Óþekkt alúð – haustsýning Hafnarborgar 2024

Listráð Hafnarborgar hefur valið sýningartillögu Þórhildar Tinnu Sigurðardóttur úr fjölda innsendra tillagna um næstu haustsýningu safnsins árið 2024. Titill sýningarinnar er Óþekkt alúð en þátttakendur eru konur og kvár sem sýna munu ný verk í bland við eldri verk.

Óþekkt alúð er hugsuð sem leit að sannleika um samtímann og myndlist sem heilandi afl, æðra vald eða jafnvel skilaboð að handan. Sýningin mun innihalda verk eftir fjölbreyttan hóp listamanna sem mynda skipulagsbundna lífræna heild í sýningarrými Hafnarborgar og tjáir til áhorfenda skilaboð að handan í því skyni að hræra við einhverju innra með þeim. Skilaboð sem skerpa hugann en mýkja hjartað jafnframt því að veita styrk til þess að aðlagast erfiðum aðstæðum og taka af ástríkum skilningi á móti nýjum hugmyndum, sem kunna að vera fjarlægar eða framandi. Þannig verður til smáheimur sem samsvarar sjálfum alheiminum.

Markmið sýningarinnar er að særa fram heilandi frumöfl sem má finna fyrir í heiminum, á sama tíma og hún horfist í augu við rof samtímans. Listamenn sýningarinnar eiga það sameiginlegt að tala ýmist til heilandi afla, sem sýningarstjóri vísar til sem óþekktrar alúðar, eða kryfja samtímann af þessari óþekktu alúð hver á sinn hátt, á marglaga og flókinn máta. Sýningin mun kryfja þessa óþekktu alúð sem birtist sýningarstjóra sem undiralda raunveruleikans. Þá kann hún að vera missterk á tímum þótt hana megi greina sem lágstemmda togstreitu eða spennu. Spennu sem er bæði hverful og stöðug á sama tíma. Spennu sem er tengd við hjarta alheimsins, miðjuna sem allt líf sprettur af.

Nöfn þátttakenda og frekari upplýsingar verða birtar síðar.

Þórhildur Tinna Sigurðardóttir er listfræðingur og sýningarstjóri sem starfar við Myndlistarmiðstöð þar sem hún sinnir stöðu verkefnastjóra alþjóðlegra verkefna og tekur því þátt í framkvæmd Íslenska skálans á Feneyjatvíæringnum og Sequences myndlistarhátíðinni. Þá er Þórhildur Tinna jafnframt einn af aðalskipuleggjendum LungA, listahátíðar ungs fólks á Austurlandi, sem á ári hverju er skipulögð af hópi ungs fólks sem hefur einskæran áhuga á myndlist og menningu. Þórhildur Tinna útskrifaðist með BA-gráðu í listfræði frá Háskóla Íslands og lauk síðan framhaldsnámi frá King’s College, London, þar sem hún hlaut meistaragráðu í menningar- og listastjórnun með sérstaka áherslu á sýningastjórnun.

Sýningin verður sú fjórtánda í haustsýningarröð Hafnarborgar en verkefnið hefur það að markmiði að gefa upprennandi sýningarstjórum kost á að senda inn tillögu að sýningu í safninu. Það er Listráð Hafnarborgar ásamt forstöðumanni sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna ár hvert.

Lokað í Hafnarborg vegna framkvæmda

Við vekjum athygli á því að lokað verður í Hafnarborg dagana 22. og 23. nóvember meðan unnið er að því að mála loftið í móttöku safnsins. Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda og hlökkum til að taka á móti ykkur í safninu að framkvæmdunum loknum.

Safnið verður opið aftur samkvæmt auglýstum opnunartíma frá og með 24. nóvember (sjá nánar hér).

