Myndin af Maríu – taktu þátt í að endurskapa listaverk

Heitirðu María? Býrðu í Hafnarfirði? Hefurðu áhuga á að vera með í listaverki?

Um þessar mundir vinnur Hafnarborg að uppsetningu yfirlitssýningarinnar, Lengi skal manninn reyna, þar sem sýnd verða verk eftir listamanninn Þorvald Þorsteinsson (1960-2013). Á sýningunni stendur til að endurskapa eitt verka listamannsins, Myndina af Maríu, sem Þorvaldur sýndi fyrst á sýningu í Listasafninu á Akureyri árið 1996. Þá mun sýningin í Hafnarborg opna á afmælisdegi Þorvaldar, 7. nóvember næstkomandi.

Myndin af Maríu er þátttökulistaverk sem fólst í því að listamaðurinn óskaði eftir að fá myndir að láni frá þeim sem báru nafnið María og bjuggu á Akureyri. Myndirnar sýndi hann svo allar saman í einu rými safnsins, við milda lýsingu, sveipaðar helgiblæ. Vísaði hann þar til helgra Maríumynda og tengdi saman hversdagsleikann og heilagleikann í verki sínu.

Nú leitar Hafnarborg til María, sem búsettar eru í Hafnarfirði, um að lána safninu myndir af sér til að sýna á væntanlegri yfirlitssýningu á verkum listamannsins. Myndin getur verið passamynd eða stærri ljósmynd, sjálfsmynd tekin á síma, mynd úr fjölskyldualbúminu, teikning eða málverk, ef slíkt er til, andlitsmynd eða heilmynd, allt eftir smekk. Þá skiptir stærð eða aldur myndarinnar ekki máli, heldur er leitast eftir því að fjölbreytni í formi og útliti verði sem mest.

Myndinni er ýmist hægt að koma til skila í afgreiðslu Hafnarborgar á opnunartíma safnsins eða í tölvupósti á netfangið [email protected] en gæta þarf að myndinni fylgi fullt nafn og símanúmer þátttakanda. Tekið verður við myndum til 10. október. Að sýningu lokinni munu þátttakendur svo geta nálgast mynd sína í afgreiðslu safnsins.

Ef þú hefur áhuga en eitthvað er óljóst, endilega hafðu samband í síma 585 5790.

Tónagull – tónlistarsmiðjur á pólsku í vetur

Tónagull er tónlistarnámskeið sem byggir á áralangri reynslu en aðferðafræðin er hönnuð sérstaklega fyrir börn á yngsta skeiði og foreldra þeirra. Tónlistarsmiðjur á pólsku hafa svo verið haldnar reglulega síðan árið 2019 við miklar vinsældir. Í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ og Hafnarborg er nú boðið upp á smiðjur fyrir pólskar fjölskyldur í Hafnarfirði en fyrstu tónlistarsmiðjurnar á pólsku voru haldnar í safninu vorið 2020.

Smiðjurnar verða haldnar einu sinni í viku í Hafnarborg – alla sunnudaga frá 9. janúar – en þær byggjast á frjálslegri nálgun og leik, sem bæði börn og foreldrar hafa gaman af. Tónlistarsmiðjurnar eru sniðnar fyrir börn á aldrinum 8-10 mánaða en henta þó einnig yngri og eldri þátttakendum (allt upp í þriggja ára aldur), sem fá að kynnast heiminum í gegnum tónlist á námskeiðunum.

Fyrsta Tónagullsnámskeiðið var haldið í janúar 2004 og hefur námskeiðum sífellt fjölgað í samræmi við eftirspurn síðan. Þá sjást þessar góðu viðtökur ekki síst á því að foreldrar koma oft aftur þegar fjölskyldan stækkar. Námskeiðsefnið var þróað af Helgu Rut Guðmundsdóttur, prófessor í tónmennt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Í smiðjunum er unnið:

  • á pólsku
  • með vinsæl barnalög og frumsamda tónlist

Þá er einnig notast við einföld og barnvæn hljóðfæri. Ekki er gerð nein krafa um það að þátttakendur námskeiðanna hafi sérstakan grunn í tónlist. Leiðbeinandi gætir þess að námskeiðin gangi vel fyrir sig og leiðir þátttakendur í gegnum efnið, skref fyrir skref, í leik með tónlist. Vefsíðu smiðjanna má finna hér á pólsku.

