Sköpun tilfinninga

Stofnendur Hafnarborgar, hjónin Ingibjörg Sigurjónsdóttir og Sverrir Magnússon, deildu sameiginlegum áhuga á listum. Sverrir var í menntaskóla þegar hann fór í fyrsta skipti  á málverkasýningu en þeirri upplifun lýsti hann með eftirfarandi orðum: „Ég man að það var einstök tilfinning að sjá málverk í fyrsta sinn.“ Hjónin voru ötulir listaverkasafnarar og árið 1983 afhentu þau Hafnarfjarðarbæ húseign sína að Strandgötu 34, ásamt veglegri listaverkagjöf, og lögðu þar með grunninn að menningar- og listamiðstöð bæjarins.

Í Hafnarborg hefur nú verið sett upp fræðslusýningin Sköpun tilfinninga, þar sem lögð er áhersla á tengsl lista og tilfinninga. Á sýningunni eru valin verk úr safneign Hafnarborgar skoðuð út frá ólíkum birtingarmyndum tilfinninga í listsköpun og verða nemendur hvattir til umræðna og umhugsunar um verkin. Hvernig eru tilfinningar túlkaðar í listsköpun? Hvaða áhrif hefur ólík efnisnotkun listamanna á upplifun áhorfandans? Getur ákveðið myndefni vakið upp sameiginlegar eða andstæðar tilfinningar hjá áhorfendum?

Verkefnið er styrkt af safnasjóði.

Hæfniviðmið

Heimsóknin er hugsuð sem áhugaverður námsvettvangur fyrir nemendur á miðstigi grunnskóla. Í heimsókninni gefst m.a. færi á að efla eftirfarandi hæfniviðmið listgreina og samfélagsgreina, samkvæmt aðalnámskrá, um að nemendur geti:

  • Tjáð skoðanir eða tilfinningar í eigin sköpun með tengingu við eigin reynslu.
  • Greint, borið saman og metið aðferðir við gerð margskonar listaverka.
  • Fjallað um eigin verk og verk annarra í virku samtali við aðra nemendur.
  • Greint og fjallað um áhrif myndmáls í umhverfinu og samfélaginu.
  • Sýnt fram á skilning á heimabyggð sinni og útskýrt samhengi hennar við umhverfi, sögu, menningu, listir, félagsstarf og atvinnulíf.

Fyrirkomulag heimsóknar

Fræðslufulltrúi tekur á móti nemendum og kennurum í anddyri Hafnarborgar og veitir þeim leiðsögn um fræðslusýninguna Sköpun tilfinninga. Að lokinni leiðsögn vinna nemendur verkefni í tengslum við efni sýningarinnar. Heimsóknin tekur um klukkustund og er skólum að kostnaðarlausu. Einnig er ávallt í boði að bóka heimsóknir á aðrar sýningar safnsins.

Vinsamlegast smellið hér til þess að bóka heimsókn eða hafið samband við skrifstofu með því að senda póst á [email protected].