Teikningar

Ingólfur Arnarsson

Ingólfur Arnarsson (f. 1956) hefur verið áhrifamikill í íslensku listalífi allt frá því að hann lauk listnámi í Hollandi snemma á níunda áratugnum. Teikning hefur ætíð skipað veigamikinn sess í listsköpun hans en teikningar Ingólfs einkennast af fíngerðum línum, nákvæmi og tíma. Á sýningunni er meðal annars röð teikninga sem hann vann allt árið 2007 og eru þær mikilvægur hluti nákvæmlega útfærðrar innsetningar í Sverrissal. Segja má að verk Ingólfs séu aldrei einangruð fyrirbæri heldur ætíð hluti af úthugsaðri innsetningu og rými sýningarstaðarins. Ingólfur hefur haldið sýningar bæði hér heima og erlendis, meðal annars voru haldnar einkasýningar á verkum hans á Kjarvalsstöðum árið 1996 og í hinni virtu listamiðstöð Chinati Foundation í Bandaríkjunum árið 1992.

Um sýninguna:

Teikningar
Ingólfur Arnarsson

Teikningar Ingólfs Arnarssonar lifa tvöföldu lífi. Úr fjarska virðast þær nánast ósýnilegar einingar, nákvæmlega staðsett litbrigði, sem ekki eru einangruð fyrirbæri heldur hluti úthugsaðrar innsetningar. Teikningarnar virðast átakalausar og innsetningin einkennist af jafnvægi sem fengið er með litlu en nákvæmu inngripi í rýmið. Þegar nær er komið sýnir hver og ein eining marglaga, lífræna teikningu óhlutbundinna tóna eða skugga. Nákvæmt handbragð, fínleg vinna og nánast þráhyggjukennd endurtekning gera tímann sem varið er í verkið augljósan. Tíminn verður þannig hluti verksins um leið og hann er vitnisburður um afstöðu listamannsins til viðfangsefnisins.

Á þessari sýningu eru teikningar frá síðustu tveimur árum og röð fjörtíu teikninga frá árinu 2007 auk ljósmyndar. Teikningaröðin frá 2007 myndar eina heild þétt unninna grátóna blýantsteikninga, hún er þannig eitt verk sem fæst við blæbrigði eins litar. Í nýrri teikningunum er áferðin enn þéttari og fela þær því, hver og ein, í sér mikinn tíma. Á meðan skynjun tímans í teikningaröðinni er nánast eins og línulegur lestur má segja að í hverri og einni af nýrri teikningunum felist fjöldi teikninga þannig að tíminn hleðst upp á myndlfletinum.

Teikning hefur ætíð skipað veigamikinn sess í listsköpun Ingólfs Arnarssonar. Auk þess að vinna teikningar á pappír hefur hann notað teikningu og vatnslit sem hluta af innsetningum og unnið verk meðal annars úr steinsteypu og gifsi. Jafnframt hefur hann teiknað og málað beint á veggi eða loft sýningarstaða. Sýningar á verkum Ingólfs eru hugsaðar út frá hverju rými fyrir sig og hafa sparleg en nákvæmlega úthugsuð verk hans verið kennd við minimalisma. Þarna verður aftur til tvöfalt líf á mörkum minimalisma og hugmyndalistar sem á ríkan þátt í listsköpun Ingólfs. Á meðan minimalisminn leitast við að tæma verkin öllum vísunum út fyrir eigin form og efni, byggir hugmyndalistin á því að hlutgera hugmynd sem á sér uppruna annars staðar en í listaverkinu sjálfu. Í verkum Ingólfs á sér stað áhugaverð glíma listamannsins við hugmyndina um listaverkið sjálft.

Ingólfur Arnarsson (f. 1956) lauk námi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1979 og hélt þá til framhaldsnáms við Jan van Eyck listaháskólann í Hollandi 1979 – 1981. Á rúmlega 30 ára ferli hefur Ingólfur haldið sýningar bæði hér heima og erlendis, meðal annars voru haldnar einkasýningar á verkum hans á Kjarvalsstöðum árið 1996 og í Safni árið 2005 auk þess sem hann hefur reglulega sýnt í Nýlistasafninu. Erlendis hefur hann meðal annars átt verk á sýningum í Center for Contemporary Non-Objective Art í Brussel árið 1999, Drawing Center í New York árið 2007 og í hinni virtu listamiðstöð Chinati Foundation sem stafrækt er í Texas í Bandaríkjunum. Eftir að hafa dvalið á Íslandi bauð stofnandi listamiðstöðvarinnar, myndlistarmaðurinn Donald Judd, Ingólfi að dvelja þar sem gestalistamaður. Þar hefur verið föst innsetning eftir Ingólf frá árinu 1992. Frá upphafi myndlistarferils síns hefur Ingólfur verið virkur skipuleggjandi sýninga á verkum íslenskra og erlendra listamanna bæði hér heima og erlendis. Hann var jafnframt einn af stofnendum Gallerís Suðurgötu 7, sem var tilraunakenndur sýningastaður í Reykjavík seint á áttunda áratugnum, og virkur í starfi sýningarsalarins Önnur hæð sem starfræktur var í Reykjavík um miðjan níunda áratuginn. Meðfram störfum að eigin myndlist hefur Ingólfur sinnt myndlistarkennslu og var deildarstjóri fjöltæknideildar Myndlista- og handíðaskólans 1983 – 1993 og prófessor við Listaháskóla Íslands 2000 – 2007.

Texti: Ólöf K. Sigurðardóttir