Gunnlaugur Stefán Gíslason

Vatnslitir og grafík

Þann 13. maí 1989 opnaði Gunnlaugur Stefán Gíslason sýningu á verkum sínum í Hafnarborg. Á sýningunni voru 40 verk, 33 vatnlitamyndir og 7 grafíkmyndir, en vatnslitamyndirnar voru flestar af hversdagslegum hlutum og stöðum í næsta nágrenni Hafnarfjarðar. Sýningin var sölusýning, í samræmi við þáverandi stefnu safnsins, og átti upphaflega að standa til 28. maí en var á endanum framlengd til 4. júní.

Gunnlaugur Stefán (f. 1944) stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og síðan nám í prentmyndaljósmyndun við Iðnskóla Hafnarfjarðar. Fékk hann starflaun listamanna árið 1987, styrk til sex mánaða, en með sýningunni í Hafnarborg vildi hann öðrum þræði þakka fyrir veittan stuðning. Hann hefur haldið fjölda einkasýninga, auk þess að taka þátt í samsýningum bæði hér á landi og erlendis.