Haustsýning 2023 – kallað eftir tillögum

Líkt og undanfarin ár gefst sýningarstjórum tækifæri til að senda inn tillögur að haustsýningu næsta árs í Hafnarborg. Haustsýningaröðin hóf göngu sína árið 2011 en hingað til hafa tólf sýningar verið valdar úr miklum fjölda innsendra tillagna eftir sýningarstjóra með ólíkan bakgrunn og reynslu. Þá var haustsýning Hafnarborgar í ár, flæðir að – flæðir frá, í sýningarstjórn Sigrúnar Ölbu Sigurðardóttur, valin með sama hætti úr þeim tillögum sem bárust á síðasta ári en sýningin verður opnuð 10. september næstkomandi.

Markmiðið með því að óska eftir innsendum tillögum er að fá tækifæri til að velja til samstarfs sýningarstjóra eða sýningarstjórateymi, sem leggur fram áhugaverða sýningartillögu, auk þess að vera vettvangur fyrir upprennandi sýningarstjóra til að koma hugmyndum sínum á framfæri. Eru sýningarstjórar með stuttan feril að baki því sérstaklega hvattir til að sækja um. Það hefur enda sýnt sig að fyllsta ástæða er til að halda úti slíku verkefni en út frá því hafa orðið til fjölbreyttar sýningar, sem vakið hafa athygli og fengið góða aðsókn.

Óskað er eftir hugmyndum að samsýningum þar sem viðfangsefni, vinnuaðferð og/eða aðrar hugmyndir tengja verk listamanna en einnig koma til greina sýningar sem fela í sér greiningu eða sérstaka sýn á verk ákveðins listamanns. Jafnt koma til greina sýningar á verkum samtímalistamanna og sýningar sem fela í sér sögulega greiningu. Þá er það listráð Hafnarborgar sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna í samráði við forstöðumann.

Vinsamlegast athugið að frestur til að skila inn tillögum hefur verið framlengdur til miðnættis sunnudaginn 25. september næstkomandi.

Aðeins er tekið við tillögum í tölvupósti á netfangið [email protected] (sjá nánar í lokin).


Umsóknarferli

Umsóknarferlið er tvískipt og eru umsækjendur vinsamlegast beðnir um að kynna sér ferlið vel með því að fara yfir þau atriði sem talin eru hér fyrir neðan.

1. hluti

Í fyrri umferð er óskað eftir eftirfarandi upplýsingum:

  • Lýsingu á verkefninu þar sem lögð er áhersla á hugmyndina að baki sýningunni (hámark 1000 orð).
  • Ferilskrá(m) sýningarstjóra.
  • Stuttum ferilskrám listamanns eða -manna, auk annarra sem lagt er til að verði hluti af sýningarverkefninu.

Gefa skal eins nákvæma lýsingu og unnt er, innan uppgefinna marka um orðafjölda. Einnig er leyfilegt er að láta myndefni, sem er lýsandi fyrir verkefnið, fylgja tillögunni, þó ekki séu gerðar kröfur um slíkt í fyrri umferð. Þá er umsækjendum bent á að kynna sér vel húsnæði Hafnarborgar áður en tillögur eru sendar inn. Listráð Hafnarborgar, ásamt forstöðumanni, metur innsendar tillögur og velur verkefni til frekari skoðunar í annarri umferð.

2. hluti

Þeim sýningarstjórum sem eiga þær tillögur sem valdar eru til frekari skoðunar verður boðið að kynna hugmyndir sínar og senda inn ítarefni, s.s. sýningarskrár, myndefni eða myndbönd, auk þess sem vinna þarf að raunhæfri kostnaðaráætlun fyrir verkefnið. Reiknað er með að sýningin og vinnan við hana falli að fjárhagsáætlun safnsins, ella verði leitað leiða til að fá sérstakan stuðning við verkefnið.

Við mat á tillögum verða eftirfarandi atriði skoðuð:

  • Val á listamönnum.
  • Hvort sýningin kynni nýstárlega sýn á myndlist, t.d. innihald og/eða miðla.
  • Hvort um sé að ræða ný eða eldri verk eða jafnvel blöndu hvors tveggja.
  • Hvort sýningin hafi sérstaka skírskotun til Hafnarborgar, svo sem safneignar, umhverfis, nærsamfélags o.s.frv.
  • Hvort sýningin nýti sýningarrými Hafnarborgar á frumlegan hátt.
  • Ferill sýningarstjóra.
  • Tillögur að dagskrá í tengslum við sýninguna (leiðsögn, málþing, námskeið o.s.frv.).
  • Tillögur að hugsanlegri útgáfu.
  • Að kostnaður við verkefnið sé innan viðráðanlegra marka (nánari útfærsla kostnaðar fer fram í síðari hluta ferlisins).

