Listamannaíbúð

Hafnarborg hefur til umráða listamannaíbúð með vinnuaðstöðu á þriðju hæð safnsins að Strandgötu 34 í Hafnarfirði. Kveðið er á um rekstur gestavinnustofunnar í stofnskrá safnsins og er vinnustofan jafnframt sú elsta sinnar tegundar á landinu, hafandi verið starfandi frá árinu 1986. Vinnustofan er einkum ætluð erlendum listamönnum, sem koma hvaðanæva að til að dvelja í Hafnarborg.

Gestavinnustofan er um 80 fermetrar og skiptist í eldhús, borðstofu, svefnherbergi, baðherbergi og vinnurými. Íbúðin er búin öllum helstu áhöldum, sængurfatnaði, handklæðum, þvottavél og þurrkara, auk þráðlauss nets. Gestavinnustofan er staðsett í miðbæ Hafnarfjarðar, skammt frá aðalstrætóstöð bæjarins og er því mjög auðvelt fyrir gesti að ferðast á milli staða.

Umsókn

Til að sækja um dvöl í vinnustofunni, er hægt að fylla út eyðublaðið hér að neðan. Umsóknin skal innihalda ferilskrá og myndir af minnst fimm verkum eftir umsækjanda (sendar sem viðhengi). Senda skal allar umsóknir á netfangið [email protected], merktar „Gestavinnustofa: umsókn“. Öll skjöl skulu vera á PDF-, DOC- eða ODT-formi (þ.e. ekki er tekið við Pages-skjölum) og myndir skulu sendar sem JPG eða sem hluti af PDF-skjali í viðhengi (þ.e. myndir skulu ekki settar í meginmál tölvupósts).

Íbúðinni er úthlutað til eins mánaðar í senn, frá öðrum hvers mánaðar. Gestir vinnustofunnar greiða dvalargjald, sem ákveðið er af stjórn Hafnarborgar, en það er nú 500 evrur á mánuði. Gjaldið skal greiða minnst þremur mánuðum fyrir komu. Nettenging er án gjalds.

Sækja umsóknareyðublað hér.

Opið kall

Hafnarborg tekur við umsóknum um dvöl í gestavinnustofu allan ársins hring. Vinnustofan er jafnan bókuð eitt ár fram í tímann en fleiri sækja um dvöl í vinnustofunni en hægt er að taka á móti, þar sem safnið hefur aðeins eina íbúð til umráða. Vinsamlegast gætið þess að staðið sé að umsókn í samræmi við fyrirmælin hér að ofan, með tilliti til forms á skjölum og myndum. Athugið að þær umsóknir sem ekki samræmast ofangreindum fyrirmælum verða ekki teknar til skoðunar.