Sigrún Steinþórsdóttir og Steinþór Marinó Gunnarsson

Textíll og málverk

Feðginin Sigrún Steinþórsdóttir og Steinþór Marinó Gunnarsson sýndu saman verk sín en sýningin var þeirra sjöunda samsýning á einum áratug. Steinþór sýndi málverk en Sigrún myndvefnað úr íslenskri ull, auk þess sem hún sýndi nokkur verk úr jútu.

Sigrún Steinþórsdóttir (f. 1947) lauk verknámi á Íslandi en hélt síðan til Noregs til að læra myndvefnað. Hún stundaði nám í Vestfold Husflidsskole í Larvík 1976–1977 og kenndi síðan í þrjú ár á sama stað. Sigrún hafði farið allmargar náms- og kynnisferðir til Evrópulanda, svo sem Póllands, Hollands, Belgíu, Danmerkur, Vestur-Þýskalands og Frakklands. Hafði hún verið búsett í Noregi í tuttugu ár þegar sýningin var haldin.

Steinþór Marinó Gunnarsson (f. 1925) er málarameistari að iðn en hann naut kennslu og tilsagnar þjóðkunnra listamanna, ásamt því að leita sér þekkingar á listasöfnum og myndlistarsýningum, jafnt á meginlandi Evrópu og í Norður-Ameríku. Hann hefur bæði haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum hér á landi og erlendis og hlaut einnig listamannalaun. Þá starfaði hann við leikmyndagerð 1976–1980 hjá Ríkissjónvarpinu, auk þess sem hann vann við gerð leikmynda hjá Norska ríkissjónvarpinu.