Lokað í aðalsal frá og með 8. nóvember

Vinsamlegast athugið að sýningin Landslag fyrir útvalda, sem sett er upp í aðalsal safnins sem hluti af árlegri haustsýningaröð Hafnarborgar, er lokuð tímabundið vegna uppsetningar nýs ljósabúnaðar í salnum frá og með miðvikudeginum 8. nóvember.

Þá verður sýningin lokuð þar til í byrjun desember en nánari upplýsingar um enduropnun sýningarinnar verða birtar þegar nær dregur.

Sýningin GILDI, þar sem sjá má valin verk úr safneign Hafnarborgar í tilefni þess að 40 ár eru nú liðin frá stofnun safnsins, verður opin samkvæmt hefðbundnum opnunartíma á meðan framkvæmdunum stendur.

Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda.

Vinsamlegast athugið – smiðju aflýst vegna Kvennaverkfalls

Vinsamlegast athugið að listasmiðju sem var á dagskrá safnsins á morgun, þriðjudaginn 24. október, hefur verið aflýst vegna Kvennaverkfallsins.

Ný dagsetning verður auglýst síðar.

Sýnum samstöðu með konum og kvárum og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að sem flest geti tekið þátt í deginum.

Nánari upplýsingar um Kvennaverkfallið má finna á www.kvennafri.is.

Lokað vegna uppsetningar – opnun 14. september

Vinsamlegast athugið að Hafnarborg verður lokuð vegna uppsetningar nýrra sýninga dagana 4. til 14. september. Þá bjóðum við ykkur velkomin á opnun fimmtudaginn 14. september kl. 20. Þá munu gestir fá tækifæri til að kanna Landslag fyrir útvalda, haustsýningu Hafnarborgar 2023, í sýningarstjórn Evu Línar Vilhjálmsdóttur og Oddu Júlíu Snorradóttur, en sýningin er sú þrettánda í haustsýningaröð Hafnarborgar og var valin úr innsendum tillögum frá sýningarstjórum á síðasta ári.

Í Sverrissal verða gestir svo leiddir inn í mynd- og hugarheim listamannsins Sindra Ploder á einkasýningu hans, Ef ég væri skrímsli, en Sindri var fyrr á árinu útnefndur listamanneskja hátíðarinnar Listar án landamæra 2023. Sýningarstjóri er Íris Stefanía Skúladóttir, listrænn stjórnandi Listar án landamæra.

Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda og hlökkum til að sjá ykkur á opnuninni.

Tónleikadagskrá – haust/vetur 2023

Þann 1. september hefst nýtt tónleikaár í Hafnarborg en framundan er fjölbreytt dagskrá, þar sem fram mun koma tónlistarfólk í fremstu röð, auk ungra og efnilegra flytjenda. Þá hefja Síðdegistónar fjórða starfsár sitt með tónleikum Kjalar Martinssonar Kollmar á föstudag kl. 18 og í næstu viku hefja hinir sívinsælu hádegistónleikar göngu sína á ný en tónleikaröðin hefur verið hluti af dagskrá Hafnarborgar síðan árið 2003, undir listrænni stjórn Antoníu Hevesi, píanóleikara. Á misserinu verða einnig haldnir hausttónleikar samtímatónleikaraðarinnar Hljóðana sem tileinkuð er tónlist frá 20. og 21. öld.

Tónleikadagskráin í haust/vetur 2023

1. september kl. 18
Síðdegistónar
Kjalar Martinsson Kollmar ásamt hljómsveit

5. september kl. 12
Hádegistónleikar
Ívar Helgason

3. október kl. 12
Hádegistónleikar
Gissur Páll Gissurarson

8. október kl. 20
Hljóðön: Minni
Berglind María Tómasdóttir og Júlía Mogensen

13. október kl. 18 (ath. ný dagsetning)
Síðdegistónar
Hrafnhildur Magnea Ingólfsdóttir ásamt hljómsveit

