Eiríkur Smith

Listaverkagjöf til Hafnarborgar

Haldin var sýning í tilefni af listaverkagjöf Eiríks Smith til Hafnarborgar en alls færði hann stofnuninni 341 verk við þetta tilefni, 115 olíumálverk og 226 verk á pappír, ýmist vatnsliti, pastel og teikningar. Spannaði gjöfin listferil Eiríks frá árinu 1948, sem var einkar fjölbreytilegur, en á sýningunni var reynt að draga fram breytileikann í verkum hans. Þar voru sýnd 79 verk, valin af Eiríki sjálfum, Aðalsteini Ingólfssyni, listfræðingi, og Pétrúnu Pétursdóttur, forstöðumanni Hafnarborgar. Síðar átti Eiríkur eftir að gefa enn fleiri verk til safnsins.

Eiríkur stundaði myndlistarnám í Handíða- og myndlistarskólanum í Reykjavík en einnig í Kaupmannahöfn og París. Hafði hann þegar haldið fjölmargar einkasýningar, jafnframt því að taka þátt í samsýningum hér á landi sem erlendis. Verk eftir Eirík eru í eigu fjölmargra listasafna, opinberra stofnana og einkasafna. Eiríkur bjó í Hafnarfirði frá því á unga aldri og hélt sína fyrstu málverkasýningu í bænum árið 1948.