Þögult vor – rafræn leiðsögn um sýninguna

Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, fjallar hér um sýninguna Þögult vor, eftir myndlistarkonurnar Herttu Kiiski, Katrínu Elvarsdóttur og Lilju Birgisdóttur. Sýningin opnaði í janúar sem hluti af Ljósmyndahátíð Íslands 2020 en sýningarstjóri er Daría Sól Andrews.

Á sýningunni kalla Lilja, Hertta og Katrín fram hlýjar tilfinningar til náttúrunnar í þeirri von að vekja okkur til umhugsunar um skaðleg áhrif okkar á lífríki jarðarinnar. Andspænis hnattrænni hlýnun beita þær þá bæði ljósmyndamiðlinum og næmri, efnislegri nálgun við umhverfi sem þarfnast jafnt athygli og alúðar.

Sýningin hefur verið framlengd fram í miðjan maí, í ljósi aðstæðna, en meðan safnið er lokað vegna samkomubanns vonum við að þið njótið þess að skoða sýninguna hér í staðinn.

Leiðsögnin er bæði textuð á íslensku og ensku.

Una furtiva lagrima – Gissur Páll Gissurarson

Því miður falla hádegistónleikar mánaðarins niður vegna samkomubanns en við viljum bjóða ykkur upp á eitt lag hér í staðinn, til að létta lundina í aðdraganda páska.

Þá eru það Gissur Páll Gissurarson, tenór, og Antonía Hevesi, píanóleikari og listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, sem flytja aríuna „Una furtiva lagrima“ úr Ástardrykknum eftir Donizetti.

Við hlökkum svo til að sjá ykkur aftur á hádegistónleikum í Hafnarborg – vonandi áður en langt um líður.

Far – niðurtaka og rafræn leiðsögn

Sýningin Far opnaði í tilefni Ljósmyndahátíðar Íslands í upphafi árs en henni lauk í síðustu viku með hertu samkomubanni. Þá höfum við tekið sýninguna niður til þess að geta nýtt bæði þennan tíma og sýningarsalinn til að sinna mikilvægu innra starfi stofnunarinnar, með yfirferð og endurskipulagningu á safnkosti Hafnarborgar.

Á sýningunni mátti sjá samtal á milli verka þeirra Þórdísar Jóhannesdóttur, myndlistarmanns, og Ralphs Hannam, áhugaljósmyndara sem starfaði hér á landi um miðja síðustu öld. Þrátt fyrir að sýningunni sé lokið, gefst ykkur nú kostur á að upplifa hana hér í netheimum í gegnum þessa rafrænu leiðsögn, þar sem Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, segir frá tilkomu sýningarinnar, sköpunarferli listamannanna og völdum verkum á sýningunni.

Við þökkum öllum sem lögðu leið sína í Hafnarborg til að skoða sýninguna, á meðan henni stóð, og vonum að allir megi njóta hennar hér – bæði þeir sem eru að sjá hana í fyrsta sinn og þeir sem hafa séð hana áður. Við hvetjum ykkur enn fremur til að sækja innblástur í þeirra nálgun og finna áhugaverð sjónarhorn í kringum ykkur, í ykkar eigin daglega lífi.

Leiðsögnin er bæði textuð á íslensku og ensku.

Styrkúthlutanir myndlistar- og safnasjóðs 2020

Tilkynntar hafa verið styrkúthlutanir myndlistar- og safnasjóðs fyrir árið 2020. Hafnarborg fagnar og þakkar fyrir þá styrki sem veittir eru til verkefna safnsins. Úr safnasjóði hlaut Hafnarborg styrk til tveggja verkefna: Hafnarborg og heilsubærinn (1.500.000 kr.) og Ljósmyndir á ytri vef – samningur við Myndstef (800.000 kr.). Vinna er þegar hafin við bæði verkefnin.

Í samvinnu við Byggðasafn Hafnarfjarðar og fleiri fékk Hafnarborg einnig úthlutað öndvegisstyrk til eins verkefnis: Samstarf um safnfræðslu – stefnumótun og innleiðing (12.000.000 kr. yfir fjögurra ára tímabil).

Þá hlaut Hafnarborg styrk úr myndlistarsjóði til tveggja sýningarverkefna: Borgarhljóðvistir í formi ensks lystigarðs – sýning Davíðs Brynjars Franzsonar, tónskálds, í sýningarstjórn Þráins Hjálmarssonar (300.000 kr.) og Sýningarskrá fyrir sýninguna Lengi skal manninn reyna – verk Þorvaldar Þorsteinssonar, í samstarfi við Listasafnið á Akureyri (500.000 kr.).

