Gulur, dökkgrænn, fjólublár…

Elfa Björk Jónsdóttir

Laugardaginn 15. október kl. 15 opnar Elfa Björk Jónsdóttir, heiðurslistamaður hátíðarinnar Listar án landamæra í ár, einkasýningu sína, Gulur, dökkgrænn, fjólublár…, í Sverrissal Hafnarborgar í tengslum við hátíðina.

Á sýningunni getur að líta ný og nýleg verk eftir Elfu Björk Jónsdóttur – jafnt málverk, teikningar og keramik. Myndheimur listakonunnar byggir á samspili hins formræna og hins fígúratífa, þar sem hún notar hreina og tæra liti og tekur áhorfandann með sér í ferðalag um nýja heima. Þá sækir hún innblástur í náttúruna við gerð verka sinna og þar koma gjarnan fyrir ýmiss konar verur og mótíf sem sum hver finnast ekki í íslenskri náttúru.

Fyrirmyndir sækir Elfa Björk ýmist úr náttúrulífsbókum eða listasögunni og færir hún gjarnan myndefnið yfir í sinn einstaka myndheim. Í sumum verkanna má jafnvel segja að við fljúgum beint inn í iður myndanna, líkt og horft sé frá sjónarhorni arnarins. Svífum við þannig inn í litahaf þar sem mynstur og ólíkar litasamsetningar umlykja okkur og gleðja augað.

Elfa Björk Jónsdóttir býr og starfar á Sólheimum í Grímsnesi og vinnur þar daglega að listsköpun sinni. Hún hefur sótt námskeið í myndlist frá unga aldri, meðal annars í málaralist, teikningu og glerlist. Á Sólheimum hefur hún aðallega notið leiðsagnar Ólafs Más Guðmundssonar, myndlistarkennara og fagstjóra listasmiðju Sólheima. Verk Elfu Bjarkar hafa meðal annars verið sýnd í Ásmundarsal, Gallerí Gróttu, Listasafni Árnesinga og í Tékklandi.