Gunnar R. Bjarnason

Pastelmyndir

Þann 16. september 1989 opnaði Gunnar R. Bjarnason sýningu á verkum sínum í Hafnarborg. Á sýningunni mátti sjá fimmtíu pastelmyndir. Var þetta þriðja einkasýning Gunnars en áður hafði hann sýnt í Ásmundarsal og Norræna húsinu, einnig hafði hann verið þátttakandi í samsýningum myndlistarmanna og leikmyndateiknara í Reykjavík og Kaupmannahöfn.

Gunnar lærði leiktjaldamálun við Þjóðleikhúsið 1953-56, jafnframt því að sækja námskeið í Myndlista- og handíðaskólanum. Hann stundaði síðar nám við Konstfack-skólann í Stokkhólmi. Frá 1958-74 vann Gunnar sem leikmyndateiknari hjá Þjóðleikhúsinu en starfaði síðan sjálfstætt á eigin vinnustofu til 1988, þegar hann tók við starfi yfirleikmyndateiknara Þjóðleikhússins.

Þá hafði Gunnar þegar hlotið margs konar viðurkenningar fyrir list sína, svo sem verðlaun úr Menningarsjóði Þjóðleikhússins, styrk frá Alþjóðasamtökum leikhússfólks til námsdvalar erlendis, starfslaun listamanna og viðurkenningar fyrir hönnun sýningarbása.