Toshikatsu Endo

Skúlptúrar og ljósmyndir

Í samstarfi við Norrænu listamiðstöðina í Sveaborg í Finnlandi var opnuð sýning á verkum japanska listamannsins Toshikatsu Endo í Hafnarborg en verk hans á Feneyjatvíæringnum 1988 vöktu sérstaka athygli sem leiddi til þess að hann tók í kjölfarið þátt í sýningum víðs vegar um heiminn. Á sýningunni í Hafnarborg voru sex skúlptúrar og tvær ljósmyndir. Þar fjallaði Endo um frumkraftana sem snerta allt mannkyn, einkum eldinn og vatnið, þó efniviður verkanna væri aðallega tré, járn og tjara.

Rætur listar Endos liggja í japanskri myndhefð sem segja má að einkennist af fáguðum fúnksjónalisma og hefur lengi notið virðingar á Vesturlöndum, þó list hans megi einnig skoða í vestrænu samhengi. Um er að ræða þann frumstæða ritúalisma sem hefur fylgt listsköpun frá upphafi vega. Til að slík afstaða hafi tilskilin áhrif þarf hún að byggja á sannfæringunni um það að listin geti miðlað einhverju sem er okkur öllum sameiginlegt. Það kann að vera hulið mörgum lögum af menningarsögulegri hefð en innihaldið verður þó að vera einhver þeirra tilfinninga sem einkenna og marka okkar tíma – tilfinninga sem kunna að gleymast um stund en má ávallt kalla fram á ný ef notuð eru hrein og einföld tákn.

Í verkum Endos eru sum þessara tákna eldur, vatn, jörðin, hringurinn og svartur litur. Myndheimur Endos einkennist af slíkum einföldum altækum formum og það verður til þess að verkin virðast óháð stund og stað. Þau virðast oft frekar helgir dómar en verk sprottin af viðleitni listamannsins, þar sem Endo er það einkar lagið að búa til verk sem aldrei virðast vitna um hans eigin þátt í tilurð þeirra.