Myndlistarmenn ársins 2021 sýna í Hafnarborg

Starfsfólk Hafnarborgar óskar Libiu Castro og Ólafi Ólafssyni hjartanlega til hamingju með Myndlistarverðlaun ársins 2021, sem Myndlistarmenn ársins, fyrir verkið Í leit að töfrum – Tillögu að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland.

Þá munu Ólafur og Libia opna næstu sýningu sína, Töfrafund – Áratug síðar, í Hafnarborg laugardaginn 20. mars næstkomandi en sýningin byggir á fyrrnefndum gjörningi listamannanna og Töfrateymisins, sem fram fór í Listasafni Reykjavíkur, á götum miðborgarinnar, við Stjórnarráðið og Alþingishúsið, 3. október síðastliðinn.

Einnig óskum við öðrum verðlaunahöfum ársins innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Hlustað á listaverk – gönguferð um útilistaverk í miðbæ Hafnarfjarðar

Útivera, hreyfing, myndlist og bókmenntir sameinast í göngutúr sem er alla jafna hressandi, fræðandi og nærandi.

Gönguleið í miðbæ Hafnarfjarðar leiðir fólk á milli valinna útilistaverka sem merkt eru með snjallkóða. Þegar sími er borinn upp að kóðanum birtast upplýsingar um listaverkið ásamt stuttu innslagi úr bókmenntaheiminum sem tengist listaverkinu beint eða óbeint.

Það tekur þátttakendur um 40 mínútur að heimsækja öll verkin og hlusta á hvert innslag fyrir sig. Gengið er á malbikaðri jafnsléttu og hentar gangan því öllum áhugasömum óháð aldri og atgervi.

Kort af gönguleiðinni, auk staðsetninga listaverkanna, má sjá hér fyrir neðan:

Gagnvirkt kort af staðsetningum allra útilistaverka í safneign Hafnarborgar má einnig finna á slóðinni utilistaverk.hafnarborg.is.

Bókasafn Hafnarfjarðar og Hafnarborg halda utan um verkefnið í tengslum við Vetrarhátíð 2021.

Gunnar Hjaltason – nýtt veggspjald í safnbúð

Hafnarborg hefur sett í sölu veggspjald eftir dúkristu Gunnars Hjaltasonar, Hafnarfirði. Veggspjaldið er í stærðinni 37 x 56 cm og er prentað í takmörkuðu upplagi. Veggspjaldið kostar kr. 2.990, það fer vel í ramma og er tilvalin gjöf fyrir listunnandann. Hægt er að hafa samband við safnbúð Hafnarborgar í gegnum [email protected] eða í síma 585 5790 alla virka daga frá kl. 12–17 og panta sér eintak.

Nú stendur yfir sýning á verkum Gunnars Hjaltasonar í Sverrissal. Gunnar (1920-1999) starfaði sem gullsmiður í Hafnarfirði um árabil en ástríða hans lá í myndlist. Hann málaði með olíu, akrýl og vatnslitum en á sýningu Hafnarborgar eru grafíkverk hans í forgrunni, enda fjölmörg slík verk varðveitt í safni Hafnarborgar. Myndefnið er landslag, bæjarlandslag Hafnarfjarðar og náttúra Íslands en Gunnar var mikill áhugamaður um útivist og myndskreytti ófáar árbækur Ferðafélags Íslands.

 

 

Þrjú þúsund – stuttmynd eftir Asinnajaq

Í tengslum við sýninguna Villiblómið er það okkur mikil ánægja að deila með ykkur stuttmyndinni Þrjú þúsund (e. Three Thousand) eftir listamanninn Asinnajaq, sem spila má hér fyrir neðan, auk þess sem hlýða má á stutta kynningu listamannsins sjálfs á myndinni fyrir ofan. Í myndinni hefur Asinnajaq nýtt sér sögulegt myndefni úr safni The National Film Board of Canada í bland við eigin myndheim, þar sem hún setur nútíð, fortíð og framtíð fólks síns fram í nýju, töfrandi ljósi. Þá kafar stuttmyndin ofan í flókna sögu og segir hana upp á nýtt með von, fegurð og nýja möguleika að leiðarljósi.

Asinnajaq ᐊᓯᓐᓇᐃᔭᖅer listamaður frá Inukjuak, Nunavik. Nýjasta kvikmynd hennar, Three Thousand (2017), blandar saman gömlu myndefni og teiknimyndagerð, þar sem hún dregur upp mynd af heimabæ sínum Inukjuak í framtíðinni. Myndin hlaut verðlaun sem besta tilraunakennda myndin á imagineNATIVE Film + Media Arts Festival 2017 og var tilnefnd til Canadian Screen Awards 2018 sem besta stutta heimildarmyndin. Hún hefur sýnt verk sín í Kanada og víðar og hlotið fjölda viðurkenninga, svo sem Technicolour Clyde Gilmour Award frá Toronto Film Critics Association. Hún er meðstofnandi Tillitarniit-hátíðarinnar, sem er tileinkuð menningu Inúíta í Montréal. Asinnajaq er ein fjögurra sýningarstjóra sem starfa nú að vígslusýningu nýrrar stofnunar um myndlist Inúíta, Inuit Art Center, í Winnipeg, Kanada, sem opnar nú í ár.

