Sjónarhorn – fræðslustundir fyrir eldra fólk

Hafnarborg leggur áherslu á að gefa öllum tækifæri til að kynnast menningu og listum og býður upp á leiðsagnir fyrir alla aldurshópa. Sjónarhorn er dagskrá ætluð eldra fólki, sem hefur áhuga á menningu og listum, til að fræðast um starfsemi Hafnarborgar, yfirstandandi sýningar eða einstök verk úr safneign.

Viðburðirnir skapa tækifæri fyrir gesti til að nálgast myndlistina á margvíslegan hátt með spjalli við sérfræðinga safnsins. Boðið verður upp á kaffi og meðlæti í Hafnarborg að lokinni dagskrá.

Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá kl. 14 einn miðvikudag í mánuði yfir vetrartímann. Hægt er að skrá sig með því að senda póst á netfangið [email protected] eða í síma 585 5790. Aðgangur er ókeypis.


Dagskrá haustsins 2022

21. september kl. 14
Haustsýning Hafnarborgar: flæðir að – flæðir frá
Leiðsögn um haustsýningu Hafnarborgar flæðir að – flæðir frá en þar er sjónum beint að strandlengjunni, þar sem hið stóra og ofsafengna og hið smá og viðkvæma takast á. Listamennirnir sem taka þátt í sýningunni eru Alda Mohr Eyðunardóttir, Anna Rún Tryggvadóttir, Pétur Thomsen, Stuart Richardson, Studio ThinkingHand og Tadashi Ono.

19. október kl. 14
Valið verk úr safneign
Í safneign Hafnarborgar eru um 1560 verk unnin með fjölbreyttum aðferðum. Þar má finna málverk, teikningar, þrívíð verk, vídeóverk og útilistaverk. Fjallað verður ítarlega um naívisma og verkið Fiskþurrkun (1990) eftir Sigurlaugu Jónasdóttur (1913-2003).

16. nóvember kl. 14
Form, lögun, efni
Leiðsögn um sýninguna Vísað úr náttúru: verk úr safneign Hafnarborgar, þar sem lögð er áhersla á áferðarmikil verk, lífræn form og aflíðandi línur, ýmist í formi þrívíðra verka eða annarra verka sem segja mætti að hafi einkenni skúlptúra. Þá verður hugað að formi, lögun og efni verkanna með hliðsjón af náttúrunni, sem hefur lengi veitt listamönnum innblástur.

Gunnar Örn Gunnarsson – opin vinnustofa að Kambi

Gunnar Örn Gunnarsson (1946-2008) fluttist ásamt fjölskyldu sinni að Kambi á Þjórsárbökkum árið 1986. Á staðnum var vélarskemma sem hann breytti í vinnustofu, þar sem hann starfaði við list sína í rúmlega tvo áratugi en þar hafði hann meðal annars aukið rými til að vinna stærri verk. Samhliða þessu rak Gunnar Örn svo alþjóðlegt sýningarrými, Gallerí Kamb, frá árinu 1998, sem hefur nú verið breytt í gestavinnustofu.

Í sumar stendur yfir yfirlitssýning á verkum Gunnars Arnar, Í undirdjúpum eigin vitundar, í Hafnarborg. Af því tilefni ætlar fjölskylda listamannsins að hafa vinnustofu hans að Kambi opna alla laugardaga í ágúst kl. 11-17. Kambur er staðsettur við Vestra Gíslholtsvatn, miðja vegu milli Selfoss og Hellu, en afleggjarinn er merktur Gíslholti, nr. 284 út frá Þjóðvegi 1, stuttu eftir að ekið er yfir Þjórsárbrú til austurs (akstur frá höfuðborginni tekur tæplega eina og hálfa klukkustund).

Smellið á kort til að fá stærri mynd.

Heitt verður á könnunni og öll hjartanlega velkomin.

List í almannarými – ný veggmynd eftir Juan

Í hádegi föstudagsins 10. júní afhjúpaði Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, nýtt vegglistaverk eftir listamanninn Juan á gafli Strandgötu 4, sem hefur verið prýddur margs konar veggmyndum síðustu ár. Undanfari málsins var sá að Juan hafði samband við Hafnarfjarðarbæ varðandi það hvort bærinn hefði til umráða húsnæði sem væri hentugt til slíks framtaks en Juan hefur vakið athygli fyrir veggmyndir sínar í almannarými víða um land undanfarin misseri.

