Nonaginta

Samsýning fimm listamanna

Nonaginta var samsýning myndlistarmannanna Kjartans Guðjónssonar, Eiríks Smith, Daða Guðbjörnssonar, Ómars Stefánssonar og Björns Roth. Sýningin þótti um margt óvenjuleg, ekki síst þar sem á henni mættust eldri og yngri kynslóðir listamanna sem áttu fátt sameiginlegt í stíl sínum. Þá gaf sýningin vissa hugmynd um þá breidd, sem segja má að hafi ríkt innan málaralistarinnar á þeim tíma.

Kjartan sýndi málverk af fólki og umhverfi þess, stílfærðar á þróttmikinn hátt. Eiríkur sýndi einungis vatnslitamyndir, náttúrustemningar og vetrarlandslag með birtubrigðum skammdegisins, í áhrifaríkri andstæðu við aðra þátttakendur sýningarinnar. Þá sýndi Daði myndir í þeim skrautlega og ævintýralega stíl sem hann er þekktur fyrir, barrokkmálarinn í nútímanum. Ómar sýndi aftur á móti myndir í anda „nýja málverksins“. Björn sýndi loks málverk sem einkenndust af firnamiklum dökkum flötum, að því er virtist sprottin af landslagsáhrifum og þýskri myndlistarhefð.