Tónleikadagskrá – haust/vetur 2024

Í september hefst nýtt tónleikaár í Hafnarborg en framundan er fjölbreytt dagskrá, þar sem fram mun koma tónlistarfólk í fremstu röð, auk ungra og efnilegra flytjenda. Þá hefja hinir sívinsælu hádegistónleikar göngu sína á ný þriðjudaginn 3. september og fimmta starfsár Síðdegistóna mun hefjast með tónleikum Rebekku Blöndal og kvartetts hennar föstudaginn 20. september. Á misserinu verða einnig haldnir hausttónleikar samtímatónleikaraðarinnar Hljóðana sem tileinkuð er tónlist frá 20. og 21. öld.

Tónleikadagskráin í haust/vetur 2024

3. september kl. 12
Hádegistónleikar
Fanný Lísa Hevesi

20. september kl. 18
Síðdegistónar
Kvartett Rebekku Blöndal

1. október kl. 12
Hádegistónleikar
Vera Hjördís Matsdóttir

18. október kl. 18
Síðdegistónar
Margrét Eir ásamt hljómsveit

20. október kl. 20
Hljóðön: Blöndun/Fusione
Björg Brjánsdóttir og Ingibjörg Elsa Turchi

5. nóvember kl. 12
Hádegistónleikar
Kristín Sveinsdóttir

22. nóvember kl. 18
Síðdegistónar
Andrés Þór Nordic Trio

3. desember kl. 12
Hádegistónleikar
Íris Björk Gunnarsdóttir

Skapandi sumarstörf – viðburðir í Hafnarborg

Undanfarin sumur hafa ungmenni á aldrinum 18-25 ára unnið að fjölbreyttum listviðburðum í Hafnarfirði undir merkjum Skapandi sumarstarfa. Í ár miðla þrír af sjö hópum eða einstaklingum sínum verkefnum með sýningum og uppákomum í Hafnarborg í sumar.

25. júlí – 5. ágúst:
Minningar um Sædýrasafnið
Rán Sigurjónsdóttir, nemi í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands, heldur fræðandi sýningu um Sædýrasafnið í Hafnarfirði, sem starfaði frá árinu 1969 til ársins 1987. Hinar ýmsu framandi dýrategundir voru þar til sýnis en meðal þeirra eftirminnilegustu má nefna ljón, apa og ísbirni. Safnið var vel sótt og þó að Sædýrasafninu hafi verið lokað á síðustu öld lifir minning þess áfram. Á sýningunni má sjá teikningar, vídeóverk og bókverk sem byggja á minningum frá þessum tíma.

Sýningin er í Apótekinu á fyrstu hæð safnsins og er opin alla daga nema þriðjudaga frá kl. 12-17.

8. ágúst kl. 17:30:
Dansmyndbandsverk og kynning
Logi Guðmundsson, ballettdansari, sem stundar nám við hinn heimsfræga San Fransisco Ballet School, mun sýna nýtt dansmyndbandsverk sem tekið er upp í hafnfirskri náttúru. Logi heldur einnig kynningu á sinni einstöku sögu sem fyrsti ballettdansarinn frá Íslandi sem stundar nám við skólann.

Verkið verður sýnt í Apótekinu á fyrstu hæð safnsins fimmtudaginn 8. ágúst kl. 17:30.

12. ágúst kl. 17:30:
Sviðslistahópurinn Þríradda
Íris Ásmundar, dansari, Benedikt Gylfason, tónlistarmaður og dansari, og Hanna Huld Hafþórsdóttir, kvikmyndagerðarkona, mynda sviðslistahópinn Þríradda. Þau hafa unnið að sviðsverki sem sameinar tónlist, kvikmyndagerð og danslist og byggir á hugarheimi persóna sem tilheyra klassískri sinfóníu. Verkið snertir á hugmyndum og tilfinningum líkt og egói, óöryggi, fullkomnun og mikilmennsku. Línur raunveruleika og hliðarsjálfs verða óskýrar og þau kanna hvernig hugmyndir um eigið sjálf sveiflast á milli þessara tveggja heima.

Uppákoman verður í Apótekinu á fyrstu hæð safnsins mánudaginn 12. ágúst kl. 17:30.

Laust starf – móttöku- og þjónustufulltrúi

Laus er til umsóknar staða móttöku- og þjónustufulltrúa í Hafnarborg.