Komið endilega og sjáið sjálf hversu gefandi það er að búa til tónlist saman. Þátttökugjald fyrir hverja smiðju er aðeins 500 krónur. Skráning fer fram hér.


Tónagull – warsztaty dla rodziców z dziećmi w wieku 0-3
Niedzielę o godz. 12, w Hafnarborg

Tónagull to oparta o wieloletnią praktykę metoda warsztatów muzycznych utworzona specjalnie z myślą o dzieciach należących do najmłodszej grupy wiekowej i ich rodzicach. Od września 2019 spotkania w języku polskim odbywają się regularnie w Reykjaviku i cieszą się ogromną popularnością. Dzięki wsparciu miasta Hafnarfjörður oraz centrum sztuki Hafnarborg teraz dostępna będzie także dla polskich rodzin mieszkających w Hafnafjörður.

Spotkania będą się odbywać – w każdą niedzielę o godz. 12, począwszy od 9 styczeń– a ich forma przypomina muzyczną zabawę, z której radość czerpią zarówno dzieci, jak i ich opiekunowie. Warsztaty znakomicie odpowiadają na potrzeby dzieci w wieku 8-10 miesięcy, jednak zarówno młodsi, jak i starsi uczestnicy (do ok. 3 roku życia) będą w równym stopniu cieszyć się przebiegiem zajęć odkrywając świat za pomocą dźwięków.

Pierwsze warsztaty Tónagull odbyły się w styczniu 2004 i od tamtej pory spotkania cieszą się wciąż rosnącą popularnością. O pozytywnym odbiorze warsztatów świadczy także fakt, że rodzice uczestniczący w spotkaniach często wracają kolejny raz, kiedy w ich życiu pojawiają się nowe pociechy. Metoda opracowana została przez Helgę Rut Guðmundsdóttir, wykładowczynię na Uniwersytecie Islandzkim.

Na zajęciach pracować będziemy:

  • w języku polskim
  • w oparciu o popularne piosenki dziecięce oraz oryginalne kompozycje

Będziemy także korzystać ze specjalnie przygotowanego zestawu prostych, bezpiecznych dla dzieci instrumentów muzycznych. Aby uczestniczyć w warsztatach nie musisz mieć żadnego przygotowania muzycznego! Kierujący warsztatami pedagog przeprowadzi uczestników krok po kroku przez całą strukturę zajęć za pomocą kolejnych muzycznych zabaw. Zapraszamy na stronę internetową warsztatów po polsku.

Przyjdź, aby przekonać się jak niezwykle wzbogacającym doświadczeniem jest wspólne muzykowanie. Koszt jednych zajęć wynosi tylko 500 ISK. Kliknij tutaj by się zapisać.

Samfélag skynjandi vera – óskað eftir tárum

Listakonan Gígja Jónsdóttir leitar til almennings eftir tárum fyrir verk hennar á samsýningunni Samfélag skynjandi vera, sem mun standa yfir í Hafnarborg frá 28. ágúst til 31. október 2021.

Táragjafar fá send glös til að safna tárum sínum, sem þeir skila síðan í tárabrunn á safninu, hvenær sem er yfir sýningartímabilið.

Ef þú vilt leggja þín tár af mörkum, hafðu endilega samband við listakonuna með upplýsingum um fullt nafn, heimilisfang og símanúmer með því að senda tölvupóst á [email protected].

