Hafnarfjarðarbær býður upp á menningar- og heilsugöngur öll miðvikudagskvöld í sumar. Flestar göngurnar taka um klukkustund og hefjast kl. 20, nema annað sé tekið fram. Menningar- og heilsugöngur eru samstarfsverkefni Hafnarborgar, Byggðasafns Hafnarfjarðar, Bókasafns Hafnarfjarðar og Heilsubæjarins Hafnarfjarðar. Þátttaka er ókeypis og öll velkomin.
Dagskrá sumarsins er eftirfarandi:
1. júní kl. 20
Hús í hrauninu
Jónatan Garðarsson leiðir göngu að fyrsta og þriðja húsi Hreins Friðfinnssonar. Athugið að þessi ganga mun taka um þrjár klukkustundir. Gengið frá Gerðinu, sunnan megin við Álverið. Nánar hér.
8. júní kl. 20
Álfaganga
Silja Gunnarsdóttir, eigandi alfar.is, leiðir göngu um álfaslóðir og segir sögu álfa, dverga og huldufólks á leiðinni. Gengið frá Ráðhúsi Hafnarfjarðar að Strandgötu 6.
15. júní kl. 17
Barnaganga
Hildigunnur Sigvaldadóttir leiðir yngri kynslóðina í ævintýralegri göngu með listsköpun. Gengið frá Bókasafni Hafnarfjarðar að Hellisgerði og til baka.
22. júní kl. 18
Söguganga um náttúruna
Jónatan Garðarson leiðir göngu upp á Seldalsháls að Stórhöfða. Gengið frá bílastæðinu vestan megin við Hvaleyrarvatn (nær Völlum).
29. júní kl. 20
Kringum hamarinn
Ólafur Þ. Harðarson leiðir göngu í kringum Hamarinn og fjallar um sögu skóla og íþrótta á svæðinu. Gengið frá Flensborgarskóla.
6. júlí kl. 20
Ha ha um Hafnarfjörð
Einar Skúlason leiðir gesti og gangandi um skemmtilegar slóðir í Suðurbæ Hafnarfjarðar og reitir af sér valda Hafnarfjarðarbrandara á leiðinni. Gengið frá Firði verslunarmiðstöð
13. júlí kl. 20
Hugleiðing um álfa
Bryndís Björgvisdóttir, rithöfundur, sagn- og þjóðfræðingur, og Aldís Arnardóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, leiða göngu þar sem velt er upp hugleiðingum um álfa og verur í klettum. Gengið frá Hafnarborg og gangan endar svo með leiðsögn um sýningu Gunnars Arnar Gunnarssonar í Hafnarborg. Nánar hér.
20. júlí kl. 17
Þessir gömlu góðu
Janus Guðlaugsson, eigandi Janusar heilsueflingar, rifjar upp, kennir og leiðir stórfjölskylduna alla í gegnum þessa gömlu góðu útileiki sem voru vinsælir fyrir ekki svo mörgum árum síðan. Tilvalin skemmtun fyrir alla í fjölskyldunni. Gengið frá Víðistaðakirkju.
27. júlí kl. 20
Æskuslóðir í Suðurbænum
Leifur Helgason leiðir göngu um æskuslóðir sínar í Suðurbænum. Gengið frá Gúttó.
3. ágúst kl. 17
Buslganga að Arnarvatni
Davíð Arnar Stefánsson leiðir göngu að Arnarvatni. Ef veðrið er gott er kjörið að taka með sér teppi og nesti og busla í vatninu. Gengið frá bílastæðinu við Seltún, Krýsuvík.
10. ágúst kl. 18
Villtar matjurtir í Hafnarfirði
Mervi Orvokki Luoma leiðir gesti um Hafnarfjörð í leit að gómsætum, villtum jurtum. Gengið frá Bókasafni Hafnarfjarðar
17. ágúst kl. 20
Umhverfis eitt Klifsholtanna
Valgerður M. Hróðmarsdóttir leiðir göngu umhverfis eitt Klifsholtanna, að Lambgjá og Smyrlabúð með viðkomu í gróðurreit Rótarý og Lionsklúbbs Hafnarfjarðar. Gengið frá bílastæðinu við Helgafell.
24. ágúst kl. 17
Kyrrðarganga við Stórhöfða
Guðbjörg Björnsdóttir og Ingibjörg Valgeirsdóttir, eigendur fræðslufyrirtækisins Saga Story House, leiða kyrrðargöngu við Stórhöfða. Um er að ræða rólega göngu með leiddum núvitundaræfingum þar sem gengið er að hluta til í þögn. Gengið frá bílastæðinu vestan megin við Hvaleyrarvatn (nær Völlum).
31. ágúst kl. 20
Sagan, safnið og gamli bærinn
Björn Pétursson, bæjarminjavörður Hafnarfjarðar, leiðir göngu um gamla bæinn. Gengið frá Pakkhúsi Byggðasafnsins.
Nánari upplýsingar um göngurnar má svo finna hér á viðburðasíðu Hafnarfjarðarbæjar, þegar nær dregur hverri göngu.