Ummerki sköpunar

Úr safneign

Sýning á verkum sem bæst hafa í safneign Hafnarborgar á síðustu tíu árum, en verkin eru unnin á árunum frá 1952 – 2014. Yfirskrift sýningarinnar er Ummerki sköpunar og beinir sjónum að safninu sem stað þar sem afrakstur sköpunar listamanna er varðveittur og honum miðlað. Ólíkir straumar og stefnur koma við sögu en sýningin er eins konar ferðalag um list samtímans, allt frá formfestu módernismans í verkum Harðar Ágústssonar og Eiríks Smith frá árinu 1952 til nýrra leikrænna myndbandsverka þeirra Ilmar Stefánsdóttur og Sigurðar Guðjónssonar.

Verkin á sýningunni eru eftir marga af þekktustu listamönnum landsins en einnig nokkra erlenda listamenn sem tengst hafa safninu ýmist með sýningum eða dvöl í gestavinnustofu safnsins. Þeir listamenn sem eiga verk á sýningunni eru Anna Jóelsdóttir, Ásmundur Ásmundsson, Bjarni H Þórarinsson & Goddur, Creighton Michael, Davíð Örn Halldórsson, Eduardo Santiere, Eiríkur Smith,Friederike von Rauch, Georg Guðni, Guðrún Kristjánsdóttir, Hildur Bjarnadóttir, Hreinn Friðfinnsson, Hörður Ágústsson, Ilmur Stefánsdóttir, Ingólfur Arnarsson, John Fraser, Jónatan Grétarsson, Jónína Guðnadóttir, Karl Kvaran, Ólafur Elíasson & Elías Hjörleifsson, Ólafur Ólafsson & Libia Castro, Pétur Thomsen, Rúna (Sigrún Guðjónsdóttir), SigurðurGuðjónsson, Sirra Sigrún Sigurðardóttir og Stefán Jónsson.

Sýningin veitir innsýn í safneign sem nú telur rúmlega 1400 listaverk og vaxið hefur hægt og rólega á síðari árum. Safnið á rætur sínar að rekja til listaverkasafnaranna Sverris Magnússonar og Ingibjargar Sigurjónsdóttur en þau lögðu grunninn að Hafnarborg með því að færa Hafnarfjarðarkaupstað hús sitt og listaverkasafn að gjöf. Í Sverrissal hefur verið sett upp önnur sýning með málverkum frá fyrrihluta 20. aldar sem flest eru hluti af stofngjöf þeirra hjóna.