Páskar 2025 – opnunartími í Hafnarborg

Nú líður senn að páskum og sendir starfsfólk Hafnarborgar vinum og velunnurum safnsins hugheilar óskir um gleðilega hátíð. Þá vekjum við athygli á opnunartímanum hjá okkur um páskana:

Skírdagur 17. apríl
Opið kl. 12–17

Föstudagurinn langi 18. apríl
Lokað

Laugardagur 19. apríl
Opið kl. 12–17

Páskadagur 20. apríl
Lokað

Annar í páskum 21. apríl
Opið kl. 12–17

Í safninu standa nú yfir tvær sýningar. Annars vegar er það sýningin Staldraðu við, þar sem getur að líta verk eftir átta listamenn frá Englandi og Íslandi. Í Sverrissal er það svo sýningin Alverund eftir Jónu Hlíf Halldórsdóttur, sem vinnur með samspil texta og mynda og kannar sköpunarmátt tungumálsins.

Aðgangur ókeypis – verið öll velkomin.

Hafnarborg og Uppsalir – verk úr safneign

Í samstarfi við Uppsalaborg og Uppsala konstmuseum kynnir Hafnarborg sýningu á völdum verkum úr safneign, sem opnuð verður laugardaginn 12. apríl kl. 14 í Uppsalakastala. Sýningin, sem ber titilinn Frá sögu til samtíðar (sæ. Från saga till samtid), byggist á farsælu vinabæjarsamstarfi á milli Hafnarfjarðar og Uppsala en síðar á árinu verður opnuð sýning á sambærilegum grunni í Hafnarborg, þar sem sýnd verða listaverk úr safni Uppsalaborgar. Verkefnið er styrkt af safnasjóði.

Á sýningunni í Svíþjóð verða sýnd verk eftir Hildi Ásgeirsdóttur Jónsson, Tinnu Gunnarsdóttur, Guðjón Ketilsson, Jónínu Guðnadóttur, Rúnu, Marinó Thorlacius, Astrid Kruse Jensen, Gurli Elbækgaard, Eirík Smith, Guðmund Thoroddsen, Margréti Sveinsdóttur, Guðnýju Magnúsdóttur, Hallgerði Hallgrímsdóttur, Eddu Jónsdóttur og Koggu.

Í sýningarnefnd eru þau Aldís Arnardóttir, Hólmar Hólm, Mikaela Granath og Tove Otterclou.

Sýningin mun standa yfir til 8. júní næstkomandi og hvetjum við öll þau sem eru búsett á svæðinu eða eiga leið til borgarinnar til að heimsækja Uppsala konstmuseum og skoða sýninguna.

Hægt er að lesa um sýninguna hér á heimasíðu Uppsala konstmuseum.

Apríl – hádegistónleikar falla niður

Við vekjum athygli á því að næstu hádegistónleikar, sem áætlað var að færu fram þriðjudaginn 1. apríl, falla niður af óviðráðanlegum ástæðum.

Þá bjóðum við ykkur velkomin á síðustu hádegistónleika vormisseris í Hafnarborg þriðjudaginn 6. maí næstkomandi en Edda Austmann Harðardóttir verður gestur Antoníu Hevesi á tónleikunum.

Við biðjumst innilegrar velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda og hlökkum til að taka á móti ykkur síðar.

 

Myndlistarmaður ársins – Pétur Thomsen

Við afhendingu Íslensku myndlistarverðlaunanna 2025 hlaut Pétur Thomsen (f. 1973) verðlaunin Myndlistarmaður ársins fyrir sýninguna Landnám í Hafnarborg á vetrinum sem er að líða. Þá er greint frá því í texta dómnefndar að samband mannfólks við náttúruna hafi lengi verið megininntakið í ljósmyndaverkum Péturs, þar sem finna má vitnisburð um ágang mannsins á umhverfi sitt.

„Sýningin Landnám er langtíma-ljósmyndaverk þar sem Pétur tekur fyrir sambýli manns og náttúru frá sjónarhóli ójafnvægis og áverka á jörðinni eftir umgang og framkvæmdir. Í verkunum má sjá rask á náttúrunni, líkt og sár eða rof í jarðvegi og merki um skeytingarleysi í umgengni mannfólks, sem listamaðurinn staldrar við og varpar ljósi á. Í aðalsal Hafnarborgar voru sýndar innrammaðar ljósmyndir án glers sem minntu á málverk á striga. Sumar voru í yfirstærð en einnig mátti finna verk sem voru samsett úr mörgum ljósmyndum og mynduðu eina heild.

