Þögult vor – Skógræktarfélagið og Kliður

Í tilefni af opnun sýningarinnar Þöguls vors, eftir Herttu Kiiski, Katrínu Elvarsdóttur og Lilju Birgisdóttur, í sýningarstjórn Daríu Sólar Andrews, gleður það okkur að segja frá því að Skógræktarfélag Reykjavíkur ætlar að gróðursetja eitt tré fyrir hvern gest sem mætir á sýningaropnunina.

Við erum innilega þakklát fyrir þetta frábæra framlag Skógræktarfélagsins, sem leggur umhverfinu lið allan ársins hring með sínu ómetanlega starfi og hjálpar okkur að hlúa að náttúrunni með þessum hætti.

Þá vekjum við sömuleiðis athygli á því að sérstakur gjörningur með kórnum Klið, ásamt Lilju Birgisdóttur, mun eiga sér stað við opnun sýningarinnar.

Opnunin fer fram laugardaginn 18. janúar kl. 15. Á sama tíma opnar einnig sýningin Far, með verkum Þórdísar Jóhannesdóttur og Ralphs Hannam. Báðar sýningarnar eru hluti af Ljósmyndahátíð Íslands, sem stendur yfir 16.–19. janúar.

Verið hjartanlega velkomin í Hafnarborg.

Ráðstefna á Kjarvalsstöðum – List í almannarými

Fimmtudaginn 28. nóvember kl. 10–16 tekur Hafnarborg þátt í ráðstefnu á Kjarvalsstöðum, í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur og Rannsóknarsetur í safnafræðum, undir yfirskriftinni List í almannarými: Þýðing og uppspretta, þar sem rætt verður um list í almannarými og þýðingu hennar fyrir nærsamfélagið eða samfélög í heild. Sérstakur gaumur verður gefinn að uppsprettu slíkra verkefna, hvernig þau verða til, hvernig þau eru fjármögnuð, auk skipulags og utanumhalds þeirra.

Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar er Tyra Dokkedahl, sjálfstætt starfandi sýningarstjóri og blaðamaður, sem hefur sérhæft sig í list í almannarými. Aðrir fyrirlesarar verða Steve Christer, arkitekt hjá Stúdíó Granda, Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, myndlistarmennirnir Anna Hallin, Olga Bergmann, Carl Boutard og Ólöf Nordal og loks Örn Baldursson frá Framkvæmdasýslu ríkisins. Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, heldur opnunarávarp og Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri safneignar og rannsókna hjá Listasafni Reykjavíkur, stýrir ráðstefnunni.

Ráðstefnugjald er 2.500 kr. Innifalið er kaffi yfir daginn og léttur hádegisverður. Skráning fer fram hér.

Vitinn – hlaðvarp Hafnarfjarðarbæjar

Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, er kvenskörungur mikill og kona allra verka. Hún hefur ósjaldan sést með hamar á lofti og málband um hálsinn við uppsetningu á nýjum sýningum og öðrum þeim verkefnum sem safnið sér um eða tekur þátt í. Stuttu seinna er hún komin í hlutverk gestgjafa og býður gesti velkomna á sýningar, opnanir, leiðsagnir, tónleika og smiðjur með starfsfólki sínu í Hafnarborg. Í þessum þætti Vitans ræðir Ágústa m.a. um listina að lifa og hversu stórt hlutverk list, menning og safnaheimurinn spilar í hennar lífi.

Í Vitanum er spjallað við áhugaverða einstaklinga sem vinna í þágu bæjarins. Þannig er tekin fyrir þjónusta sveitarfélagsins, áhugaverð þróunarverkefni og viðfangsefni á fjölbreyttu sviði. Eins þau mál sem eru í brennidepli hverju sinni. Hægt er að hlusta á þáttinn hér fyrir neðan en aðra þætti Vitans má nálgast hér á síðu Hafnarfjarðarbæjar eða á hlaðvarpsveitum eins og SpotifySimplecast og Podcast Addict. Unnið er að því að gera Vitann aðgengilegan á fleiri veitum.

Hafnarborg og Heilsubærinn Hafnarfjörður

Hafnarborg – menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar hefur nú gerst opinber þátttakandi í verkefninu Heilsubænum Hafnarfirði og mun hér eftir leggja aukna áherslu á þá þætti í starfseminni sem taldir eru hafa góð áhrif á andlega, félagslega og jafnvel líkamlega heilsu gesta. Hafnarborg hefur áður komið að verkefninu með þátttöku í hinum árlegu menningar- og heilsugöngum í Hafnarfirði, ásamt Heilsubænum og öðrum menningarstofnunum bæjarins.

