Vísar

Haustsýning Hafnarborgar 2013

Á sýningunni Vísar – húsin í húsinu eru ný verk eftir myndlistarmennina og arkitektana Elínu Hansdóttur, Ilmi Stefánsdóttur, Marcos Zotes og Theresu Himmer. Listamennirnir eiga það sameiginlegt að vinna á mörkum myndlistar og arkitektúr þó þeir eigi að öðru leiti að baki ólíkan feril. Sýningarstjóri er Anna María Bogadóttir en hugmynd hennar að þessari sýningu var valin úr innsendum tillögum síðastliðið haust þegar kallað var eftir tillögum að haustsýningu 2013 í Hafnarborg.

Vísar – húsin í húsinu er sýning þar sem staður og rými fá nýja merkingu meðal annars með vísan í söguna og mótun umhverfis. Verkin enduspegla umbreytingar og afhjúpa margslungið samhengi listsköpunar og umhverfismótunar. Um leið eru tengsl sögu og samtíma ljós í sýningarrými sem er í stöðugri umbreytingu og allt í senn; einka og opinbert, raunverulegt og ímyndað, varanlegt og hverfult. Á sýningunni er hægt að stökkva fram og aftur í tíma og rými gegnum birtingarmyndir af húsinu í húsinu. Verkin á sýningunni kallast á við verk bandaríska listamannsins Gordon Matta-Clark (1943-1978), Conical Intersect frá árinu 1975, sem er hluti sýningarinnar en þetta er í fyrsta sinn sem verk eftir Matta-Clark er sýnt hér á landi. Á sýningunni Vísar skapast þannig áhugavert samspil milli verka Matta-Clark og nýrra myndlistarverka, sem eiga það sameiginlegt að velta upp spurningum um mörk og áhrif hins byggða umhverfis, upplifun okkar af því og hlutverk okkar í mótun þess.

Sýningin Vísar er þriðja í haustsýningaröð Hafnarborgar. Með röðinni opnar safnið fyrir hið óvænta og ræðst í samstarf um hugmynd sýningarstjóra sem valin er úr innsendum tillögum. Með haustsýningaröðinni vill Hafnarborg skapa farveg fyrir áhugaverðar hugmyndir og vera vettvangur þar sem myndlist fær notið sín mótuð af fjölbreyttum viðhorfum og viðfangsefnum. Hafnarborg kallar nú eftir tillögum að haustsýningu árið 2014.

Sýningarstjóri er Anna María Bogadóttir menningarfræðingur og arkitekt. Hún lauk framhaldsnámi í menningarfræði og upplýsingatækni í Kaupmannahöfn og starfaði í tæpan áratug við menningar- og sýningastjórn áður en hún hélt til New York þar sem hún lauk M.Arch gráðu frá Columbia University árið 2010. Hún hefur unnið á arkitekta- og borgarhönnunarstofum í New York og Miami og fæst nú við hönnun, ráðgjöf og rannsóknir á borgarumhverfi auk kennslu við Listaháskólann og Háskóla Íslands.

Um listamennina:

Elín Hansdóttir (f. 1980) hefur vakið athygli fyrir innsetningar sem taka á sig ýmis form en eiga það yfirleitt sameiginlegt að fást við skynjun mannsins á umhverfinu og upplifun á tíma. Verk hennar byggja oft á kúnstugum rýmisumbreytingum sem verða jafnvel heilir heimar sem ganga má inn í og hverfa frá stund og stað. Elín lauk námi við Listaháskóla Íslands 2003. Hún býr og starfar í Berlín þar sem hún lauk framhaldsnámi frá KHB Berlin-Weissensee árið 2006.

Ilmur Stefánsdóttir (f. 1969) vinnur jöfnum höndum við myndlist, gjörningalist og leikmyndahönnun. Ilmur lauk námi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1995 og framhaldsnámi í myndlist við Goldsmiths College í London árið 2000. Hún starfar með leikhópnum CommonNonsense sem hefur staðið fyrir ýmsum leiksýningum og setti m.a. upp heimildaleikverkið Tengdó árið 2012.

Marcos Zotes (f. 1977) fæst við eðli borgarinnar sem net mannvirkja og upplýsinga þar sem fólk og hugmyndir flæða um. Verk hans endurspegla áskoranir og möguleika sem birtast okkur í félagslegum og pólitískum hliðum hins opinbera rýmis og hafa þau ratað víða um heim, meðal annars á arkitektatvíæringinn í Feneyjum. Marcos lauk námi í arkitektúr frá London Metropolitan University 2008, M.Arch II gráðu frá Columbia University í New York 2011 og Post-Graduate Certificate in Advanced Architectural Research frá sama skóla árið 2012. Marcos er spænskur að uppruna en býr og starfar á Íslandi.

Í fjölbreyttum verkum Theresu Himmer (f. 1976) endurspeglast leið hennar að myndlistinni sem liggur um lendur arkitektúrs. Theresa lauk námi frá arkitektaskólanum í Árósum 2003, MFA gráðu frá School of Visual Arts í New York 2011 og Whitney Independent Study Program í New York 2012. Hún er dönsk að uppruna og býr og starfar í New York og á Íslandi.

Gordon Matta-Clark (1943-1978) lagði stund á arkitektúr en tók afstöðu gegn hefðbundinni sýn á fagið og átti í kjölfarið þátt í að hreyfa áþreifanlega við mörkum þess. Með verkum sínum ruddi hann nýja braut fyrir arkitekta um leið og hann skapaði sér sess meðal áhrifamikilla listamanna sem störfuðu á áttunda áratugnum. Meðal þekktustu verka hans eru róttæk inngrip í borgarumhverfið þar sem hann bókstaflega sker hús. Þar á meðal er verkiðConical Intersect sem hann vann árið 1975. Með gerð verkins blandar höfundurinn sér í umbreytingarferli Beaubourg hverfisins í París og hefur þannig áhrif á borgarmyndina. Þetta er í fyrsta sinn sem verk eftir Gordon Matta-Clark eru sýnd á Íslandi.