Diskótek – sýningarlok 15. ágúst

Nú fer hver að verða síðastur að sjá sýningu Arnfinns Amazeen, Diskótek, sem staðið hefur yfir í safninu í sumar, en sýningarlok eru sunnudaginn 15. ágúst. Hvetjum við ykkur því öll til að reima á ykkur skóna – með eða án plastpoka – og kíkja í Hafnarborg til að upplifa diskótek listamannsins. Sýningarstjóri er Heiðar Kári Rannversson.

Á sýningunni getur að líta ný verk, þar sem listamaðurinn sækir innblástur í óræðan myndheim íslenskrar skemmtistaðamenningar frá áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Þrátt fyrir að titillinn vísi í gleðskap er þetta heldur draugalegt diskótek, enginn glaumur og ekkert glys. Aðeins ómur af hávaða sem löngu er þagnaður.

Safnið er opið alla daga, nema þriðjudaga, kl. 12-17 og aðgangur er ókeypis, eins og venjulega.

Töfrafundur – verk á gafli Hafnarborgar

Hafnarborg vill koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri í kjölfar þess að eitt af verkum sýningarinnar Töfrafundar – áratug síðar var fjarlægt af austurgafli Hafnarborgar sunnudaginn 2. maí síðastliðinn. Tekið skal fram að unnið er að lausn málsins, sem er í ferli, en Hafnarborg leggur á það áherslu að verkið verði sett upp aftur sem allra fyrst. Á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar þann 6. maí 2021 var eftirfarandi tillaga samþykkt:

Bæjarráð leggur til að sótt verði um tilskilin leyfi til byggingarfulltrúa um að umræddu verki verði komið upp frístandandi fyrir utan húsið og verði staðsett á þann hátt að merki Hafnarborgar verði sýnilegt. Umhverfis- og framkvæmdasviði verði falið að útfæra uppsetninguna í samráði við listamennina og forstöðumann Hafnarborgar.

Listamennirnir Libia Castro & Ólafur Ólafsson hafa verið boðuð til samtals í framhaldi af samþykkt fundarins en fundargerð hans má lesa hér í heild sinni. Þá mun listráð Hafnarborgar koma saman mánudaginn 10. maí næstkomandi, með nýjum forstöðumanni stofnunarinnar, og fjalla um málsatvik.

Vonast er til þess að málið leysist á farsælan hátt.

Tilnefningar til Íslensku tónlistar­verðlaunanna 2021

Starfsfólk Hafnarborgar óskar Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur og Francisco Javier Jáuregui, stofnendum og stjórnendum Sönghátíðar í Hafnarborg, innilega til hamingju með tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2021 en Sönghátíð í Hafnarborg er tilnefnd sem „tónlistarviðburður ársins – hátíðir“, auk þess sem tónleikar Stuarts Skeltons, The Modern Romantic, sem fram fóru á hátíðinni, eru tilnefndir sem „tónlistarviðburður ársins – tónleikar“, í flokki sígildrar og samtímatónlistar.

Þá óskum við Andrési Þór Gunnlaugssyni, listrænum stjórnanda Síðdegistóna í Hafnarborg, sömuleiðis hjartanlega til hamingju með tilnefningu þessarar nýju tónleikaraðar sem „tónlistarviðburður ársins – tónleikar“ í flokki djass- og blústónlistar, auk þess sem við óskum Andrési Þór innilega til hamingju með tilnefningu sína sem „tónlistarflytjandi ársins“ í sama flokki.

Einnig óskum við hinum fjölmörgu flytjendum, sem komið hafa fram á Sönghátíð, Síðdegistónum, hádegistónleikum og á tónleikaröðinni Hljóðönum, með tilnefningar sínar og ber þar sérstaklega að nefna fiðluleikarann Höllu Steinunni Stefánsdóttur, sem tilnefnd er sem „tónlistarflytjandi ársins“ í flokki sígildrar og samtímatónlistar, en Halla Steinunn tók á síðasta ári þátt í því að virkja sýningu Davíðs Brynjars Franzsonar, Borgarhljóðvist í formi ensks lystigarðs, með hljóðfæraleik sínum.

Við þökkum ykkur öllum kærlega fyrir að auðga starf Hafnarborgar með tónum og töfrum, auk þess sem við þökkum dómnefnd og aðstandendum Íslensku tónlistarverðlaunanna kærlega fyrir þann mikla heiður sem stofnuninni er sýndur með tilnefningunum.

