Sveinn Björnsson opnaði tvöfalda afmælissýningu í Hafnarborg, í tilefni 65 ára afmælis síns en hann hafði á sama tíma stundað málaralistina í 40 ár. Sýningin var jafnframt fyrsta sýning Sveins í Hafnarborg. Á sýningunni voru bæði gamlar og nýjar myndir, mestmegnis frá árunum 1967–1985, flest olíumálverk en einnig vatnslitamyndir og olíumyndir undir gleri, auk annars.
„Þau hérna í Hafnarborg halda þessa sýningu í tilefni af 65 ára afmæli mínu, […] einskonar yfirlit yfir líf mitt – en þetta er bara helmingurinn af því. Ég hef nefnilega lifað tveimur lífum. Fyrst á sjónum og síðan í lögreglunni og þá er ég bara venjulegur maður. Svo er hitt lífið – ævintýrið, sem hefst þegar ég byrja að mála (úr viðtali við listamanninn í Morgunblaðinu 12. maí 1990).“