Diskótek – sýningarlok 15. ágúst

Nú fer hver að verða síðastur að sjá sýningu Arnfinns Amazeen, Diskótek, sem staðið hefur yfir í safninu í sumar, en sýningarlok eru sunnudaginn 15. ágúst. Hvetjum við ykkur því öll til að reima á ykkur skóna – með eða án plastpoka – og kíkja í Hafnarborg til að upplifa diskótek listamannsins. Sýningarstjóri er Heiðar Kári Rannversson.

Á sýningunni getur að líta ný verk, þar sem listamaðurinn sækir innblástur í óræðan myndheim íslenskrar skemmtistaðamenningar frá áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Þrátt fyrir að titillinn vísi í gleðskap er þetta heldur draugalegt diskótek, enginn glaumur og ekkert glys. Aðeins ómur af hávaða sem löngu er þagnaður.

Safnið er opið alla daga, nema þriðjudaga, kl. 12-17 og aðgangur er ókeypis, eins og venjulega.

Óþekkt svæði – myndasögur frá Íslandi og Slóvakíu

Myndasögusýningin Terra Incognita eða Óþekkt svæði býður gestum að kynnast verkum fjögurra listamanna frá Slóvakíu og Íslandi en það er slóvakíska teymið Free Feeling sem stendur fyrir sýningunni. Myndasögur eru enda þess eðlis að þær má skilja þvert á þjóðerni og tungumál, þar sem þær koma hugsun mannsins, jafnt hinum innri hugarheimi höfundarins og ytri áhrifum, til skila á myndrænan hátt.

Á síðasta ári voru fimm sýningar á verkum þátttakenda haldnar í Slóvakíu við ýmis tækifæri, svo sem á menningarviðburðum, hátíðum og listasmiðjum. Nú gefst íslenskum áhorfendum svo tækifæri til að sjá sýninguna og njóta verka eftir listamennina fjóra sem eiga verk á sýningunni: Elínu Elísabetu Einarsdóttur og Hugleik Dagsson, ásamt Fero Jablonovský og Bobo Pernecký frá Slóvakíu.

Sýningin stendur yfir í Apótekssal Hafnarborgar, á jarðhæð safnsins, og er aðgengileg gestum á almennum opnunartíma safnsins.

Sönghátíð í Hafnarborg 2021 – Seigla

Sönghátíð í Hafnarborg verður haldin í fimmta sinn frá 19. júní til 4. júlí næstkomandi.

Þá mætir til leiks einstakt úrval tónlistarmanna með fjölbreytta dagskrá. Sú Seigla sem hefur hjálpað okkur öllum í gegnum hinn erfiða heimsfaraldur er þema hátíðarinnar í ár. Tónlist og ljóðlist tjá sammannlegar tilfinningar þvert yfir tíma og lönd, hjálpa okkur að skilja okkur sjálf, sjá samhengið á milli okkar og annarra, veita okkur innblástur, kenna okkur að meta fegurð lífsins og gefa okkur von um betri tíma.

Hægt er að kynna sér fjölbreytta dagskrá hátíðarinnar, námskeið, tónleika og listamenn á www.songhatid.is.

Listrænir stjórnendur og stofnendur Sönghátíðar í Hafnarborg eru Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og Francisco Javier Jáuregui.

Töfrafundur – verk verði sett upp á gafl á ný

Það er okkur gleðiefni að tilkynna það að verk af sýningunni Töfrafundi – áratug síðar eftir listamennina Libiu Castro & Ólaf Ólafsson og Töfrateymið mun verða sett upp á ný á austurgafl Hafnarborgar. Á fundi stjórnar Hafnarborgar miðvikudaginn 12. maí síðastliðinn lagði forstöðumaður Hafnarborgar til að verkið yrði sett upp aftur (fundargerðina má lesa hér). Tillagan var samþykkt af stjórn Hafnarborgar og tilskilin leyfi fyrir uppsetningu verksins eru nú fyrir hendi.

Sýningin stendur yfir til loka þessa mánaðar og aðgangur er ókeypis.

