Sumarsýning

Verk úr safneign Hafnarborgar

Á sumarsýningu Hafnarborgar árið 1990 voru sýnd verk úr listaverkagjöf Sverris Magnússonar, lyfsala, og Ingibjargar Sigurjónsdóttur, eiginkonu hans, er þau gáfu Hafnarfjarðarbæ 1. júní 1983, auk verka sem Sverrir afhenti Hafnarborg í nóvember 1989. Sýnd voru 156 verk en listaverkagjöf Sverris og Ingibjargar, einnig kölluð stofngjöf, lagði grunninn að safneign Hafnarborgar og telur tæplega 200 verk.

Þá var opnaður nýr salur í Hafnarborg en sá hlaut nafnið Sverrissalur í virðingarskyni við Sverri Magnússon, sem lést þann 22. júní sama ár, fyrir frumkvöðlastarf sitt í þágu Hafnarborgar, ásamt Ingibjörgu, konu sinni, sem lést árið 1986. Í Sverrissal voru sýnd þau þrjátíu verk sem Sverrir hafði afhent stofnuninni til eignar í nóvember árinu áður.