Verk Asinnajaq Hvert sem þú ferð elti ég (e. Where You Go, I Follow, 2020) er sýnt í fyrsta sinn á sýningunni Villiblóminu.


Three Thousand (2017):

Hádegistónleikar í beinni – Hanna Þóra Guðbrandsdóttir

Vegna gildandi samkomutakmarkana verður hádegistónleikum Hönnu Þóru Guðbrandsdóttur og Antoníu Hevesi streymt í beinni útsendingu á netinu, bæði á Facebook og hér á heimasíðu Hafnarborgar, þar sem við getum því miður ekki tekið á móti áhorfendum í sal Hafnarborgar að þessu sinni.

Útsendingin mun hefjast kl. 12 þriðjudaginn 3. nóvember, samkvæmt venju, og stendur í um hálfa klukkustund en hægt er að horfa á tónleikana í spilaranum hér fyrir neðan. Þá verður upptakan áfram aðgengileg á netinu að tónleikunum loknum. Beina slóð á streymið má einnig finna hér.

Við vonumst svo til þess að geta tekið á móti ykkur á hádegistónleikum í Hafnarborg áður en langt um líður.

Villiblómið – „Engið tætt í sundur“

D’Arcy Wilson les hér texta sinn „Engið tætt í sundur“ (e. „Dismantling the Meadow“), sem hefst á hugmyndum 19. aldar um mál blómanna (e. The Language of Flowers) og birtist í samnefndri sýningarskrá sem gefin var út í tengslum við Villiblómið, haustsýningu Hafnarborgar 2020. Þar veltir hún fyrir sér þeirri merkingu, tilfinningum og menningu sem vestræn hugmyndafræði tengir við plöntur og jurtaríkið, er hún leggur leið sína um Villiblómið, staldrar við, hyggur að og reynir að ráða úr einstökum verkum listamannanna. Þá leiða athuganir, minningar og reynsla hennar hana inn á slóðir úthverfanna, þar sem finna má blómabeð og flókalundi ólíkra plantna, líkt og rhododendron-runnana og kanadarósina, sem vaxa við heimili hennar á austurströnd Kanada.

D’Arcy Wilson vinnur þvert á miðla en í starfi sínu hugar hún að birtingarmyndum náttúrunnar í vestrænu samhengi, þar sem hún harmar afleiðingar nýlendustefnunnar á umhverfið. Verk hennar hafa verið sýnd víða í Kanada, nú síðast í Dalhousie University Art Gallery í Halifax, The Rooms Art Gallery í St. John’s og Owens Art Gallery í Sackville, auk þess sem hún tók þátt í M:ST í Flotilla og Bonavista-tvíæringnum. Hún hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín, þar á meðal Sobey Art Award nú í ár. Wilson útskrifaðist með MFA-gráðu frá University of Calgary árið 2008. Hún gegnir nú stöðu aðstoðarprófessors við myndlistardeild Grenfell Campus, Memorial University of Newfoundland.

Villiblómið er samsýning listamanna frá Kanada og Íslandi, í sýningarstjórn Becky Forsythe og Penelope Smart. Sýningarskráin, sem texti Ingu Bjarkar birtist í, er jafnframt fáanleg í safnbúð Hafnarborgar. Sýningin mun standa yfir til 8. nóvember næstkomandi en safnið er lokað tímabundið af lýðheilsusjónarmiðum.

Villiblómið – „Mekanískt illgresi“

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir les hér texta sinn, „Mekanískt illgresi“, sem birtist í samnefndri sýningarskrá sem gefin var út í tengslum við Villiblómið, haustsýningu Hafnarborgar 2020. Þar fer hún í eins konar tímaferðalag með verki Jóns Gunnars Árnasonar (1931-1989), Blóminu, sem stendur í miðju sýningarrýminu, á eiginlegu blómaengi. Þá heldur þessi vélræni hreyfiskúlptúr áfram að teygja anga sína inn í nýjar víddir, líkt og hann hefur gert allt frá því að verkið skaut fyrst rótum á vinnustofu Jóns Gunnars árið 1967.

