Páskar 2024 – opnunartími í Hafnarborg

Nú líður senn að páskum og sendir starfsfólk Hafnarborgar vinum og velunnurum safnsins hugheilar óskir um gleðilega hátíð. Þá vekjum við athygli á opnunartímanum hjá okkur um páskana:

Skírdagur 28. mars
Opið kl. 12–17

Föstudagurinn langi 29. mars
Lokað

Laugardagur 30. mars
Opið kl. 12–17

Páskadagur 31. mars
Lokað

Annar í páskum 1. apríl
Opið kl. 12–17

Aðgangur ókeypis verið öll velkomin.

Íslensku tónlistarverðlaunin 2024 – Andrés Þór flytjandi ársins

Starfsfólk Hafnarborgar óskar Andrési Þór Gunnlaugssyni hjartanlega til hamingju með útnefninguna sem „flytjandi ársins“ í flokki djasstónlistar á Íslensku tónlistarverðlaununum 2024.

Andrés Þór er meðal annars stofnandi og listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar Síðdegistóna í Hafnarborg, sem hóf göngu sína í safninu árið 2020, en þar hafa stigið á stokk fjölmargar af okkar björtustu stjörnum á íslensku djasssenunni, oft ásamt Andrési sjálfum á gítar.

Þá notum við tækifærið til þess að óska öllum þeim sem tilnefnd voru til Íslensku tónlistarverðlaunanna til hamingju en það gladdi okkur mjög að sjá mörg úr hópi þeirra sem komið hafa fram í Hafnarborg á síðustu árum á meðal tilnefndra.

Húrra fyrir öllu okkar frábæra tónlistarfólki!

Aðalúthlutun safnasjóðs 2024 – verkefni Hafnarborgar

Á Ársfundi höfuðsafna og safnaráðs, sem haldinn var í vikunni, var tilkynnt um aðalúthlutun safnasjóðs árið 2024 en að þessu sinni hlaut Hafnarborg styrki til tveggja verkefna.

Þá veitir sjóðurinn styrk til fræðsluverkefnisins og viðburðaraðarinnar Á mínu máli, þar sem boðið er upp á listasmiðjur og leiðsagnir með fagfólki á erlendum tungumálum, en röðin hóf göngu sína á síðasta ári með styrk úr safnasjóði.

Einnig hlaut safnið styrk til uppsetningar viðamikillar einkasýningar á verkum ljósmyndarans Péturs Thomsen sem haldin verður í aðalsal Hafnarborgar undir lok ársins.

Það var Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, sem afhenti styrkina við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Starfsfólk Hafnarborgar þakkar innilega fyrir styrkina, sem stuðla að því að safnið fái enn betur þjónað samfélaginu og verið öflugur vettvangur lista og menningar í Hafnarfirði.

Lokað vegna uppsetningar – opnun 13. janúar

Vinsamlegast athugið að Hafnarborg verður lokuð vegna uppsetningar nýrra sýninga dagana 3. til 13. janúar. Þá bjóðum við ykkur velkomin á fyrstu opnun ársins laugardaginn 13. janúar kl. 14. Við það tilefni verða opnaðar sýningarnar Flæðarmál, þar sem litið er yfir feril listakonunnar Jónínu Guðnadóttur, og í Sverrissal er það svo einkasýning myndlistarmannsins Þórs Sigurþórssonar sem mun sýna ný verk.

Þá bendum við þeim sem eiga erindi í safnbúð Hafnarborgar á þessum tíma á að hringja í okkur í síma 585 5790.

Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda og hlökkum til að sjá ykkur á opnun.

Jóla- og nýárskveðja frá Hafnarborg

Starfsfólk Hafnarborgar óskar ykkur öllum, vinum og velunnurum stofnunarinnar, gleðilegra jóla og gæfuríks komandi árs, með hugheilum þökkum fyrir árið sem er að líða.

Hlökkum til að taka á móti ykkur í Hafnarborg á nýju ári.