Auk þess fengu sýningarstjórar haustsýningar ársins 2020, Becky Forsythe og Penelope Smart, styrk upp á 800.000 kr. til framleiðslu sýningarinnar Villiblómsins, þar sem nýstárlegri linsu verður beint að vilja okkar til að kanna náttúruna.

Styrkveitingar þessar eru mikilvægur liður í því að starfsemi Hafnarborgar geti blómstrað og þjónað samfélaginu með áhugaverðum verkefnum, jafnframt því að vera örvandi vettvangur listsköpunar og skapandi samtals.

Sarpur – heimild til að myndvæða skráningar

Hafnarborg og Myndstef hafa nú undirritað samning um stafræna birtingu á afritum af safnkosti úr rafrænum safnmunaskrám.

Þetta veitir Hafnarborg heimild til að myndvæða allar skráningar safnsins í menningarsögulega gagnasafninu Sarpi og bætir þar með aðgengi almennings að upplýsingum um safnkost Hafnarborgar.

Þá er unnið að því að gera þær myndir af safnkosti Hafnarborgar sem hafa hingað til ekki verið aðgengilegar almenningi sýnilegar í Sarpi.

Hafnarborg hlýtur Íslensku tónlistarverðlaunin 2020

Þann 11. mars hlaut Hafnarborg Íslensku tónlistarverðlaunin 2020 fyrir viðburð ársins (einstaka tónleika) í flokki sígildrar og samtímatónlistar, fyrir opnunartónleika sýningarinnar Hljóðana, sem var jafnframt hluti af dagskrá Myrkra músíkdaga.

Hafnarborg vill þakka slagverksleikaranum Jennifer Torrence, fyrir ógleymanlega túlkun á verkum þeirra Toms Johnson og Bergrúnar Snæbjörnsdóttur, og Þráni Hjálmarssyni, sýningarstjóra, fyrir hans frábæra starf. Einnig þökkum við öllu listafólkinu sem átti verk á sýningunni og tók þátt í viðburðadagskrá í tengslum við hana.

Það er ekki á hverjum degi sem listasafn fær tónlistarverðlaun en í Hafnarborg hefur tónlistinni í sínum fjölbreytilegu myndum verið sinnt allt frá fyrstu árum starfseminnar. Þessi verðlaun eru okkur hvatning til að halda áfram á þeirri braut.

Takk fyrir okkur!

Tónlistarsmiðjur – Tónagull po polsku í Hafnarborg

Hafnarborg og Hafnarfjarðarbær hafa nú gerst stuðningsaðilar við verkefnið Tónagull po polsku (Tónagull á pólsku), þar sem boðið verður upp á vikulegar tónlistarsmiðjur fyrir pólskumælandi börn og foreldra í Hafnarborg frá og með sunnudeginum 8. mars. Verkefnið nýtur einnig stuðnings Pólska sendiráðsins.

Tónagull er tónlistarnámskeið sem stofnað var af Helgu Rut Guðmundsdóttur, tónmenntakennara, með það markmið að mæta þörfum ungbarna, 0-3 ára, og foreldrum þeirra. Fyrsta Tónagullsnámskeiðið var haldið árið 2004 og hafa þau verið haldin samfleytt síðan en hundruðir fjölskyldna hafa sótt þau ár hvert. Námskeiðin eru haldin einu sinni í viku og byggjast á frjálslegri nálgun, þar sem virk þátttaka barna og foreldra er aðalatriði. Jafnframt hefur efni námskeiðanna frá upphafi byggst aðallega á íslenskum þulum og vögguvísum, þ.e. móðurmáli þátttakenda.

Árið 2019 fór svo fram fyrsta tónlistarnámskeiðið á pólsku. Þar er beitt sömu aðferð og á upprunalegu námskeiðunum á íslensku, með þýddum útgáfum af sumum íslensku laganna, auk þess sem unnið er með pólsk barnalög, þulur og vísur. Tónagull po polsku fékk strax góðar undirtektir og hefur notið mikilla vinsælda hjá pólska samfélaginu á Íslandi.

Frekari upplýsingar um tónlistarsmiðjurnar, tímasetningu, skráningu og fleira, má finna hér á pólsku.

Vinsamlegast athugið að tónlistarsmiðjurnar falla tímabundið niður í ljósi núverandi aðstæðna.