Menningar- og ferðamálanefnd tók vel í erindi Juans og fór þess á leit við listamanninn að hann skilaði hugmynd að veggmynd við Strandgötu en skissan sem Juan lagði fram í kjölfarið byggði á minnisvörðum og útilistaverkasafni bæjarins, þar sem veggmyndin sýnir meðal annars valin verk í umsjá Hafnarborgar. Því næst var haft samband við alla höfunda listaverkanna eða afkomendur þeirra en öll gáfu þau góðfúslegt leyfi fyrir því að nota myndir af verkum sínum með þessum hætti og fá þau bestu þakkir fyrir.

Á veggmyndinni má sjá eftirtalin listaverk og minnisvarða:
· Dýrkun eftir Ásmund Sveinsson
· Skjól fyrir vinda eftir Barböru Tieaho
· Gullna hliðið eftir Elizu Thoenen-Steinle
· Minnisvarði um fyrstu lútersku kirkjuna eftir Hartmut Wolf eða Lupus
· Tröll eftir Pál á Húsafelli
· Hafnarfjarðartilbrigði eftir Sebastian
· Slæmt samband eftir Sonju Renard
· Verk án titils eftir Sólveigu Baldursdóttur
· Hundrað ára einsemd og verk án titils eftir Sverri Ólafsson
· Vaktin eftir Timo Solis
· Sigling eftir Þorkel G. Guðmundsson

Á veggmyndinni er einnig QR-kóði sem vísar á útilistaverkavef Hafnarborgar og verður vonandi til þess að vekja athygli og áhuga íbúa og aðkomumanna á þessu merkilega safni sem njóta má á eigin forsendum, á hvaða stund sem er. Í samræmi við markmið Hafnarborgar og Heilsubæjarins Hafnarfjarðar eru áhugasamir því eindregið hvattir til þess að fá sér göngu um bæinn – skoða verkin, staldra við og leyfa listinni að efla andann.

Hægt er að heimsækja útilistaverkavef Hafnarborgar hér.

Menningar- og heilsugöngur sumarið 2022 – dagskrá

Hafnarfjarðarbær býður upp á menningar- og heilsugöngur öll miðvikudagskvöld í sumar. Flestar göngurnar taka um klukkustund og hefjast kl. 20, nema annað sé tekið fram. Menningar- og heilsugöngur eru samstarfsverkefni Hafnarborgar, Byggðasafns Hafnarfjarðar, Bókasafns Hafnarfjarðar og Heilsubæjarins Hafnarfjarðar. Þátttaka er ókeypis og öll velkomin.

Dagskrá sumarsins er eftirfarandi:


1. júní kl. 20
Hús í hrauninu
Jónatan Garðarsson leiðir göngu að fyrsta og þriðja húsi Hreins Friðfinnssonar. Athugið að þessi ganga mun taka um þrjár klukkustundir. Gengið frá Gerðinu, sunnan megin við Álverið. Nánar hér.

8. júní kl. 20
Álfaganga
Silja Gunnarsdóttir, eigandi alfar.is, leiðir göngu um álfaslóðir og segir sögu álfa, dverga og huldufólks á leiðinni. Gengið frá Ráðhúsi Hafnarfjarðar að Strandgötu 6.

15. júní kl. 17
Barnaganga
Hildigunnur Sigvaldadóttir leiðir yngri kynslóðina í ævintýralegri göngu með listsköpun. Gengið frá Bókasafni Hafnarfjarðar að Hellisgerði og til baka.

22. júní kl. 18
Söguganga um náttúruna
Jónatan Garðarson leiðir göngu upp á Seldalsháls að Stórhöfða. Gengið frá bílastæðinu vestan megin við Hvaleyrarvatn (nær Völlum).

29. júní kl. 20
Kringum hamarinn
Ólafur Þ. Harðarson leiðir göngu í kringum Hamarinn og fjallar um sögu skóla og íþrótta á svæðinu. Gengið frá Flensborgarskóla.

6. júlí kl. 20
Ha ha um Hafnarfjörð
Einar Skúlason leiðir gesti og gangandi um skemmtilegar slóðir í Suðurbæ Hafnarfjarðar og reitir af sér valda Hafnarfjarðarbrandara á leiðinni. Gengið frá Firði verslunarmiðstöð

13. júlí kl. 20
Hugleiðing um álfa
Bryndís Björgvisdóttir, rithöfundur, sagn- og þjóðfræðingur, og Aldís Arnardóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, leiða göngu þar sem velt er upp hugleiðingum um álfa og verur í klettum. Gengið frá Hafnarborg og gangan endar svo með leiðsögn um sýningu Gunnars Arnar Gunnarssonar í Hafnarborg. Nánar hér.

