Haustsýning Hafnarborgar 2023 – vinningstillaga

Listráð Hafnarborgar hefur valið Landslag fyrir útvalda, í sýningarstjórn Evu Línar Vilhjálmsdóttur og Oddu Júlíu Snorradóttur, sem haustsýningu ársins 2023. Í tillögu sinni fjalla sýningarstjórarnir um hvernig það er að búa í heimi yfirvofandi breytinga og í samfélagi sem kallar statt og stöðugt eftir því að einstaklingar axli aukna ábyrgð á hnattrænum vandamálum. Þá sé þetta í raun kapítalísk tálsýn sem hvetur okkur til að smíða einstaka sjálfsmynd, frábrugðna öllum öðrum.

Þegar tálsýnin hrynur svo í hugum okkar eins og spilaborg, liggur hún kylliflöt og loftlaus sem innantóm blekking. Okkur fallast hendur gagnvart máttleysinu og við flýjum – en hvert? Það er ekki lengur „hot“ að fara í heimsreisu, Evrópa er eiginlega eins og að fara út í bakgarð og Tene er bara fyrir gamlingja. Lífsflóttinn sem slíkur hefur þó ætíð verið órofa tengdur við það að leita á nýjar slóðir í gegnum listsköpun en nú þurfum við aftur að leita lengra en nokkurn tímann fyrr.

Loks má greina ákveðið myndmál og fagurferði sem fæst við hálfvanmáttugar tilraunir okkar til þess að hafa áhrif á heildarmyndina en þátttakendur sýningarinnar eiga það allir sameiginlegt að viðurkenna þessa tálsýn og leita mismunandi leiða til að flýja þá tilfinningu um máttleysi sem fylgir. Sýningin viðheldur þannig togstreitunni sem felst í flóttanum og upplifun fólks af samtímanum, enda þótt hún veiti enga lausn aðra en að leyfa gestum að tapa sér um stund í landslagi fyrir útvalda.

Eva Lín Vilhjálmsdóttir útskrifaðist með BA í heimspeki frá Háskóla Íslands árið 2019 og MA í listheimspeki frá King’s College í London árið 2022.

Odda Júlía Snorradóttir útskrifaðist með BA í listfræði frá Háskóla Íslands árið 2021 og leggur nú stund á meistaranám í sýningargerð við Háskóla Íslands.

Nöfn þátttakenda og frekari upplýsingar verða birtar síðar.

Þessi sýning verður sú þrettánda í haustsýningarröð Hafnarborgar en verkefnið hefur það að markmiði að gefa sýningarstjórum sem ekki eiga langan feril að baki kost á að senda inn tillögu að sýningu í safninu. Það er Listráð Hafnarborgar ásamt forstöðumanni sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna ár hvert.

Hádegistónleikar – dagskráin fram á vor 2023

Það er okkur ánægja að kynna dagskrá hádegistónleika fram á vor 2023 en tónleikaröðin hefur verið hluti af dagskrá Hafnarborgar síðan árið 2003 og er því á sínu tuttugasta starfsári. Þá munu fyrstu hádegistónleikar nýs árs fara fram í aðalsal Hafnarborgar þriðjudaginn 7. febrúar kl. 12. Þar mun koma fram Erla Björg Káradóttir, sópran, ásamt Antoníu Hevesi, píanóleikara og listrænum stjórnanda hádegistónleikaraðarinnar.

Dagskrá hádegistónleika fram á vor er eftirfarandi:

7. febrúar
Erla Björg Káradóttir, sópran

7. mars
Bernadett Hegyi, sópran

4. apríl
Sigríður Ósk Kristjánsdóttir, mezzósópran

2. maí
Valgerður Guðnadóttir, mezzósópran

Hádegistónleikar eru vanalega á dagskrá Hafnarborgar fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann. Þeir hefjast tímanlega kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis.

Dagskrá er birt með fyrirvara um breytingar.

Listaverkagjöf og sýning á verkum Sóleyjar Eiríksdóttur

Á síðastliðnu ári bættist vegleg gjöf við safneign Hafnarborgar þegar safninu var fært úrval voldugra skúlptúra úr steinsteypu eftir hafnfirsku listakonuna Sóleyju Eiríksdóttur (1957–1994). Bætast verkin við það safn verka sem Hafnarborg varðveitir þegar eftir Sóleyju og spanna knappan en kraftmikinn feril listakonunnar.

Verkin afhenti Brynja Jónsdóttir, dóttir Sóleyjar og Jóns Axels Björnssonar, myndlistarmanns, safninu formlega síðasta haust en laugardaginn 14. janúar næstkomandi stendur til að opna sýningu á verkum listakonunnar í aðalsal Hafnarborgar.