Teikningar af sölum Hafnarborgar má finna hér. Þær eru ætlaðar til viðmiðunar við undirbúning tillagna en þess er ekki krafist að sýningar séu hannaðar nákvæmlega inn í rýmið.


Allar tillögur skulu sendar á netfangið [email protected], merktar „Haustsýning 2023“. Í kjölfarið verður send staðfesting á því að tillagan hafi verið móttekin en bent er á að hafa samband í síma 585 5790, berist sú staðfesting ekki. Þá verða allir umsækjendur upplýstir um það hvort tillaga þeirra hafi hlotið brautargengi eður ei. Allar niðurstöður verða sendar með tölvupósti.

Nánari upplýsingar veitir skrifstofa Hafnarborgar í síma 585 5790.

Skrifstofa Hafnarborgar – sumarleyfi starfsfólks

Vinsamlegast athugið að lágmarksþjónusta verður á skrifstofu Hafnarborgar á tímabilinu 11. júlí til 12. ágúst vegna sumarleyfa starfsfólks.

Þetta kann að hafa áhrif á svartíma erinda sem berast skrifstofu en í millitíðinni bendum við fólki á að senda tölvupóst á [email protected], þar sem fylgst verður með innsendum erindum.

Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda.

Með sumarkveðju,
starfsfólk Hafnarborgar

Gunnar Örn Gunnarsson – opin vinnustofa að Kambi

Gunnar Örn Gunnarsson (1946-2008) fluttist ásamt fjölskyldu sinni að Kambi á Þjórsárbökkum árið 1986. Á staðnum var vélarskemma sem hann breytti í vinnustofu, þar sem hann starfaði við list sína í rúmlega tvo áratugi en þar hafði hann meðal annars aukið rými til að vinna stærri verk. Samhliða þessu rak Gunnar Örn svo alþjóðlegt sýningarrými, Gallerí Kamb, frá árinu 1998, sem hefur nú verið breytt í gestavinnustofu.

Í sumar stendur yfir yfirlitssýning á verkum Gunnars Arnar, Í undirdjúpum eigin vitundar, í Hafnarborg. Af því tilefni ætlar fjölskylda listamannsins að hafa vinnustofu hans að Kambi opna alla laugardaga í ágúst kl. 11-17. Kambur er staðsettur við Vestra Gíslholtsvatn, miðja vegu milli Selfoss og Hellu, en afleggjarinn er merktur Gíslholti, nr. 284 út frá Þjóðvegi 1, stuttu eftir að ekið er yfir Þjórsárbrú til austurs (akstur frá höfuðborginni tekur tæplega eina og hálfa klukkustund).

Smellið á kort til að fá stærri mynd.

Heitt verður á könnunni og öll hjartanlega velkomin.

Sönghátíð í Hafnarborg – master class í aðalsal

Sönghátíð í Hafnarborg hefur frá upphafi staðið fyrir master class námskeiði fyrir lengra komna söngnemendur og söngvara. Í ár stendur námskeiðið yfir dagana 20. til 23. júní og fyllir tónlistin því húsakynni Hafnarborgar á meðan. Námskeiðið er haldið í aðalsal safnsins frá morgni til seinniparts dags, svo gestir sem heimsækja sýningar safnsins fá að njóta söngs þátttakenda í leiðinni. Námskeiðinu lýkur svo með tónleikum nemenda sem fara fram fimmtudaginn 23. júní kl. 20 sem hluti af hátíðinni. Leiðbeinandi námskeiðsins að þessu sinni er hin ástsæla sópransöngkona Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú) en henni til fulltingis er píanóleikarinn Helga Bryndís Magnúsdóttir, sem mun einnig koma fram með nemendum á tónleikunum.

Nánari upplýsingar um Sönghátíð í Hafnarborg má finna á heimasíðu hátíðarinnar, www.songhatid.is.

