Alþjóðleg vinnustofa myndhöggvara

Listahátíð í Hafnarfirði 1991

Listahátíð í Hafnarfirði var haldin í fyrsta sinn árið 1991 í tengslum við alþjóðlega vinnustofu myndhöggvara í Listamiðstöðinni Straumi í Hafnarfirði. Var vinnustofan sú þriðja í röðinni en hún fór fyrst fram í Svíþjóð, síðan í Mexíkó og loks hér á landi. Aðaláhersla hátíðarinnar var lögð á myndlist en stærsta sýningin var afrakstur vinnustofunnar, höggmyndasýning þar sem fimmtán myndhöggvarar frá átta löndum sýndu verk sín.

Listamennirnir sem sýndu verk sín á höggmyndasýningunni voru Barbara Tieaho og Timo Solin frá Finnlandi, Sonia Renard frá Frakklandi, Atsushi Shikata frá Japan, Sebastian og Rowena Morales frá Mexíkó, Jürg Altherr frá Sviss, Eliza Thoenen-Steinle og Volker Schönwart frá Þýskalandi, Kristján Guðmundsson, Brynhildur Þorgeirsdóttir, Magnús Kjartansson, Vignir Jóhannsson, Steinunn Þórarinsdóttir og Sverrir Ólafsson frá Íslandi.

Í framhaldi af Listahátíðinni gáfu erlendir þátttakendur vinnustofunnar Hafnarfjarðarbæ verk sín en að hátíðinni lokinni var verkunum komið fyrir á Víðistaðatúni, þar sem þau standa enn, samkvæmt hugmyndum um stofnun Höggmyndagarðs Hafnarfjarðar. Myndar gjöf erlendu listamannanna jafnframt stóran hluta útilistaverkasafns Hafnarborgar og Hafnarfjarðar. Verkin eru unnin úr stáli, zinkhúðuð og máluð.

Stjórn Listahátíðar í Hafnarfirði árið 1991 skipuðu Sverrir Ólafsson, Þorgeir Ólafsson, Gunnar Gunnarsson og Eiríkur Óskarsson. Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði veittu Listahátíðinni sérstakan stuðning og kostuðu hana að stórum hluta, þar með talið gerð listaverkanna sem unnin voru í alþjóðlegu vinnustofunni. Í tengslum við Listahátíðina voru einnig settar upp tvær myndlistarsýningar í Hafnarborg og boðið var upp á fjölbreytta dagskrá, tónleika og fleira, auk höggmyndasýningarinnar í miðbæ Hafnarfjarðar.