Skólaheimsókn

Hafnarborg leggur áherslu á að gefa öllum tækifæri til að kynnast menningu og listum og býður skólahópa sérstaklega velkomna í heimsókn að skoða sýningar safnsins. Markmið heimsóknarinnar er að hvetja nemendur til umhugsunar um myndlist og hönnun – að sjá, skoða, uppgötva og tjá sig.

Myndlistin endurspeglar heiminn í kringum okkur og listafólk tekst á við hinar ólíkustu og áleitustu spurningar um lífið og tilveruna. Þá er hver heimsókn sniðin að þörfum hvers hóps fyrir sig, með tilliti til efnis, áherslna og skólastigs. Miðað er við að heimsókn í safnið taki um það bil eina kennslustund en hægt er að haga lengd heimsóknarinnar að óskum hvers hóps.


Um yfirstandandi sýningar

Lengi skal manninn reyna

Þorvaldur Þorsteinsson (1960-2013) var afkastamikill listamaður og kennari sem nýtti sér flesta miðla, fjölbreyttan efnivið og ólíkar aðferðir í listsköpun sinni. Undirliggjandi er einstök næmni hans á einstaklinginn og tengingu hans við samfélagið þar sem beitt skopskyn kom oft við sögu. Sýningin spannar allan feril Þorvaldar en elsta verkið er frá árinu 1987 og þau nýjustu vann hann skömmu áður en hann féll frá 2013.

Þorvaldur er mörgum, ungum sem öldnum, kunnur fyrir skáldsögur sínar og leikrit en skáldsaga hans, Skilaboðaskjóðan, sló til að mynda rækilega í gegn þegar hún kom út 1986 og var síðar færð í leikbúning og sýnd í Þjóðleikhúsinu. Eins má nefna bækurnar um Blíðfinn og Jóladagatal Sjónvarpsins, Hvar er Völundur? Þá mun Þjóðleikhúsið setja upp leikrit hans Leitina að jólunum fimmtánda árið í röð nú í aðdraganda hátíðarinnar.

Sjá nánar hér.

Söngfuglar

Á sýningunni má sjá ný verk eftir Katrínu Elvarsdóttur frá því að hún heimsótti eyna Kúbu. Þar gekk hún um götur Havana með myndavélina að vopni en hún tók sérstaklega eftir því að margir eyjarbúar halda söngfugla í búrum á heimilum sínum. Vekur þessi siður jafnvel upp spurningar um frelsi og frelsisskerðingu en saga eyjarinnar hefur til langs tíma einkennst af höftum og einangrun.

Jafnframt má spyrja sig hvort Kúbverjar finni til samkenndar með fuglunum, sem eru ekki frjálsir ferða sinna, frekar en eyjarbúar. Þá ættum við flest að eiga létt með að samsama okkur slíkri innilokunarkennd í dag, enda veldur núverandi ástand heimsins því að mörgum okkar finnst eins og við séum föst í búri, hvar sem við erum stödd á hnettinum.

Sjá nánar hér.

Sköpun tilfinninga

Í Hafnarborg hefur fræðslusýningin Sköpun tilfinninga nú verið sett upp, þar sem lögð er áhersla á tengsl listar og tilfinninga. Þá deildu stofnendur Hafnarborgar, Ingibjörg Sigurjónsdóttir og Sverrir Magnússon, sameiginlegum áhuga á listum en Sverrir var sjálfur í menntaskóla þegar hann upplifði það að fara á málverkasýningu í fyrsta sinn, sem hann lýsti svo: „Ég man að það var einstök tilfinning að sjá málverk í fyrsta sinn.“

Á sýningunni eru valin verk úr safneigninni skoðuð út frá ólíkum birtingarmyndum tilfinninga í listsköpun og nemendur eru hvattir til umræðna og umhugsunar um verkin. Hvernig eru tilfinningar túlkaðar í listsköpun? Getur ákveðið myndefni vakið upp sameiginlegar eða andstæðar tilfinningar hjá áhorfendum?

Sjá nánar hér.

Bóka hóp

Tekið er á móti skólahópum eftir samkomulagi alla virka daga kl. 9–16 og er heimsóknin skólum að kostnaðarlausu. Hægt er að bóka skólaheimsókn í síma 585 5790 eða með því að senda póst á [email protected]. Þá er almennt miðað við að fjöldi nemenda í hverjum hóp sé ekki yfir tuttugu og fimm, svo allir fái sem mest út úr heimsókninni, og er því lagt upp með að skipta fjölmennari hópum upp í tvo eða fleiri smærri hópa.