List í almannarými – ný veggmynd eftir Juan

Í hádegi föstudagsins 10. júní afhjúpaði Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, nýtt vegglistaverk eftir listamanninn Juan á gafli Strandgötu 4, sem hefur verið prýddur margs konar veggmyndum síðustu ár. Undanfari málsins var sá að Juan hafði samband við Hafnarfjarðarbæ varðandi það hvort bærinn hefði til umráða húsnæði sem væri hentugt til slíks framtaks en Juan hefur vakið athygli fyrir veggmyndir sínar í almannarými víða um land undanfarin misseri.

Menningar- og ferðamálanefnd tók vel í erindi Juans og fór þess á leit við listamanninn að hann skilaði hugmynd að veggmynd við Strandgötu en skissan sem Juan lagði fram í kjölfarið byggði á minnisvörðum og útilistaverkasafni bæjarins, þar sem veggmyndin sýnir meðal annars valin verk í umsjá Hafnarborgar. Því næst var haft samband við alla höfunda listaverkanna eða afkomendur þeirra en öll gáfu þau góðfúslegt leyfi fyrir því að nota myndir af verkum sínum með þessum hætti og fá þau bestu þakkir fyrir.

Á veggmyndinni má sjá eftirtalin listaverk og minnisvarða:
· Dýrkun eftir Ásmund Sveinsson
· Skjól fyrir vinda eftir Barböru Tieaho
· Gullna hliðið eftir Elizu Thoenen-Steinle
· Minnisvarði um fyrstu lútersku kirkjuna eftir Hartmut Wolf eða Lupus
· Tröll eftir Pál á Húsafelli
· Hafnarfjarðartilbrigði eftir Sebastian
· Slæmt samband eftir Sonju Renard
· Verk án titils eftir Sólveigu Baldursdóttur
· Hundrað ára einsemd og verk án titils eftir Sverri Ólafsson
· Vaktin eftir Timo Solis
· Sigling eftir Þorkel G. Guðmundsson

Á veggmyndinni er einnig QR-kóði sem vísar á útilistaverkavef Hafnarborgar og verður vonandi til þess að vekja athygli og áhuga íbúa og aðkomumanna á þessu merkilega safni sem njóta má á eigin forsendum, á hvaða stund sem er. Í samræmi við markmið Hafnarborgar og Heilsubæjarins Hafnarfjarðar eru áhugasamir því eindregið hvattir til þess að fá sér göngu um bæinn – skoða verkin, staldra við og leyfa listinni að efla andann.

Hægt er að heimsækja útilistaverkavef Hafnarborgar hér.

Menningar- og heilsugöngur sumarið 2022 – dagskrá

Hafnarfjarðarbær býður upp á menningar- og heilsugöngur öll miðvikudagskvöld í sumar. Flestar göngurnar taka um klukkustund og hefjast kl. 20, nema annað sé tekið fram. Menningar- og heilsugöngur eru samstarfsverkefni Hafnarborgar, Byggðasafns Hafnarfjarðar, Bókasafns Hafnarfjarðar og Heilsubæjarins Hafnarfjarðar. Þátttaka er ókeypis og öll velkomin.

Dagskrá sumarsins er eftirfarandi:


1. júní kl. 20
Hús í hrauninu
Jónatan Garðarsson leiðir göngu að fyrsta og þriðja húsi Hreins Friðfinnssonar. Athugið að þessi ganga mun taka um þrjár klukkustundir. Gengið frá Gerðinu, sunnan megin við Álverið. Nánar hér.

8. júní kl. 20
Álfaganga
Silja Gunnarsdóttir, eigandi alfar.is, leiðir göngu um álfaslóðir og segir sögu álfa, dverga og huldufólks á leiðinni. Gengið frá Ráðhúsi Hafnarfjarðar að Strandgötu 6.

15. júní kl. 17
Barnaganga
Hildigunnur Sigvaldadóttir leiðir yngri kynslóðina í ævintýralegri göngu með listsköpun. Gengið frá Bókasafni Hafnarfjarðar að Hellisgerði og til baka.

22. júní kl. 18
Söguganga um náttúruna
Jónatan Garðarson leiðir göngu upp á Seldalsháls að Stórhöfða. Gengið frá bílastæðinu vestan megin við Hvaleyrarvatn (nær Völlum).

