Safnanótt í Hafnarborg – líf, ljós og skuggar

Föstudaginn 7. febrúar kl. 18–23 fer fram Safnanótt í Hafnarborg, þegar opið verður á sýningar safnsins fram eftir kvöldi, auk þess sem boðið verður upp á ýmsa viðburði í tilefni kvöldsins, svo sem tónleika, listasmiðju, leiðsagnir og fleira. Þá iðar safnið af lífi, þar sem samband manns og náttúru, jafnt sem samspil ljóss og skugga, er gegnumgangandi í sýningunum og viðburðum kvöldsins. Hér fyrir neðan má finna nánari upplýsingar um dagskrá Hafnarborgar á Safnanótt.


Þögult vor
18:00–23:00
Samsýning Herttu Kiiski, Katrínar Elvarsdóttur og Lilju Birgisdóttur, í sýningarstjórn Daríu Sólar Andrews. Listamennirnir kalla fram hlýjar tilfinningar til náttúrunnar og vekja okkur til umhugsunar um þau áhrif sem skaðvænlegar neysluvenjur okkar hafa á umhverfið. Sýningin er hluti af Ljósmyndahátíð Íslands.

Far
18:00–23:00
Sýning á verkum Þórdísar Jóhannesdóttur, myndlistarmanns, í samtali við Ralph Hannam, áhugaljósmyndara sem var virkur á Íslandi um miðja síðustu öld. Bæði beita þau ljósmyndamiðlinum á skapandi hátt, þar sem samspil forma, ljóss og skugga skiptir meira máli en sjálft myndefnið. Sýningin er hluti af Ljósmyndahátíð Íslands. 

Bókamarkaður
18:00–23:00
Í tilefni Safnanætur verður haldinn bókamarkaður í Hafnarborg, þar sem hægt verður að fá ýmsar bækur úr safnbúðinni á sérlegum kostakjörum. Á sölu verða valdir titlar úr búðinni, allt á 500 krónur eða fjórar bækur saman á 1.500 krónur. Vinsamlegast athugið að takmarkað upplag kann að vera af sumum titlum.

Ratleikur um Hafnarborg
18:00–23:00
Gestum er boðið að taka þátt í sérstökum Safnanætur-ratleik um Hafnarborg, í von um vinning. Í kjölfar Safnanætur, verður vinningshafi dreginn úr hópi þeirra sem tóku þátt í leiknum. Skoðið húsið og sýningarsalina hátt og lágt og upplifið sýningar safnsins á öðruvísi hátt – það er aldrei að vita hvað er að finna í Hafnarborg!

Opnunartónleikar með Tónlistarskóla Hafnarfjarðar
18:00–19:00
Safnanótt í Hafnarborg hefst með sérstökum opnunartónleikum Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, þar sem flutt verður kvikmyndatónlist af ýmsum toga. Fram koma bæði sinfónuhljómsveit og ryþmískt band. Tónlistarskólinn hefur áður komið fram á Safnanótt í Hafnarborg en að auki verður skólinn með tónleika víðar um bæinn á Vetrarhátíð.

Ljós- og skuggasmiðja
19:00–21:00
Sérstök listasmiðja fyrir börn og foreldra, sem byggir á samspili ljóss og skugga, undir leiðsögn Berglindar Jónu Hlynsdóttur, myndlistarmanns. Sóttur verður innblástur í verk Þórdísar Jóhannesdóttur og Ralphs Hannam, til að búa til nýjar sögur. Þátttakendur eru hvattir til að hafa síma eða stafræna myndavél meðferðis til að taka myndir og myndbönd. Einnig verða þátttakendur að ráða við notkun skæra og ætlast er til að foreldrar aðstoði yngri börn.

Örleiðsögn um sýningarnar Far og Þögult vor
20:00–20:30
Á Safnanótt verður boðið upp á tvær örleiðsagnir um yfirstandandi sýningar safnsins, Far og Þögult vor, ásamt Ágústu Kristófersdóttur, forstöðumanni Hafnarborgar. Sýningarnar eiga það sameiginlegt að beina sjónum okkar að umheiminum, þar sem fegurðarinnar er leitað í umhverfi okkar, jafnt í náttúrunni sem í hinu daglega lífi. Jafnframt vekja þær okkur til umhugsunar um það hvernig við sjáum heiminn og þau áhrif sem við höfum á umhverfið.

Ilmur af vori
21:00–22:00
Lilja Birgisdóttir, listakona og sérleg áhugakona um ilmi og eiginleika lyktarskynsins, býður gestum að koma og fræðast um ilmi og upplifa ævintýraheim þefskynsins með alls konar skemmtilegum æfingum. Lilja er ein þriggja listakvenna sem taka þátt í sýningunni Þöglu vori, sem nú stendur yfir í Hafnarborg.

Örleiðsögn um sýningarnar Far og Þögult vor
22:00–22:30
Á Safnanótt verður boðið upp á tvær örleiðsagnir um yfirstandandi sýningar safnsins, Far og Þögult vor, ásamt Ágústu Kristófersdóttur, forstöðumanni Hafnarborgar. Sýningarnar eiga það sameiginlegt að beina sjónum okkar að umheiminum, þar sem fegurðarinnar er leitað í umhverfi okkar, jafnt í náttúrunni sem í hinu daglega lífi. Jafnframt vekja þær okkur til umhugsunar um það hvernig við sjáum heiminn og þau áhrif sem við höfum á umhverfið.

Fjöldasöngur með Guðrúnu Árnýju á Krydd
21:30–00:00
Söngkonan Guðrún Árný kemur reglulega fram á veitingahúsinu Krydd, þar sem hún syngur og leikur á píanó, auk þess að leiða gesti í fjöldasöng fram eftir kvöldi. Á Krydd er boðið upp á fjölbreyttan mat- og drykkjarseðil, svo allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Einnig verður „happy hour“ á barnum frá níu til miðnættis. Til að panta borð, vinsamlegast hafið samband við veitingahúsið í síma 558 2222.


Á Safnanótt býðst gestum Vetrarhátíðar að fara á fimmtíu söfn og skoða ótal sýningar á höfuðborgarsvæðinu, þar sem boðið er upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá. Menningarstofnanir Hafnarfjarðar, Bókasafnið, Byggðasafnið og Hafnarborg, taka þátt eins og fyrri ár en auk þess býður Kvikmyndasafn Íslands í ár upp á bílabíó í miðbæ Hafnarfjarðar. Frítt er inn á öll söfnin og eins er frítt í sérstakan Safnanæturstrætó sem ekur á milli safnanna um kvöldið.