      

Hljóðön – Íslensku tónlistarverðlaunin 2020

Hljóðön – sýning tónlistar, sem stóð yfir í Hafnarborg 26. janúar–3. mars síðasta árs, hefur hlotið tilnefningu sem tónlistarviðburður ársins (einstakir tónleikar) í flokki sígildrar og samtímatónlistar á Íslensku tónlistarverðlaununum 2020. Í rökstuðningi dómnefndar um tilnefninguna segir: „Spennandi og frumleg sýning með áhrifaríkum upphafstónleikum. Hér var unnið með samspil tónlistar og rýmis og flutningur Jennifer Torrence á verkinu Níu bjöllur eftir Tom Johnson var einkar vel heppnaður.“

Sýningin fagnaði fimm ára starfsafmæli samnefndrar tónleikaraðar, sem hefur verið á dagskrá Hafnarborgar allt frá árinu 2013 og tileinkuð er samtímatónlist. Við opnun sýningarinnar flutti Jennifer Torrence verkið Níu bjöllur, líkt og nefnt er í rökstuðningi dómnefndar, en flutningur verksins á tónleikum Hljóðana haustið 2016 (þá flutt af Frank Aarnink) var einmitt kveikjan að sjálfri sýningunni, þar sem tónlist og myndlist mættust í tímalausu rými safnsins.

Þeir listamenn sem áttu verk á sýningunni voru Ásta Ólafsdóttir, Steina, Steinunn Eldflaug Harðardóttir, Logi Leó Gunnarsson, Jón Gunnar Árnason, James Saunders, Bergrún Snæbjörnsdóttir, Magnús Pálsson, Tom Johnson, Curver Thoroddsen og Einar Torfi Einarsson. Sýningarstjóri var Þráinn Hjálmarsson, tónskáld og listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar Hljóðana.

Í tengslum við sýninguna var einnig boðið upp á veglega dagskrá, m.a. tónleika, aðra tónlistartengda viðburði og gjörninga, með fjölda innlendra og erlendra myndlistar- og tónlistarmanna, svo sem Haraldi Jónssyni, Ástu Fanneyju Sigurðardóttur, Marko Ciciliani, Barböru Lüneburg, Skerplu, Berglindi M. Tómasdóttur og fleirum. Voru tónleikarnir jafnframt hluti af dagskrá Myrkra músíkdaga, sem hljóta samtals fjórar tilnefningar að þessu sinni.

Hafnarborg þakkar dómnefnd og aðstandendum Íslensku tónlistarverðlaunanna kærlega fyrir þann heiður sem stofnuninni og þátttakendum sýningarinnar er sýndur með þessari tilnefningu.

Safnanótt í Hafnarborg – líf, ljós og skuggar

Föstudaginn 7. febrúar kl. 18–23 fer fram Safnanótt í Hafnarborg, þegar opið verður á sýningar safnsins fram eftir kvöldi, auk þess sem boðið verður upp á ýmsa viðburði í tilefni kvöldsins, svo sem tónleika, listasmiðju, leiðsagnir og fleira. Þá iðar safnið af lífi, þar sem samband manns og náttúru, jafnt sem samspil ljóss og skugga, er gegnumgangandi í sýningunum og viðburðum kvöldsins.

Dagskrá:

Kl. 18:00
Opnunartónleikar með Tónlistarskóla Hafnarfjarðar,
þar sem flutt verður kvikmyndatónlist af ýmsum toga 

Kl. 19:00
Ljós- og skuggasmiðja fyrir börn og foreldra,
undir leiðsögn Berglindar Jónu Hlynsdóttur, myndlistarmanns 

Kl. 20:00
Örleiðsögn um sýningarnar Far og Þögult vor,
ásamt Ágústu Kristófersdóttur, forstöðumanni 

Kl. 21:00
„Ilmur af vori“ með Lilju Birgisdóttur,
myndlistarmanni og þátttakanda í sýningunni Þöglu vori 

Kl. 22:00
Örleiðsögn um sýningarnar Far og Þögult vor,
ásamt Ágústu Kristófersdóttur, forstöðumanni

Í Hafnarborg verður einnig haldinn bókamarkaður, þar sem valdir titlar úr safnbúðinni verða fáanlegir á kostakjörum. Þar að auki verður hægt að taka þátt í sérstökum Safnanætur-ratleik, í von um vinning. Seinni part kvölds leiðir söngkonan Guðrún Árný svo fjöldasöng á veitingahúsinu Krydd og það verður „happy hour“ á barnum frá níu til miðnættis.