Á sýningunni verða meðal annars sýnd þau verk sem nú hafa bæst við safneign Hafnarborgar, auk fleiri verka í eigu Hafnarborgar, safna og einkasafnara. Leirinn var gegnumgangandi efni í verkum listakonunnar og vann hún fyrst um sinn hefðbundna leirmuni sem telja má til nytjalistar. Síðar á ferlinum öðlast teikningar og myndefni hennar svo sjálfstætt líf í stærri þrívíðum verkum.

Sýningin ber titilinn Gletta og sýningarstjórar eru Aldís Arnardóttir og Aðalheiður Valgeirsdóttir.

Sóley Eiríksdóttir lagði stund á nám við málmiðnaðardeild Iðnskólans í Hafnarfirði í eitt ár eftir nám við Flensborgarskólann. Árið 1975 hóf hún svo nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, fyrst við kennaradeild en hún útskrifaðist síðan frá leirlistadeild skólans árið 1981. Sóley sýndi verk sín víða á stuttum ferli, meðal annars á Kjarvalsstöðum, í Hafnarborg, Gallerí Langbrók og Listasafni ASÍ, auk þess sem hún hélt sýningar í Bandaríkjunum, Finnlandi, Lúxemburg, Kanada og Þýskalandi.

Jóla- og nýárskveðja frá Hafnarborg

Starfsfólk Hafnarborgar óskar ykkur öllum, vinum og velunnurum stofnunarinnar, gleðilegra jóla og gæfuríks komandi árs, með hugheilum þökkum fyrir árið sem er að líða.

Hlökkum til að taka á móti ykkur í Hafnarborg á nýju ári.

Jól 2022 – opnunartími sýninga

Opið verður í Hafnarborg að vanda fram að jólum, alla daga nema þriðjudaga, kl. 12–17. Opnunartími yfir hátíðarnar er eftirfarandi:

Þorláksmessa 23. desember – opið kl. 12–17

Aðfangadagur 24. desember – lokað

Jóladagur 25. desember – lokað

Annar í jólum 26. desember – lokað

27. desember – lokað

28.–30. desember – opið kl. 12–17

Gamlársdagur 31. desember – lokað

Nýársdagur 1. janúar – lokað

Skrifstofa Hafnarborgar verður lokuð á milli jóla og nýárs. Opið verður samkvæmt hefðbundnum opnunartíma aftur frá 2. janúar. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Kærleikskúlan 2022 – fáanleg í safnbúð Hafnarborgar

Kærleikskúlan í ár, Kúla með stroku, eftir þýsku listakonuna Karin Sander er nú fáanleg í safnbúð Hafnarborgar. Kúlan er framleidd í takmörkuðu upplagi en á síðasta ári seldist kúlan upp áður en sölutímabili hennar lauk. Allur ágóði af sölunni rennur til starfs í þágu fatlaðra barna og ungmenna.

Rauð pensilstroka svífur í trénu, málningarvottur á stökkri glerkúlu, liturinn ljómar og hreyfist, sem tákn um endapunkt ársins.

Karin Sander strýkur penslinum einu sinni ákveðið eftir gagnsærri Kærleikskúlunni. Verknaðurinn er skýr listræn athöfn þar sem þykk málningarstrokan situr eftir á sléttu, kúptu yfirborði kúlunnar, sjáanleg í þrívídd frá öllum hliðum, einnig gegnum íhvolfu hliðina. Strokan er tjásuleg í annan endann og afhjúpar þannig seigju málningarinnar og lýsir athöfn sem er í senn varfærin og röskleg. Liturinn sjálfur sker sig úr umhverfinu á áberandi hátt og verður tákn um aðgát og sjálfsígrundun. Kúla með stroku er því hreyfanlegt, síbreytilegt málverk þar sem staðsetningin verður hluti af málverkinu sjálfu.

Karin Sander (f. 1957) býr og starfar í Berlín og Zürich en hún hefur verið viðloðandi íslenskt listalíf síðan snemma á tíunda áratugnum. Í listsköpun sinni rýnir hún í tilbúnar aðstæður og rými út frá formgerðar-, félags- og sögulegu samhengi og gerir sýnileg á ólíka vegu með hjálp ýmissa miðla. Verk hennar hafa verið sýnd á einkasýningum og hátíðum um allan heim og finnast í opinberum söfnum og safneignum víða um lönd. Hún hefur gegnt prófessorsstöðu í arkitektúr og listum við ETH (Swiss Federal Institute of Technology) í Zürich síðan 2007. Þá verður Sander, ásamt Philip Ursprung, fulltrúi Sviss á átjánda alþjóðlega arkitektúrtvíæringnum í Feneyjum árið 2023.

Kærleikskúlan verður til sölu í safnbúð Hafnarborgar frá 8. til 23. desember, á meðan birgðir endast.

