Eiríkur Smith – kveðja

Eiríkur Smith, listmálari, lést á Hrafnistu föstudaginn 9. september síðastliðinn, 91 árs að aldri. Hann fæddist 9. ágúst 1925 í Hafnarfirði. Ferill Eiríks var í senn langur og margbreytilegur. Hann tókst á við málverkið sem tjáningarform, þar sem maðurinn var oft í forgrunni en landið og mannanna verk mynda magnþrungna umgjörð. Eiríkur kannaði sífellt nýjar slóðir í list sinni og tókst óhræddur á við ný viðfangsefni. Verk hans hafa átt greiða leið að hjarta almennings.

Árið 1990 afhenti Eiríkur Smith Hafnarborg um 400 verk til eignar. Þessi gjöf var einkar höfðingleg og er safninu ómetanleg sem uppspretta bæði rannsókna og sýninga. Jafnt og þétt hefur verið bætt við þennan hluta safneignarinnar með það að markmiði að hér sé varðveitt safn verka sem gefi góða yfirsýn yfir feril listamannsins. Eiríkur Smith og Hafnarborg voru samferða allt frá opnunarsýningu Hafnarborgar árið 1988, sem var einkasýning á verkum listamannsins. Verk hans halda nú áfram að vera hluti safnkostsins, þar sem almenningur getur notið þeirra á ólíkum sýningum safnsins.

Starfsfólk Hafnarborgar sendir fjölskyldu Eiríks innilegar samúðarkveðjur.

Feneyjatvíæringurinn 2017 – Egill Sæbjörnsson

Egill Sæbjörnsson verður fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum, sem haldinn verður í 57. sinn á næsta ári. Sýningarstjóri íslenska skálans að þessu sinni er hin þýska Stefanie Böttcher, listfræðingur og sýningarstjóri. Í fréttatilkynningu Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar, þar sem greint er frá niðurstöðu fagráðsins, segir:

„Uppátækjasemin og skopskynið sem einkennir verkefni Egils, auk færni hans í að draga saman aðskilda heima með notkun mismunandi miðla til þess að skapa heilsteypt heildarumhverfi þar sem raunveruleikinn skarast á við hið ímyndaða, mun fanga athygli áhorfenda á Feneyjartvíæringnum árið 2017, með sínum marglaga heimi sem endurspeglar okkar samtíma og á erindi við heiminn allan.“ 

Egill Sæbjörnsson (f. 1973) býr og starfar í Berlín og Reykjavík. Verk hans og gjörningar hafa meðal annars verið sýnd í Hamburger Bahnhof, Frankfurter Kunstverein, Kölnischer Kunstverein, The Baryshnikov Art Center í New York, Oi Futuro í Rio de Janeiro, PS1 MoMA, Kiasma í Helsinki og Nýlistasafni Ástralíu í Sydney. Egill var tilnefndur til Carnegie-listverðlaunanna árið 2010 og verk hans má finna í þónokkrum einkasöfnum. Egill hefur auk þess gefið út þrjár bækur með verkum sínum og fimm plötur með tónlist sinni. Egill vinnur með galleríunum i8 í Reykjavik og Hopstreet Gallery í Brussel.

Við hjá Hafnarborg óskum Agli hjartanlega til hamingju og hlökkum til að vinna með honum að sýningu hans sem opnar í Hafnarborg í lok október næstkomandi.

Á eintali við tilveruna – bók um feril Eiríks Smith

Hafnarborg kynnir með stolti útgáfu listaverkabókar um listmálarann Eirík Smith sem gefin var út í tengslum við sýninguna Á eintali við tilveruna sem nú stendur yfir í sölum safnsins. Bókin, sem ber sama titil og sýningin, er vegleg og gerir margbreytilegum ferli Eiríks Smith góð skil í máli og myndum. Höfundar texta bókarinnar eru Aðalsteinn Ingólfsson, Heiðar Kári Rannversson og Aldís Arnardóttir, ásamt Ólöfu K. Sigurðardóttur, fyrrverandi forstöðumanni Hafnarborgar, sem jafnframt er sýningarstjóri sýningarinnar og ritstjóri bókarinnar.

kápa2

Ferill Eiríks Smith (1925-2016) var í senn langur og margbreytilegur. Hann tókst á við málverkið sem tjáningarform og eftir hann liggja verk sem bera vitni um einstök tök á jafn ólíkum viðfangsefnum og strangflatarlist, tjáningarríku abstraktmálverki og raunsæisverkum, þar sem maðurinn er oft í forgrunni en landið og mannanna verk mynda magnþrungna umgjörð. Aðferðir hans og afstaða tóku þannig miklum breytingum bæði í takt við tíðarandann og einnig vegna þess að listamaðurinn hefur ákveðið að kanna nýjar slóðir.

Sýningin Á eintali við tilveruna er fimmta og síðasta sýningin í sýningarröð sem Hafnarborg hefur staðið fyrir síðan árið 2010 þar sem kynnt hafa verið fimm ólík tímabil á löngum og fjölþættum ferli Eiríks. Þess má geta að bókin kemur út með fimm mismunandi kápum, með mynd af einu málverki frá hverju þessara fimm tímabila. Kaupendum býðst því að velja sér kápu eftir óskum eða persónulegum smekk. Útlit og hönnun bókarinnar var í höndum Ármanns Agnarssonar.

Bókin er fáanleg í safnbúð Hafnarborgar og öllum helstu bókaverslunum.

Lyklaafhending í Hafnarborg

Þann 1. október tók Ágústa Kristófersdóttir formlega til starfa sem forstöðumaður Hafnarborgar. Það var Ólöf K. Sigurðardóttir, fráfarandi forstöðumaður, sem afhenti Ágústu lyklavöldin að safninu.

Starfsfólk Hafnarborgar býður Ágústu hjartanlega velkomna til starfa.

Nýr forstöðumaður Hafnarborgar – Ágústa Kristófersdóttir

Ágústa Kristófersdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Hafnarborgar.

Ágústa starfaði áður sem framkvæmdastjóri Safnaráðs, sýningarstjóri Þjóðminjasafns Íslands og Deildarstjóri sýningardeildar Listasafns Reykjavíkur.

Starfsfólk Hafnarborgar býður Ágústu hjartanlega velkomna.