Hádegistónleikar í beinni – Hanna Þóra Guðbrandsdóttir

Vegna gildandi samkomutakmarkana verður hádegistónleikum Hönnu Þóru Guðbrandsdóttur og Antoníu Hevesi streymt í beinni útsendingu á netinu, bæði á Facebook og hér á heimasíðu Hafnarborgar, þar sem við getum því miður ekki tekið á móti áhorfendum í sal Hafnarborgar að þessu sinni.

Útsendingin mun hefjast kl. 12 þriðjudaginn 3. nóvember, samkvæmt venju, og stendur í um hálfa klukkustund en hægt er að horfa á tónleikana í spilaranum hér fyrir neðan. Þá verður upptakan áfram aðgengileg á netinu að tónleikunum loknum. Beina slóð á streymið má einnig finna hér.

Við vonumst svo til þess að geta tekið á móti ykkur á hádegistónleikum í Hafnarborg áður en langt um líður.

Villiblómið – „Engið tætt í sundur“

D’Arcy Wilson les hér texta sinn „Engið tætt í sundur“ (e. „Dismantling the Meadow“), sem hefst á hugmyndum 19. aldar um mál blómanna (e. The Language of Flowers) og birtist í samnefndri sýningarskrá sem gefin var út í tengslum við Villiblómið, haustsýningu Hafnarborgar 2020. Þar veltir hún fyrir sér þeirri merkingu, tilfinningum og menningu sem vestræn hugmyndafræði tengir við plöntur og jurtaríkið, er hún leggur leið sína um Villiblómið, staldrar við, hyggur að og reynir að ráða úr einstökum verkum listamannanna. Þá leiða athuganir, minningar og reynsla hennar hana inn á slóðir úthverfanna, þar sem finna má blómabeð og flókalundi ólíkra plantna, líkt og rhododendron-runnana og kanadarósina, sem vaxa við heimili hennar á austurströnd Kanada.

D’Arcy Wilson vinnur þvert á miðla en í starfi sínu hugar hún að birtingarmyndum náttúrunnar í vestrænu samhengi, þar sem hún harmar afleiðingar nýlendustefnunnar á umhverfið. Verk hennar hafa verið sýnd víða í Kanada, nú síðast í Dalhousie University Art Gallery í Halifax, The Rooms Art Gallery í St. John’s og Owens Art Gallery í Sackville, auk þess sem hún tók þátt í M:ST í Flotilla og Bonavista-tvíæringnum. Hún hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín, þar á meðal Sobey Art Award nú í ár. Wilson útskrifaðist með MFA-gráðu frá University of Calgary árið 2008. Hún gegnir nú stöðu aðstoðarprófessors við myndlistardeild Grenfell Campus, Memorial University of Newfoundland.

Villiblómið er samsýning listamanna frá Kanada og Íslandi, í sýningarstjórn Becky Forsythe og Penelope Smart. Sýningarskráin, sem texti Ingu Bjarkar birtist í, er jafnframt fáanleg í safnbúð Hafnarborgar. Sýningin mun standa yfir til 8. nóvember næstkomandi en safnið er lokað tímabundið af lýðheilsusjónarmiðum.

Villiblómið – „Mekanískt illgresi“

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir les hér texta sinn, „Mekanískt illgresi“, sem birtist í samnefndri sýningarskrá sem gefin var út í tengslum við Villiblómið, haustsýningu Hafnarborgar 2020. Þar fer hún í eins konar tímaferðalag með verki Jóns Gunnars Árnasonar (1931-1989), Blóminu, sem stendur í miðju sýningarrýminu, á eiginlegu blómaengi. Þá heldur þessi vélræni hreyfiskúlptúr áfram að teygja anga sína inn í nýjar víddir, líkt og hann hefur gert allt frá því að verkið skaut fyrst rótum á vinnustofu Jóns Gunnars árið 1967.

Inga Björk er listfræðingur og aðgerðasinni, fædd 1993. Hún hefur vakið athygli fyrir mannréttindabaráttu sína, pistlaskrif og fyrirlestra, þar sem hún tvinnar saman umfjöllun um fötlun, menningarlega fjölbreytni, vald og jaðarsetningu innan listheimsins. Inga Björk lauk MA gráðu í listfræði frá Háskóla Íslands árið 2019 en hefur á undanförnum árum starfað sem sjálfstætt starfandi listfræðingur. Hún er meðal stofnenda Plan-B Art Festival, sem fer fram í Borgarnesi ár hvert. Hún hefur einnig starfað sem sýninga- og verkefnastjóri hjá List án landamæra en hún starfar nú fyrir Landssamtökin Þroskahjálp, hagsmunasamtök fatlaðs fólks.

