Brot

Sirra Sigrún Sigurðardóttir

Í list sinni vinnur Sirra Sigrún Sigurðardóttir markvisst með líkamlega og sjónræna skynjun áhorfandans um leið og hún veltir fyrir sér spurningum um stöðu listamannsins og listarinnar í samfélaginu, samband blekkingar og raunveruleika og upplifun okkar af heiminum. Hún sækir efnivið sinn meðal annars í tölulegar staðreyndir, vísindakenningar og rannsóknir. Með myndvörpum og speglum býr hún til hreyfingu í innsetningum sínum sem framkalla sjónhverfingu, einhvers konar aflvaka sem hrífur áhorfandann með sér á vit upplifunar.

Sirra Sigrún Sigurðardóttir (f. 1977) lauk námi við Listaháskóla Íslands árið 2001. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima og erlendis, meðal annars í Listasafni Reykjavíkur og Tate Modern í London. Sirra er einn stofnenda og eigenda sýningarstaðarins Kling & Bang í Reykjavík. Þar hefur hún skipulagt fjölda sýninga og listviðburða með þátttöku innlendra og erlendra listamanna auk þess að standa að baki verkefnis Kling & Bang í tengslum við Frieze listamessuna í London árið 2008. Jafnframt því að vera í hópi áhrifamikilla listamanna hér á landi stundaði hún nám í listfræði við Háskóla Íslands 2003–2004 og leggur nú stund á meistaranám við School of Visual Arts í New York. Hún hlaut nýlega styrk úr sjóði Guðmundu Andrésdóttur, en sjóðurinn styrkir unga og efnilega myndlistarmenn til náms. Í desember síðastliðnum var Sirra á meðal 24 alþjóðlegra listamanna sem tímaritið Modern Painters útnefndi sérstaklega sem listamenn sem vert er að fylgjast með á komandi árum.

Mynd af verkinu Illustration eftir Sirru Sigrúnu Sigurðardóttur

 

Um sýninguna:

Brot Sirra Sigrún Sigurðardóttir

Verk Sirru Sigrúnar Sigurðardóttur á sýningunni Brot vísa bæði til listasögulegra hugleiðinga, heimspekilegra vangaveltna og leitarinnar að fegurð. Verkin búa hvert og eitt yfir eiginleikum sem snerta áhorfandann á mismunandi hátt um leið og þau túlka upplýsingar eða kenningar sem hann ýmist þekkir, skynjar eða missir af. Listasagan ber vitni fegurðarleit listamanna um leið og samfélagsleg áhrif móta eða hafa áhrif á það hvað er lesið eða skynjað sem fegurð. Leitin að fegurð getur þannig tekið á sig ýmsar myndir. Raunvísindamenn setja kenningar sínar fram í jöfnum þar sem hvert tákn er hlaðið merkingu í huga þess sem kann og þekkir. Jafnan sem heild hefur fagurfræðilegt gildi í augum raunvísindamannsins. Þetta gildi er ekki aðeins fólgið í því sem auganu mætir heldur lestri táknanna, skilaboðunum sem þau bera með sér og þekkingunni sem þau miðla. Fegurð jöfnunnar verður þannig ekki sú sama fyrir þann sem þekkir heiminn sem að baki býr og þann sem horfir á hana út frá formfræði eða sem fallega skrift.

Á sýningunni Brot eru ný verk unnin í ólíka miðla; skúlptúr, ljósmyndaverk, veggverkið Illustration og veggteikning af þverstæðum línum sem mynda hnit. Skúlptúrinn Oblique er að hluta til gerður úr fundnum hlut, stöpli sem fenginn er úr geymslum safnsins. Í listasögunni er stöpullinn órjúfanlega tengdur listinni, hann er þó ekki hluti hennar heldur undirstaða og oft táknmynd upphafningar. Í verki Sirru Sigrúnar er þetta grunnform ekki látið ósnert heldur er það teygt og togað þar til það hefur tekið á sig nýja mynd. Stöpullinn virðist stefna yfir í aðra vídd þar sem hann flest út og verður að tvívíðri mynd sjálfs sín. Hér er á ferðinni umbreyting sem mætti líkja við það ferli þegar efni skipta um ham eða form. Hamur efnis ræðst af umhverfinu og þeim öflum sem á það virka hverju sinni.

Ljósmyndatvennan Sett sýnir annars vegar himinblámann að morgni í skammdeginu og hins vegar blámann á ræsiskjá tölvu. Verkið sýnir tvo glugga sem horft er í gegnum, sömu augum. Gluggarnir mynda tvennu sem skarast um leið og þeir hverfast um huglægan ás á milli tækni og náttúru, ás sem liggur um skynjun mannsins. Ás af þessu tagi má greina í öðru samhengi í verkum Sirru Sigrúnar þar sem andstæð gildi mætast; náttúra og tækni, tvívídd og þrívídd, blinda og sjón. Verkið Illustration er dæmi um þetta, í því hverfa litir og verða til, allt eftir afstöðu áhorfandans, birtu og hreyfingu. Form verksins er hringlaga skífurit eins og notuð eru til að sýna upplýsingar um hlutföll mismundandi gilda. Skífurnar hverfast um öxul, litir koma og fara, allt er breytingum háð og ekkert er í raun fasti.

Texti: Ólöf K. Sigurðardóttir