Haustsýning 2022 – kallað eftir tillögum

Líkt og undanfarin ár, gefst sýningarstjórum tækifæri til að senda inn tillögur að haustsýningu næsta árs í Hafnarborg. Haustsýningaröðin hóf göngu sína árið 2011 og hafa síðan verið settar upp ellefu sýningar í röðinni. Haustsýning Hafnarborgar í ár, Samfélag skynjandi vera, sem opnaði 28. ágúst síðastliðinn, var valin með sama hætti, úr þeim tillögum sem bárust á síðasta ári.

Markmiðið með því að óska eftir innsendum tillögum er að fá tækifæri til að velja til samstarfs sýningarstjóra eða sýningarstjórateymi, sem leggur fram áhugaverða sýningartillögu, auk þess að kalla nýtt fólk til leiks. Eru sýningarstjórar með stuttan feril að baki því sérstaklega hvattir til að sækja um. Það hefur enda sýnt sig að fyllsta ástæða er til að halda úti slíku verkefni en út frá því hafa orðið til fjölbreyttar sýningar, sem vakið hafa athygli og fengið góða aðsókn.

Óskað er eftir hugmyndum að samsýningum þar sem viðfangsefni, vinnuaðferð eða aðrar hugmyndir tengja verk listamanna en einnig koma til greina sýningar sem fela í sér greiningu eða sérstaka sýn á verk ákveðins listamanns. Jafnt koma til greina sýningar á verkum samtímalistamanna og sýningar sem fela í sér sögulega greiningu. Það er listráð Hafnarborgar, ásamt forstöðumanni, sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna.

Vinsamlegast athugið að frestur til að skila inn tillögum hefur verið framlengdur um tvær vikur til miðnættis sunnudaginn 24. október næstkomandi.

Aðeins er tekið við tillögum í tölvupósti á netfangið [email protected].


Umsóknarferli

Umsóknarferlið er tvískipt. Vinsamlegast kynnið ykkur ferlið vel með því að fara yfir þau atriði sem óskað er eftir hér fyrir neðan.

1. hluti

Í fyrri umferð er óskað eftir eftirfarandi upplýsingum:

  • Lýsingu á verkefninu þar sem lögð er áhersla á hugmyndina að baki sýningunni (hámark 1000 orð).
  • Ferilskrá(m) sýningarstjóra.
  • Stuttum ferilskrám listamanns eða -manna, auk annarra sem lagt er til að verði hluti af sýningarverkefninu.

Gefa skal eins nákvæma lýsingu og unnt er, innan uppgefinna marka um orðafjölda. Einnig er leyfilegt er að láta myndefni, sem er lýsandi fyrir verkefnið, fylgja tillögunni, þó ekki séu gerðar kröfur um slíkt í fyrri umferð. Þá er umsækjendum bent á að kynna sér vel húsnæði Hafnarborgar áður en tillögur eru sendar inn. Listráð Hafnarborgar, ásamt forstöðumanni, metur innsendar tillögur og velur úr hópi þeirra tillögur til frekari skoðunar í annarri umferð.

2. hluti

Sýningarstjórum, sem eiga þær tillögur sem valdar eru til frekari skoðunar, verður boðið að kynna hugmyndir sínar og senda inn ítarefni, s.s. sýningarskrár, myndefni eða myndbönd, auk þess sem vinna þarf að raunhæfri fjárhagsáætlun fyrir verkefnið. Reiknað er með að sýningin og vinnan við hana falli að fjárhagsáætlun safnsins, ellegar verði leitað leiða til að fá sérstakan stuðning við verkefnið.