Nánari upplýsingar um viðburði Hafnarborgar á Safnanótt má finna hér.

Haustsýning ársins 2020 – Villiblómið

Listráð Hafnarborgar hefur valið Villiblómið sem haustsýningu ársins 2020, úr fjölda frábærra tillagna sem bárust undir lok síðasta árs en vinningstillagan var send inn af sýningarstjórunum Becky Forsythe og Penelope Smart. Villiblómið beinir nýstárlegri linsu – næmri og leitandi – að vilja okkar til að kanna náttúruna. Í gegnum þessa linsu fá áhorfendur tækifæri til að virkja sæg flókinna tilfinninga og dýpka vitund sína um hinn viðkvæma heim okkar og stöðu okkar í honum. Ásamt listamönnum frá Íslandi og Kanada búa sýningarstjórarnir til nýtt rými fyrir kraftmikinn samruna umhverfisaktívisma, femínisma og handiðnar í samtímalist. Með því að blása lífi í hefð- og staðbundin efni umbreyta listamennirnir marmara, við, plöntulit, blómum og málmi í nýjar útgáfur af textíl, skúlptúr, málverkum og steindum glerbrynjum.

Hugmyndafræðilegur grunnur sýningarinnar er opinn „völlur“ í norðlægu landslagi. Í víðum sýningarsalnum munu áhorfendur rekast á kunnuglegar en jafnframt óvanalegar birtingarmyndir blóma og náttúru: stórar, smáar, ójarðbundnar, frumlegar, ruglingslegar, eflandi. Samband mannsins við náttúruna, óskiljanlegt og ævintýralegt, tekur stöðugum breytingum, líkt og má finna –  uppspretta uppbyggilegrar togstreitu og heillandi áhrifa út frá stærð, hlutföllum og efni listaverkanna.

Villiblómið hefur þróast út frá sameiginlegum áhuga sýningarstjóranna á loftslagsbreytingum sem eflandi fyrirbrigði, náttúrulegum efnum og handiðn í samtímalist, auk nýrra birtingarmynda innan hins norðlæga landslags. Þessir þættir kallast einnig á við nýjar hugmyndir um náttúru, vald og kvenleika. Sem framúrstefnuleg, kvenstýrð sýning ætluð öllum, skoðar Villiblómið sakleysi, ofbeldi, landnám, aðgerðir, valdbeitingu og blíðu í sterku sambandi við eðlislæga þætti náttúrunnar, þar sem sú spurning vaknar: hvernig getur það sem er okkur svo kunnuglegt – fínlegur jarðargróður – skotið rótum í nýjum frásögnum?

Becky Forsythe er sýningarstjóri og rithöfundur, auk þess að sinna öðrum menningarverkefnum. Hún útskrifaðist með BFA gráðu í myndlist frá York University (2007), MA gráðu frá University of Manitoba (2011) og viðbótardiplóma í safnafræðum frá Georgian College (2014). Hún fæst við margvísleg kerfi náttúru, söfnunar og umhyggju, auk þess sem hún leggur mikið upp úr virku samstarfi með tilliti til ólíkra rýma, aðstæðna og viðhorfa. Frá 2015-2018 gegndi hún stöðu safneignarfulltrúa Nýlistarsafnsins, þar sem hún stýrði mörgum verkefnum og sýningum, svo sem Fjarrænu efni (2018), Rolling Line (2017, ásamt öðrum) og Milli fjalls og fjöru (2018, ásamt öðrum). Becky lítur jafnt á sýningar sem efnislegan og óefnislegan vettvang fyrir skoðanaskipti, aðgerðir og endurnýjun.

Penelope Smart er sýningarstjóri og rithöfundur. Hún útskrifaðist með MFA í gagnrýnni sýningarstjórnun frá OCADU (2013), þar sem hún hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í framhaldsnámi. Penelope hefur gegnt stöðu sýningarstjóra hjá The Art Gallery of Ontario, MULHERIN-galleríunum (Toronto og New York) og Eastern Edge Gallery (St. John‘s, Nýfundnalandi og Labrador). Greinar eftir hana hafa meðal annars verið birtar í Canadian Art, C Magazine og n.paradoxa. Í starfi sínu fylgist Penelope með ungum listamönnum sem eru að stíga fyrstu skrefin á ferli sínum og nálgast sýningar sem lifandi og dularfullan stað til þess að taka áhættu.

Listi yfir þátttakendur sýningarinnar verður birtur síðar.