20. júlí kl. 17
Þessir gömlu góðu
Janus Guðlaugsson, eigandi Janusar heilsueflingar, rifjar upp, kennir og leiðir stórfjölskylduna alla í gegnum þessa gömlu góðu útileiki sem voru vinsælir fyrir ekki svo mörgum árum síðan. Tilvalin skemmtun fyrir alla í fjölskyldunni. Gengið frá Víðistaðakirkju.

27. júlí kl. 20
Æskuslóðir í Suðurbænum
Leifur Helgason leiðir göngu um æskuslóðir sínar í Suðurbænum. Gengið frá Gúttó.

3. ágúst kl. 17
Buslganga að Arnarvatni
Davíð Arnar Stefánsson leiðir göngu að Arnarvatni. Ef veðrið er gott er kjörið að taka með sér teppi og nesti og busla í vatninu. Gengið frá bílastæðinu við Seltún, Krýsuvík.

10. ágúst kl. 18
Villtar matjurtir í Hafnarfirði
Mervi Orvokki Luoma leiðir gesti um Hafnarfjörð í leit að gómsætum, villtum jurtum. Gengið frá Bókasafni Hafnarfjarðar

17. ágúst kl. 20
Umhverfis eitt Klifsholtanna
Valgerður M. Hróðmarsdóttir leiðir göngu umhverfis eitt Klifsholtanna, að Lambgjá og Smyrlabúð með viðkomu í gróðurreit Rótarý og Lionsklúbbs Hafnarfjarðar. Gengið frá bílastæðinu við Helgafell.

24. ágúst kl. 17
Kyrrðarganga við Stórhöfða
Guðbjörg Björnsdóttir og Ingibjörg Valgeirsdóttir, eigendur fræðslufyrirtækisins Saga Story House, leiða kyrrðargöngu við Stórhöfða. Um er að ræða rólega göngu með leiddum núvitundaræfingum þar sem gengið er að hluta til í þögn. Gengið frá bílastæðinu vestan megin við Hvaleyrarvatn (nær Völlum).

31. ágúst kl. 20
Sagan, safnið og gamli bærinn
Björn Pétursson, bæjarminjavörður Hafnarfjarðar, leiðir göngu um gamla bæinn. Gengið frá Pakkhúsi Byggðasafnsins.


Nánari upplýsingar um göngurnar má svo finna hér á viðburðasíðu Hafnarfjarðarbæjar, þegar nær dregur hverri göngu.

List án landamæra 2022 – einkasýning í Hafnarborg

Starfsfólk Hafnarborgar óskar Elfu Björk Jónsdóttur innilega til hamingju með útnefninguna listamaður hátíðarinnar Listar án landamæra í ár en Elfa Björk mun halda einkasýningu í Hafnarborg í haust í tengslum við hátíðina.

Elfa Björk Jónsdóttir er hæfileikarík listakona en segja má að myndheimur hennar byggist á abstraktgrunni og skapast oft skemmtilegt samspil formrænu og fígúratífu þegar hún sækir sér fyrirmyndir ýmist úr umhverfinu, náttúrulífsbókum eða úr listasögunni.

List án landamæra 2022 mun eiga sér stað frá 15.-30. október.

Með Elfu Björk á myndinni eru Jóhanna Ásgeirsdóttir, listrænn stjórnandi hátíðarinnar, og Aldís Arnardóttir, forstöðumaður Hafnarborgar.

Tilnefningar til Íslensku tónlistar­verðlaunanna 2022

Starfsfólk Hafnarborgar óskar Þráni Hjálmarssyni, listrænum stjórnanda Hljóðana, innilega til hamingju með tilnefninguna til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2022 en Hljóðön er tilnefnd sem „tónlistarviðburður ársins – hátíðir“ í flokki sígildrar og samtímatónlistar.

Einnig óskum við Andrési Þór Gunnlaugssyni, listrænum stjórnanda Síðdegistóna í Hafnarborg, hjartanlega til hamingju með tilnefningu tónleikaraðarinnar sem „tónlistarviðburður ársins“ í flokki djass- og blústónlistar, auk þess sem við óskum Andrési Þór innilega til hamingju með tilnefningu sína sem „tónlistarflytjandi ársins“ í sama flokki.

Við þökkum ykkur fyrir að auðga starf Hafnarborgar með fagmennsku ykkar og næmni við að miðla tónlist og sköpunarkrafti svo aðrir fái notið. Við þökkum einnig dómnefnd og aðstandendum Íslensku tónlistarverðlaunanna kærlega fyrir þann heiður sem stofnuninni er sýndur með tilnefningunum.