Jól 2023 – opnunartími sýninga

Við bjóðum ykkur hjartanlega velkomin í Hafnarborg á Þorláksmessu og eins á milli jóla og nýárs en opnunartími yfir hátíðarnar er eftirfarandi:

Þorláksmessa 23. desember – opið kl. 12–17

Aðfangadagur 24. desember – lokað

Jóladagur 25. desember – lokað

Annar í jólum 26. desember – lokað

27.–30. desember – opið kl. 12–17

Gamlársdagur 31. desember – lokað

Nýársdagur 1. janúar – lokað

Þá er 30. desember jafnframt síðasti dagurinn til þess að sjá sýningarnar Landslag fyrir útvalda og GILDI: 40 ár frá stofnun Hafnarborgar. Næstu sýningar verða svo opnaðar laugardaginn 13. janúar kl. 14 en það eru sýningarnar Flæðarmál, yfirlitssýning á verkum Jónínu Guðnadóttur, og Vísar, einkasýning Þórs Sigurþórssonar. Vinsamlegast athugið að takmörkuð starfsemi verður á skrifstofu Hafnarborgar milli jóla og nýárs.

Aðgangur ókeypis – verið öll velkomin.

Kærleikskúlan 2023 – fáanleg í safnbúð Hafnarborgar

Kærleikskúlan í ár, HEIMUR, eftir Guðjón Ketilsson er nú fáanleg í safnbúð Hafnarborgar. Kúlan er framleidd í takmörkuðu upplagi en síðustu ár hefur kúlan jafnan selst upp áður en sölutímabilinu lýkur. Allur ágóði af sölunni rennur til starfs í þágu fatlaðra barna og ungmenna.

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna hjúpar að þessu sinni Kærleikskúluna. Þunn og viðkvæm glerkúlan er undirlag og sögusvið hins mannlega sannleika, harms og áreitis sem kallar á sammannlegan sáttmála um að halda utan um mennskuna og gildi hennar gagnvart fáum en þó valdamiklum öflum. Mannréttindayfirlýsingin er rituð með bláum lit sem er ætlað að minna á jarðkúluna okkar, en vatn nemur 70% af heildaryfirborði hennar, sem er rétt rúmlega heildarmagn vatns í mannslíkamanum.

Verður kúla þessi til sem listgripur þegar 75 ár eru liðin frá því að sáttmálinn var staðfestur í því markmiði að stuðla að friðsamlegum samskiptum þjóða. Yfirlýsingin kveður á um mannréttindi sem allir eiga tilkall til óháð kynþætti, litarhætti, kynferði, tungu, trú, skoðunum, þjóðerni, uppruna, eignum, ætterni eða öðrum aðstæðum. Sköpun Kærleikskúlunnar á sér því uppsprettu í mannlegri samhygð, náungakærleika og von um friðsamlegri samskipti þjóða.

Guðjón Ketilsson (f. 1956) er einn fremsti og afkastamesti listamaður landsins en hann hlaut Íslensku myndlistarverðlaunin árið 2020. Guðjón hefur haldið yfir þrjátíu einkasýningar, þar á meðal yfirlitssýninguna Jæja á Kjarvalsstöðum árið 2022, auk þess að hafa tekið þátt í fjölda samsýninga víða um heim. Verk hans er að finna í öllum helstu listasöfnum á Íslandi og í opinberu rými hérlendis og á Norðurlöndunum. Guðjón vinnur að jöfnu að gerð teikninga og skúlptúra þar sem handverkið er í forgrunni. Verk hans rýna í mannlegt eðli, líkamann og hversdagslegt umhverfi þar sem kunnuglegir hlutir, form, orð eða ritaður texti eru dregin fram í nýju og gjarnan óvæntu samhengi.

Kærleikskúlan verður til sölu í safnbúð Hafnarborgar frá 7. til 21. desember, á meðan birgðir endast.

Landslag fyrir útvalda – enduropnun

Undanfarnar vikur hafa staðið yfir talsverðar framkvæmdir í aðalsal Hafnarborgar þar sem unnið hefur verið að því að setja upp nýjan ljósabúnað, auk þess sem loftið í salnum hefur verið málað.

Þá gleður það okkur að bjóða gesti aftur velkomna á sýninguna Landslag fyrir útvalda sem við opnum að nýju í endurbættum sal frá og með deginum í dag, laugardaginn 2. desember.

