Villiblómið – „Mekanískt illgresi“

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir les hér texta sinn, „Mekanískt illgresi“, sem birtist í samnefndri sýningarskrá sem gefin var út í tengslum við Villiblómið, haustsýningu Hafnarborgar 2020. Þar fer hún í eins konar tímaferðalag með verki Jóns Gunnars Árnasonar (1931-1989), Blóminu, sem stendur í miðju sýningarrýminu, á eiginlegu blómaengi. Þá heldur þessi vélræni hreyfiskúlptúr áfram að teygja anga sína inn í nýjar víddir, líkt og hann hefur gert allt frá því að verkið skaut fyrst rótum á vinnustofu Jóns Gunnars árið 1967.

Inga Björk er listfræðingur og aðgerðasinni, fædd 1993. Hún hefur vakið athygli fyrir mannréttindabaráttu sína, pistlaskrif og fyrirlestra, þar sem hún tvinnar saman umfjöllun um fötlun, menningarlega fjölbreytni, vald og jaðarsetningu innan listheimsins. Inga Björk lauk MA gráðu í listfræði frá Háskóla Íslands árið 2019 en hefur á undanförnum árum starfað sem sjálfstætt starfandi listfræðingur. Hún er meðal stofnenda Plan-B Art Festival, sem fer fram í Borgarnesi ár hvert. Hún hefur einnig starfað sem sýninga- og verkefnastjóri hjá List án landamæra en hún starfar nú fyrir Landssamtökin Þroskahjálp, hagsmunasamtök fatlaðs fólks.

Villiblómið er samsýning listamanna frá Kanada og Íslandi, í sýningarstjórn Becky Forsythe og Penelope Smart. Sýningarskráin, sem texti Ingu Bjarkar birtist í, er jafnframt fáanleg í safnbúð Hafnarborgar. Sýningin mun standa yfir til 8. nóvember næstkomandi en safnið er lokað tímabundið af lýðheilsusjónarmiðum.