Helstu verkefni:

  • Móttaka og almenn upplýsingagjöf til gesta um sýningar og viðburði safnsins auk símavörslu
  • Gæsla í sýningarsölum og eftirlit með öryggi listmuna og gesta
  • Afgreiðsla, uppgjör og umsjón með samantekt tölulegra upplýsinga
  • Eftirlit með daglegri umgengni, tæknibúnaði sýninga og viðhald snyrtilegs umhverfis í safnverslun og sýningarsölum
  • Umsjón með safnverslun og gestavinnustofu
  • Aðstoð við undirbúning, uppsetningu og frágang vegna ýmissa viðburða í safninu
  • Annast upplýsingagjöf á samfélagsmiðlum í samráði við verkefnastjóra kynningarmála
  • Önnur verkefni sem yfirmaður felur starfsmanni og samkvæmt starfslýsingu

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Stúdentspróf
  • Reynsla af sambærilegu starfi æskileg
  • Rík þjónustulund og góð samskiptahæfni
  • Sjálfstæði í vinnubrögðum
  • Góð íslensku- og enskukunnátta
  • Áhugi á starfssemi safnsins
  • Almenn tölvuþekking

Laun eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga við Starfsmannafélag Hafnarfjarðar en um 60% starf er að ræða. Vinnutími er að jafnaði virka daga frá kl. 11:30-17:30, með möguleika á aukavinnu.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Aldís Arnardóttir ([email protected]) í síma 585-5791.

Umsóknarfrestur er til og með 9. ágúst næstkomandi.

Hægt er að sækja um starfið hér á vef Hafnarfjarðarbæjar.

Skrifstofa Hafnarborgar – sumarleyfi starfsfólks

Vinsamlegast athugið að lágmarksþjónusta verður á skrifstofu Hafnarborgar á tímabilinu 8. júlí til 7. ágúst vegna sumarleyfa starfsfólks.

Þetta kann að hafa áhrif á svartíma erinda sem berast skrifstofu en í millitíðinni bendum við fólki á að senda tölvupóst á [email protected], þar sem fylgst verður með innsendum erindum.

Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda.

Með sumarkveðju,
starfsfólk Hafnarborgar

Haustsýning 2025 – kallað eftir tillögum

Líkt og undanfarin ár gefst sýningarstjórum tækifæri til að senda inn tillögur að haustsýningu næsta árs í Hafnarborg. Haustsýningaröðin hóf göngu sína árið 2011 en hingað til hafa fjórtán sýningar verið valdar úr miklum fjölda innsendra tillagna eftir sýningarstjóra með ólíkan bakgrunn og reynslu. Þá var væntanleg haustsýning Hafnarborgar, Óþekkt alúð, í sýningarstjórn Þórhildar Tinnu Sigurðardóttur, valin með sama hætti úr þeim tillögum sem bárust á síðasta ári en sýningin verður opnuð 29. ágúst næstkomandi.

Markmiðið með því að óska eftir innsendum tillögum er að fá tækifæri til að velja til samstarfs sýningarstjóra eða sýningarstjórateymi, sem leggur fram áhugaverða sýningartillögu, auk þess að vera vettvangur fyrir upprennandi sýningarstjóra til að koma hugmyndum sínum á framfæri. Eru sýningarstjórar með stuttan feril að baki því sérstaklega hvattir til að sækja um. Það hefur enda sýnt sig að fyllsta ástæða er til að halda úti slíku verkefni en út frá því hafa orðið til fjölbreyttar sýningar, sem vakið hafa athygli og fengið góða aðsókn.

Óskað er eftir hugmyndum að samsýningum þar sem viðfangsefni, vinnuaðferð og/eða aðrar hugmyndir tengja verk listamanna (allt að átta talsins) en einnig koma til greina sýningar sem fela í sér greiningu eða sérstaka sýn á verk ákveðins listamanns. Jafnt koma til greina sýningar á verkum samtímalistamanna og sýningar sem fela í sér sögulega greiningu. Þá er það listráð Hafnarborgar sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna í samráði við forstöðumann.

Vinsamlegast athugið að frestur til að skila inn tillögum hefur verið framlengdur til miðnættis sunnudaginn 8. september næstkomandi.

Aðeins er tekið við tillögum í tölvupósti á netfangið [email protected] (sjá nánar í lokin).


Umsóknarferli

Umsóknarferlið er tvískipt og eru umsækjendur vinsamlegast beðnir um að kynna sér ferlið vel með því að fara yfir þau atriði sem talin eru hér fyrir neðan.

