Tilvist

Eiríkur Smith
Verk frá 1968-1982

Tilvist er fjórða sýningin í sýningaröð Hafnarborgar á verkum Eiríks Smith, en að þessu sinni eru sýnd olíumálverk og vatnslitamyndir frá árunum 1968 til um 1982. Yfirskrift sýningarinnar er Tilvist og er í titlinum vísað til tilvistarlegra spurninga sem sóttu á listamanninn á þessum tíma. Á sýningunni eru mörg af þekktustu verkum Eiríks, en á síðari hluta þessa tímabils náðu málverk hans mikilli hylli á meðal almennings.

Listmálarinn Eiríkur Smith (f.1925) á að baki langan og farsælan feril. Hafnarborg varðveitir fjölda verka eftir Eirík en árið 1990 gaf hann safninu hátt á fjórða hundrað verka eftir sig, olíumálverk, vatnslitamyndir og teikningar.Tilvist er fjórða sýningin í áframhaldandi röð sýninga sem settar verða upp í Hafnarborg á næstu árum og kynna margbreyttan feril Eiríks, en ferill hans skiptist í tímabil sem eru ólík innbyrðis um leið og þau eru hvert um sig mikilvægt innlegg í íslenska listasögu. Fyrri sýningar í röðinni voru Formlegt aðhald, Brot úr náttúrunni og Síðasta abstraktsjónin.

Sýningarstjórar eru Ólöf K. Sigurðardóttir forstöðumaður Hafnarborgar og Heiðar Kári Rannversson.

Um sýninguna:

Tilvist
Eiríkur Smith 1968–1982

Listamannsferill Eiríks Smith (f. 1925) er í senn langur og margbreytilegur. Hann hefur tekist á við ýmsa stíla innan málverksins og liggja eftir hann verk sem bera vitni um einstök tök á jafn ólíkum viðfangsefnum og strangflatarlist, tjáningarríku abstraktmálverki og raunsæisverkum þar sem maðurinn er oft í forgrunni en landið og mannanna verk mynda magnþrungna umgjörð. Á sýningunni Tilvist eru málverk og vatnslitamyndir frá árunum 1968–1982. Þetta er nokkuð langt tímabil á listferli Eiríks og skiptist í meginatriðum í tvennt. Fyrri hluti tímabilsins einkennist af miklum breytingum og leit listamannsins að nýjum stíl sem síðan nær að blómstra í þroskaðri myndhugsun og persónulegri sýn á síðari hluta tímabilsins.

Upp úr 1968 má greina hjá Eiríki áður óþekktan áhuga á fígúratífu málverki og verður það allsráðandi þegar líður á áttunda áratuginn. Það voru áhrif frá popplist sem fyrst vöktu þennan áhuga. Hann kynntist verkum erlendra popplistamanna á alþjóðlegum sýningum en varð einnig fyrir áhrifum frá íslenskum kollegum, svo sem Einari Hákonarsyni og Tryggva Ólafssyni. Í fyrstu verkunum frá þessum tíma teflir Eiríkur saman tjáningarríkri abstraktlist áranna á undan og hinni fígúratífu popplist. Hér voru á ferðinni ádeiluverk þar sem mætast varnarlausar manneskjur og ómanneskjulegir kraftar óræðra forma. Áður óþekkt rými gerir vart við sig í verkunum en í abstraktlistinni reyndi hann löngum að halda myndinni í einum fleti. Umhverfi í verkunum er oft á mörkum náttúrunnar og hins manngerða. Þetta samspil, þar sem mannanna verk verða að táknum um andstæðurnar sem felast í anda og efni, átti eftir að verða áberandi í verkum Eiríks. Þau urðu með tímanum raunsærri í stíl en efnislega leitaði listamaðurinn æ meira inná við með hugleiðingum um tilvist mannsins í alheiminum, og hvarf frá þeim pólitísku spurningum um tilvist mannsins í samfélaginu sem einkenndu fyrri hluta tímabilsins.

