Einfarar í íslenskri myndlist

Samsýning fimmtán íslenskra alþýðulistamanna

Kveikjan að sýningunni Einfarar í íslenskri myndlist var bók með sama nafni eftir Aðalstein Ingólfsson, listfræðing, sem kom út hjá Iceland Review og Bókaklúbbi AB ekki löngu fyrir sýninguna. Sýningin tók hins vegar til fleiri listamanna en bókin og var í raun fyrsta tilraunin til að setja saman úrval myndverka þeirra íslensku alþýðulistamanna, sem annars staðar ganga undir nöfnunum naívistar eða utangarðslistamenn. Áttu listamennirnir það sameiginlegt að hafa ekki látið erlenda listastrauma og -stefnur hafa áhrif á list sína, hvorki aðferðir né viðfangsefni.

Á sýningunni var bæði að finna sígilda frásagnarlist með séríslensku yfirbragði og frjálst hugarhvarfl eða fantasíu, auk þess sem þar komu fram á sjónarsviðið lítt þekktir alþýðulistamenn. Þátttakendur sýningarinnar voru Sölvi Helgason, Gunnþórunn Sveinsdóttir frá Mælifellsá, Ísleifur Konráðsson, Gríma (Ólöf Grímea Þorláksdóttir), Karl Einarsson Dunganon, Gunnar Guðmundsson frá Hofi, Guðmundur Kristjánsson, Guðjón R. Sigurðsson, Stefán Jónsson frá Möðrudal, Hjálmar Stefánsson frá Smyrlabergi, Sigurlaug Jónasdóttir, Eggert Magnússon, Sæmundur Valdimarsson, Þórður Valdimarsson (Kíkó Korriró) og Valdimar Bjarnfreðsson.