HNIT

Haraldur Jónsson

Haraldur Jónsson hefur sett svip sinn á íslenskt listalíf um árabil. Í verkum sínum þreifar hann gjarnan á fyrirbærum sem tengjast líkamanum, skynjun, tilfinningum, tungumálinu og því sem myndast í bilunum þar á milli. Á sýningunni H N I T í Sverrissal Hafnarborgar sýnir Haraldur ný verk, bæði teikningar og skúlptúra, sem hvert á sinn hátt virkja skynjun mannsins á eigin tilfinningum, upplifun af rými og táknum. Haraldur brýtur upp þekkt og algild tákn þannig að aðeins innri lestur áhorfandans færir þeim merkingu en jafnframt yfirfærir hann tilfinningalega skynjun í persónulegar táknmyndir. Þannig verða verkin nokkurs konar hnit eða staðsetning tilfinninga, kortlagning byggð á innra lífi.

Samhliða sýningunni H N I T kemur út bókverkið H O L D, sjálfstætt listaverk sem endurspeglar hugmyndir sýningarinnar. Bókverkið er í takmörkuðu upplagi og áritað af höfundi. Að útgáfunni koma, auk Hafnarborgar, bókaútgáfan útúrdúr og hönnuðurinn Ármann Agnarsson.

Um sýninguna:

H N I T
Haraldur Jónsson

Hnit segja til um staðsetningu eða hreyfingu frá einum stað til annars. Á tvívíðum fleti er staðsetning gefin til kynna með tveimur breytum, í þrívíðu rými eru breyturnar þrjár, en H N I T Haraldar Jónssonar hafa að minnsta kosti fjórar breytur. Til viðbótar við eiginlega vídd rýmisins bætist tilfinningaleg vídd sem liggur eins og leiðarstef í gegnum sýninguna og vísar til staðsetningar og hreyfinga líkama og tilfinninga í rými sem bæði getur verið hið innra og umhverfis okkur, ferðalag um sýnilegan og ósýnilegan arkitektúr.

Á sýningunni eru bæði teikningar og skúlptúrar sem hvert á sinn hátt virkja skynjun mannsins á táknum, rými og eigin tilfinningum. Í verkinu Hnit, sem bæði er hægt að sjá í sýningarsalnum sjálfum en einnig af götunni fyrir utan safnið, skera útlínur gagnsærra bókstafa form sín í loftið með hárfínu skuggaspili. Haraldur dró stafina upp einn af öðrum þannig að letrið myndar persónulegt kerfi með ákveðið svipmót. Hver bókstafur fyrir sig er þekkt tákn en saman mynda stafirnir í verkinu íslensk persónufornöfn í eintölu og fleirtölu. Hér brýtur listamaðurinn upp þekkt og algild tákn en aðeins innri lestur og reynsla áhorfandans færir þeim merkingu. Með verkinu Stig brýtur Haraldur sýningarrýmið upp með marglitum tréstólpum sem hafa áhrif á hreyfingu áhorfandans um salinn. Litir stólpanna kallast á við táknræna liti í okkar nánasta umhverfi, liti sem vara okkur við, leiða okkur áfram eða gefa til kynna eðli þess staðar sem við erum á. Þetta eru litir sem setja mörk eða beina okkur á rétta braut. Þeir eru hluti af leiðakerfi samfélagsins og geta auðveldlega dregið okkur inn í völundarhús minninga, litríkt millibil líkama og tilfinninga. Verkið skilyrðir áhorfandann og staðsetur, dregur upp mörk og mæri, girðingar og hlið. Tilfinningateikningarnar, Emograms, hanga á örfínum seglum á málaðri segulrönd. Teikningarnar eru uppdráttur tilfinninga sem fela í sér ástand, skynjun sem Haraldur yfirfærir í persónulegar táknmyndir. Þannig verða verkin nokkurs konar hnit eða staðsetning tilfinninga, kortlagning byggð á innra lífi. Verk Haraldar kalla á lestur þar sem víxlverkun tungumáls og skynjunar felur í sér úrvinnslu tákna en einnig að áhorfandinn lesi sig í gegnum rýmið, þræði sig áfram og safni saman merkingu. Teikningar og letur mynda heild með marglitum skúlptúrnum sem tálmar för um leið og verkin leiða áhorfandann um innri rangala sýningarinnar.

Haraldur Jónsson (f. 1961) nam myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1984 – 1987, Listaakademíuna í Düsseldorf 1987 – 1990 og Institut des Hautes Études en Arts Plastiques í París 1991 – 1992. Haraldur er á meðal þeirra sem sett hafa svip sinn á íslenskt listalíf um árabil. Hann hefur haldið fjölda einka- og samsýninga og eru verk hans tíðum valin til að veita innsýn í íslenska myndlist samtímans, hvort sem um er að ræða hér heima eða erlendis. Verk Haraldar spanna allt frá teikningum og skúlptúrum til gjörninga, hljóðverka og ljósmynda. Viðfangsefni hans hafa í gegnum árin verði margvísleg en, eins og á sýningunni H N I T, hefur meginþema verkanna verið margbrotin tengsl tilfinninga, skynjunar og líkamans.

Texti: Ólöf K. Sigurðardóttir