Skólaheimsókn
Hafnarborg leggur áherslu á að gefa öllum tækifæri til að kynnast menningu og listum og býður skólahópa sérstaklega velkomna í heimsókn að skoða sýningar safnsins. Markmið heimsóknarinnar er að hvetja nemendur til umhugsunar um myndlist og hönnun – að sjá, skoða, uppgötva og tjá sig.
Myndlistin endurspeglar heiminn í kringum okkur og listafólk tekst á við hinar ólíkustu og áleitustu spurningar um lífið og tilveruna. Þá er hver heimsókn sniðin að þörfum hvers hóps fyrir sig, með tilliti til efnis, áherslna og skólastigs. Miðað er við að heimsókn í safnið taki um það bil eina kennslustund en hægt er að haga lengd heimsóknarinnar að óskum hvers hóps.
Yfirstandandi sýningar
Landnám
Pétur Thomsen
Um er að ræða ljósmyndaröð sem Pétur Thomsen hefur unnið að undanfarin ár en serían hefur ekki verið sýnd í heild áður. Þar er sjónum beint að landsvæðum sem hefur verið raskað og breytt með einum eða öðrum hætti, til að mynda með landnýtingu, námavinnslu, skógrækt, jarðrækt og vegagerð. Ljósmyndirnar eru teknar að næturlægi en ljósmyndarinn lýsir landið upp með flassi til að afmarka sviðið. Við það fá myndirnar á sig vissan eftir-heimsendablæ, þar sem svartur himininn gefur til kynna yfirvofandi vá.
Sjá nánar hér.
Kahalii
Arngunnur Ýr
Á sýningunni getur að líta ný og nýleg málverk eftir Arngunni Ýr, þar sem listakonan beinir sjónum að eigin landnámi á Hawaii, auk þess að leiða hugann að samspili umhverfis, sögu og landnýtingar. Þar býr hún sér nú heimili á fögrum stað þar sem náttúran víkur smátt og smátt fyrir manngerðum byggingum og eru listaverkin þannig samofin marglaga sögu landsins. Fela verkin þannig jafnt í sér persónulegar vangaveltur listakonunnar sem og víðtækari umfjöllun um jarðrask og þróun byggðar, sem gefur áhorfendum að sama skapi tækifæri til að íhuga eigin samband við sögu og umhverfi.
Sjá nánar hér.
Sjónarafl
Þjálfun í myndlæsi
Í samstarfi við Listasafn Íslands.
Sjá nánar hér.
Bóka hóp
Tekið er á móti skólahópum eftir samkomulagi alla virka daga kl. 9–16 og er heimsóknin skólum að kostnaðarlausu. Þá er almennt miðað við að fjöldi nemenda í hverjum hóp sé ekki yfir tuttugu og fimm, svo allir fái sem mest út úr heimsókninni, og er því lagt upp með að skipta fjölmennari hópum upp í tvo eða fleiri smærri hópa.
Vinsamlegast smellið hér til þess að bóka heimsókn eða hafið samband við skrifstofu með því að senda póst á [email protected].