Kahalii

Arngunnur Ýr

Á sýningunni getur að líta ný og nýleg málverk eftir Arngunni Ýr, þar sem listakonan beinir sjónum að eigin landnámi á Hawaii – á fögrum stað þar sem náttúran víkur nú fyrir manngerðum byggingum. Þar hyggjast Arngunnur og eiginmaður hennar byggja sér hús og eiga verkin þannig í samtali við sögu staðarins en um aldaraðir stóð þar þorp Hawaii-búa. Hafið tók þorpið hins vegar til sín með flóðbylgju og eirði engu. Landið var síðar yfirtekið af sykurbarónum og í dag eiga fáir Hawaii-búar kost á ákjósanlegustu lóðunum á svæðinu. Þá sýna verk listakonunnar mótíf af gróðri sem var og er þar til staðar en sjálf veltir Arngunnur upp spurningum um eigin forréttindastöðu, þar sem hún fær að njóta svæðis sem er ekki öllum fært – svæðis sem er undir stöðugum ágangi af hálfu mannsins og náttúraflanna.

Arngunnur Ýr (f. 1962) útskrifaðist með BFA-gráðu í málaralist frá San Francisco Art Institute árið 1986. Hún var síðar gestanemi við Gerrit Rietveld-akademíuna í Amsterdam, Hollandi, 1989 til 1990 en sneri aftur til Kaliforníu og lauk meistaragráðu í málaralist frá Mills-háskólanum í Oakland árið 1992. Hún hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín, svo sem úr sjóði Svavars Guðnasonar og Ástu Eiríksdóttur og árið 2005 hlaut hún styrk frá Pollock-Krasner Foundation. Verk hennar hafa verið sýnd hér á landi, í Evrópu og Bandaríkjunum og eru verk eftir hana ýmist í eigu opinberra safna, stofnana og einkasafnara, bæði hér á landi sem erlendis. Arngunnur býr í Kaliforníu og á Íslandi.