Við mat á tillögum verða eftirfarandi atriði skoðuð:

  • Val á listamönnum.
  • Hvort sýningin kynni nýstárlega sýn á myndlist, t.d. innihald og/eða miðla.
  • Hvort um sé að ræða ný eða eldri verk eða jafnvel blöndu hvors tveggja.
  • Hvort sýningin hafi sérstaka skírskotun til Hafnarborgar, þ.e. safneignar, umhverfis, bæjarlífs o.s.frv.
  • Hvort sýningin nýti sýningarrými Hafnarborgar á frumlegan hátt.
  • Ferill sýningarstjóra (sérstaklega er leitað eftir sýningarstjórum sem ekki eiga langan feril að baki).
  • Tillögur að dagskrá í tengslum við sýninguna (leiðsögn, málþing, námskeið o.s.frv.).
  • Tillögur að hugsanlegri útgáfu.
  • Að kostnaður við verkefnið sé innan viðráðanlegra marka (nánari útfærsla kostnaðar fer fram í síðari hluta ferlisins).

Teikningar af sölum Hafnarborgar má finna hér. Þær eru ætlaðar til viðmiðunar við undirbúning tillagna en ekki er þess krafist að sýningar séu hannaðar nákvæmlega inn í rýmið.


Allar tillögur skulu sendar á netfangið [email protected], merktar „Haustsýning 2022“. Í kjölfarið verður send staðfesting á því að tillagan hafi verið móttekin en bent er á að hafa skal samband í síma 585 5790, berist sú staðfesting ekki. Þá verða allir umsækjendur upplýstir um það hvort tillaga þeirra hafi hlotið brautargengi eður ei, er líða tekur á ferlið. Allar niðurstöður verða sendar með tölvupósti.

Nánari upplýsingar veitir skrifstofa Hafnarborgar í síma 585 5790.

Samfélag skynjandi vera – óskað eftir tárum

Listakonan Gígja Jónsdóttir leitar til almennings eftir tárum fyrir verk hennar á samsýningunni Samfélag skynjandi vera, sem mun standa yfir í Hafnarborg frá 28. ágúst til 31. október 2021.

Táragjafar fá send glös til að safna tárum sínum, sem þeir skila síðan í tárabrunn á safninu, hvenær sem er yfir sýningartímabilið.

Ef þú vilt leggja þín tár af mörkum, hafðu endilega samband við listakonuna með upplýsingum um fullt nafn, heimilisfang og símanúmer með því að senda tölvupóst á [email protected].

Diskótek – sýningarlok 15. ágúst

Nú fer hver að verða síðastur að sjá sýningu Arnfinns Amazeen, Diskótek, sem staðið hefur yfir í safninu í sumar, en sýningarlok eru sunnudaginn 15. ágúst. Hvetjum við ykkur því öll til að reima á ykkur skóna – með eða án plastpoka – og kíkja í Hafnarborg til að upplifa diskótek listamannsins. Sýningarstjóri er Heiðar Kári Rannversson.

Á sýningunni getur að líta ný verk, þar sem listamaðurinn sækir innblástur í óræðan myndheim íslenskrar skemmtistaðamenningar frá áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Þrátt fyrir að titillinn vísi í gleðskap er þetta heldur draugalegt diskótek, enginn glaumur og ekkert glys. Aðeins ómur af hávaða sem löngu er þagnaður.

Safnið er opið alla daga, nema þriðjudaga, kl. 12-17 og aðgangur er ókeypis, eins og venjulega.

Óþekkt svæði – myndasögur frá Íslandi og Slóvakíu

Myndasögusýningin Terra Incognita eða Óþekkt svæði býður gestum að kynnast verkum fjögurra listamanna frá Slóvakíu og Íslandi en það er slóvakíska teymið Free Feeling sem stendur fyrir sýningunni. Myndasögur eru enda þess eðlis að þær má skilja þvert á þjóðerni og tungumál, þar sem þær koma hugsun mannsins, jafnt hinum innri hugarheimi höfundarins og ytri áhrifum, til skila á myndrænan hátt.

Á síðasta ári voru fimm sýningar á verkum þátttakenda haldnar í Slóvakíu við ýmis tækifæri, svo sem á menningarviðburðum, hátíðum og listasmiðjum. Nú gefst íslenskum áhorfendum svo tækifæri til að sjá sýninguna og njóta verka eftir listamennina fjóra sem eiga verk á sýningunni: Elínu Elísabetu Einarsdóttur og Hugleik Dagsson, ásamt Fero Jablonovský og Bobo Pernecký frá Slóvakíu.