Tilvistarspurningar urðu Eiríki þannig listræn uppspretta, tilvist mannsins í samfélaginu og tilvist mannsins á mörkum hins andlega og líkamlega. Á lífsleiðinni hefur Eiríkur leitað víða svara um hinstu rök tilverunnar, í spíritisma, búddisma, í guðspeki og í fræðum Rósarkrossreglunnar. Í verkum hans frá síðari hluta tímabilsins verður þessi leit áhorfandanum augljós. Fígúrur í náttúrunni andspænis hrörnandi mannanna verkum eru áberandi og endurspegla togstreitu á milli hins líkamlega og hins andlega. Efnið er forgengilegt en andinn lifir áfram, hvort sem það eru svipir liðins tíma í náttúrunni eða minni um liðna atburði í hugum manna.

Sýningin Tilvist er hin fjórða í röð sýninga sem Hafnarborg heldur til að kynna ýmis tímabil á löngum ferli Eiríks. Samhliða sýningunum er unnið að skráningu gagna og heimilda frá hverju tímabili. Greining tímabila á ferli listamannsins er byggð á úttekt sem Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur vann á verkum listamannsins í safneign Hafnarborgar. Fyrsta sýningin í sýningaröðinni bar yfirskriftina Formlegt aðhald og var opnuð vorið 2010. Á henni voru verk frá fyrstu árunum eftir að Eiríkur sneri heim frá námi í Kaupmannahöfn og París síðari hluta árs 1951. Þetta var umbrotatími í íslenskri myndlist og var Eiríkur þátttakandi í formbyltingunni sem þá var í gangi undir merkjum geómetrískrar abstraktlistar, strangflatarlistar. Næsta sýning bar yfirskriftina Brot úr náttúrunni og spannaði árin 1957–1963 en árið 1957 urðu þáttaskil í list Eiríks þegar hann sagði skilið við strangflatarlistina og brenndi nokkurn hluta verka sinna í malargryfju í Hafnarfirði. Meðvitund um náttúruna og umhverfið sótti á Eirík. Hann hvarf frá hinni ströngu myndgerð þar sem myndflöturinn sækir ekki út fyrir eigin ramma og fór að vinna ljóðræn verk sem sækja innblástur til náttúrunnar. Eiríkur var áfram trúr abstraktmálverkinu en brotakenndar myndir náttúrunnar tóku að birtast á myndfletinum líkt og listamaðurinn kafaði niður í svörðinn og skoðaði eigindir landsins. Árið 1964 urðu aftur straumhvörf í list Eiríks þegar drifkraftur verkanna varð túlkun innri upplifunar og löngunin til að höndla innblástur með kraftmikilli tjáningu. Þessum tjáningarríku abstraktmálverkum voru gerð skil á sýningunni Síðasta abstraktsjónin 1964–1968. Þannig hefur nálægð mannsins orðið æ meiri í verkum Eiríks og þær tilvistarlegu spurningar sem greina má í verkunum á sýningunni Tilvist leitað stöðugt meira á í málverkunum.

Sú þróun í átt til raunsærrar myndgerðar sem einkenndi verk Eiríks upp úr 1970 varð til þess að hann náði almannahylli og varð einn dáðasti listmálari þjóðarinnar. Á áttunda áratugnum tóku verk hans að seljast geysivel og má segja að þau hafi orðið almenningseign í þeim skilningi að fjölmargir sáu sér fært að festa kaup á verkum eftir hann, einkum vatnslitamyndum. Fá verk frá þessu tímabili eru þó í eigu opinberra safna. Hafnarborg á fáein málverk frá þessum tíma, þótt þar séu varðveitt yfir 300 verk sem listamaðurinn færði safninu árið 1990. Til að gefa heillega mynd, einkum af síðari hluta þess tímabils sem tekið er fyrir á þessari sýningu, er stór hluti verkanna því fenginn að láni.

Í safneign Hafnarborgar er að finna málverk, vatnslitamyndir og teikningar auk skjalasafns sem spannar stóran hluta ferils Eiríks. Á undanförnum árum hefur listamaðurinn bætt við gjöfina þannig að safneignin endurspeglar nú nánast allan feril hans. Samhliða rannsóknarvinnunni sem fylgir sýningunum er unnið að undirbúningi útgáfu bókar um listamanninn Eirík Smith.

Texti: Ólöf K. Sigurðardóttir