Aðalúthlutun safnasjóðs 2022 – verkefni Hafnarborgar

Á Farskóla FÍSOS, Félags íslenskra safna og safnmanna, sem haldinn var á Hallormsstað dagana 21. til 23. september síðastliðinn, afhenti Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, forstöðumönnum viðurkenndra safna styrki úr safnasjóði við hátíðlega athöfn af hálfu safnaráðs.

Hlaut Hafnarborg að þessu sinni styrki til þriggja verkefna, sem hefur ýmist verið hrint í framkvæmd nú þegar eða eru á döfinni. Verkefnin þrjú sem hljóta styrk úr aðalúthlutun sjóðsins eru:

 • Gunnar Örn Gunnarsson, yfirlitssýning (1.200.000 kr.)
 • Sóley Eiríksdóttir, útgáfa og sýning (1.200.000 kr.)
 • Listir, hugarefling og vellíðan: Hittumst á safninu (550.000 kr.)

Starfsfólk Hafnarborgar þakkar innilega fyrir þá styrki sem eru veittir safninu, sem stuðla að því að safnið fái enn betur þjónað samfélaginu og verið vettvangur skapandi samtals.

Sjónarhorn – fræðslustundir fyrir eldra fólk

Hafnarborg leggur áherslu á að gefa öllum tækifæri til að kynnast menningu og listum og býður upp á leiðsagnir fyrir alla aldurshópa. Sjónarhorn er dagskrá ætluð eldra fólki, sem hefur áhuga á menningu og listum, til að fræðast um starfsemi Hafnarborgar, yfirstandandi sýningar eða einstök verk úr safneign.

Viðburðirnir skapa tækifæri fyrir gesti til að nálgast myndlistina á margvíslegan hátt með spjalli við sérfræðinga safnsins. Boðið verður upp á kaffi og meðlæti í Hafnarborg að lokinni dagskrá.

Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá kl. 14 einn miðvikudag í mánuði yfir vetrartímann. Hægt er að skrá sig með því að senda póst á netfangið [email protected] eða í síma 585 5790. Aðgangur er ókeypis.


Dagskrá haustsins 2022

21. september kl. 14
Haustsýning Hafnarborgar: flæðir að – flæðir frá
Leiðsögn um haustsýningu Hafnarborgar flæðir að – flæðir frá en þar er sjónum beint að strandlengjunni, þar sem hið stóra og ofsafengna og hið smá og viðkvæma takast á. Listamennirnir sem taka þátt í sýningunni eru Alda Mohr Eyðunardóttir, Anna Rún Tryggvadóttir, Pétur Thomsen, Stuart Richardson, Studio ThinkingHand og Tadashi Ono.

19. október kl. 14
Valið verk úr safneign
Í safneign Hafnarborgar eru um 1560 verk unnin með fjölbreyttum aðferðum. Þar má finna málverk, teikningar, þrívíð verk, vídeóverk og útilistaverk. Fjallað verður ítarlega um naívisma og verkið Fiskþurrkun (1990) eftir Sigurlaugu Jónasdóttur (1913-2003).

16. nóvember kl. 14
Form, lögun, efni
Leiðsögn um sýninguna Vísað úr náttúru: verk úr safneign Hafnarborgar, þar sem lögð er áhersla á áferðarmikil verk, lífræn form og aflíðandi línur, ýmist í formi þrívíðra verka eða annarra verka sem segja mætti að hafi einkenni skúlptúra. Þá verður hugað að formi, lögun og efni verkanna með hliðsjón af náttúrunni, sem hefur lengi veitt listamönnum innblástur.

Haustsýning 2023 – kallað eftir tillögum

Líkt og undanfarin ár gefst sýningarstjórum tækifæri til að senda inn tillögur að haustsýningu næsta árs í Hafnarborg. Haustsýningaröðin hóf göngu sína árið 2011 en hingað til hafa tólf sýningar verið valdar úr miklum fjölda innsendra tillagna eftir sýningarstjóra með ólíkan bakgrunn og reynslu. Þá var haustsýning Hafnarborgar í ár, flæðir að – flæðir frá, í sýningarstjórn Sigrúnar Ölbu Sigurðardóttur, valin með sama hætti úr þeim tillögum sem bárust á síðasta ári en sýningin verður opnuð 10. september næstkomandi.

Markmiðið með því að óska eftir innsendum tillögum er að fá tækifæri til að velja til samstarfs sýningarstjóra eða sýningarstjórateymi, sem leggur fram áhugaverða sýningartillögu, auk þess að vera vettvangur fyrir upprennandi sýningarstjóra til að koma hugmyndum sínum á framfæri. Eru sýningarstjórar með stuttan feril að baki því sérstaklega hvattir til að sækja um. Það hefur enda sýnt sig að fyllsta ástæða er til að halda úti slíku verkefni en út frá því hafa orðið til fjölbreyttar sýningar, sem vakið hafa athygli og fengið góða aðsókn.