7. nóvember kl. 12
Hádegistónleikar
Bryndís Guðjónsdóttir

10. nóvember kl. 18
Síðdegistónar
Los Bomboneros

5. desember kl. 12
Hádegistónleikar
Diddú

8. desember kl. 18
Síðdegistónar
Kristjana Stefáns ásamt hljómsveit

Haustsýning 2024 – kallað eftir tillögum

Líkt og undanfarin ár gefst sýningarstjórum tækifæri til að senda inn tillögur að haustsýningu næsta árs í Hafnarborg. Haustsýningaröðin hóf göngu sína árið 2011 en hingað til hafa þrettán sýningar verið valdar úr miklum fjölda innsendra tillagna eftir sýningarstjóra með ólíkan bakgrunn og reynslu. Þá var haustsýning Hafnarborgar í ár, Landslag fyrir útvalda, í sýningarstjórn Evu Línar Vilhjálmsdóttur og Oddu Júlíu Snorradóttur, valin með sama hætti úr þeim tillögum sem bárust á síðasta ári en sýningin verður opnuð 14. september næstkomandi.

Markmiðið með því að óska eftir innsendum tillögum er að fá tækifæri til að velja til samstarfs sýningarstjóra eða sýningarstjórateymi, sem leggur fram áhugaverða sýningartillögu, auk þess að vera vettvangur fyrir upprennandi sýningarstjóra til að koma hugmyndum sínum á framfæri. Eru sýningarstjórar með stuttan feril að baki því sérstaklega hvattir til að sækja um. Það hefur enda sýnt sig að fyllsta ástæða er til að halda úti slíku verkefni en út frá því hafa orðið til fjölbreyttar sýningar, sem vakið hafa athygli og fengið góða aðsókn.

Óskað er eftir hugmyndum að samsýningum þar sem viðfangsefni, vinnuaðferð og/eða aðrar hugmyndir tengja verk listamanna en einnig koma til greina sýningar sem fela í sér greiningu eða sérstaka sýn á verk ákveðins listamanns. Jafnt koma til greina sýningar á verkum samtímalistamanna og sýningar sem fela í sér sögulega greiningu. Þá er það listráð Hafnarborgar sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna í samráði við forstöðumann.

Vinsamlegast athugið að frestur til að skila inn tillögum rennur út á miðnætti sunnudaginn 17. september.

Aðeins er tekið við tillögum í tölvupósti á netfangið [email protected] (sjá nánar í lokin).


Umsóknarferli

Umsóknarferlið er tvískipt og eru umsækjendur vinsamlegast beðnir um að kynna sér ferlið vel með því að fara yfir þau atriði sem talin eru hér fyrir neðan.

1. hluti

Í fyrri umferð er óskað eftir eftirfarandi upplýsingum:

 • Lýsingu á verkefninu þar sem lögð er áhersla á hugmyndina að baki sýningunni (hámark 1000 orð).
 • Ferilskrá(m) sýningarstjóra.
 • Stuttum ferilskrám listamanns eða -manna, auk annarra sem lagt er til að verði hluti af sýningarverkefninu.

Gefa skal eins nákvæma lýsingu og unnt er, innan uppgefinna marka um orðafjölda. Einnig er leyfilegt er að láta myndefni, sem er lýsandi fyrir verkefnið, fylgja tillögunni, þó ekki séu gerðar kröfur um slíkt í fyrri umferð. Þá er umsækjendum bent á að kynna sér vel húsnæði Hafnarborgar áður en tillögur eru sendar inn. Listráð Hafnarborgar, ásamt forstöðumanni, metur innsendar tillögur og velur verkefni til frekari skoðunar í annarri umferð.

2. hluti

Þeim sýningarstjórum sem eiga þær tillögur sem valdar eru til frekari skoðunar verður boðið að kynna hugmyndir sínar og senda inn ítarefni, s.s. sýningarskrár, myndefni eða myndbönd, auk þess sem vinna þarf að raunhæfri kostnaðaráætlun fyrir verkefnið. Reiknað er með að sýningin og vinnan við hana falli að fjárhagsáætlun safnsins, ella verði leitað leiða til að fá sérstakan stuðning við verkefnið.