Kærleikskúlan 2021 – uppseld í safnbúð

Kærleikskúla ársins 2021 er uppseld í safnbúð Hafnarborgar, líkt og hjá mörgum söluaðilum á höfuðborgarsvæðinu. Einhverjar kúlur kunna enn að vera fáanlegar hjá öðrum aðilum en við mælum með að hringja á undan til að ganga úr skugga um að kúlan sé til.

Lista yfir söluaðila Kærleikskúlunnar má finna hér.

Jólaóróinn 2021 – fáanlegur í safnbúð Hafnarborgar

Jólaóróinn Þvörusleikir er nú fáanlegur í safnbúð Hafnarborgar. Hönnunarteymið Arnar&Arnar hannaði óróann og Kristín Svava Tómasdóttir samdi kvæði um kappann. Þvörusleikir er síðastur í jólaóróaseríu Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra sem telur alls sextán óróa. Þá hafa jólasveinarnir þrettán verið færðir í stál ásamt Grýlu, Leppalúða og Jólakettinum.

Margir færustu hönnuðir og fremstu skáld landsins hafa lagt Styrktarfélaginu lið og gefið vinnu sína við að skapa jólaóróana og semja kvæði með óróunum. Þá var Kertasníkir fyrstur í röðinni en hann kom út fyrir jólin 2003.

Hafnarborg hefur verið meðal söluaðila jólaóróans og Kærleikskúlunnar um árabil en vegna tafa sem urðu í framleiðslu- og sendingarferli Kærleikskúlunnar seinkar sölu hennar um nokkra daga. Sölutímabil Kærleikskúlunnar verður því frá 9. desember til og með 23. desember. Allur ágóði af sölu Kærleikskúlunnar og jólaóróans rennur óskiptur til Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra.

Jólaóróinn er framleiddur í takmörkuðu upplagi en sölutímabil hans er frá 2. desember til og með 16. desember.

Fylgstu með – skráðu þig á póstlistann

Hefurðu áhuga á starfsemi Hafnarborgar? Viltu fá tilkynningar um sýningar, viðburði eða annað sem er á döfinni í safninu hverju sinni? Er netfangið þitt ekki þegar skráð á póstlistann okkar?

Ef svo er hvetjum við þig eindregið til þess að skrá þig á póstlista safnsins með því að rita netfang þitt í reitinn neðst á forsíðu Hafnarborgar og taka í framhaldinu þátt í fjölbreyttri dagskrá safnsins með okkur.

Sjáumst í Hafnarborg.

Myndin af Maríu – taktu þátt í að endurskapa listaverk

Heitirðu María? Býrðu í Hafnarfirði? Hefurðu áhuga á að vera með í listaverki?

Um þessar mundir vinnur Hafnarborg að uppsetningu yfirlitssýningarinnar, Lengi skal manninn reyna, þar sem sýnd verða verk eftir listamanninn Þorvald Þorsteinsson (1960-2013). Á sýningunni stendur til að endurskapa eitt verka listamannsins, Myndina af Maríu, sem Þorvaldur sýndi fyrst á sýningu í Listasafninu á Akureyri árið 1996. Þá mun sýningin í Hafnarborg opna á afmælisdegi Þorvaldar, 7. nóvember næstkomandi.

Myndin af Maríu er þátttökulistaverk sem fólst í því að listamaðurinn óskaði eftir að fá myndir að láni frá þeim sem báru nafnið María og bjuggu á Akureyri. Myndirnar sýndi hann svo allar saman í einu rými safnsins, við milda lýsingu, sveipaðar helgiblæ. Vísaði hann þar til helgra Maríumynda og tengdi saman hversdagsleikann og heilagleikann í verki sínu.

Nú leitar Hafnarborg til María, sem búsettar eru í Hafnarfirði, um að lána safninu myndir af sér til að sýna á væntanlegri yfirlitssýningu á verkum listamannsins. Myndin getur verið passamynd eða stærri ljósmynd, sjálfsmynd tekin á síma, mynd úr fjölskyldualbúminu, teikning eða málverk, ef slíkt er til, andlitsmynd eða heilmynd, allt eftir smekk. Þá skiptir stærð eða aldur myndarinnar ekki máli, heldur er leitast eftir því að fjölbreytni í formi og útliti verði sem mest.

Myndinni er ýmist hægt að koma til skila í afgreiðslu Hafnarborgar á opnunartíma safnsins eða í tölvupósti á netfangið [email protected] en gæta þarf að myndinni fylgi fullt nafn og símanúmer þátttakanda. Tekið verður við myndum til 10. október. Að sýningu lokinni munu þátttakendur svo geta nálgast mynd sína í afgreiðslu safnsins.

Ef þú hefur áhuga en eitthvað er óljóst, endilega hafðu samband í síma 585 5790.