Framsetningin kallar á nærveru áhorfandans og íhugun með listamanninum um þann boðskap sem hann vill færa fram: áminningu um áhrif mannsins á umhverfi sitt sem hefur leitt af sér hlýnun jarðar og náttúruvá. Sýningin í heild orkar sem eins konar ákall, svo óhjákvæmilegt er að spegla áhrif eigin tilvistar og tilveru á lifandi heim.

Mat dómnefndar er að Landnám sé einstaklega vel útfærð sýning, frá framkvæmd til framsetningar verkanna og að í henni megi skynja vitund um náttúruna og umhyggju fyrir henni. Með djúpri þekkingu á ljósmyndamiðlinum fangar Pétur Thomsen í verkum sínum inntak og hugmyndafræði sem á sýningunni umhverfist í samtal við áhorfandann á áhrifaríkan hátt.“

Starfsfólk Hafnarborgar óskar Pétri innilega til hamingju með verðlaunin, með hugheilum þökkum fyrir gott og gjöfult samstarf. Einnig færum við myndlistarráði, dómnefnd og öllum þeim sem stóðu að Íslensku myndlistarverðlaununum okkar bestu þakkir. Loks sendum við öllum verðlaunahöfum heilla- og hamingjuóskir fyrir öflugt starf í þágu myndlistar á Íslandi.

Aðalúthlutun safnasjóðs 2025 – verkefni Hafnarborgar

Á Ársfundi höfuðsafna og safnaráðs, sem haldinn var þann 14. febrúar síðastliðinn, var tilkynnt um aðalúthlutun safnasjóðs árið 2025 en að þessu sinni hlaut Hafnarborg styrki til fjögurra verkefna.

Þá styrkir sjóðurinn þróun dvalarrýmis fyrir börn á efri hæð safnsins, undirbúningsvinnu vegna innleiðingar á nýjum Sarpi og sýningarsamstarf Hafnarborgar og Uppsala konstmuseum í tengslum við vinabæjarsamband Hafnarfjarðar og Uppsala. Sjóðurinn veitir jafnframt áframhaldandi styrk til fræðsluverkefnisins og viðburðaraðarinnar Á mínu máli, þar sem boðið er upp á listasmiðjur og leiðsagnir með fagfólki á erlendum tungumálum, en röðin hóf göngu sína árið 2023 með styrk úr safnasjóði.

Það var Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, sem afhenti styrkina við hátíðlega athöfn í Myndasal Þjóðminjasafns Íslands.

Starfsfólk Hafnarborgar þakkar innilega fyrir styrkina, sem stuðla að því að safnið fái enn betur þjónað samfélaginu og verið öflugur vettvangur lista og menningar í Hafnarfirði.

Jóla- og nýárskveðja frá Hafnarborg

Starfsfólk Hafnarborgar óskar ykkur öllum, vinum og velunnurum stofnunarinnar, gleðilegra jóla og gæfuríks komandi árs, með hugheilum þökkum fyrir árið sem er að líða.

Hlökkum til að taka á móti ykkur í Hafnarborg á nýju ári.

Jól 2024 – opnunartími sýninga

Opið verður í Hafnarborg að vanda fram að jólum, alla daga nema þriðjudaga, kl. 12–17. Opnunartími yfir hátíðarnar er eftirfarandi:

Þorláksmessa, 23. desember – opið kl. 12–17

Aðfangadagur, 24. desember – lokað

Jóladagur, 25. desember – lokað

Annar í jólum, 26. desember – lokað

27.–30. desember – opið kl. 12–17

Gamlársdagur, 31. desember – lokað

Nýársdagur, 1. janúar – lokað

Skrifstofa Hafnarborgar verður lokuð á milli jóla og nýárs. Opið verður samkvæmt hefðbundnum opnunartíma aftur frá 2. janúar. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Algjörar skvísur – haustsýning Hafnarborgar 2025

Listráð Hafnarborgar hefur valið Algjörar skvísur sem haustsýningu ársins 2025, úr fjölda tillagna sem bárust fyrr á árinu í gegnum árlegt opið kall safnsins. Sýningarstjórar vinningstillögunnar eru þær Jasa Baka og Petra Hjartardóttir, sem munu bjóða gestum að kanna þemu sem tengjast mýkt, krafti og kvenlegri orku í samtímalist.