Töfrafundur – verk á gafli Hafnarborgar

Hafnarborg vill koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri í kjölfar þess að eitt af verkum sýningarinnar Töfrafundar – áratug síðar var fjarlægt af austurgafli Hafnarborgar sunnudaginn 2. maí síðastliðinn. Tekið skal fram að unnið er að lausn málsins, sem er í ferli, en Hafnarborg leggur á það áherslu að verkið verði sett upp aftur sem allra fyrst. Á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar þann 6. maí 2021 var eftirfarandi tillaga samþykkt:

Bæjarráð leggur til að sótt verði um tilskilin leyfi til byggingarfulltrúa um að umræddu verki verði komið upp frístandandi fyrir utan húsið og verði staðsett á þann hátt að merki Hafnarborgar verði sýnilegt. Umhverfis- og framkvæmdasviði verði falið að útfæra uppsetninguna í samráði við listamennina og forstöðumann Hafnarborgar.

Listamennirnir Libia Castro & Ólafur Ólafsson hafa verið boðuð til samtals í framhaldi af samþykkt fundarins en fundargerð hans má lesa hér í heild sinni. Þá mun listráð Hafnarborgar koma saman mánudaginn 10. maí næstkomandi, með nýjum forstöðumanni stofnunarinnar, og fjalla um málsatvik.

Vonast er til þess að málið leysist á farsælan hátt.

Sönghátíð í Hafnarborg – tónlistarviðburður ársins

Sönghátíð í Hafnarborg hlaut þann 17. apríl Íslensku tónlistarverðlaunin 2021 sem tónlistarviðburður ársins (hátíðir), í flokki sígildrar og samtímatónlistar, en Sönghátíð fór fram í fjórða sinn dagana 2. til 12. júlí 2020.

Þá var boðið upp á átta tónleika með framúrskarandi söngvurum og hljóðfæraleikurum, auk tónlistarnámskeiða fyrir börn og fullorðna, en það vildi svo vel til að um mitt sumarið, þegar hátíðin er venjulega haldin, hafði samkomutakmörkunum verið létt nægilega til þess að dagskrá hátíðarinnar gæti farið fram með óskertum hætti.

Við í Hafnarborg erum afar stolt af þessari viðurkenningu og óskum Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur og Francisco Javier Jáuregui, stofnendum og stjórnendum Sönghátíðar í Hafnarborg, innilega til hamingju með verðlaunin, auk þess sem við þökkum þeim kærlega fyrir sitt göfuga starf í þágu menningar- og tónlistarlífs Hafnarfjarðarbæjar á liðnum árum.

Sönghátíð í Hafnarborg mun svo fara fram í fimmta sinn 19. júní til 4. júlí næstkomandi.

#SlowArtDay 2021 – gefðu þér tíma

Í tilefni af #SlowArtDay sem er haldin þann 10. apríl í ár hvetjum við þig, kæri listunnandi, til þess að hægja á þér og gefa þér tíma til þess að virða fyrir þér listaverk örlítið lengur en þú gerir venjulega í þeim tilgangi að tengjast verkinu enn betur og/eða uppgötva eitthvað nýtt í því sem þú hefur ekki áður tekið eftir.

Í tilefni dagsins skaltu gefa þér tíu mínútur til þess eins að horfa.

Hafnarborg er opin frá 12 til 17 í dag og nú stendur yfir sýningin Töfrafundur – áratug síðar eftir Libiu Castro & Ólaf Ólafsson og Töfrateymið. Við hvetjum fólk til þess að heimsækja sýninguna og gefa sér tíma til þess að upplifa og njóta þessa marglaga verks.

Þá er einnig upplagt að fá sér göngutúr í Hafnarfirði og virða fyrir sér eitt eða fleiri af fjölmörgum útilistaverkum bæjarins. Á vefnum utilistaverk.hafnarborg.is er að finna kort með staðsetningu allra útilistaverka í Hafnarfirði. Þar má sjá ljósmynd og upplýsingar um hvert og eitt verk með því að smella á staðsetningu þess.

Góða skemmtun og gleðilegan #SlowArtDay!