1. hluti

Í fyrri umferð er óskað eftir eftirfarandi upplýsingum:

  • Lýsingu á verkefninu þar sem lögð er áhersla á hugmyndina að baki sýningunni (hámark 1000 orð).
  • Ferilskrá(m) sýningarstjóra.
  • Stuttum ferilskrám listamanns eða -manna (allt að átta talsins), auk annarra sem lagt er til að verði hluti af sýningarverkefninu.

Gefa skal eins nákvæma lýsingu og unnt er, innan uppgefinna marka um orðafjölda. Einnig er leyfilegt er að láta myndefni, sem er lýsandi fyrir verkefnið, fylgja tillögunni, þó ekki séu gerðar kröfur um slíkt í fyrri umferð. Þá er umsækjendum bent á að kynna sér vel húsnæði Hafnarborgar áður en tillögur eru sendar inn. Listráð Hafnarborgar, ásamt forstöðumanni, metur innsendar tillögur og velur verkefni til frekari skoðunar í annarri umferð.

2. hluti

Þeim sýningarstjórum sem eiga þær tillögur sem valdar eru til frekari skoðunar verður boðið að kynna hugmyndir sínar og senda inn ítarefni, s.s. sýningarskrár, myndefni eða myndbönd, auk þess sem vinna þarf að raunhæfri kostnaðaráætlun fyrir verkefnið. Reiknað er með að sýningin og vinnan við hana falli að fjárhagsáætlun safnsins, ella verði leitað leiða til að fá sérstakan stuðning við verkefnið.

Við mat á tillögum verða eftirfarandi atriði skoðuð:

  • Val á listamönnum.
  • Hvort sýningin kynni nýstárlega sýn á myndlist, t.d. innihald og/eða miðla.
  • Hvort um sé að ræða ný eða eldri verk eða jafnvel blöndu hvors tveggja.
  • Hvort sýningin hafi sérstaka skírskotun til Hafnarborgar, svo sem safneignar, umhverfis, nærsamfélags o.s.frv.
  • Hvort sýningin nýti sýningarrými Hafnarborgar á frumlegan hátt.
  • Ferill sýningarstjóra.
  • Tillögur að dagskrá í tengslum við sýninguna (leiðsögn, málþing, námskeið o.s.frv.).
  • Tillögur að hugsanlegri útgáfu.
  • Að kostnaður við verkefnið sé innan viðráðanlegra marka (nánari útfærsla kostnaðar fer fram í síðari hluta ferlisins).

Grunnmynd af sölum Hafnarborgar má finna hér. Eru teikningarnar ætlaðar til viðmiðunar við undirbúning tillagna en þess er ekki krafist að þær séu hannaðar nákvæmlega inn í rýmið.


Allar tillögur skulu sendar á netfangið [email protected], merktar „Haustsýning 2025“. Í kjölfarið verður send staðfesting á því að tillagan hafi verið móttekin en bent er á að hafa samband í síma 585 5790, berist sú staðfesting ekki. Þá verða allir umsækjendur upplýstir um það hvort tillaga þeirra hafi hlotið brautargengi eður ei. Allar niðurstöður verða sendar með tölvupósti.

Nánari upplýsingar veitir skrifstofa Hafnarborgar í síma 585 5790.

Sönghátíð í Hafnarborg – master class í aðalsal

Sönghátíð í Hafnarborg hefur frá upphafi staðið fyrir master class námskeiði fyrir lengra komna söngnemendur og söngvara. Í ár stendur námskeiðið yfir dagana 24. til 27. júní og fyllir tónlistin því húsakynni Hafnarborgar á meðan. Námskeiðið er haldið í aðalsal safnsins frá morgni til seinniparts dags, svo gestir sem heimsækja sýningar safnsins fá að njóta söngs þátttakenda í leiðinni. Námskeiðinu lýkur svo með tónleikum nemenda sem fara fram fimmtudaginn 27. júní kl. 20 sem hluti af dagskrá Sönghátíðar. Leiðbeinandi námskeiðsins að þessu sinni er hin ástsæla sópransöngkona Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú) en henni til fulltingis er píanóleikarinn Helga Bryndís Magnúsdóttir, sem mun einnig koma fram með nemendum á tónleikunum.

Nánari upplýsingar um Sönghátíð í Hafnarborg má finna á heimasíðu hátíðarinnar, www.songhatid.is.

Vinsamlegast athugið – framkvæmdir utanhúss

Við vekjum athygli á því að um þessar mundir er unnið að viðhaldi á útveggjum safnsins. Þá verður hluti þeirra slípaður og filtaður og því næst verða þeir málaðir, eftir því sem veður leyfir. Við biðjumst velvirðingar á því ónæði sem þetta kann að valda.