Algjörar skvísur hverfist um ólíkar birtingarmyndir sætleikans, guðdómlegar og goðsagnakenndar kvenlegar erkitýpur og andahyggjuna sem lítur á (móður) náttúru sem síkvika veru. Þá eru þessar hugmyndir skoðaðar út frá því hvernig þær eiga við fólk, staði og hluti, einkum nú þegar segja má að kvenlegar erkitýpur séu að koma fram úr fylgsnum sínum og umbreyta skilningi okkar á sjálfsmynd og jafnvægi.

Sýnd verða verk sem unnin eru í margvíslega miðla en markmiðið með sýningunni er að varpa ljósi á það hvernig þátttakendur túlka hinar ýmsu erkitýpur og goðsagnaverur, sem og samband okkar við náttúruna. Þannig býður Algjörar skvísur upp á áhugaverð sjónarhorn á viðkvæmni og mennsku með því að opna gátt fyrir hið yfirnáttúrulega til að flæða inn í jarðneskt líf.

Jasa Baka er fjöllistakona, kanadískur Vestur-Íslendingur, sem hefur búið og starfað á Íslandi síðan 2017. Hún útskrifaðist með MA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2022. Árið 2008 útskrifaðist hún með BA-gráðu í myndlist frá Concordia University í Tiohtiá:ke (Montréal), með sérhæfingu í leikhúshönnun. Hún hefur sýnt verk sín og gjörninga á fjölmörgum stöðum á Íslandi og í Kanada en einnig í New York og Aþenu.

Petra Hjartardóttir er listakona sem vinnur skúlptúra og innsetningar í ýmsa miðla eins og silfur, keramík og textíl. Hún hefur sýnt verk sín í galleríum og söfnum á Íslandi og erlendis. Hún hefur einnig sótt gestavinnustofur í Noregi, Frakklandi og á Ítalíu. Petra útskrifaðist með MFA-gráðu í skúlptúr frá Yale School of Art og er með BFA-gráðu í myndlist frá Hunter College í New York.

Sýningin verður sú fimmtánda í haustsýningarröð Hafnarborgar en verkefnið hefur það að markmiði að gefa breiðu sviði sýningarstjóra kost á að senda inn tillögu að sýningu í safninu og láta rödd sína heyrast. Það er listráð Hafnarborgar ásamt forstöðumanni sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna ár hvert. Nöfn þátttakenda og frekari upplýsingar verða birtar síðar.

Kærleikskúlan 2024 – fáanleg í safnbúð Hafnarborgar

Kærleikskúlan í ár, Blóm og ást þurfa næringu, eftir Hildi Hákonardóttur er nú fáanleg í safnbúð Hafnarborgar. Kúlan er framleidd í takmörkuðu upplagi en síðustu ár hefur kúlan jafnan selst upp áður en sölutímabilinu lýkur. Allur ágóði af sölunni rennur til starfs í þágu fatlaðra barna og ungmenna. Um Kærleikskúluna í ár segir Hildur:

„Melablómið er eitt af okkar algengustu vorblómum. Samt tökum við sjaldan eftir þessu hvíta, litla blómi sem dreifir sér um gróðursnauða og hrjóstruga mela og hefur þjálfað sig í að glæða þá lífi og laða að skordýr sem svo hjálpa til að frjóvga önnur blóm sem kynnu að voga sér þangað.  Með hógværð sinni minnir það okkur á að það þarf ekki stórar gjafir til að gleðja aðra. Bros og huggunarrík orð geta gefið meiri gleði.

Melablómið þiggur yl frá sólinni, vatn úr himnalindunum og steinefni úr grjótinu. Þó  skartar það fjaðurflipóttum blöðum eins og fífillinn, konungur villiblómanna, kannski til að minna okkur á að það hefur líka sitt stolt.  En ást þarfnast næringar rétt eins og blóm ef hún á að geta þrifist. Þá eru það gjarnan litlu hlutirnir sem skipta mestu máli. Ylur af snertingu handa, hvatningarorð úr lindum góðmennskunnar og hugvekjandi hjálpsemi. “