29. júní kl. 20
Kringum hamarinn
Ólafur Þ. Harðarson leiðir göngu í kringum Hamarinn og fjallar um sögu skóla og íþrótta á svæðinu. Gengið frá Flensborgarskóla.

6. júlí kl. 20
Ha ha um Hafnarfjörð
Einar Skúlason leiðir gesti og gangandi um skemmtilegar slóðir í Suðurbæ Hafnarfjarðar og reitir af sér valda Hafnarfjarðarbrandara á leiðinni. Gengið frá Firði verslunarmiðstöð

13. júlí kl. 20
Hugleiðing um álfa
Bryndís Björgvisdóttir, rithöfundur, sagn- og þjóðfræðingur, og Aldís Arnardóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, leiða göngu þar sem velt er upp hugleiðingum um álfa og verur í klettum. Gengið frá Hafnarborg og gangan endar svo með leiðsögn um sýningu Gunnars Arnar Gunnarssonar í Hafnarborg. Nánar hér.

20. júlí kl. 17
Þessir gömlu góðu
Janus Guðlaugsson, eigandi Janusar heilsueflingar, rifjar upp, kennir og leiðir stórfjölskylduna alla í gegnum þessa gömlu góðu útileiki sem voru vinsælir fyrir ekki svo mörgum árum síðan. Tilvalin skemmtun fyrir alla í fjölskyldunni. Gengið frá Víðistaðakirkju.

27. júlí kl. 20
Æskuslóðir í Suðurbænum
Leifur Helgason leiðir göngu um æskuslóðir sínar í Suðurbænum. Gengið frá Gúttó.

3. ágúst kl. 17
Buslganga að Arnarvatni
Davíð Arnar Stefánsson leiðir göngu að Arnarvatni. Ef veðrið er gott er kjörið að taka með sér teppi og nesti og busla í vatninu. Gengið frá bílastæðinu við Seltún, Krýsuvík.

10. ágúst kl. 18
Villtar matjurtir í Hafnarfirði
Mervi Orvokki Luoma leiðir gesti um Hafnarfjörð í leit að gómsætum, villtum jurtum. Gengið frá Bókasafni Hafnarfjarðar

17. ágúst kl. 20
Umhverfis eitt Klifsholtanna
Valgerður M. Hróðmarsdóttir leiðir göngu umhverfis eitt Klifsholtanna, að Lambgjá og Smyrlabúð með viðkomu í gróðurreit Rótarý og Lionsklúbbs Hafnarfjarðar. Gengið frá bílastæðinu við Helgafell.

24. ágúst kl. 17
Kyrrðarganga við Stórhöfða
Guðbjörg Björnsdóttir og Ingibjörg Valgeirsdóttir, eigendur fræðslufyrirtækisins Saga Story House, leiða kyrrðargöngu við Stórhöfða. Um er að ræða rólega göngu með leiddum núvitundaræfingum þar sem gengið er að hluta til í þögn. Gengið frá bílastæðinu vestan megin við Hvaleyrarvatn (nær Völlum).

31. ágúst kl. 20
Sagan, safnið og gamli bærinn
Björn Pétursson, bæjarminjavörður Hafnarfjarðar, leiðir göngu um gamla bæinn. Gengið frá Pakkhúsi Byggðasafnsins.


Nánari upplýsingar um göngurnar má svo finna hér á viðburðasíðu Hafnarfjarðarbæjar, þegar nær dregur hverri göngu.

Sumarnámskeið 2022 – myndlist og tónlist

Hafnarborg býður upp á myndlistar- og tónlistarnámskeið fyrir börn á aldrinum 6–12 ára í sumar, líkt og fyrri ár. Farið verður í rannsóknarleiðangra og undirstöðuatriði myndlistar kynnt í gegnum rannsóknir á umhverfinu, sýningar í safninu og skapandi vinnu. Unnin verða verkefni í fjölbreytta miðla – teiknað, málað og mótað – með það að markmiði að þjálfa sjónræna athygli, örva skapandi hugsun og persónulega tjáningu barnanna.

Í boði eru tvö 5 daga námskeið og eitt 4 daga námskeið fyrir aldurshópana 6–9 ára og 10–12 ára. Ekkert námskeiðanna verður eins og því er börnum velkomið að taka þátt í fleiri en einu af námskeiðunum. Þá verður námskeiðið sem hefst þann 20. júní með tónlistar- og söngívafi í tengslum við Sönghátíð í Hafnarborg. Lýkur því námskeiði með þátttöku barnanna í fjölskyldutónleikum á Sönghátíð föstudaginn 24. júní kl. 17.