Inga Björk er listfræðingur og aðgerðasinni, fædd 1993. Hún hefur vakið athygli fyrir mannréttindabaráttu sína, pistlaskrif og fyrirlestra, þar sem hún tvinnar saman umfjöllun um fötlun, menningarlega fjölbreytni, vald og jaðarsetningu innan listheimsins. Inga Björk lauk MA gráðu í listfræði frá Háskóla Íslands árið 2019 en hefur á undanförnum árum starfað sem sjálfstætt starfandi listfræðingur. Hún er meðal stofnenda Plan-B Art Festival, sem fer fram í Borgarnesi ár hvert. Hún hefur einnig starfað sem sýninga- og verkefnastjóri hjá List án landamæra en hún starfar nú fyrir Landssamtökin Þroskahjálp, hagsmunasamtök fatlaðs fólks.

Villiblómið er samsýning listamanna frá Kanada og Íslandi, í sýningarstjórn Becky Forsythe og Penelope Smart. Sýningarskráin, sem texti Ingu Bjarkar birtist í, er jafnframt fáanleg í safnbúð Hafnarborgar. Sýningin mun standa yfir til 8. nóvember næstkomandi en safnið er lokað tímabundið af lýðheilsusjónarmiðum.

Hádegistónleikar í beinni – Hanna Dóra Sturludóttir

Með tilliti til lýðheilsusjónarmiða hefur verið tekin sú ákvörðun að streyma hádegistónleikum Hönnu Dóru Sturludóttur og Antoníu Hevesi í beinni útsendingu á netinu, bæði á Facebook og hér á heimasíðu Hafnarborgar, þar sem við getum því miður ekki tekið á móti áhorfendum í sal Hafnarborgar vegna fjöldatakmarkana.

Útsendingin mun hefjast kl. 12 þriðjudaginn 6. október, eins og til stóð, og stendur í um hálfa klukkustund en hægt er að horfa á tónleikana í spilaranum hér fyrir neðan. Þá verður upptakan áfram aðgengileg á netinu að tónleikunum loknum. Beina slóð á streymið má einnig finna hér.

Við vonumst svo til þess að geta tekið á móti ykkur á hádegistónleikum í Hafnarborg áður en langt um líður.

Borgarhljóðvist í formi ensks lystigarðs – lifandi viðburðir

Á hverjum laugardegi yfir sýningartíma Borgarhljóðvistar í formi ensks lystigarðs verða lifandi viðburðir, þar sem samstarfsaðilar Davíðs Brynjars Franzsonar, tónskálds, koma fram og virkja sýninguna með hljóðfæraleik og nærveru sinni. Lifandi hljóðfæraleikurinn dregur fram litbrigði og augnablik í hljóðvistinni, lystigarði hljóðs, sem gestir geta kannað, samhliða flytjandanum, á eigin forsendum jafnt í tíma og rúmi. Viðburðirnir fara fram tvisvar yfir daginn í sal sýningarinnar, kl. 14:30 og kl. 16, á eftirfarandi dagsetningum:


29. ágúst
Júlía Mogensen, sellóleikari
lifandi flutningur í Hafnarborg

5. september
Matt Barbier, básúnuleikari
beint streymi frá Los Angeles

12. september
Russell Greenberg, slagverksleikari
beint streymi frá New York

19. september
Halla Steinunn Stefánsdóttir, fiðluleikari
lifandi flutningur í Hafnarborg

26. september
Matt Barbier, básúnuleikari
beint streymi frá Los Angeles

3. október
Russell Greenberg, slagverksleikari
beint streymi frá New York

17. október
Halla Steinunn Stefánsdóttir, fiðluleikari
beint streymi frá Malmö

24. október
Júlía Mogensen, sellóleikari
beint streymi frá Hafnarborg


10. október mun Skerpla, skipuð nemendum tónlistardeildar Listaháskóla Íslands, undir handleiðslu Berglindar Maríu Tómasdóttur, prófessors við tónlistardeild skólans, halda eigin viðburð í beinu streymi frá rýminu í Hafnarborg, þar sem þau vinna út frá hugmyndum og sjónarhorni Davíðs.

Je veux vivre – Sigrún Hjálmtýsdóttir

Gleðilegan þjóðhátíðardag, kæru vinir nær og fjær, og verið öll hjartanlega velkomin í Hafnarborg til að fagna með okkur.

Í tilefni dagsins viljum við deila með ykkur þessu myndbandi, þar sem hin ástsæla sópransöngkona Diddú, Sigrún Hjálmtýsdóttir, flytur líflegu aríuna „Je veux vivre“ úr óperunni Roméo et Juliette eftir Gounod, ásamt Antoníu Hevesi, píanóleikara og listrænum stjórnanda hádegistónleika í Hafnarborg.

Safnið er opið í dag kl. 12–17 og aðgangur er ókeypis, eins og venjulega, auk þess sem njóta má lifandi djasstónlistar á safninu í eftirmiðdaginn.