Útilistaverk í Hafnarfirði

Nýjum vef með upplýsingum um útilistaverk í Hafnarfirði var ýtt úr vör nú á vormánuðum. Í bænum er enda að finna tugi verka eftir fjölmarga landsþekkta listamenn, auk verka eftir erlenda listamenn sem tengjast bænum með einum eða öðrum hætti. Mörg verkanna eru staðsett í miðbæ Hafnarfjarðar og við höfnina en einnig má finna fjölda þeirra í höggmyndagarðinum á Víðisstaðatúni, í Hellisgerði og við Sólvang.

Vefurinn er aðgengilegur á slóðinni utilistaverk.hafnarborg.is en þar má sjá kort sem sýnir staðsetningu þeirra verka sem eru í umsjá Hafnarborgar, auk helstu upplýsinga um útilistaverkin. Listinn sem þar birtist er því ekki tæmandi, þar sem fleiri verk eru vissulega staðsett í bænum, ýmist í eigu félaga, fyrirtækja eða annarra einkaaðila. Síðan er þó í stöðugum vexti, þar sem starfsfólk Hafnarborgar er ávallt að leita nýrra leiða til þess að deila upplýsingum um verkin og auka sýnileika safnkostsins.