Listráð Hafnarborgar hefur valið sýninguna spássíuna (vinnutitill) sem haustsýningu ársins 2026, úr fjölda tillagna sem bárust fyrr á árinu í gegnum árlegt opið kall safnsins. Sýningarstjórar vinningstillögunnar eru þau Katrín Björg Gunnarsdóttir og Úlfur Bragi Einarsson, sem hyggjast beina sjónum sínum sérstaklega að rými sýningarsalarins – að þeim möguleikum sem búa í hinu óséða eða gleymda, í tóminu sem er í raun aldrei tómt.
Sýningin felur í sér endurmat á möguleikum sýningarrýmisins, sem er gjarnan nálgast sem hlutlaus bakgrunnur, og skilgreinir það í staðinn sem virkan þátttakanda í sýningunni. Með því að kortleggja fyrri sýningar í haustsýningaröð safnsins verður varpað ljósi á þau svæði sem ekki hafa verið nýtt undir verk, auk þeirra rýma sem hafa þannig hvílt á „spássíunni“. Þá verða listamenn hvattir til að skapa verk í gagnvirku samtali við þessi svæði, þar sem verkið mótar rýmið og rýmið mótar verkið. Sýningin leitast því við að ögra hinni hefðbundnu híerarkíu sem ríkir milli verks og rýmis og leggur til vistfræðilegt samhengi þar sem listaverk, rými, texti og áhorfandi hafa öll jafn mikið vægi.
Katrín Björg Gunnarsdóttir (f. 1994) er búsett í Japan þar sem hún stundar meistaranám í sýningarstjórnun við Listaháskólann í Tókýó. Hún lauk áður BA-prófi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2021. Í rannsóknum sínum einblínir hún á samband rýmis, verka og áhorfenda og skoðar hvernig sýningarrýmið hefur áhrif á upplifun listarinnar. Nálgun hennar byggir á hugmyndum nýefnisstefnu (e. New Materialism) og sameinar fræðilega greiningu og sýningarlega framkvæmd. Nýlega lauk sýningu í galleríinu 5th Floor í Tókýó, þar sem þessar hugmyndir voru kannaðar, auk þess sem hún hefur komið að öðrum sýningum í Tókýó. Hún er einnig sýningarstjóri samsýningar norðlenskra listamanna, Mitt rými, sem stóð yfir í Listasafninu á Akureyri fyrr á árinu.
Úlfur Bragi Einarsson (f. 1993) lauk BA-prófi í arkitektúr frá Listaháskóla Íslands árið 2020 og starfaði síðar hjá arkitektastofunni KRADS. Hann er nú búsettur í Tókýó, þar sem hann stefnir á meistaranám. Rannsóknir hans snúa að týndum hefðum og kanna hvernig leit til fortíðar getur opnað leiðir til framtíðar, einkum í samhengi við sjálfbærni. Úlfur hefur sérstakan áhuga á því hvernig arkitektúr mótar og er mótaður af fólki, hegðun og umhverfi, þar sem byggingar verða hluti af víðara vistfræðilegu samhengi. Þá hefur hann nýlega komið að uppsetningu ýmissa sýninga í Tókýó.
Sýningin spássían verður sú sextánda í haustsýningarröð Hafnarborgar. Verkefnið hefur það að markmiði að gefa breiðu sviði sýningarstjóra kost á að senda inn tillögu að sýningu í safninu og láta rödd sína heyrast. Það er listráð Hafnarborgar ásamt forstöðumanni sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna ár hvert. Nöfn þátttakenda og frekari upplýsingar verða birtar síðar.
