Rás

Haustsýning Hafnarborgar 2014

Haustsýning Hafnarborgar 2014 er sýningin Rás.
Á sýningunni eru ný verk eftir myndlistarmennina Daníel Magnússon, Guðrúnu Hrönn Ragnarsdóttur, Ívar Brynjólfsson, Ívar Valgarðsson, Sólveigu Aðalsteinsdóttur og Þóru Sigurðardóttur. Öll hafa þau verið áberandi í íslensku myndlistarlífi um langt skeið og eiga að baki fjölda sýninga hér á landi og erlendis. Sýningarstjóri er Helga Þórsdóttir en hugmynd hennar að sýningunni var valin úr innsendum tillögum síðastliðið haust þegar kallað var eftir tillögum að haustsýningu í safninu 2014.

Á sýningunni Rás er teflt saman verkum áhugaverðra listamanna sem þekktir eru fyrir að gera huglægri reynslu efnisleg skil á áhrifaríkan hátt. Hér eru á ferðinni reyndir listamenn sem í gegnum tíðina hafa hvert og eitt þróað og mótað persónulega fagurfræði sem er í senn auðþekkjanleg, fínleg og kraftmikil. Markmið sýningarstjórans með stefnumóti þessara listamanna er þó ekki síst að varpa ljósi á samtímalistsköpun sem afl umbreytinga og farveg fyrir nýjar hugsanir og hugmyndir. Á sýningunni birtist sjónarhorn listamannana á innri og ytri veruleika um leið og verkin spegla samtímann í von um að hreyfa við áhorfandanum.

Rás er fjórða sýningin í haustsýningaröð Hafnarborgar þar sem hugmynd sýningarstjóra er valin úr innsendum tillögum. Áður hafa verið settar upp sem hluti af sama verkefni sýningar Ólafar Gerðar Sigfúsdóttur mannfræðings, Í bili, haustið 2011, sýning Guðna Tómassonar listsagnfræðings, SKIA, haustið 2012 og sýning Önnu Maríu Bogadóttur arkitekts, Vísar-húsin í húsinu, haustið 2013. Með haustsýningaröðinni vill Hafnarborg skapa farveg fyrir áhugaverðar hugmyndir og vera vettvangur þar sem myndlist fær notið sín mótuð af fjölbreyttum viðhorfum og viðfangsefnum.

Sýningarstjóri haustsýningarinnar 2014, Helga Þórsdóttir, er menningarfræðingur auk þess sem hún er menntuð í myndlist og innanhússarkitektúr. Sem myndlistarmaður hefur hún haldið og tekið þátt í fjölda sýninga og einnig komið að textaskrifum um myndlist, en sýningin í Hafnarborg er hennar fyrsta sjálfstæða sýningarstjórnarverkefni. Hafnarborg kallar nú eftir tillögum að haustsýningu árið 2015.

Dagskrá í tengslum við sýninguna