Safnið verður opið eins og venjulega á meðan framkvæmdunum stendur.

Opnun – Guðný Guðmundsdóttir: Kassíópeia

Föstudaginn 31. maí kl. 17 bjóðum við ykkur hjartanlega velkomin á opnun sýningar Guðnýjar Guðmundsdóttur, Kassíópeiu, í Sverrissal Hafnarborgar. Á sýningunni getur að líta mestmegnis ný og nýleg verk eftir listakonuna, sem hún vinnur á pappír og í leir, auk vídeóverka. Þá speglar hún sjálfa sig í verkunum og dregur fram pælingar um sært egó, sjálfsupphafningu og sjálfselsku, þar sem innblástur er sóttur í gríska goðafræði.

Áhorfandinn stígur inn í óræðan heim, þar sem finna má titla á ólíkum tungumálum (þýsku, frönsku og ensku), áletranir og vísanir í verur og fyrirbæri úr hinum klassíska heimi. Þá færa verkin okkur fram og til baka í tíma og fá okkur til að velta vöngum yfir innri tengingum eða sambandi, þar sem þau mynda eins konar stjörnumerki eða þyrpingu sem býður ef til vill upp á fleiri spurningar en svör.

Guðný Guðmundsdóttir (f. 1970) útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1993, Hochschule für bildende Künste Hamburg árið 2001 og hefur starfað við myndlist síðan. Í listsköpun sinni vinnur hún með miðla eins og teikningu, málverk, klippimyndir, skúlptúr og ljósmyndun. Guðný býr og starfar í Berlín.

Sumarnámskeið 2024 – myndlist og tónlist

Hafnarborg býður upp á myndlistar- og tónlistarnámskeið fyrir börn á aldrinum 6–12 ára í sumar, líkt og fyrri ár. Farið verður í rannsóknarleiðangra og undirstöðuatriði myndlistar kynnt í gegnum rannsóknir á umhverfinu, sýningar í safninu og skapandi vinnu. Unnin verða verkefni í fjölbreytta miðla – teiknað, málað og mótað – með það að markmiði að þjálfa sjónræna athygli, örva skapandi hugsun og persónulega tjáningu barnanna.

Í boði eru tvö 5 daga námskeið og eitt 4 daga námskeið fyrir aldurshópana 6–9 ára og 10–12 ára. Þá verður námskeiðið sem hefst þann 24. júní með tónlistar- og söngívafi í tengslum við Sönghátíð í Hafnarborg. Lýkur því námskeiði með þátttöku barnanna í fjölskyldutónleikum á Sönghátíð föstudaginn 28. júní kl. 17.

Myndlistarkennari er Þóra Breiðfjörð og tónlistarkennari er Björg Ragnheiður Pálsdóttir.


Boðið verður upp á eftirfarandi sumarnámskeið:

10. júní–14. júní
6–9 ára: kl. 9:00–12:00
10–12 ára: kl. 13:00–16:00

18. júní–21. júní
6–9 ára: kl. 9:00–12:00
10–12 ára: kl. 13:00–16:00

24. júní–28. júní
6–9 ára: kl. 9:00–12:00
10–12 ára: kl. 13:00–16:00


Námskeiðsgjald fyrir 5 daga er 15.860 krónur og gjald fyrir 4 daga er 12.690. Foreldrar og forsjáraðilar eru vinsamlegast beðin að láta vita ef barn er með sérþarfir sem taka þarf tillit til.

Athugið að fjöldi þátttakenda í sumarnámskeiðunum er takmarkaður.

Skráning fer fram í gegnum frístundavefinn Völu. Frekari upplýsingar um námskeiðin eru veittar í síma 585 5790 eða í gegnum netfangið [email protected].

Páskar 2024 – opnunartími í Hafnarborg

Nú líður senn að páskum og sendir starfsfólk Hafnarborgar vinum og velunnurum safnsins hugheilar óskir um gleðilega hátíð. Þá vekjum við athygli á opnunartímanum hjá okkur um páskana:

Skírdagur 28. mars
Opið kl. 12–17

Föstudagurinn langi 29. mars
Lokað

Laugardagur 30. mars
Opið kl. 12–17

Páskadagur 31. mars
Lokað

Annar í páskum 1. apríl
Opið kl. 12–17

Aðgangur ókeypis verið öll velkomin.