Sýningin stendur yfir í Apótekssal Hafnarborgar, á jarðhæð safnsins, og er aðgengileg gestum á almennum opnunartíma safnsins.

Sönghátíð í Hafnarborg 2021 – Seigla

Sönghátíð í Hafnarborg verður haldin í fimmta sinn frá 19. júní til 4. júlí næstkomandi.

Þá mætir til leiks einstakt úrval tónlistarmanna með fjölbreytta dagskrá. Sú Seigla sem hefur hjálpað okkur öllum í gegnum hinn erfiða heimsfaraldur er þema hátíðarinnar í ár. Tónlist og ljóðlist tjá sammannlegar tilfinningar þvert yfir tíma og lönd, hjálpa okkur að skilja okkur sjálf, sjá samhengið á milli okkar og annarra, veita okkur innblástur, kenna okkur að meta fegurð lífsins og gefa okkur von um betri tíma.

Hægt er að kynna sér fjölbreytta dagskrá hátíðarinnar, námskeið, tónleika og listamenn á www.songhatid.is.

Listrænir stjórnendur og stofnendur Sönghátíðar í Hafnarborg eru Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og Francisco Javier Jáuregui.

Töfrafundur – verk verði sett upp á gafl á ný

Það er okkur gleðiefni að tilkynna það að verk af sýningunni Töfrafundi – áratug síðar eftir listamennina Libiu Castro & Ólaf Ólafsson og Töfrateymið mun verða sett upp á ný á austurgafl Hafnarborgar. Á fundi stjórnar Hafnarborgar miðvikudaginn 12. maí síðastliðinn lagði forstöðumaður Hafnarborgar til að verkið yrði sett upp aftur (fundargerðina má lesa hér). Tillagan var samþykkt af stjórn Hafnarborgar og tilskilin leyfi fyrir uppsetningu verksins eru nú fyrir hendi.

Sýningin stendur yfir til loka þessa mánaðar og aðgangur er ókeypis.

Töfrafundur – verk á gafli Hafnarborgar

Hafnarborg vill koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri í kjölfar þess að eitt af verkum sýningarinnar Töfrafundar – áratug síðar var fjarlægt af austurgafli Hafnarborgar sunnudaginn 2. maí síðastliðinn. Tekið skal fram að unnið er að lausn málsins, sem er í ferli, en Hafnarborg leggur á það áherslu að verkið verði sett upp aftur sem allra fyrst. Á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar þann 6. maí 2021 var eftirfarandi tillaga samþykkt:

Bæjarráð leggur til að sótt verði um tilskilin leyfi til byggingarfulltrúa um að umræddu verki verði komið upp frístandandi fyrir utan húsið og verði staðsett á þann hátt að merki Hafnarborgar verði sýnilegt. Umhverfis- og framkvæmdasviði verði falið að útfæra uppsetninguna í samráði við listamennina og forstöðumann Hafnarborgar.

Listamennirnir Libia Castro & Ólafur Ólafsson hafa verið boðuð til samtals í framhaldi af samþykkt fundarins en fundargerð hans má lesa hér í heild sinni. Þá mun listráð Hafnarborgar koma saman mánudaginn 10. maí næstkomandi, með nýjum forstöðumanni stofnunarinnar, og fjalla um málsatvik.

Vonast er til þess að málið leysist á farsælan hátt.

Sönghátíð í Hafnarborg – tónlistarviðburður ársins

Sönghátíð í Hafnarborg hlaut þann 17. apríl Íslensku tónlistarverðlaunin 2021 sem tónlistarviðburður ársins (hátíðir), í flokki sígildrar og samtímatónlistar, en Sönghátíð fór fram í fjórða sinn dagana 2. til 12. júlí 2020.

Þá var boðið upp á átta tónleika með framúrskarandi söngvurum og hljóðfæraleikurum, auk tónlistarnámskeiða fyrir börn og fullorðna, en það vildi svo vel til að um mitt sumarið, þegar hátíðin er venjulega haldin, hafði samkomutakmörkunum verið létt nægilega til þess að dagskrá hátíðarinnar gæti farið fram með óskertum hætti.