Söfn eru staðir þar sem gestir fá rými til að slaka á og njóta menningar og lista, þjálfa sig í að dvelja í núinu og örva skilningarvitin. Söfn eru einnig staðir til að efla félagsleg tengsl í gegnum samveru, samtal og samvinnu. Hafnarborg hefur um árabil staðið fyrir menningarviðburðum sem hafa fest sig í sessi í bæjarlífinu, eins og hinum sívinsælu hádegistónleikum. Með því að skilgreina þessa viðburði formlega sem heilsueflandi viljum við minna á að það er mikilvægt að fá andlega hressingu og sinna félagslegum tengslum til að halda heilsu.

Á næstu misserum er það markmið Hafnarborgar að leggja enn ríkari áherslu á þá þætti sem hvetja gesti til að staldra við og leyfa listinni að efla andann.

Haustsýning ársins 2019 – Allt á sama tíma

Listráð Hafnarborgar hefur valið sýninguna Allt á sama tíma sem haustsýningu ársins 2019, í sýningarstjórn Andreu Arnarsdóttur og Starkaðar Sigurðarsonar. Hugmyndin með sýningunni er að kanna hvernig listamenn takast á við það frelsi sem finnst í myndlist í dag. Hvernig hægt er að búa til merkingu úr list sem getur verið hvað sem er, málverk, barnaleikfang, pappamassi, hreyfing, hugmynd, ópera, gifs. Sýnd verða verk í ólíkum miðlum, frá olíumálverki til gjörninga, og gerð tilraun til að sameina þær dreifðu hugmyndir sem finnast í myndlist samtímans.

Sýningin reynir ekki að búa til sneiðmynd eða yfirlit yfir það hvernig list er í dag, heldur verður kannað hvernig listamennirnir, sem standa frammi fyrir þessu frelsi, móta merkingu úr því. Hvernig list getur tekið á sig hvaða form sem er en talar alltaf sama tungumálið. Hvernig olíumálverk uppi á vegg í heimahúsi er sama listin, hluti af sömu listasögunni, og sveppir sem hægt er að láta vaxa í björtu, hvítu sýningarrými. Hvernig list – og listasagan – er samþjappað fyrirbæri þar sem allt er til á sama tíma.

Andrea Arnarsdóttir lærði hagnýta menningarmiðlun í Háskóla Íslands og hlaut MA gráðu frá skólanum árið 2018. Lokaverkefni hennar, sýningin Ofgnótt í Háskóla Íslands, vakti tölverða athygli. Eftir útskrift stundaði Andrea starfsnám við listasafnið Artipelag í Stokkhólmi. Þar fékk hún innsýn í safnastarf og störf sýningarstjóra auk þess sem hún vann náið með fræðslustjóra stofnunarinnar.

Starkaður Sigurðarson hefur bakgrunn bæði í myndlist og skrifum en eftir útskrift úr LHÍ kláraði hann MFA gráðu í ritlist frá Goddard College vorið 2018. Hann hefur sýnt víðs vegar um Ísland, seinast í sumarsýningu Nýlistarsafnins, Djúpþrýstingi árið 2018, en hefur einnig skrifað myndlistarumfjöllun fyrir Víðsjá, fjölda texta fyrir listamenn og söfn, auk þess að vera ritstjóri myndlistarritsins Stara.

Á hverju ári kallar Hafnarborg eftir tillögum að haustsýningu safnsins með það að markmiði að velja til samstarfs sýningarstjóra, sem leggja fram áhugaverða tillögu að sýningu, en jafnframt að kalla til leiks nýtt fólk. Þannig er sérstaklega hugað að því að veita tækifæri sýningarstjórum með stuttan feril að baki. Það er Listráð Hafnarborgar ásamt forstöðumanni sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna ár hvert.

Með haustsýningaröðinni vill Hafnarborg skapa farveg fyrir áhugaverðar hugmyndir, með það að sjónarmiði að safnið sé vettvangur þar sem myndlist fái að njóta sín, mótuð af fjölbreyttum viðhorfum og viðfangsefnum. Sýningarnar og málþing sem skipulögð hafa verið samhliða þeim hafa skapað markverðan vettvang umræðna og þróunar í Hafnarborg.

Listi yfir þátttakendur sýningarinnar verður birtur síðar.