efni:viður

HönnunarMars 2020

Á sýningu Hafnarborgar á HönnunarMars verður viður sem efni í forgrunni. Viður er náttúrulegt efni sem lýtur jafnt lögmálum umhverfisins og hendingarinnar. Hann lætur ekki léttilega að stjórn og hefur efnið oft áhrif á endanlega útkomu, bæði hvað varðar áferð og lögun. Sjónum verður beint að mörkum listgreina sem hafa orðið sífellt óljósari á síðustu árum og eru jafnvel að einhverju marki hætt að skipta máli.

Hugmyndin að baki sýningunni er að tefla saman hönnuðum og listafólki með mismunandi bakgrunn og ólíkar áherslur í myndmáli, sem eiga það þó sammerkt að vinna með og kljást við þetta fallega efni, í einni eða annarri mynd, þegar þau framkalla hugmyndir sínar. Þá verða sýnd ný og nýleg dæmi um verk á sviði myndlistar og hönnunar, sem öll eru unnin úr sama efni:við.

Þátttakendur sýningarinnar eru Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Agustav (Ágústa Magnúsdóttir og Gustav Jóhannsson), Björn Steinar Blumenstein, Guðjón Ketilsson, Indíana Auðunsdóttir, Nordic Angan, Rósa Gísladóttir, Sindri Leifsson, Tinna Gunnarsdóttir og Unndór Egill Jónsson. Sýningarstjóri er Unnur Mjöll S. Leifsdóttir.

Sýningin er hluti af HönnunarMars 2020.