Lusus Naturae

Ólöf Nordal, Gunnar Karlsson og Þuríður Jónsdóttir

Hafnarborg, í samstarfi við Listahátíð, kynnir einstakan viðburð þar sem ólíkar listgreinar mætast og skapa flæðandi upplifun myndlistar og tónlistar. Verkið sem ber yfirskriftina Lusus naturae er afrakstur samstarfs myndlistarmannanna Ólafar Nordal og Gunnars Karlssonar við tónskáldið Þuríði Jónsdóttur. Hér er á ferðinni innsetning þar sem saman koma tónlist og hreyfimynd en jafnframt er lifandi tónlistargjörningur hluti sköpunarverksins. Lusus naturae er draumkennt og fagurt eins og djúpið, og á mörkum hins hlutbundna og óhlutbundna, þess náttúrulega og þess yfirnáttúrulega. Það segir frá hringrás lífsins; fæðingu skáldlegra lífvera, lífshlaupi þeirra, dauða og endurfæðingu. Í verkinu eru gerðar tilraunir með tíma og er atburðarásin ofur hæg eins og undir þrýstingi hafdjúpanna. En eins og í hverjum lusus er leikurinn ekki langt undan og skrípóið rennur saman við alvöru lífsins. Lusus naturae er latneskt hugtak sem gjarnan var notað um óskilgreind fyrirbæri í náttúrunni, það óútskýranlega og óflokkanlega, hverskonar afmyndun og bjögun, hvort sem hún var af mannavöldum, tilviljun eða frávik frá eðlilegri þróun. Lusus þýðir brandari og því er lusus naturae brandari náttúrunnar. Frumsamin tónlistin spilar veigamikinn þátt í verkinu. Annarsvegar hljóðmynd sem fylgir verkinu út sýningartímann og hins vegar lifandi tónlistargjörningur, tónsmíð Þuríðar Jónsdóttur fyrir söngrödd og hljóðfæraleikara.

 

 

Ólöf Nordal á að baki framúrskarandi myndlistarferil bæði hér heima og erlendis. Hún hefur fundið verkum sínum farveg í ýmsum miðlum en mest hefur hún unnið skúlptúra, ljósmyndir og myndbandsinnsetningar, auk verka í almannarými. Á ferli sínum hefur hún á áhrifamikinn hátt tekist á við ýmis viðfangsefni sem tengjast menningu, uppruna og þjóðtrú um leið og hún hefur unnið með staðbundin og hnattræn málefni.
Gunnar Karlsson er frumkvöðull í teiknimyndagerð á Íslandi og er jöfnum höndum leikstjóri og yfirhönnuður mynda sinna, sem hlotið hafa fjölda viðurkenninga á kvikmyndahátíðum víða um heim. Síðasta mynd hans var Þór – Hetjur Valhallar sem var í fullri lengd. Gunnar hefur jafnframt stundað málaralist og er mikilvirkur teiknari bæði fyrir blöð og bækur.
Tónskáldið Þuríður Jónsdóttir hefur samið verk af ýmsum toga, sum þeirra studd rafhljóðum, þátttöku áheyrenda, leikrænum tilburðum eða náttúruhljóðum. Verk hennar hafa verið flutt af íslenskum og erlendum hljóðfærahópum meðal annars á virtum tónlistarhátíðum og hefur Þuríður margsinnis verið tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna og Tónskáldaverðlauna Norðurlandaráðs.

Gunnar Karlsson, Þuríður Jónsdóttir og Ólöf Nordal hafa áður unnið saman og má þar nefna vídeóverk Ólafar Selmær (2006-2009), mynd- og tónlistargjörninginn Hanaegg (2005) og margmiðlunarverkefnið Hafurinn og hallarfrúin (2009).

Sýningin er hluti af Listahátíð í Reykjavík 2014.