Villiblómið er samsýning listamanna frá Kanada og Íslandi, í sýningarstjórn Becky Forsythe og Penelope Smart. Sýningarskráin, sem texti Ingu Bjarkar birtist í, er jafnframt fáanleg í safnbúð Hafnarborgar. Sýningin mun standa yfir til 8. nóvember næstkomandi en safnið er lokað tímabundið af lýðheilsusjónarmiðum.

Hádegistónleikar í beinni – Hanna Dóra Sturludóttir

Með tilliti til lýðheilsusjónarmiða hefur verið tekin sú ákvörðun að streyma hádegistónleikum Hönnu Dóru Sturludóttur og Antoníu Hevesi í beinni útsendingu á netinu, bæði á Facebook og hér á heimasíðu Hafnarborgar, þar sem við getum því miður ekki tekið á móti áhorfendum í sal Hafnarborgar vegna fjöldatakmarkana.

Útsendingin mun hefjast kl. 12 þriðjudaginn 6. október, eins og til stóð, og stendur í um hálfa klukkustund en hægt er að horfa á tónleikana í spilaranum hér fyrir neðan. Þá verður upptakan áfram aðgengileg á netinu að tónleikunum loknum. Beina slóð á streymið má einnig finna hér.

Við vonumst svo til þess að geta tekið á móti ykkur á hádegistónleikum í Hafnarborg áður en langt um líður.

Je veux vivre – Sigrún Hjálmtýsdóttir

Gleðilegan þjóðhátíðardag, kæru vinir nær og fjær, og verið öll hjartanlega velkomin í Hafnarborg til að fagna með okkur.

Í tilefni dagsins viljum við deila með ykkur þessu myndbandi, þar sem hin ástsæla sópransöngkona Diddú, Sigrún Hjálmtýsdóttir, flytur líflegu aríuna „Je veux vivre“ úr óperunni Roméo et Juliette eftir Gounod, ásamt Antoníu Hevesi, píanóleikara og listrænum stjórnanda hádegistónleika í Hafnarborg.

Safnið er opið í dag kl. 12–17 og aðgangur er ókeypis, eins og venjulega, auk þess sem njóta má lifandi djasstónlistar á safninu í eftirmiðdaginn.

Casta diva – Sigrún Hjálmtýsdóttir

Í þessum mánuði falla því miður niður aðrir hádegistónleikar vegna aðstæðna, þrátt fyrir breytt viðmið um samkomubann, sem tóku gildi í gær. Þá verður áfram nokkur röskun á starfsemi Hafnarborgar, einkum með tilliti til tónleika og annarra stórra viðburða.

Í staðinn munum við þó halda áfram að deila með ykkur efni hér á netinu, bæði tónlist og myndlist, og hér viljum við einmitt deila með ykkur þessum undurfögru tónum, þar sem hin ástsæla sópransöngkona Diddú, Sigrún Hjálmtýsdóttir, syngur aríuna „Casta diva“ úr óperunni Normu eftir Bellini, ásamt Antoníu Hevesi, listrænum stjórnanda hádegistónleika í Hafnarborg, sem leikur á píanó.

Við hlökkum svo til að deila listinni með ykkur áfram, bæði hér á samfélagsmiðlum og eins í raunheimum, nú þegar loksins er búið að opna safnið gestum á ný.

Hafnarfjörður – vefsýning og leiðsögn

Ágústa Kristófersdóttir fjallar hér um valin verk úr safneign Hafnarborgar, sem sýna Hafnarfjörð, hvert með sínum hætti. Þar má sjá bæinn í gegnum augu listamanna – þar á meðal sumra af helstu meisturum íslenskrar myndlistar – sem vinna bæði á ólíkum tímum og með ólíka miðla, svo sem málverk, teikningar, grafík og ljósmyndir.

Verkin sem fjallað er um hér eru eftir Jón Hróbjartsson, Hörð Ágústsson, Nínu Tryggvadóttur, Gunnlaug Scheving, Gretu Björnsson, Eggert F. Guðmundsson, Gunnar Hjaltason, Pétur Friðrik Sigurðsson, Jón Þorleifsson, Erlu Stefánsdóttur, Árna B. Elfar, Spessa og Astrid Kruse Jensen.

Samhliða þessari leiðsögn höfum við þá opnað sérstaka vefsýningu á heimasíðu Sarps, þar sem hægt er að fræðast nánar um verkin, auk þess sem þar má finna upplýsingar um önnur verk í safneign Hafnarborgar.

Leiðsögnin er bæði textuð á íslensku og ensku.