Gunnar Ásgeir Hjaltason

Málverk, teikningar, grafík og smíðisgripir

Gunnar Ásgeir Hjaltason (1920–1999), gullsmiður og listmálari, sýndi margs konar verk, svo sem pastel- og vatnslitateikningar, akrýlmálverk, grafík og smíðisgripi.

Gunnar leitaði víða fanga í viðfangsefnum sínum. Gömul hús voru honum kærkomið yrkisefni og fáir hafa gleggra auga fyrir bátum, sérkennum þeirra, lit og lögun en hann. Þó var náttúran sjálf í tign og mikilleika eða fínlegri fegurð það sem hann sótti oftast fyrirmyndir sínar til. Landslagsmyndir af ýmsum toga voru sömuleiðis ósjaldan uppistaðan á sýningum hans. Við þá myndgerð, svo og við lýsingar ferðabóka, kom honum að góðu haldi hin mikla þekking hans á landinu, þar sem hann var gæddur einstöku minni þegar landslag var annars vegar.

Gunnar var fæddur að Ytri Bakka við Eyjafjörð en fluttist þaðan ungur til Reykjavíkur og síðan til Hafnarfjarðar 1952. Þá lærði hann gullsmíði hjá Guðmundi Guðnasyni og Leifi Kaldal árin 1943–1947 en áður hafði hann stundað nám við Teikniskóla Björns Björnssonar og Marteins Guðmundssonar árin 1933–1942. Einnig sótti hann nokkur námskeið á vegum Handíðaskólans, m.a. í tréristu hjá Hans Alexander Müller árið 1952. Gunnar hélt fjölmargar einkasýningar víðs vegar um landið frá árinu 1964, auk þess sem hann tók þátt í samsýningum bæði hér á landi og erlendis.