Listamennirnir sem taka þátt í sýningunni eru Arna Beth, Fritz Hendrik IV, Margrét Helga Sesseljudóttir, Sól Hansdóttir, Vikram Pradhan, Bíbí Söring og Þrándur Jóhannsson, auk þess sem sýnd eru verk eftir Eirík Smith, Patrick Huse og Sigrid Valtingojer úr safneign Hafnarborgar og Listasafns ASÍ.

Sýningarstjórar eru Eva Lín Vilhjálmsdóttir og Odda Júlía Snorradóttir.

Sýningin stendur yfir til 30. desember næstkomandi.

Ókeypis aðgangur – verið öll velkomin.

Óþekkt alúð – haustsýning Hafnarborgar 2024

Listráð Hafnarborgar hefur valið sýningartillögu Þórhildar Tinnu Sigurðardóttur úr fjölda innsendra tillagna um næstu haustsýningu safnsins árið 2024. Titill sýningarinnar er Óþekkt alúð en þátttakendur eru konur og kvár sem sýna munu ný verk í bland við eldri verk.

Óþekkt alúð er hugsuð sem leit að sannleika um samtímann og myndlist sem heilandi afl, æðra vald eða jafnvel skilaboð að handan. Sýningin mun innihalda verk eftir fjölbreyttan hóp listamanna sem mynda skipulagsbundna lífræna heild í sýningarrými Hafnarborgar og tjáir til áhorfenda skilaboð að handan í því skyni að hræra við einhverju innra með þeim. Skilaboð sem skerpa hugann en mýkja hjartað jafnframt því að veita styrk til þess að aðlagast erfiðum aðstæðum og taka af ástríkum skilningi á móti nýjum hugmyndum, sem kunna að vera fjarlægar eða framandi. Þannig verður til smáheimur sem samsvarar sjálfum alheiminum.

Markmið sýningarinnar er að særa fram heilandi frumöfl sem má finna fyrir í heiminum, á sama tíma og hún horfist í augu við rof samtímans. Listamenn sýningarinnar eiga það sameiginlegt að tala ýmist til heilandi afla, sem sýningarstjóri vísar til sem óþekktrar alúðar, eða kryfja samtímann af þessari óþekktu alúð hver á sinn hátt, á marglaga og flókinn máta. Sýningin mun kryfja þessa óþekktu alúð sem birtist sýningarstjóra sem undiralda raunveruleikans. Þá kann hún að vera missterk á tímum þótt hana megi greina sem lágstemmda togstreitu eða spennu. Spennu sem er bæði hverful og stöðug á sama tíma. Spennu sem er tengd við hjarta alheimsins, miðjuna sem allt líf sprettur af.

Nöfn þátttakenda og frekari upplýsingar verða birtar síðar.

Þórhildur Tinna Sigurðardóttir er listfræðingur og sýningarstjóri sem starfar við Myndlistarmiðstöð þar sem hún sinnir stöðu verkefnastjóra alþjóðlegra verkefna og tekur því þátt í framkvæmd Íslenska skálans á Feneyjatvíæringnum og Sequences myndlistarhátíðinni. Þá er Þórhildur Tinna jafnframt einn af aðalskipuleggjendum LungA, listahátíðar ungs fólks á Austurlandi, sem á ári hverju er skipulögð af hópi ungs fólks sem hefur einskæran áhuga á myndlist og menningu. Þórhildur Tinna útskrifaðist með BA-gráðu í listfræði frá Háskóla Íslands og lauk síðan framhaldsnámi frá King’s College, London, þar sem hún hlaut meistaragráðu í menningar- og listastjórnun með sérstaka áherslu á sýningastjórnun.

Sýningin verður sú fjórtánda í haustsýningarröð Hafnarborgar en verkefnið hefur það að markmiði að gefa upprennandi sýningarstjórum kost á að senda inn tillögu að sýningu í safninu. Það er Listráð Hafnarborgar ásamt forstöðumanni sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna ár hvert.

Lokað í Hafnarborg vegna framkvæmda

Við vekjum athygli á því að lokað verður í Hafnarborg dagana 22. og 23. nóvember meðan unnið er að því að mála loftið í móttöku safnsins. Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda og hlökkum til að taka á móti ykkur í safninu að framkvæmdunum loknum.

Safnið verður opið aftur samkvæmt auglýstum opnunartíma frá og með 24. nóvember (sjá nánar hér).