Hljóðön – sýningarlok og sýningarstjóraspjall

Sunnudaginn 3. mars eru síðustu forvöð að sjá Hljóðön – sýningu tónlistar, í sýningarstjórn Þráins Hjálmarssonar. Af því tilefni verður boðið upp á leiðsögn um sýninguna kl. 14 með sýningarstjóra, ásamt forstöðumanni Hafnarborgar, Ágústu Kristófersdóttur.

Sýningin fagnar fimm ára starfsafmæli samnefndrar tónleikaraðar, sem tileinkuð er samtímatónlist. Hér tekur tónlistin yfir og dreifir úr sér í safnarýminu, í hinum ólíkustu formum. Hugmyndaheimur tónlistarinnar er þaninn út fyrir heim hljóðanna og sjónræni þátturinn spilar þar stórt hlutverk.

Tónlistin verður í senn hljóð og hlutur, flæði tímans er skipt út fyrir flæði í rými, hljóðinu skipt út fyrir hluti, flytjandanum skipt út fyrir hlustandann.

Þeir listamenn sem eiga verk á sýningunni eru Ásta ÓlafsdóttirSteinaSteinunn Eldflaug HarðardóttirLogi Leó GunnarssonJón Gunnar ÁrnasonJames SaundersBergrún SnæbjörnsdóttirMagnús Pálsson, Tom Johnson, Curver Thoroddsen og Einar Torfi Einarsson.

Síðar um daginn mun BLÓÐSÓL III, samstarfsverkefni Ástu Fanneyjar Sigurðardóttur og Haraldar Jónssonar, birtast í Hafnarborg en viðburðurinn hefst kl. 16.

Aðgangur er ókeypis að sýningum safnsins, jafnt sem á báða viðburði, og allir velkomnir.