Skólaheimsókn

Hafnarborg leggur áherslu á að gefa öllum tækifæri til að kynnast menningu og listum og býður skólahópa sérstaklega velkomna í heimsókn að skoða sýningar safnsins. Markmið heimsóknarinnar er að hvetja nemendur til umhugsunar um myndlist og hönnun – að sjá, skoða, uppgötva og tjá sig.

Myndlistin endurspeglar heiminn í kringum okkur og listafólk tekst á við hinar ólíkustu og áleitustu spurningar um lífið og tilveruna. Þá er hver heimsókn sniðin að þörfum hvers hóps fyrir sig, með tilliti til efnis, áherslna og skólastigs. Miðað er við að heimsókn í safnið taki um það bil eina kennslustund en hægt er að haga lengd heimsóknarinnar að óskum hvers hóps.

Um yfirstandandi sýningar

Í undirdjúpum eigin vitundar
Gunnar Örn Gunnarsson

Á sýningunni verða sýnd verk frá öllum ferli Gunnars Arnar Gunnarssonar, sem spannar tæplega fjörtíu ár, en á þeim tíma gekk hann í gegnum nokkrar umbreytingar og stokkaði reglulega upp viðfangsefni sín. Gunnar Örn var gríðarlega afkastamikill listamaður og eftir hann liggur mikill fjöldi verka: teikningar, einþrykk, málverk og skúlptúrar, vatnslitaverk auk verka sem unnin eru með blandaðri tækni. Sýningarstjóri er Aldís Arnardóttir.

Gunnar Örn Gunnarsson lærði á selló í Kaupmannahöfn veturinn 1963-64 og sótti einnig teikninámskeið hjá Svend Nielsen í Danmörku en var að öðru leiti sjálfmenntaður í myndlist. Gunnar Örn var virkur í sýningarhaldi hér á landi, auk þess sem verk hans voru meðal annars sýnd í Danmörku, Tókýó, Búdapest og í galleríi Achims Moeller í New York. Gunnar Örn var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 1988.

Sjá nánar hér.

What’s Up, Ave Maria?
Sigurður Ámundason

Á sýningunni sýnir Sigurður Ámundason ný og nýleg verk, teikningar og vídeó, sem takast á við tákn, teikn, merki eða lógó. Slík merki hafa vægi í samfélaginu, jafnvel vald – táknmyndir sem við túlkum, sem segja okkur eitthvað, upplýsa okkur eða koma ákveðnum skilaboðum á framfæri. En hvað gerist hins vegar ef merkið sem við sjáum virðist ekki merkja neitt ákveðið? Ef merkið lítur út eins og merki, notar tungumál merkisins, en bendir ekki á neitt?

Sigurður Ámundason útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2012. Sigurður hefur haldið þrettán einkasýningar, meðal annars í Kling & Bang, Kunstschlager, Húsinu á Patreksfirði, Open, Ekkisens og Úthverfu. Hann hefur einnig tekið þátt í fjölda samsýninga. Hann hefur kennt í Myndlistaskólanum í Reykjavík og við myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Árið 2020 hlaut hann tilnefningu til hvatningarverðlauna Íslensku myndlistarverðlaunanna.

Sjá nánar hér.

Sköpun tilfinninga
Fræðslusýning

Í Hafnarborg hefur fræðslusýningin Sköpun tilfinninga nú verið sett upp, þar sem lögð er áhersla á tengsl listar og tilfinninga. Þá deildu stofnendur Hafnarborgar, Ingibjörg Sigurjónsdóttir og Sverrir Magnússon, sameiginlegum áhuga á listum en Sverrir var sjálfur í menntaskóla þegar hann upplifði það að fara á málverkasýningu í fyrsta sinn, sem hann lýsti svo: „Ég man að það var einstök tilfinning að sjá málverk í fyrsta sinn.“

Á sýningunni eru valin verk úr safneigninni skoðuð út frá ólíkum birtingarmyndum tilfinninga í listsköpun og nemendur eru hvattir til umræðna og umhugsunar um verkin. Hvernig eru tilfinningar túlkaðar í listsköpun? Getur ákveðið myndefni vakið upp sameiginlegar eða andstæðar tilfinningar hjá áhorfendum?

Sjá nánar hér.

Bóka hóp

Tekið er á móti skólahópum eftir samkomulagi alla virka daga kl. 9–16 og er heimsóknin skólum að kostnaðarlausu. Þá er almennt miðað við að fjöldi nemenda í hverjum hóp sé ekki yfir tuttugu og fimm, svo allir fái sem mest út úr heimsókninni, og er því lagt upp með að skipta fjölmennari hópum upp í tvo eða fleiri smærri hópa.

Vinsamlegast smellið hér til þess að bóka heimsókn eða hafið samband við skrifstofu með því að senda póst á [email protected].