Við í Hafnarborg erum afar stolt af þessari viðurkenningu og óskum Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur og Francisco Javier Jáuregui, stofnendum og stjórnendum Sönghátíðar í Hafnarborg, innilega til hamingju með verðlaunin, auk þess sem við þökkum þeim kærlega fyrir sitt göfuga starf í þágu menningar- og tónlistarlífs Hafnarfjarðarbæjar á liðnum árum.

Sönghátíð í Hafnarborg mun svo fara fram í fimmta sinn 19. júní til 4. júlí næstkomandi.

#SlowArtDay 2021 – gefðu þér tíma

Í tilefni af #SlowArtDay sem er haldin þann 10. apríl í ár hvetjum við þig, kæri listunnandi, til þess að hægja á þér og gefa þér tíma til þess að virða fyrir þér listaverk örlítið lengur en þú gerir venjulega í þeim tilgangi að tengjast verkinu enn betur og/eða uppgötva eitthvað nýtt í því sem þú hefur ekki áður tekið eftir.

Í tilefni dagsins skaltu gefa þér tíu mínútur til þess eins að horfa.

Hafnarborg er opin frá 12 til 17 í dag og nú stendur yfir sýningin Töfrafundur – áratug síðar eftir Libiu Castro & Ólaf Ólafsson og Töfrateymið. Við hvetjum fólk til þess að heimsækja sýninguna og gefa sér tíma til þess að upplifa og njóta þessa marglaga verks.

Þá er einnig upplagt að fá sér göngutúr í Hafnarfirði og virða fyrir sér eitt eða fleiri af fjölmörgum útilistaverkum bæjarins. Á vefnum utilistaverk.hafnarborg.is er að finna kort með staðsetningu allra útilistaverka í Hafnarfirði. Þar má sjá ljósmynd og upplýsingar um hvert og eitt verk með því að smella á staðsetningu þess.

Góða skemmtun og gleðilegan #SlowArtDay!

Tilnefningar til Íslensku tónlistar­verðlaunanna 2021

Starfsfólk Hafnarborgar óskar Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur og Francisco Javier Jáuregui, stofnendum og stjórnendum Sönghátíðar í Hafnarborg, innilega til hamingju með tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2021 en Sönghátíð í Hafnarborg er tilnefnd sem „tónlistarviðburður ársins – hátíðir“, auk þess sem tónleikar Stuarts Skeltons, The Modern Romantic, sem fram fóru á hátíðinni, eru tilnefndir sem „tónlistarviðburður ársins – tónleikar“, í flokki sígildrar og samtímatónlistar.

Þá óskum við Andrési Þór Gunnlaugssyni, listrænum stjórnanda Síðdegistóna í Hafnarborg, sömuleiðis hjartanlega til hamingju með tilnefningu þessarar nýju tónleikaraðar sem „tónlistarviðburður ársins – tónleikar“ í flokki djass- og blústónlistar, auk þess sem við óskum Andrési Þór innilega til hamingju með tilnefningu sína sem „tónlistarflytjandi ársins“ í sama flokki.

Einnig óskum við hinum fjölmörgu flytjendum, sem komið hafa fram á Sönghátíð, Síðdegistónum, hádegistónleikum og á tónleikaröðinni Hljóðönum, með tilnefningar sínar og ber þar sérstaklega að nefna fiðluleikarann Höllu Steinunni Stefánsdóttur, sem tilnefnd er sem „tónlistarflytjandi ársins“ í flokki sígildrar og samtímatónlistar, en Halla Steinunn tók á síðasta ári þátt í því að virkja sýningu Davíðs Brynjars Franzsonar, Borgarhljóðvist í formi ensks lystigarðs, með hljóðfæraleik sínum.

Við þökkum ykkur öllum kærlega fyrir að auðga starf Hafnarborgar með tónum og töfrum, auk þess sem við þökkum dómnefnd og aðstandendum Íslensku tónlistarverðlaunanna kærlega fyrir þann mikla heiður sem stofnuninni er sýndur með tilnefningunum.