Við mat á tillögum verða eftirfarandi atriði skoðuð:

 • Val á listamönnum.
 • Hvort sýningin kynni nýstárlega sýn á myndlist, t.d. innihald og/eða miðla.
 • Hvort um sé að ræða ný eða eldri verk eða jafnvel blöndu hvors tveggja.
 • Hvort sýningin hafi sérstaka skírskotun til Hafnarborgar, svo sem safneignar, umhverfis, nærsamfélags o.s.frv.
 • Hvort sýningin nýti sýningarrými Hafnarborgar á frumlegan hátt.
 • Ferill sýningarstjóra.
 • Tillögur að dagskrá í tengslum við sýninguna (leiðsögn, málþing, námskeið o.s.frv.).
 • Tillögur að hugsanlegri útgáfu.
 • Að kostnaður við verkefnið sé innan viðráðanlegra marka (nánari útfærsla kostnaðar fer fram í síðari hluta ferlisins).

Grunnmynd af sölum Hafnarborgar má finna hér. Eru teikningarnar ætlaðar til viðmiðunar við undirbúning tillagna en þess er ekki krafist að sýningar séu hannaðar nákvæmlega inn í rýmið.


Allar tillögur skulu sendar á netfangið [email protected], merktar „Haustsýning 2024“. Í kjölfarið verður send staðfesting á því að tillagan hafi verið móttekin en bent er á að hafa samband í síma 585 5790, berist sú staðfesting ekki. Þá verða allir umsækjendur upplýstir um það hvort tillaga þeirra hafi hlotið brautargengi eður ei. Allar niðurstöður verða sendar með tölvupósti.

Nánari upplýsingar veitir skrifstofa Hafnarborgar í síma 585 5790.

Lokað mánudaginn 24. júlí vegna framkvæmda

Við vekjum athygli á því að lokað verður í Hafnarborg mánudaginn 24. júlí vegna framkvæmda við lagnir í húsnæðinu. Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þessu kunna að fylgja og hlökkum til að taka á móti ykkur í safninu að framkvæmdunum loknum.

Safnið verður opið aftur samkvæmt hefðbundnum opnunartíma frá og með miðvikudeginum 26. júlí.

Skrifstofa Hafnarborgar – sumarleyfi starfsfólks

Vinsamlegast athugið að lágmarksþjónusta verður á skrifstofu Hafnarborgar á tímabilinu 10. júlí til 11. ágúst vegna sumarleyfa starfsfólks.

Þetta kann að hafa áhrif á svartíma erinda sem berast skrifstofu en í millitíðinni bendum við fólki á að senda tölvupóst á [email protected], þar sem fylgst verður með innsendum erindum.

Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda.

Með sumarkveðju,
starfsfólk Hafnarborgar

Sönghátíð í Hafnarborg – master class í aðalsal

Sönghátíð í Hafnarborg hefur frá upphafi staðið fyrir master class námskeiði fyrir lengra komna söngnemendur og söngvara. Í ár stendur námskeiðið yfir dagana 19. til 22. júní og fyllir tónlistin því húsakynni Hafnarborgar á meðan. Námskeiðið er haldið í aðalsal safnsins frá morgni til seinniparts dags, svo gestir sem heimsækja sýningar safnsins fá að njóta söngs þátttakenda í leiðinni. Námskeiðinu lýkur svo með tónleikum nemenda sem fara fram fimmtudaginn 22. júní kl. 20 sem hluti af dagskrá Sönghátíðar. Leiðbeinandi námskeiðsins að þessu sinni er stórsöngvarinn Kristinn Sigmundsson en honum til fulltingis er píanóleikarinn Matthildur Anna Gísladóttir, sem mun einnig koma fram með nemendum á tónleikunum.

Nánari upplýsingar um Sönghátíð í Hafnarborg má finna á heimasíðu hátíðarinnar, www.songhatid.is.