokuð frá og með 13. júlí til 4. ágúst vegna sumarleyfa starfsfólks.

Safnið verður þó vitanlega opið áfram eins og venjulega, kl. 12–17 alla daga, nema þriðjudaga.

Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.

Je veux vivre – Sigrún Hjálmtýsdóttir

Gleðilegan þjóðhátíðardag, kæru vinir nær og fjær, og verið öll hjartanlega velkomin í Hafnarborg til að fagna með okkur.

Í tilefni dagsins viljum við deila með ykkur þessu myndbandi, þar sem hin ástsæla sópransöngkona Diddú, Sigrún Hjálmtýsdóttir, flytur líflegu aríuna „Je veux vivre“ úr óperunni Roméo et Juliette eftir Gounod, ásamt Antoníu Hevesi, píanóleikara og listrænum stjórnanda hádegistónleika í Hafnarborg.

Safnið er opið í dag kl. 12–17 og aðgangur er ókeypis, eins og venjulega, auk þess sem njóta má lifandi djasstónlistar á safninu í eftirmiðdaginn.

Casta diva – Sigrún Hjálmtýsdóttir

Í þessum mánuði falla því miður niður aðrir hádegistónleikar vegna aðstæðna, þrátt fyrir breytt viðmið um samkomubann, sem tóku gildi í gær. Þá verður áfram nokkur röskun á starfsemi Hafnarborgar, einkum með tilliti til tónleika og annarra stórra viðburða.

Í staðinn munum við þó halda áfram að deila með ykkur efni hér á netinu, bæði tónlist og myndlist, og hér viljum við einmitt deila með ykkur þessum undurfögru tónum, þar sem hin ástsæla sópransöngkona Diddú, Sigrún Hjálmtýsdóttir, syngur aríuna „Casta diva“ úr óperunni Normu eftir Bellini, ásamt Antoníu Hevesi, listrænum stjórnanda hádegistónleika í Hafnarborg, sem leikur á píanó.

Við hlökkum svo til að deila listinni með ykkur áfram, bæði hér á samfélagsmiðlum og eins í raunheimum, nú þegar loksins er búið að opna safnið gestum á ný.

Sumarnámskeið Hafnarborgar 2020

Í sumar verður boðið upp á myndlistarnámskeið fyrir börn á aldrinum 6–12 ára í Hafnarborg. Farið verður í rannsóknarleiðangra og undirstöðuatriði myndlistar kynnt í gegnum rannsóknir á umhverfinu, sýningar í safninu og skapandi vinnu.

Í boði eru þrjú 5 daga námskeið fyrir aldurshópana 6–9 ára og 10–12 ára, þar sem unnin verða verkefni í fjölbreytta miðla – teiknað, málað og mótað – með það að markmiði að þjálfa sjónræna athygli, örva skapandi hugsun og persónulega tjáningu barnanna. Ekkert námskeiðanna verður eins og er börnum því velkomið að taka þátt í fleiri en einu námskeiði, eins og fyrri ár. Leiðbeinendur verða Ólöf Bjarnadóttir og Unnur Mjöll S. Leifsdóttir.

Síðasta námskeiðið verður svo með sérstöku sönglistarívafi, þar sem annar hluti dagsins fer í að vinna með myndlist og hinn hluti dagsins fer í að vinna með tónlist, undir handleiðslu Ingibjargar Fríðu Helgadóttur og Sigurðar Inga Einarssonar, en í tónlistarsmiðjunum verður megináhersla lögð á að virkja og efla sköpunakraft þátttakenda – allt má, ekkert er bannað og engar hugmyndir eru lélegar.

Í tónlistarsmiðjunum vinna þátttakendur með tónlist og texta að einhvers konar lokaafurð sem verður síðan flutt á fjölskyldutónleikum á Sönghátíð í Hafnarborg. Það er velkomið að koma með og spila á sín eigin hljóðfæri, syngja eða jafnvel búa til nýtt hljóðfæri. Það er þó heldur ekki nauðsynlegt að kunna á hljóðfæri, því leiðbeinendurnir munu sjá til þess að allir fái að láta ljós sitt skína. Þá verður frítt inn á fjölskyldutónleikana sem munu fara fram föstudaginn 3. júlí kl. 17.

Boðið verður upp á eftirfarandi sumarnámskeið:

12.–19. júní
6–9 ára: kl. 9:00–12:00
10–12 ára: kl. 13:00–16:00

22. júní–26. júní
6–9 ára: kl. 9:00–12:00
10–12 ára: kl. 13:00–16:00

29. júní–3. júlí
6–9 ára: kl. 9:00–12:00
10–12 ára:kl. 13:00–16:00

Námskeiðsgjald er 14.000 krónur fyrir 5 daga námskeið.

 • Systkinaafsláttur: fullt gjald er greitt fyrir eitt barn en 50% afsláttur er veittur af námskeiðsgjaldi annarra systkina.
 • Vinsamlegast látið vita ef barn er með sérþarfir sem taka þarf tillit til.

Opnað verður fyrir skráningu miðvikudaginn 13. maí í gegnum umsóknarvefinn Völu. Athugið að fjöldi þátttakenda í sumarnámskeiðunum er takmarkaður. Frekari upplýsingar um sumarnámskeiðin eru veittar í síma 585 5790 eða í gegnum netfangið
hafnarborg@hafnarfjordur.is.

Hafnarfjörður – vefsýning og leiðsögn

Ágústa Kristófersdóttir fjallar hér um valin verk úr safneign Hafnarborgar, sem sýna Hafnarfjörð, hvert með sínum hætti. Þar má sjá bæinn í gegnum augu listamanna – þar á meðal sumra af helstu meisturum íslenskrar myndlistar – sem vinna bæði á ólíkum tímum og með ólíka miðla, svo sem málverk, teikningar, grafík og ljósmyndir.

Verkin sem fjallað er um hér eru eftir Jón Hróbjartsson, Hörð Ágústsson, Nínu Tryggvadóttur, Gunnlaug Scheving, Gretu Björnsson, Eggert F. Guðmundsson, Gunnar Hjaltason, Pétur Friðrik Sigurðsson, Jón Þorleifsson, Erlu Stefánsdóttur, Árna B. Elfar, Spessa og Astrid Kruse Jensen.

Samhliða þessari leiðsögn höfum við þá opnað sérstaka vefsýningu á heimasíðu Sarps, þar sem hægt er að fræðast nánar um verkin, auk þess sem þar má finna upplýsingar um önnur verk í safneign Hafnarborgar.

Leiðsögnin er bæði textuð á íslensku og ensku.