Hafnarfjarðar­höfn

80 ára afmælissýning

Á 80 ára afmælissýningu Hafnarfjarðarhafnar, sem opnuð var í Hafnarborg þann 29. desember 1988, var brugðið upp mynd af þeim miklu framkvæmdum sem urðu í hafnarmálum í Firðinum á öldinni. Á sýningunni var fjöldi ljósmynda, teikninga, yfirlitskorta, skýringarmynda og málverka er lýstu þróun hafnarsvæðisins, sem tók ótrúlegum breytingum áratugina og sérstaklega árin á undan, með stórframkvæmdum í Suðurhöfninni.

Á sýningunni voru ýmsir munir og minjar frá Sjóminjasafninu og víðar að, sem tengdust á einn eða annan hátt sögu Hafnarfjarðarhafnar og útgerðarsögu bæjarins. Fjölmörg líkön af hafnfirskum skipum og bátum var einnig að sjá á sýningunni. Utan við Hafnarborg, úti við Fjarðargötu, var komið fyrir sérstökum festar- og dráttarsteini frá skútuöld, tæp 10 tonn að þyngd með ísteyptum stálfestum, krókum og bómu upp úr honum miðjum.

Hluta af sýningarsalnum var breytt í kvikmyndasal, þar sem gestum gafst kostur á að sjá heimildarmynd eftir Ásgeir Long um veiðiferð, sem farin var sumarið 1950, með nýsköpunartogaranum Júlí, einu aflasælasta togskipi Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar. Hafnarstjórn lét endurgera myndina, sem tekin var í lit, og hljóðsetja hana, í tilefni af þessum tímamótum í sögu hafnarinnar.

Auk margvíslegs fróðleiks um liðna tíð, uppbyggingu og þróun hafnarmannvirkja í Hafnarfirði, voru á sýningunni kynntar helstu framkvæmdir sem þá voru í gangi eða á undirbúningsstigi. Þar má helst nefna uppbyggingu nýrrar smábátahafnar, lokaframkvæmdir við Suðurgarð og nýbyggingar á uppfyllingunni, auk djarflegra tillagna og hugmynda um framtíðarþróun hafnarmannvirkja utan hafnargarða og í Straumsvíkurhöfn.