Þinn staður – okkar umhverfi

Opin vinnustofa um skipulag Hafnarfjarðar

Opin vinnustofa um umgjörð daglegs lífs í Hafnarfirði. Í Sverrissal verður komið fyrir kortum, uppdráttum, ljósmyndum og teikningum sem tengjast skipulagi Hafnarfjarðar. Nú stendur yfir endurskoðun aðalskipulags Hafnarfjarðarbæjar og verður sú vinna kynnt og rædd. Einnig verður hægt að kynna sér skýrslur og annað efni sem notast er við í skipulagsgerð og koma hugmyndum sínum á framfæri með ýmsu móti. Á stóru korti af bænum eru gestir hvattir til að leggja sitt til umræðunnar.

Skipulagshugmyndir fyrir ólík hverfi í bænum frá ýmsum tímum verða kynntar með uppdráttum, teikningum og ljósmyndum. Þannig má skoða fortíðina, samhengi hugmynda og margvísleg viðhorf ólíkra tíma.
Í tengslum við vinnustofuna verður efnt til gönguferða um bæinn, haldnar verða kynningar auk þess sem formlegur kynningarfundur á endurskoðuðu aðalskipulagi frá 2005-2025 fer fram á tímabilinu.

Dagskrá:

Fimmtudag 7. nóvember kl. 20
Staður í hjartanu
Samtal við arkitekta um heimabæinn Hafnarfjörð.

Föstudag 8. nóvember kl. 16
Alþjóðlegur dagur skipulags
Staður hluti heildar – fyrirlestrar og umræður
Hrafnkell Á. Proppé svæðisskipulagsstjóri
höfuðborgarsvæðisins,
Borghildur Sturludóttir arkitekt.

Sunnudag 10. nóvember kl. 15

Í spor Guðjóns Samúelssonar í Hafnarfirði
Pétur H. Ármannsson arkitekt flytur erindi
um Guðjón Samúelsson.

Fimmtudag 14. nóvember kl. 17
Endurskoðað aðalskipulag
Almennur kynningarfundur á vegum Skipulags- og
byggingarsviðs Hafnarfjarðarbæjar.

Sunnudag 17. nóvember kl. 15
Hafnarbærinn
Kristinn Aadnegard yfirhafnsögumaður leiðir göngu
um hafnarsvæðið. Hvaða breytingar hafa orðið
í gegnum tíðina og hverjir eru möguleikar framtíðar.

Fimmtudag 21. nóvember kl. 20
Skipulag – forsendur og útfærsla
Bjarki Jóhannesson arkitekt og skipulagsstjóri
Hafnarfjarðar segir frá vinnu við aðalskipulagsgerð.

Sunnudag 24. nóvember kl. 15
Friðuð og falleg hús
Ganga þar sem friðuð hús í Hafnarfirði verða
skoðuð undir leiðsögn Sigríðar Bjarkar Jónsdóttur
byggingarlistfræðings og formanns skipulagsráðs.

Fimmtudag 28. nóvember kl. 20
Staður í hjartanu
Samtal við arkitekta um heimabæinn Hafnarfjörð.