Hildur Hákonardóttir (f. 1938) hefur á löngum starfsferli tekið á málefnum samtíma síns, einkum umhverfis- og jafnréttismálum, og nýtt til þess fjölbreytta miðla. Hún lærði myndvefnað við Myndlista- og handíðaskólann 1964-68 og Listaskóla Edinborgar árið 1969 og starfaði sem skólastýra Myndlista- og handíðaskólans á árunum 1975-78.  Hildur á að baki fjölda sýninga og hefur gefið út fjölbreytt ritverk. Þá hlaut yfirlitssýningin Rauður þráður í Listasafni Reykjavíkur Íslensku myndlistarverðlaunin árið 2023 og Hildur hlaut einnig fálkaorðuna 2024 fyrir framlag sitt til myndlistar og störf í þágu kvennabaráttu.

Kærleikskúlan verður til sölu í safnbúð Hafnarborgar frá 5. til 20. desember, á meðan birgðir endast.

Opnun – Landnám og Kahalii

Laugardaginn 9. nóvember kl. 14 bjóðum við ykkur hjartanlega velkomin á opnun tveggja einkasýninga í Hafnarborg. Þá eru það listamennirnir Pétur Thomsen og Arngunnur Ýr sem munu sýna í safninu. Bjóða báðar sýningar upp á spennandi sýn á náttúruna og samband manns við umhverfi sitt, þar sem listamennirnir nálgast viðfangsefnið hvor með sínum hætti.

Landnám
Um er að ræða ljósmyndaröð sem Pétur Thomsen hefur unnið að undanfarin ár en serían hefur ekki verið sýnd í heild áður. Þar er sjónum beint að landsvæðum sem hefur verið raskað og breytt með einum eða öðrum hætti, til að mynda með landnýtingu, námavinnslu, skógrækt, jarðrækt og vegagerð. Ljósmyndirnar eru teknar að næturlægi en ljósmyndarinn lýsir landið upp með flassi til að afmarka sviðið. Við það fá myndirnar á sig vissan eftir-heimsendablæ, þar sem svartur himininn gefur til kynna yfirvofandi vá.

Pétur Thomsen (f. 1973) lauk MFA-prófi í ljósmyndun frá École nationale supérieure de la photographie í Arles, Frakklandi, árið 2004. Áður stundaði hann nám í frönsku, listasögu og fornleifafræði við Université Paul Valéry í Montpellier og listljósmyndun við École supérieure des métiers artistiques í sömu borg. Pétur hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar en árið 2004 hlaut hann til að mynda verðlaun LVMH-samsteypunnar sem þá voru veitt ungum listamanni í 10. Sinn. Hann var svo útnefndur af Musée de L’Élysée í Lausanne sem einn af 50 ljósmyndurum sem líklegir væru til að setja mark sitt á ljósmyndasögu framtíðarinnar í verkefninu reGeneration: 50 Photographers of Tomorrow.

Kahalii
Á sýningunni getur að líta ný og nýleg málverk eftir Arngunni Ýr, þar sem listakonan beinir sjónum að eigin landnámi á Hawaii, auk þess að leiða hugann að samspili umhverfis, sögu og landnýtingar. Þar býr hún sér nú heimili á fögrum stað þar sem náttúran víkur smátt og smátt fyrir manngerðum byggingum og eru listaverkin þannig samofin marglaga sögu landsins. Fela verkin þannig jafnt í sér persónulegar vangaveltur listakonunnar sem og víðtækari umfjöllun um jarðrask og þróun byggðar, sem gefur áhorfendum að sama skapi tækifæri til að íhuga eigin samband við sögu og umhverfi.

Arngunnur Ýr (f. 1962) útskrifaðist með BFA-gráðu í málaralist frá San Francisco Art Institute árið 1986. Hún var síðar gestanemi við Gerrit Rietveld-akademíuna í Amsterdam, Hollandi, 1989 til 1990 en sneri aftur til Kaliforníu og lauk meistaragráðu í málaralist frá Mills-háskólanum í Oakland árið 1992. Hún hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín, svo sem úr sjóði Svavars Guðnasonar og Ástu Eiríksdóttur og árið 2005 hlaut hún styrk frá Pollock-Krasner Foundation. Verk hennar hafa verið sýnd hér á landi, í Evrópu og Bandaríkjunum og eru verk eftir hana ýmist í eigu opinberra safna, stofnana og einkasafnara, bæði hér á landi sem erlendis.

Aðgangur ókeypis – sjáumst í Hafnarborg.