Skólaheimsókn

Hafnarborg leggur áherslu á að gefa öllum tækifæri til að kynnast menningu og listum og býður skólahópa sérstaklega velkomna í heimsókn að skoða sýningar safnsins. Markmið heimsóknarinnar er að hvetja nemendur til umhugsunar um myndlist og hönnun – að sjá, skoða, uppgötva og tjá sig.

Myndlistin endurspeglar heiminn í kringum okkur og listafólk tekst á við hinar ólíkustu og áleitustu spurningar um lífið og tilveruna. Þá er hver heimsókn sniðin að þörfum hvers hóps fyrir sig, með tilliti til efnis, áherslna og skólastigs. Miðað er við að heimsókn í safnið taki um það bil eina kennslustund en hægt er að haga lengd heimsóknarinnar að óskum hvers hóps.

Um yfirstandandi sýningar

Gletta
Sóley Eiríksdóttir

Á sýningunni Glettu má sjá verk eftir listakonuna Sóleyju Eiríksdóttur (1957-1994), þar sem úrval skúlptúra sem hafa nú bæst við safneign Hafnarborgar leika aðalhlutverk. Verkin á sýningunni spanna feril Sóleyjar og einkennast af glettnislegum húmor og gleði.

Leir var gegnumgangandi efni í listsköpun hennar en auk þess notaði hún gjarnan steinsteypu við gerð stærri verka. Í upphafi ferils síns vann hún hins vegar að mestu hefðbundna leirmuni, sem telja má til nytjalistar, en á síðari hluta níunda áratugarins öðlast teikningar og myndefni sem áður hafði prýtt skálar og ker listakonunnar sjálfstætt líf í hinum stærri þrívíðu verkum.

Sjá nánar hér.

Án titils
Eiríkur Smith

Á sýningunni Án titils er varpað ljósi á fágæt verk eftir myndlistarmanninn Eirík Smith (1925-2016) frá þeim tíma sem geómetríska abstraktlistin var að nema land. Eiríkur Smith sneri snemma á sjötta áratugnum úr námi í París og Kaupmannahöfn, þar sem hann kynntist stefnunni og hann varð virkur þátttakandi í þessari formbyltingu hérlendis.

Þá bera verk Eiríks frá þessum árum með sér að hann hafði góð tök á myndmáli strangflatalistarinnar, enda þótt hann yrði sjálfur afhuga stílnum er á leið. Árið 1957 brenndi listamaðurinn því fjölda verka sinna frá tímabilinu í malargryfju í Hafnarfirði, svo aðeins fá slíkra hafa varðveist til okkar dags.

Sjá nánar hér.

Sköpun tilfinninga
Fræðslusýning

Í Hafnarborg hefur fræðslusýningin Sköpun tilfinninga nú verið sett upp, þar sem lögð er áhersla á tengsl listar og tilfinninga. Þá deildu stofnendur Hafnarborgar, Ingibjörg Sigurjónsdóttir og Sverrir Magnússon, sameiginlegum áhuga á listum en Sverrir var sjálfur í menntaskóla þegar hann upplifði það að fara á málverkasýningu í fyrsta sinn, sem hann lýsti svo: „Ég man að það var einstök tilfinning að sjá málverk í fyrsta sinn.“

Á sýningunni eru valin verk úr safneigninni skoðuð út frá ólíkum birtingarmyndum tilfinninga í listsköpun og nemendur eru hvattir til umræðna og umhugsunar um verkin. Hvernig eru tilfinningar túlkaðar í listsköpun? Getur ákveðið myndefni vakið upp sameiginlegar eða andstæðar tilfinningar hjá áhorfendum?

Sjá nánar hér.

Bóka hóp

Tekið er á móti skólahópum eftir samkomulagi alla virka daga kl. 9–16 og er heimsóknin skólum að kostnaðarlausu. Þá er almennt miðað við að fjöldi nemenda í hverjum hóp sé ekki yfir tuttugu og fimm, svo allir fái sem mest út úr heimsókninni, og er því lagt upp með að skipta fjölmennari hópum upp í tvo eða fleiri smærri hópa.

Vinsamlegast smellið hér til þess að bóka heimsókn eða hafið samband við skrifstofu með því að senda póst á [email protected].