Myndlistarkennari er Unnur Mjöll S. Leifsdóttir og tónlistarkennari er Kolbrún Berglind Grétarsdóttir.


Boðið verður upp á eftirfarandi sumarnámskeið:

13. júní–16. júní*
6–9 ára: kl. 9:00–12:00
10–12 ára: kl. 13:00–16:00
*Athugið að ekki er kennt á þjóðhátíðardaginn 17. júní.

20. júní–24. júní
6–9 ára: kl. 9:00–12:00
10–12 ára: kl. 12:30–15:30

27. júní–1. júlí
6–9 ára: kl. 9:00–12:00
10–12 ára: kl. 13:00–16:00


Námskeiðsgjald er 14.900 krónur fyrir 5 daga námskeið og 11.920 krónur fyrir 4 daga námskeið. Veittur er systkinaafsláttur: fullt gjald er greitt fyrir eitt barn en 50% afsláttur er veittur af námskeiðsgjaldi annarra systkina. Þá eru foreldrar og forráðamenn vinsamlegast beðnir að láta vita ef barn er með sérþarfir sem taka þarf tillit til.

Athugið að fjöldi þátttakenda í sumarnámskeiðunum er takmarkaður.

Skráning er opin frá mánudeginum 9. maí í gegnum vef Hafnarfjarðarbæjar eða beint á skráningarsíðu. Frekari upplýsingar um sumarnámskeiðin eru veittar í síma 585 5790 eða í gegnum netfangið [email protected].

List án landamæra 2022 – einkasýning í Hafnarborg

Starfsfólk Hafnarborgar óskar Elfu Björk Jónsdóttur innilega til hamingju með útnefninguna listamaður hátíðarinnar Listar án landamæra í ár en Elfa Björk mun halda einkasýningu í Hafnarborg í haust í tengslum við hátíðina.

Elfa Björk Jónsdóttir er hæfileikarík listakona en segja má að myndheimur hennar byggist á abstraktgrunni og skapast oft skemmtilegt samspil formrænu og fígúratífu þegar hún sækir sér fyrirmyndir ýmist úr umhverfinu, náttúrulífsbókum eða úr listasögunni.

List án landamæra 2022 mun eiga sér stað frá 15.-30. október.

Með Elfu Björk á myndinni eru Jóhanna Ásgeirsdóttir, listrænn stjórnandi hátíðarinnar, og Aldís Arnardóttir, forstöðumaður Hafnarborgar.

Opnunartími í Hafnarborg um páskana

Hafnarborg óskar vinum og velunnurum gleðilegra páska. Opnunartími um hátíðina er eftirfarandi:

Skírdagur 14. apríl
Opið kl. 12–17

Föstudagurinn langi 15. apríl
Lokað

Laugardagur 16. apríl
Opið kl. 12–17

Páskadagur 17. apríl
Lokað

Annar í páskum 18. apríl
Opið kl. 12–17

Tilnefningar til Íslensku tónlistar­verðlaunanna 2022

Starfsfólk Hafnarborgar óskar Þráni Hjálmarssyni, listrænum stjórnanda Hljóðana, innilega til hamingju með tilnefninguna til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2022 en Hljóðön er tilnefnd sem „tónlistarviðburður ársins – hátíðir“ í flokki sígildrar og samtímatónlistar.

Einnig óskum við Andrési Þór Gunnlaugssyni, listrænum stjórnanda Síðdegistóna í Hafnarborg, hjartanlega til hamingju með tilnefningu tónleikaraðarinnar sem „tónlistarviðburður ársins“ í flokki djass- og blústónlistar, auk þess sem við óskum Andrési Þór innilega til hamingju með tilnefningu sína sem „tónlistarflytjandi ársins“ í sama flokki.

Við þökkum ykkur fyrir að auðga starf Hafnarborgar með fagmennsku ykkar og næmni við að miðla tónlist og sköpunarkrafti svo aðrir fái notið. Við þökkum einnig dómnefnd og aðstandendum Íslensku tónlistarverðlaunanna kærlega fyrir þann heiður sem stofnuninni er sýndur með tilnefningunum.