Óskað er eftir hugmyndum að samsýningum þar sem viðfangsefni, vinnuaðferð og/eða aðrar hugmyndir tengja verk listamanna en einnig koma til greina sýningar sem fela í sér greiningu eða sérstaka sýn á verk ákveðins listamanns. Jafnt koma til greina sýningar á verkum samtímalistamanna og sýningar sem fela í sér sögulega greiningu. Þá er það listráð Hafnarborgar sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna í samráði við forstöðumann.

Vinsamlegast athugið að frestur til að skila inn tillögum hefur verið framlengdur til miðnættis sunnudaginn 25. september næstkomandi.

Aðeins er tekið við tillögum í tölvupósti á netfangið [email protected] (sjá nánar í lokin).


Umsóknarferli

Umsóknarferlið er tvískipt og eru umsækjendur vinsamlegast beðnir um að kynna sér ferlið vel með því að fara yfir þau atriði sem talin eru hér fyrir neðan.

1. hluti

Í fyrri umferð er óskað eftir eftirfarandi upplýsingum:

 • Lýsingu á verkefninu þar sem lögð er áhersla á hugmyndina að baki sýningunni (hámark 1000 orð).
 • Ferilskrá(m) sýningarstjóra.
 • Stuttum ferilskrám listamanns eða -manna, auk annarra sem lagt er til að verði hluti af sýningarverkefninu.

Gefa skal eins nákvæma lýsingu og unnt er, innan uppgefinna marka um orðafjölda. Einnig er leyfilegt er að láta myndefni, sem er lýsandi fyrir verkefnið, fylgja tillögunni, þó ekki séu gerðar kröfur um slíkt í fyrri umferð. Þá er umsækjendum bent á að kynna sér vel húsnæði Hafnarborgar áður en tillögur eru sendar inn. Listráð Hafnarborgar, ásamt forstöðumanni, metur innsendar tillögur og velur verkefni til frekari skoðunar í annarri umferð.

2. hluti

Þeim sýningarstjórum sem eiga þær tillögur sem valdar eru til frekari skoðunar verður boðið að kynna hugmyndir sínar og senda inn ítarefni, s.s. sýningarskrár, myndefni eða myndbönd, auk þess sem vinna þarf að raunhæfri kostnaðaráætlun fyrir verkefnið. Reiknað er með að sýningin og vinnan við hana falli að fjárhagsáætlun safnsins, ella verði leitað leiða til að fá sérstakan stuðning við verkefnið.

Við mat á tillögum verða eftirfarandi atriði skoðuð:

 • Val á listamönnum.
 • Hvort sýningin kynni nýstárlega sýn á myndlist, t.d. innihald og/eða miðla.
 • Hvort um sé að ræða ný eða eldri verk eða jafnvel blöndu hvors tveggja.
 • Hvort sýningin hafi sérstaka skírskotun til Hafnarborgar, svo sem safneignar, umhverfis, nærsamfélags o.s.frv.
 • Hvort sýningin nýti sýningarrými Hafnarborgar á frumlegan hátt.
 • Ferill sýningarstjóra.
 • Tillögur að dagskrá í tengslum við sýninguna (leiðsögn, málþing, námskeið o.s.frv.).
 • Tillögur að hugsanlegri útgáfu.
 • Að kostnaður við verkefnið sé innan viðráðanlegra marka (nánari útfærsla kostnaðar fer fram í síðari hluta ferlisins).

Teikningar af sölum Hafnarborgar má finna hér. Þær eru ætlaðar til viðmiðunar við undirbúning tillagna en þess er ekki krafist að sýningar séu hannaðar nákvæmlega inn í rýmið.


Allar tillögur skulu sendar á netfangið [email protected], merktar „Haustsýning 2023“. Í kjölfarið verður send staðfesting á því að tillagan hafi verið móttekin en bent er á að hafa samband í síma 585 5790, berist sú staðfesting ekki. Þá verða allir umsækjendur upplýstir um það hvort tillaga þeirra hafi hlotið brautargengi eður ei. Allar niðurstöður verða sendar með tölvupósti.

Nánari upplýsingar veitir skrifstofa Hafnarborgar í síma 585 5790.

Skrifstofa Hafnarborgar – sumarleyfi starfsfólks

Vinsamlegast athugið að lágmarksþjónusta verður á skrifstofu Hafnarborgar á tímabilinu 11. júlí til 12. ágúst vegna sumarleyfa starfsfólks.

Þetta kann að hafa áhrif á svartíma erinda sem berast skrifstofu en í millitíðinni bendum við fólki á að senda tölvupóst á [email protected], þar sem fylgst verður með innsendum erindum.

Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda.

Með sumarkveðju,
starfsfólk Hafnarborgar